Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 506/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 15. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 506/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19090060 og KNU19090061

Kæra [...] og

[...] á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. september 2019 kærðu [...], fd. [...], ríkisborgari Serbíu (hér eftir M) og [...], fd. [...], ríkisborgari Serbíu (hér eftir K) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 30. ágúst 2019 um að synja kærendum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Þess er aðallega krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kærendum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að brottvísanir og endurkomubönn kærenda, sbr. 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. og 101. gr. laga um útlendinga, verði felld úr gildi.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 22. ágúst 2019. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 30. ágúst 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, þann sama dag, synjaði Útlendingastofnun kærendum um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærendum var jafnframt brottvísað frá landinu og þeim ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Að ósk kærenda var veittur frekari rökstuðningur fyrir ákvörðunum Útlendingastofnunar með bréfi stofnunarinnar, dags. 11. september 2019. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 12. september 2019. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 2. október 2019.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að þau hafi orðið fyrir hótunum af hálfu ótilgreindra aðila vegna skulda föður A. Þá telji kærendur sig verða fyrir mismunun í Serbíu sökum albansks uppruna síns.

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Kærendum var brottvísað frá landinu með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laganna. Var kærendum ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 101. gr. sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda kemur fram að þau séu af hinum albanska minnihluta í Serbíu og aðhyllist íslamstrú. Þau hafi þurft að flýja heimaríki vegna hótana og árása glæpamanna sem telji fjölskylduna skulda þeim pening. Hafi faðir A stofnað til þessarar skuldar en hann hafi yfirgefið fjölskylduna fyrir 12 árum og horfið. Síðastliðið ár hafi ágangur fyrrgreindra glæpamanna aukist og hafi kærendur neyðst til að hætta að vinna og reynt að fela sig heima við. Það hafi þó ekki dugað til því þann 11. ágúst sl. hafi þrír menn ruðst inn til kærenda og ógnað þeim með skotvopni, en þeir hafi ekki trúað því að þau væru ekki í sambandi við föður A. Kærendur hafi verið of hrædd til að leita til serbnesku lögreglunnar, sem aðstoði þar að auki ekki einstaklinga af albönskum uppruna.

Í greinargerð fjalla kærendur almennt um stöðu mannréttindamála í Serbíu og vísa í alþjóðlegar mannréttindaskýrslur máli sínu til stuðnings. Þar komi m.a. fram að spilling þrífist innan serbneskrar stjórnsýslu og hjá lögreglu. Þá komi fram að fordómar, mismunun og ofbeldi gagnvart albönskum minnihluta landsins sé vandamál í Serbíu. Albanir í sveitarfélögunum Presevo, Medvedja og Bujanovac hafi t.d. kvartað undan litlu fyrirsvari þjóðarbrotsins í stofnununum ríkisins. Þá sé skortur á slíkum fulltrúum innan opinbera geirans, s.s. í lögreglunni og hjá dómsvaldinu. Albönum sé þá einnig mismunað hvað opinbera þjónustu varðar, t.a.m. séu brotalamir í menntakerfinu gagnvart aðilum af albönskum uppruna, en skortur hafi verið á kennsluefni á albönsku á framhaldsskólastigi. Þá eigi eftir að innleiða gildandi reglur sem tryggja eigi réttindi minnihlutahópa í landinu. Af framangreindu virtu telja kærendur ljóst að albanski minnihlutinn í Serbíu verði fyrir mismunun á mörgum sviðum samfélagsins, enda sé hann á meðal þeirra hópa sem Minority Rights Group International tiltaki sem þjóðernishópa í yfirvofandi hættu árið 2019.

Aðalkrafa kærenda um veitingu dvalarleyfa á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er byggð á því að þau hafi ríka þörf fyrir vernd í heimaríki vegna erfiðra almennra aðstæðna. Vísa kærendur í því sambandi til athugasemda við 74. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga, en þar komi m.a. fram að þegar almennar aðstæður í heimaríki eru metnar verði að líta til þess hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð og hvort yfirvöld veiti þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærendur óttist glæpamenn sem vilji kúga út úr þeim fé og þau geti ekki treyst á vernd yfirvalda. Þá glími minnihlutahópar, þ.m.t. sá albanski, við ýmiss konar mismunun í Serbíu. Aðalkrafa kærenda er þá byggð á því að þau hafi ríka þörf fyrir vernd í heimaríki vegna erfiðra félagslegra aðstæðna. Fjölskylda B hafi þrýst á hana að yfirgefa A auk þess sem þeim sé nú hótað vegna skuldar föður A.

Varakrafa kærenda um niðurfellingu ákvarðana Útlendingastofnunar, hvað varðar brottvísanir og endurkomubönn, er annars vegar byggð á því að á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga hafi stofnuninni verið óheimilt að ákvarða þeim brottvísun, og hins vegar á því að slík ákvörðun samræmist ekki meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur fái ekki séð að Útlendingastofnun hafi við töku ákvarðana um endurkomubönn tekið tillit til hagsmuna og réttinda þeirra líkt og áskilið sé. Þá telji kærendur ljóst að fleiri úrræði hafi staðið til boða sem hafi geta talist vægari í garð þeirra, t.a.m. sé stofnuninni heimilt að veita styttri frest til heimfarar en sjö daga, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, í stað þess að veita engan frest.

Í greinargerð kærenda kemur þá fram að kærendur telji að Útlendingastofnun hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína, skv. 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærendum hafi verið birt ákvarðanir í málum sínum nær samstundis í kjölfar viðtala hjá stofnuninni og verði því ekki annað séð en að allur texti ákvarðananna hafi verið skrifaður áður en viðtölin hófust. Kærendur telji því ljóst að utan viðtalanna sjálfra hafi engin rannsókn átt sér stað.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað serbneskum vegabréfum. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur séu serbneskir ríkisborgarar.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Serbíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/18: The State of the World‘s Human Rights (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Anti-Discrimination Strategy for 2013-2018 (The Government of the Republic of Serbia, 27. júní 2013);
  • Concluding observations on the combined second and third periodic reports of Serbia (UN Committee on the Rights of the Child, 7. mars 2017);
  • EASO Country of Origin Information Report – Republic of Serbia Country Focus (European Asylum Support Office, nóvember 2016);
  • Freedom in the World 2019 – Serbia (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • Healthcare Systems, Patients’ Rights and Patient Organisations’ Involvement in Healthcare Policy and Programme Development: A Situational Analysis of the Western Balkans – 2017 (European Patients Forum, ágúst 2017);
  • National report submitted in accordance with paragraph 5 of the annex to Human Rights Council resolution 16/21 – Serbia. (Human Rights Council, 13. nóvember 2017);
  • Report By Nils Muiznieks Following his Visit to Serbia from 16 to 20 March 2015 (Commissioner for Human Rights, 8. júlí 2015);
  • Serbia 2018 Human Rights Report (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • Serbia 2016 Report (European Commission, 9. nóvember 2016);
  • Serbia 2019 Report (European Commission, 29. maí 2019);
  • World Factbook – Serbia (Central Intelligence Agency, 7. október 2019) og
  • World Report 2019 – Serbia (Human Rights Watch, 15. janúar 2019).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Serbía lýðræðisríki með rúmlega sjö milljónir íbúa. Ríkið gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 12. mars 2001. Þá gerðist ríkið aðili að Evrópuráðinu árið 2003 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu ári síðar. Serbía sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2009 og fékk formlega stöðu umsóknarríkis í mars 2012. Þá er Serbía á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki. Í ljósi alls framangreinds má ætla að grundvallarmannréttindi séu almennt talin virt af yfirvöldum í landinu.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 kemur fram að í Serbíu sé til staðar kerfi sem borgarar landsins geti leitað til telji þeir á sér brotið og hafi framfarir orðið innan lögreglukerfisins undanfarin ár. Eftirfylgni brota gegn refsilöggjöf landsins sé góð og hafi serbnesk yfirvöld skilvirka stjórn yfir löggæslu í landinu. Spilling og refsileysi innan lögreglunnar hafi verið vandamál, en gæði innra eftirlits með lögreglu hafi batnað með tilkomu nýrra sakamálalaga. Til marks um það hafi 145 ákærur verið gefnar út á hendur lögreglumönnum upphafi árs 2018 og til lok ágúst s.á. Þá reki serbneska innanríkisráðuneytið tilkynningarsíma þar sem hægt sé að tilkynna spillingu innan lögreglunnar. Enn fremur hafi yfirvöld, í samstarfi við alþjóðleg samtök, veitt fjármunum í fjölda námskeiða til að takast á við spillingu innan refsivörslukerfisins. Þrátt fyrir að stjórnarskrá Serbíu kveði á um sjálfstæði dómsvaldsins séu serbneskir dómstólar þó enn viðkvæmir fyrir spillingu og pólitískum áhrifum.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að í Serbíu hafi minnihlutahópar af öðrum þjóðernisuppruna, t.a.m. albönskum, upplifað neikvætt viðhorf í sinn garð og mismunun á atvinnu- og húsnæðismarkaði. Einstaklingar af albönskum uppruna séu fjölmennir í héruðunum Bujanovac, Medvedja og Presevo, en sveitarfélögin séu vanþróuð og starfi fáir Albanir í stjórnsýslunni. Þó er greint frá því í skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að árið 2016 hafi Albani í fyrsta skipti verið skipaður lögreglustjóri í Bujanovac. Viðræður milli yfirvalda og leiðtoga albanska minnihlutahópsins í Serbíu um alhliða áætlun í tengslum við aðlögun og efnahagslegan bata hafi ekki borið tilætlaðan árangur, en ástandið í framangreindum héruðum sé stöðugt og fari batnandi.

Lagt er bann við mismunun á grundvelli þjóðernisuppruna í Serbíu og er m.a. refsivert samkvæmt serbneskum hegningarlögum að mismuna á grundvelli þess. Í gögnunum kemur fram að í Serbíu séu starfrækt ráð sem gæti hagsmuna minnihlutahópa af öðrum þjóðernum, en starfsemi þeirra varði m.a. menntun, menningu og tungumál þeirra hópa. Þá hafi ríkisstjórnin tekið skref til að sporna við mismunun gegn minnihlutahópum og að sjálfstæð stofnun styðji við réttindi minnihlutahópa. Serbía hafi náð framförum í að veita vernd og bæta stöðu minnihlutahópa, þ. á m. þjóðernisminnihluta.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærendur hafa borið fyrir sig að þau hafi orðið fyrir hótunum af hálfu ótilgreinds hóps manna sem krefji þau um greiðslu skuldar sem faðir A hafi stofnað til. Þá telji kærendur sig verða fyrir mismunun í Serbíu sökum albansks uppruna síns.

Kærendur hafa ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að þau óttist ofsóknir af hálfu stjórnvalda í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærendur eigi þær á hættu.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er það mat kærunefndar að þeir ríkisborgarar Serbíu sem telja að á réttindum sínum sé brotið geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn mála sinna. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar verður ráðið að þessi úrræði séu almennt raunhæf og árangursrík. Að mati kærunefndar hefur ekki verið sýnt fram á að stjórnvöld í Serbíu geti ekki eða vilji ekki veita kærendum vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærendur hafa því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef þeir telja sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Kærendur bera eins og áður segir fyrir sig mismunun vegna þess að þau tilheyri minnihlutahópi Albana í Serbíu. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur yfirfarið hefur albanski minnihlutinn í Serbíu upplifað neikvætt viðhorf í sinn garð og mismunun á atvinnu- og húsnæðismarkaði. Serbnesk yfirvöld hafi unnið skipulega að því að bæta stöðu minnihlutahópa í landinu, þ.m.t. Albana, og hafi marktækur árangur náðst. Þó svo að Albanir upplifi mismunun í landinu er það mat kærunefndar að hún sé ekki af því alvarleikastigi að falla undir skilgreiningarviðmið ofsókna, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þeir hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærendur uppfylla ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefndin að aðstæður kærenda þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Gögn málsins gefa ekki annað til kynna en að kærendur séu við góða andlega og líkamlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á almennar eða félagslegar aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þeir teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá er það mat kærunefndar, með vísan til framangreindra landaupplýsinga, að kærendur geti notið viðeigandi verndar stjórnvalda í heimaríki, telji þau sig þurfa á henni að halda. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kærendum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kærenda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kærenda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kærenda þangað.

Frávísun, brottvísun og endurkomubann

Með vísan til atvika málsins tekur kærunefnd undir forsendur Útlendingastofnunar varðandi frávísun kærenda á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. til hliðsjónar 2. málsl. 3. mgr. 42. gr. reglugerðar nr. 540/2017.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kærendum brottvísað og ákvarðað endurkomubann, sbr. 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Ástæða þess er að Útlendingastofnun mat umsókn kærenda bersýnilega tilhæfulausa í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga en ákvæðið veitir stjórnvöldum heimild til að fella niður frest sem að jafnaði er veittur útlendingi til að yfirgefa landið sjálfviljugur í kjölfar ákvörðunar um að yfirgefa landið í þeim tilvikum þegar umsókn útlendings um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd telst bersýnilega tilhæfulaus eða hann hefur vísvitandi gefið misvísandi eða rangar upplýsingar við umsókn.

Lög um útlendinga skilgreina ekki hvað felist í orðalaginu „bersýnilega tilhæfulaus“ í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna. Við túlkun ákvæðisins telur kærunefnd að líta verði til þess að orðið tilhæfulaus lýsir einhverju sem byggir ekki á staðreyndum eða á ekki við rök að styðjast. Þá leiðir af orðalagi ákvæðisins að tilhæfuleysi umsóknar þarf að vera bersýnilegt, þ.e. blasa við stjórnvaldi við skoðun málsins. Með vísan til orðalags ákvæðisins og til samræmis við ákvæði tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl telur kærunefnd að umsókn um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sé bersýnilega tilhæfulaus í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna ef eftirfarandi tilvik eiga einkum við þegar:

a) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda varða ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til,

b) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda séu ekki þess eðlis eða nái ekki því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita umsækjenda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, og

c) frekara mat og gagnaöflun, þar með talið viðtal við umsækjanda, hafi ekki breytt ofangreindu upphaflegu mati.

Kærendur byggja umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hópur manna hafi hótað þeim lífláti vegna skuldar sem faðir A hafi stofnað til, auk þess sem kærendur telji sig verða fyrir mismunun í Serbíu sökum albansks uppruna síns. Það er mat kærunefndar, að teknu tilliti til gagna um heimaríki kærenda og aðstæðna þeirra þar, að það hafi frá upphafi málsmeðferðarinnar verið bersýnilegt að málsástæður þeirra vörðuðu ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til. Enn fremur hafi verið bersýnilegt að aðrar aðstæður í heimaríki kærenda séu ekki þess eðlis eða nái því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita kærendum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í þessu sambandi lítur kærunefnd til þess að orðalag 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um að aðili þurfi að sýna fram á ríka þörf á vernd og tekur mat stjórnvalda á tilhæfuleysi slíkra umsókna mið af þeirri ábyrgð sem lögð er á aðila að þessu leyti. Þá er einnig ljóst að frekara mat og gagnaöflun hafi ekki breytt ofangreindu mati.

Með vísan til framangreinds er fallist á það mat Útlendingastofnunar að umsókn kærenda um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sé bersýnilega tilhæfulaus, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, og heimilt að veita kærendum ekki frest til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

Þegar umsókn um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd er bersýnilega tilhæfulaus er heimilt að fella niður frest til að yfirgefa landið, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Líkur eru á því að ákvörðun um niðurfellingu frests hafi varnaðaráhrif sem þjóni því markmiði að stuðla að fækkun bersýnilega tilhæfulausra umsókna frá öruggum upprunaríkjum. Fyrir liggur mat Útlendingastofnunar á því að framangreindu markmiði verði ekki náð með öðru og vægara móti. Kærunefnd telur sig ekki hafa forsendur til að draga í efa þetta mat að svo stöddu. Er það því mat kærunefndar að 12. gr. stjórnsýslulaga standi því ekki í vegi að kærendum verði ekki veittur frestur til að yfirgefa landið. Þá fær kærunefnd ekki séð að 1. mgr. 31. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna komi í veg fyrir að framangreindu úrræði verði beitt í málum kærenda.

Eins og að framan greinir hefur kærendum verið vísað frá landinu og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar hér á landi. Þá hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að heimilt sé að fella niður frest til að kærendur geti yfirgefið landið sjálfviljugir. Liggur því fyrir að kærendur dveljast ólöglega í landinu, sbr. a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, og er því heimilt að brottvísa þeim.

Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga skal ekki ákveða brottvísun ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Kærendur komu hingað til lands og sóttu um alþjóðlega vernd þann 22. ágúst 2019. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 30. ágúst 2019 kom fram að kærendur telji að það sé ósanngjarnt að beita þá endurkomubanni.

Það er mat kærunefndar, í ljósi grundvallar brottvísunar kærenda og með vísan til umfjöllunar kærunefndar um aðstæður í heimaríki kærenda, að ekki verði talið að brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í máli þeirra. Af þeim svörum sem kærendur gáfu um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun þeirra verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð kærenda eða nánustu aðstandenda þeirra, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.

Er ákvörðun Útlendingastofnunar er varðar brottvísun og endurkomubann því staðfest.

Athugasemdir kærenda við rannsókn Útlendingastofnunar

Kærendur gerðu athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur telji ljóst að engin rannsókn hafi átt sér stað þar sem ekki fáist annað séð en að allur texti ákvarðananna hafi verið skrifaður áður en viðtöl við kærendur hafi hafist. Þá telja kærendur að persónubundin rannsókn á aðstæðum þeirra hafi ekki farið fram.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga.

Að mati kærunefndar virðist að ekki hafi skort á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um ástandið í heimaríki kærenda við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi er horft til þess að kærunefnd hefur yfirfarið gögn málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kærenda hafi verið í nægilegu samræmi við 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda eru staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants are affirmed.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum