Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur að breytingum á lögum um slysatryggingar almannatrygginga

Frá skilafundi starfshópsins með heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneyti - /ME

Slysahugtak gildandi laga verður rýmkað, skýrt kveðið á um að tryggingavernd laganna nái einnig til bótaskyldra atvinnusjúkdóma og bætt við nýrri lagagrein þar sem atvinnusjúkdómar verða í fyrsta skipti skilgreindir í íslenskum lögum. Þetta eru meðal mikilvægra réttarbóta sem starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra sem unnið hefur að endurskoðun laga um slysatryggingar almannatrygginga leggur til að verði gerðar. Hópurinn hefur skilað ráðherra skýrslu með tillögum sínum. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir niðurstöður hópsins afdráttarlausar og tillögurnar vel útfærðar: „Endurskoðun laganna er löngu tímabær. Það er mikil þörf á að einfalda löggjöfina og skýra ákveðna þætti hennar eins og hér er lagt til.“ Stefnt er að því að birta drög að frumvarpi til breytinga á lögunum til umsagnar á næstunni og áformar ráðherra að leggja það fyrir Alþingi í vor.

Hvað telst slys?

Í gildandi lögum er skilgreining á slysi bundin við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum hjá þeim tryggða. Samkvæmt þessari skilgreiningu eiga þeir ekki bótarétt sem verða fyrir skyndilegum áverka vegna ofreynslu á líkama eða slæmrar vinnuaðstöðu og hefur það sætt gagnrýni. Þetta mun breytast gangi tillögur hópsins eftir. Þessi rýmkun á slysahugtaki laganna er m.a. í samræmi við viðmið Alþjóða­vinnu­mála­stofnunarinnar og Evrópusambandsins um hvað teljist til vinnuslysa.

Skýrt verði kveðið á um tryggingavernd vegna atvinnusjúkdóma

Ekki þykir skýrt í gildandi lögum að tryggingavernd samkvæmt þeim nái einnig til bótaskyldra atvinnusjúkdóma. Starfshópurinn leggur til lagabreytingu sem skýrir þetta. Einnig leggur hann til að við lögin bætist ný grein þar sem atvinnusjúkdómar eru skilgreindir í fyrsta skipti í lögunum, sem sjúkdómar sem orsakast af vinnu eða aðstæðum í starfsumhverfi. Hópurinn leggur jafnframt ríka áherslu á að sett verði reglugerð sem tilgreini bótaskylda atvinnusjúkdóma. Slík reglugerð hefur aldrei verið sett og því ekki að öllu leyti skýrt til hvaða sjúkdóma tryggingin nær. Sjaldgæft er að sótt sé um bætur vegna atvinnusjúkdóma til Sjúkratrygginga Íslands og er mögulegt að breytingarnar sem starfshópurinn leggur auki þekkingu á þessum réttindum og verði til þess að umsóknum fjölgi. 

Breytingar með forvarnargildi

Breytingarnar sem starfshópurinn leggur til fela ekki aðeins í sér mikilvægar réttarbætur fyrir þá sem tryggðir eru samkvæmt lögunum, heldur benda fulltrúar starfshópsins á ákveðið forvarnargildi þeirra. Með skýrum ákvæðum um bótaskyldu vegna atvinnusjúkdóma skapist stóraukinn hvati til þess að slík tilvik séu tilkynnt til eftirlitsskyldra aðila. Þetta auki yfirsýn og þekkingu á þessu sviði og stuðli að virkari forvörnum til að fyrirbyggja miska af völdum atvinnusjúkdóma.

Um starfshópinn

Formaður starfshópsins var Berglind Ýr Karlsdóttir, fulltrúi Sjúkratrygginga Íslands en aðrir í hópnum voru Anna Birgit Ómarsdóttir, fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins, Ágúst Þór Sigurðsson, fulltrúi félagsmálaráðuneytisins, Björn Þór Rögnvaldsson, fulltrúi Vinnueftirlitsins og Ragna Haraldsdóttir, fulltrúi Tryggingastofnunar ríkisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum