Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Kveðjur heilbrigðisráðherra til ljósmæðra og BHM

Heilbrigðisráðherra sagði í umræðum á Alþingi í gær að hún teldi vinnuframlag ljósmæðra sérstaklega mikilvægt og það beri að meta að verðleikum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra var spurð að því í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær hvort hún „telji starfs- og kjaraumhverfi ljósmæðra ásættanlegt og eðlilegt með tilliti til sex ára háskólamenntunar og mikillar sérhæfingar og hvort brugðist verði við af hálfu stjórnvalda, hvernig það verði gert og hvort eitthvert viðbúnaðarplan sé til staðar ef ekki semst." Í svari sínu sagði ráðherra meðal annars að hún væri þeirrar skoðunar að meta eigi vinnuframlag ljósmæðra til launa og til samfélagslegrar virðingar: „Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að vinnuframlag og starf ljósmæðra væri sérstaklega mikilvægt. Þarna er um að ræða kvennastétt sem sinnir konum á gríðarlega dýrmætum og mikilvægum tíma í lífi þeirra og mér finnst að það eigi að meta að verðleikum.“ Ráðherra sagðist enn fremur hafa beitt sér í máli ljósmæðra í gegnum forstjóra Landspítalans, til að freista þess að gera það sem hægt sé til að bæta starfsumhverfi og mögulega vaktaumhverfi ljósmæðra. Það hefði verið gert og því spilað inn í kjaraviðræðurnar og vonandi gæti það orðið til að leysa þessa viðkvæmu deilu.

Í dag sendi Ljósmæðrafélag Íslands og Bandalag háskólamanna frá sér yfirlýsingu þess efnis að heilbrigðisráðherra hefði sent þeim kaldar kveðjur í fyrrnefndum fyrirspurnartíma á Alþingi þar sem fallið hefðu orð sem mætti skilja þannig að ráðherra teldi ljósmæður geta sjálfum sér um kennt að þær lækki í launum við að bæta við sig í námi.

Svandís Svavarsdóttir„Yfirlýsing ljósmæðra og BHM er að mínu mati bæði óskiljanleg og tilhæfulaus og ég hafna þeirri túlkun á orðum mínum sem þar kemur fram“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. „Ég ber hag heilbrigðisstétta fyrir brjósti, ljósmæðra sem annarra, enda veit ég að gott heilbrigðiskerfi verður ekki rekið nema þessar stéttir njóti sannmælis, virðingar og launa í samræmi við ábyrgð og mikilvægi starfa þeirra.“

Heilbrigðisráðherra minnir á yfirlýsingu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra sem birt var 12. febrúar síðastliðinn í tengslum við kjarasamninga 17 aðildarfélaga Bandalags háskólamanna: „Áherslur stjórnvalda og vilji þeirra til að styrkja heilbrigðiskerfið með bættu starfsumhverfi og kjörum heilbrigðisstarfsfólks hjá ríkinu verða varla skýrari en þar kemur fram“ segir ráðherra.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum