Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2019 Utanríkisráðuneytið

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál kynnt á Alþingi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra undirritar yfirlýsingu um lok fríverslunarviðræðna við Indónesíu í nóvember sl. - myndEFTA

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti í dag Alþingi skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál. Skýrslan gefur greinargott yfirlit yfir stöðu utanríkismála Íslands og helstu atburði á þeim vettvangi undanfarna tólf mánuði. 

Utanríkisráðherra kom að venju víða við í ræðu sinni á Alþingi en segja má að rauði þráðurinn hafi verið að virk þátttaka í alþjóðasamvinnu væri ein af forsendum hagsældar og fullveldis. „Alþjóðleg samvinna og virk hagsmunagæsla er undirstaða þess að lífskjör og tækifæri hérlendis geti áfram orðið með því sem best sem gerist í heiminum,“ sagði ráðherra meðal annars í ræðunni. 

Utanríkisviðskipti voru Guðlaugi Þór ofarlega í huga í ræðunni. Þannig áréttaði hann þýðingu EES-samningsins, ört stækkandi fríverslunarnets með þátttökunni í EFTA og öflugrar hagmunagæslu Íslands vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. „Ég er mjög stoltur af því hversu vel utanríkisþjónustunni hefur tekist að greina hagsmuni okkar og undirbúa allar mögulegar sviðsmyndir í ljósi óvissunnar,“ sagði Guðlaugur Þór um Brexit. Þá rakti hann árangur af viðræðum við ráðherra og fulltrúa ýmissa ríkja um að greiða fyrir viðskiptum, meðal annars við Japan og Kína. „Ekki má heldur gleyma tímamótasamkomulagi um viðskiptasamráð Íslands og Bandaríkjanna sem við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gerðum þegar hann kom í heimsókn hingað til lands í febrúar.“

Kosning Íslands í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna og störfin þar hafa sett svip sinn á íslensk utanríkismál undanfarin misseri. „Framganga Íslands hefur raunar vakið athygli á heimsvísu og er til marks um hve mikil áhrif lítil ríki geta haft. Besta dæmið er vafalaust forysta Íslands á vettvangi ráðsins þegar ástand mannréttinda í Sádi-Arabíu var gagnrýnt,“ sagði Guðlaugur Þór í ræðu sinni á Alþingi í dag og bætti við að mannréttindabrjótar sem sætu í mannréttindaráðinu yrðu að bæta ráð sitt. 

Ráðherra ræddi jafnframt yfirstandandi formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni, formennskuna í utanríkisráðherrasamstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, stjórnarsetu í Alþjóðabankanum fyrir hönd þessara ríkja og formennskuna sem framundan er í Norðurskautsráðinu. „Með sjálfbæra þróun að leiðarljósi mun íslenska formennskan meðal annars beina kastljósinu að málefnum hafsins, loftslagsmálum og endurnýjanlegri orku, auk stuðnings við samfélög á norðurslóðum,“ sagði Guðlaugur Þór og áréttaði um leið að Ísland hefði lengi talað gegn frekari hervæðingu á svæðinu. Því vektu vaxandi hernaðarumsvif Rússa þar ugg. „Við þessu hefur verið brugðist með stórauknu eftirliti með kafbátaumferð og eru umtalsverðar framkvæmdir fyrirhugaðar á mannvirkjum á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli af þeim sökum.“

Þá undirstrikaði ráðherra að þróunarsamvinna væri vaxandi liður í störfum utanríkisþjónustunnar enda byggi Ísland yfir sérhæfðri þekkingu á ýmsum sviðum við uppbyggingu innviða og atvinnuvega í þróunarlöndum. „Þess vegna setti ég á fót nýjan samstarfssjóð atvinnulífs og íslenskra stjórnvalda sem ætlað er að styrkja samstarfsverkefni í fátækari ríkjum og stuðla þar að atvinnusköpun og sjálfbærum vexti. Þessar áherslur endurspeglast vel í nýrri þróunarsamvinnustefnu sem lögð hefur verið fyrir þingið.“

Skýrslu utanríkisráðherra má lesa í heild sinni hér á Stjórnarráðsvefnum en jafnframt hefur verið gefið út sérstakt hefti með útdrætti úr skýrslunni. Fjölmargar tölulegar upplýsingar koma fram í skýrslunni sem settar eru fram á myndrænan hátt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum