Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 151/2019 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 4. apríl 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 151/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19030003

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I.                    Málsatvik

Þann 21. febrúar 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 22. nóvember 2018 um að synja einstaklingi er kveðst heita [...] vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 25. febrúar 2019. Þann 1. mars 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda, ásamt fylgigögnum, um að mál hans yrði endurupptekið með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum þann 11. mars 2019. Viðbótarathugasemdir bárust þann 28. mars sl.

II.                  Málsástæður og rök kæranda

Krafa kæranda um endurupptöku er aðallega byggð á því að ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á röngum upplýsingum um málsatvik. Sé ástæðu þess að rekja til tungumálaörðugleika við túlkun í viðtölum við kæranda auk þess sem andlegt ástand hans hafi verið slæmt í viðtali hjá kærunefnd. Þá byggir kærandi á því að í úrskurði kærunefndar séu rangar upplýsingar varðandi grundvallaratriði í málinu sem hafi áhrif á tímalínu atburða og dragi þannig úr trúverðugleika hans. Í úrskurði nefndarinnar segi að kærandi hafi lagt á flótta frá heimaríki vegna ótta hans við að verða fórnarlamb heiðursmorðs, en hann hafi verið í sambandi með stúlku frá árinu 2015 og að þau hafi haft samfarir í júlí 2017. Hið rétta sé að þau hafi haft samfarir í september 2017 eins og kærandi hafi greint frá því viðtali hjá Útlendingastofnun. Atvikið sé vendipunktur í málinu en í kjölfar þess hafi kæranda borist líflátshótanir. Gerir kærandi alvarlegar athugasemdir við framangreint og telur þetta benda til þess að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað.

Kærandi byggir einnig á því að hann hafi ætíð sagt satt og rétt frá. Byggir kærandi á því að sé um að ræða misræmi á milli viðtala hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála skýrist það af tungumálaörðugleikum, annað hvort í þá veru að túlkurinn hafi ekki komið réttum upplýsingum til skila eða að kærandi hafi misskilið hvað átt var við. Í þessu sambandi rekur í fyrsta lagi svör hans um aldur fyrrnefndrar stúlku sem hann kveðst hafa átt í sambandi við í heimaríki. Fram kemur að kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá kærunefnd að hún hafi verið fædd þann [...], sem séu réttar upplýsingar. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi verið spurður hvað stúlkan hafi verið gömul þegar þau byrjuðu að hittast og svaraði kærandi því til að hún hafi verið í „tólfta bekk“ og „tæplega [...] árs af því hún hafði setið eftir í náminu“. Kærandi byggir á því að hann hafi ekki skilið umrædda spurningu rétt. Hann hafi talið að verið væri að spyrja um tímabilið þegar hann lagði á flótta en ekki upphaf sambandsins. Komi þetta heim og saman við restina af svari kæranda þar sem hann greindi frá því að að foreldrar hennar hafi lofað honum að þau fengju að giftast eftir að hún kláraði menntaskóla en hafi síðan hætt við það. Sé þannig komin fram eðlileg skýring á umræddu misræmi og leiki ekki vafi um aldur stúlkunnar.

Í öðru lagi er fjallað um svör kæranda varðandi samskipti hans við frænku stúlkunnar og fregnir af dauða stúlkunnar. Kemur fram að kærandi hafi ávallt greint talsmanni sínum frá því að hann hafi frétt af dauða stúlkunnar símleiðis frá frænku hennar þegar hann hafi verið staddur í Tyrklandi. Hafi þetta jafnframt komið fram í viðtali við kæranda hjá Útlendingastofnun. Byggir kærandi á því að eitthvað hafi misfarist í viðtali hjá kærunefnd varðandi þetta atriði og að mistök hafi átt sér stað í túlkun í viðtalinu. Túlkur í viðtalinu hafi verið frá Íran og tali afbrigði af kúrdísku sem líkist frekar farsi en kúrdísku sorani. Misskilningur hafi átt sér stað vegna þessa og þetta atriði ekki komist rétt til skila. Í viðtali hjá kærunefnd hafi kærandi verið spurður hvort hann hefði heyrt í frænku stúlkunnar eftir að hann hafi farið frá heimaríki og svarað því neitandi. Kærandi hafi hins vegar talið að verið væri að spyrja að því hvort hann hefði heyrt í frænku stúlkunnar áður en hann hafi farið frá Írak, en ekki eftir að hann hafi farið þaðan. Kærandi hafi ef til vill ekki áttað sig á því að kærunefnd myndi að einhverju leyti spyrja hann sömu spurninga og Útlendingastofnun hafði þegar gert. Af hálfu kæranda er byggt á því að hann hafi ekki skilið spurninguna fyllilega og að andlegt ástand hans á þeim tíma sem viðtalið hafi farið fram hafi verið mjög slæmt, en nokkrum dögum fyrir viðtalið hafi hann talað um að enda líf sitt. Byggir kærandi á því að með hliðsjón af framangreindu sé ekki hægt að túlka framangreind atriði sem misræmi í framburði hans.

Í þriðja lagi er fjallað um svör kæranda við spurningum um hvenær hann hafi kynnst stúlkunni. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi komið fram hjá kæranda að hann hafi kynnst stúlkunni í kringum nóvember 2015, en í viðtali hjá kærunefnd kvaðst hann hafa kynnst stúlkunni þann 4. febrúar 2014. Í athugasemdum kæranda segir að hann hafi greint talsmanni sínum frá því að þau hafi þó kynnst í lok árs 2014 í tívolíi í Sulaymaniyah. Kærandi byggir á því að vegna andlegrar vanlíðunar, álags og alls sem á undan sé gengið muni hann einfaldlega ekki nákvæmlega hvenær hann hafi kynnst stúlkunni. Með hliðsjón af framangreindu sé eina misræmið sem hægt sé að byggja á sá tímapunktur þegar samband þeirra hafi hafist. Í greinargerð segir að framangreint misræmi hafi ekki verið borið undir kæranda, ef frá er talið símtal við frænku stúlkunnar. Að mati kæranda sé ekki unnt að fella allt málið á þessu eina atriði og því sé nauðsynlegt að endurupptaka málið á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Byggir kærandi einnig á því að í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga hafi kærunefnd borið skylda til að bera fyrrnefnt misræmi undir hann. Vísar kærandi jafnframt til leiðbeiningarreglna Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, en þær kveði á um að gefa skuli aðila færi á að útskýra mál sitt sérstaklega þegar ákvörðunaraðilar telji tiltekin atriði rýra trúverðugleika viðkomandi. Misræmi í framburði kæranda hafi gert það að verkum að frásögn hans í heild sinni hafi ekki verið lögð til grundvallar í málinu þrátt fyrir að hann hafi verið talinn trúverðugur hjá Útlendingastofnun. Telur kærandi að niðurstaða málsins hefði orðið allt önnur ef framangreind atriði hefðu verið borin undir hann.

Í greinargerð kæranda er vísað til alþjóðlegra skýrslna um trúverðugleikamat í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Byggir kærandi á því að bent hafi verið á að ákveðnir þættir á borð við samræmi í frásögn, nákvæmni, hegðun og framkoma umsækjanda og trúverðugleiki frásagnarinnar séu allt lélegir mælikvarðar á trúverðugleika viðkomandi. Fjölmargir þættir hafi áhrif á innra samræmi í frásögn umsækjanda sem skekki matið, t.d. tungumálaörðugleikar og menningarmunur. Þegar stuðst sé við túlk sé ljóst að alltaf séu atriði sem komist ekki til skila með nákvæmlega sama hætti og umsækjandi hafi sagt. Þá geti andlegt ástand viðkomandi, minnisleysi, sá tími sem liðinn sé frá atburðum og áföll sem viðkomandi hafi orðið fyrir á flóttanum einnig haft áhrif á innra samræmi frásagnar. Í tilviki kæranda verði að hafa framangreind atriði í huga og þá sérstaklega það mikla áfall sem hann hafi orðið fyrir vegna fráfalls kærustu sinnar. Með vísan til framangreinds er það mat kæranda að þau atriði sem hafi komið fram í viðtali við hann hjá kærunefnd útlendingamála rýri frásögn hans ekki eða dragi úr trúverðugleika hans. Byggir kærandi á því að þótt sönnunarbyrðin hvíli á umsækjanda um alþjóðlega vernd sé það sameiginleg skylda hans og viðkomandi stjórnvalds að komast að raun um staðreyndir málsins og meta þær. Þá geti verið erfitt að færa sönnur á framburð sem liggi fyrir. Við þær aðstæður beri að láta umsækjanda njóta vafans ef frásögn hans virðist trúverðug nema góðar og gildar ástæður mæli á móti því. Beri stjórnvöldum því að gera minni kröfur um sönnunarfærslu en ella.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að Útlendingastofnun hafi veitt einstaklingi alþjóðlega vernd sem hafi verið í sömu aðstöðu og kærandi og ekki lagt fram gögn. Telur kærandi að við meðferð málsins hafi því ekki verið svarað hvað skýri mismunandi niðurstöðu í því máli og máli hans, en með því hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.

III.                Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr.

Í úrskurði kærunefndar, dags. 21. febrúar 2019, kemur fram að kærunefnd hafi metið framburð kæranda ótrúverðugan að verulegu eða öllu leyti. Var það mat að verulegu leyti byggt á því innra ósamræmi sem var á framburði hans hér á landi í viðtölum hjá stjórnvöldum. Ósamræmið varðaði fyrst og fremst upphaf sambands hans við ákveðna stúlku, aldur hennar og afdrif.

Krafa kæranda um að mál hans verði endurupptekið er m.a. reist á því að úrskurður kærunefndar hafi verið byggður á röngum upplýsingum um málsatvik, sem hafi haft áhrif á mat nefndarinnar á trúverðugleika kæranda. Vísar kærandi til þess að í úrskurði kærunefndar segi að hann og fyrrnefnd stúlka hafi haft samfarir í júlí 2017. Kærandi bendir á að þau hafi haft samfarir í september 2017 eins og hann hafi greint frá í viðtali hjá Útlendingastofnun.

Í athugasemdum við 24. gr. í frumvarpi er varð að stjórnsýslulögum er fjallað um endurupptöku á grundvelli þess að stjórnvaldsákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Kemur fram að í þessu sambandi verði að vera um að ræða upplýsingar sem byggt hafi verið á við ákvörðun málsins, en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem mjög litla þýðingu höfðu við úrlausn þess.

Kærunefnd tekur fram að það atriði sem kærandi vísar til kemur aðeins fram í umfjöllun kærunefndar um málsástæður og rök kæranda en kom ekki til álita í niðurstöðu nefndarinnar. Hafði umrætt atriði ekki þýðingu við mat nefndarinnar á trúverðugleika frásagnar kæranda né niðurstöðu málsins að öðru leyti. Að því virtu og með hliðsjón af fyrrnefndum athugasemdum við 24. gr. í frumvarpi til stjórnsýslulaga verður ekki talið að þetta atriði leiði til þess að taka beri mál kæranda upp að nýju á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. laganna.

Kærandi byggir einnig á því að misræmi í framburði hans í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála skýrist af tungumálaörðugleikum við túlkun og að kærandi hafi misskilið spurningar. Byggir kærandi m.a. á því að hann hafi misskilið spurningu í viðtali hjá Útlendingastofnun um hvað fyrrgreind stúlka hafi verið gömul þegar þau hafi kynnst, en kærandi hafi talið spurninguna lúta að aldri hennar við lok sambandsins. Vegna þessarar málsástæðu bendir kærunefnd á að í lok endurrita af viðtölum við kæranda hjá Útlendingastofnun kemur fram að farið hafi verið yfir skráningu viðtalanna með liðsinni túlks. Þá liggur fyrir staðfesting kæranda og talsmanns hans á því á að túlkun túlks hafi verið í samræmi við það sem fram hafi komið í viðtölunum og að þeir hafi fengið tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum og breytingum. Verður ekki séð að athugasemdir hafi verið gerðar við það sem fram kemur í endurritum viðtala hjá Útlendingastofnun. Þá hefur kærandi ekki gert líklegt að öðru leyti að mistök hafi átt sér stað við túlkun í viðtölum við hann hjá Útlendingastofnun eða að túlkun hafi að öðru leyti verið ábótavant við gerð viðtalsins. Kærunefnd hefur farið yfir hljóðupptökur af viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun og telur að spurningar stofnunarinnar og svör kæranda um aldur stúlkunnar hafi verið skýr. Telur kærunefnd því ekki unnt að leggja til grundvallar frásögn kæranda um að hann hafi misskilið spurningu í viðtali hjá stofnuninni um hvað fyrrgreind stúlka hafi verið gömul þegar þau hafi kynnst. Þá telur kærunefnd að ekki sé hægt að fallast á að kærandi hafi misskilið spurningu kærunefndar um samskipti við frænku stúlkunnar og afdrif ætlaðrar kærustu hans. Kærandi var spurður um þetta misræmi og gat ekki gefið útskýringar á því. Kærunefnd telur að ekki leiki vafi á því að óútskýrt misræmi sé einnig á þessum þætti frásagnar kæranda.

Í greinargerð er einnig byggt á því að andlegt ástand kæranda hafi verið slæmt á þeim tíma sem hann mætti til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála. Hefur kærandi lagt fram bréf frá sálfræðingi hjá Rauða krossinum, dags. 6. mars 2019. Í bréfinu kemur fram að kærandi glími við andlega vanlíðan og að ástand hans hafi farið versnandi síðari hluta árs 2018. Kærandi hafi óskað eftir sálfræðiþjónustu en ekki fengið þar sem hann hafi ekki verið metinn með áfallastreituröskun á göngudeild sóttvarna. Í viðtali hjá Rauða krossinum í lok janúar 2019 hafi kærandi greint frá sjálfsvígshugsunum og andlegri vanlíðan. Hann hafi grátið mikið og átt í erfiðleikum með að orða hugsanir sínar.

Kærandi mætti til viðtals hjá kærunefnd þann 7. febrúar 2019. Áður en spurningar voru bornar fyrir kæranda var honum leiðbeint um að á meðan viðtalinu stæði gæti hann óskað eftir því að gert yrði hlé á viðtalinu. Kærandi óskaði ekki eftir því að hlé yrði gert á viðtalinu og svaraði spurningum kærunefndar um þau atvik er leiddu til þess að hann lagði á flótta frá heimaríki. Þótt kærandi hafi glímt við andlega vanlíðan á þeim tíma sem viðtal við hann fór fram hjá kærunefnd verður ekki talið að andlegt ástand hans hafi haft áhrif á framburð hans fyrir nefndinni. Í þessu sambandi horfir kærunefnd t.d. til þess að kærandi gaf upp nákvæmar dagsetningar um fyrstu kynni sín af stúlkunni, en hann kvaðst hafa kynnst henni þann 4. febrúar 2014 og hitt hana í annað skipti þann 12. febrúar sama ár. Þá hafi svör kæranda um fæðingardag stúlkunnar verið skýr og afdráttarlaus. Er það mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að andlegt ástand kæranda í viðtali hjá nefndinni hafi leitt til þess að hann hafi fyrir mistök veitt rangar upplýsingar um málsatvik.

Vegna tilvísunar kæranda til 13. gr. stjórnsýslulaga verður ekki séð að vísan kærunefndar til framburðar kæranda sjálfs geti verið ósamrýmanleg andmælarétti hans samkvæmt ákvæðinu. Í ljósi niðurstöðu málsins kemur málsástæða kæranda um jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga ekki til skoðunar.

Kærunefnd telur að ekkert í gögnum málsins raski því mati kærunefndar sem fram kemur í úrskurði hennar, dags. 21. febrúar 2019, að frásögn kæranda hafi verið að verulegu eða öllu leyti ótrúverðug. Að teknu tilliti til alls framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 21. febrúar 2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var birtur, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt öllu framansögðu er það mat kærunefndar að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum