Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Frestur til að sækja um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra

Frestur til að sækja um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra fyrir árið 2012 rennur út 1. febrúar næstkomandi. Hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra er að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land.

Samstarfsnefnd um málefni aldraðra auglýsti í byrjun janúar eftir umsóknum um framlög úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999 og reglugerð nr. 1/2011 um Framkvæmdasjóð aldraðra með áorðnum breytingum, sbr. reglugerð nr. 1269/2011. Samstarfsnefnd um málefni aldraðra fer með stjórn sjóðsins og gerir tillögur til velferðarráðherra um úthlutun úr honum. Vísað er til reglugerðarinnar varðandi upplýsingar um þau verkefni sem heimilt er að veita framlög til.

Við ákvörðun um úthlutun verður stefna velferðarráðherra í öldrunarmálum höfð til hliðsjónar, einkum varðandi fækkun fjölbýla á hjúkrunarheimilum. Skilyrði fyrir framlögum til byggingaframkvæmda, nauðsynlegra endurbóta og breytinga á húsnæði er að framkvæmdir taki mið af viðmiðum velferðarráðuneytis um skipulag hjúkrunarheimila.

Umsóknum ber að skila fyrir 1. febrúar 2012. Að gefnu tilefni er vert að benda á mikilvægi þess að vanda til umsókna og skila nauðsynlegum upplýsingum og fylgiskjölum innan tilskilins frests þar sem það getur haft áhrif á afgreiðslu umsóknar. Ekki verður tekið við gögnum eftir að umsóknarfrestur er liðinn.

Rafræn skil umsókna

Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að skila umsóknum rafrænt á umsóknavef Stjórnarráðsins http://umsokn.stjr.is/ Aðgangur að umsóknavefnum er gefinn á kennitölu umsækjanda eða tengiliðar hans.

Nánari upplýsingar veitir Bryndís Þorvaldsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, í síma 545 8100. Einnig má senda fyrirspurn í tölvupósti á [email protected]

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum