Hoppa yfir valmynd
31. maí 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álagning opinberra gjalda á einstaklinga fyrir 2021

Ríkisskattstjóri hefur lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga. Álagningin 2022 tekur mið af tekjum einstaklinga árið 2021 og eignastöðu þeirra 31. desember 2021.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • Fjöldi framteljenda er 317.567 og fjölgar um 5.056 á milli ára. Skattskyldar tekjur framteljenda eru 2.005 ma.kr. og skila samtals 248 ma.kr. í tekju- og fjármagnstekjuskatt til ríkissjóðs og 275 ma.kr. í útsvar til sveitarfélaga. Um 234 þúsund einstaklingar fá álagðan tekjuskatt og fækkar þeim um tæp 1.600 á milli ára. Þá fá 306 þúsund einstaklingar álagt útsvar og framteljendur sem hafa engar tekjur sem falla undir tekjuskatts- og útsvarsstofn eru tæplega 12 þúsund.
  •  
  • Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna árið 2022 vegna tekna ársins 2021 nemur 1.824 ma.kr. og hækkar um 7,2% frá fyrra ári. Stofninn telur öll laun og ígildi launa, hlunnindi, lífeyri frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, styrki og hvers kyns aðrar greiðslur að teknu tilliti til frádráttar.
  • Af einstökum tekjuliðum hækkuðu laun og hlunnindi um 9,3%, greiðslur úr lífeyrissjóðum og frá Tryggingastofnun hækkuðu um 5,3% og aðrar skattskyldar tekjur og styrkir hækkuðu um 6,2%. Á móti drógust atvinnuleysisbætur saman um 26% og námu 48 ma.kr.
  •  Frádrættir tekjuskatts- og útsvarsstofns eru meðal annars frádráttarbær iðgjöld í lífeyrissjóð, kostnaður á móti ökutækjastyrk og dagpeningum ásamt frádrætti vegna ýmissa styrkja. Heildarfrádráttur frá tekjuskatts- og útsvarsstofninum er 118 ma.kr. og eykst hann um 10% milli ára. Í fyrsta sinn var heimilt að draga frá tekjuskatts- og útsvarsstofni gjafir og framlög til skráðra almannaheillafélaga. Samtals nýttu 20.473 einstaklingar þetta úrræði og drógu 416 m.kr. frá tekjuskatts- og útsvarsstofni sínum. Þá er frádráttur vegna kaupa á hlutabréfum samtals 348 m.kr. sem er 227 m.kr. hækkun frá fyrra ári.
  •  Fjöldi þeirra sem fá áætlaðan tekjuskattsstofn er 14.156 og eykst um 2,1% á milli ára. Samtals er áætlað 75,4 ma.kr. að meðtöldu álagi og nemur hlutfall áætlaðs tekjuskattsstofns 4,1% af tekjuskatts- og útsvarsstofninum.
  •  Álagður tekjuskattur að frádregnum persónuafslætti sem rennur til ríkissjóðs er 209 ma.kr. og hækkar um 2,7% milli ára. Árið 2021 tók síðasti áfangi tekjuskattsbreytinga gildi þar sem neðsta þrep tekjuskatts var lækkað niður í 17,00% og kom það til lækkunar tekjuskatts.
  • Álagt útsvar til sveitarfélaga er 275 ma.kr. sem er 7,4% aukning á milli ára. Í þeim tilvikum þar sem persónuafsláttur er nýttur til greiðslu útsvars ábyrgist ríkissjóður greiðslu útsvars til sveitarfélaganna. Ríkissjóður greiðir þannig að öllu leyti útsvar þeirra sem hafa tekjur undir skattleysismörkum. Persónuafsláttur nýttir til greiðslu útsvars fyrir tekjuárið 2021 nemur 9,7 ma.kr. sem er 11% hækkun á milli ára. Útsvar greitt af ríkissjóði í formi persónuafsláttar nemur nú 3,5% af heildarútsvarstekjum sveitarfélaga.
  • Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 38,6 ma.kr. og hækkar um 73% á milli ára. Samtals fá 28.673 fjölskyldur álagðan fjármagnstekjuskatt og fjölgar þeim um 3.278 frá fyrra ári. Meðalfjármagnstekjuskattur á hverja fjölskyldu er 1,3 m.kr. sem er hækkun um 53% milli ára.
  • Töluverð aukning var í uppgefnum fjármagnstekjum þar sem þær hækka um 65 ma.kr. milli ára og eru 181 ma.kr. sem gerir 57% hækkun. Skipta má fjármagnstekjum í arð, vexti, leigu og söluhagnað og hækka allir þessir liðir. Mest er hækkunin í söluhagnaði sem tæplega þrefaldast milli ára og nemur 74,4 ma.kr. og er stærsti einstaki liður fjármagnstekna. Söluhagnaður hlutabréfa er 69,6 ma.kr. en annar söluhagnaður nemur 4,8 ma.kr. Fjöldi fjölskyldna sem hafði hagnað af sölu hlutabréfa er 9.718 og eykst um 6.737 á milli ára. Tekjur af arði námu 63,7 ma.kr. árið 2021 og jukust um 23,8%. Aukningin stafar af arði innlendra hlutabréfa sem eykst um 19,8 ma.kr. á meðan arður af erlendum hlutabréfum minnkar um 7,5 ma.kr. Tekjur af vöxtum eru 26,5 ma.kr. og hækka um 2,6 ma.kr. sem nemur 10,7% hækkun á milli ára. Hækkunin stafar af vöxtum af verðbréfum sem hækkuðu um 5,0 ma.kr. á meðan vextir af innstæðum í bönkum drógust saman um 2,4 ma.kr. Þá nema leigutekjur 16,4 ma.kr. og hækka um 8,6% á milli ára. Tæplega 8 þúsund fjölskyldur gáfu upp leigutekjur og fjölgar þeim um 5,2% á milli ára.
  •  Í árslok 2021 voru eignir heimilanna metnar á 8.491 ma.kr. og jukust um 10,6% frá fyrra ári. Fasteignir voru 73,8% af heildareignum og verðmæti þeirra 6.263 ma.kr. sem er 10,6% hækkun frá fyrra ári. Fasteignaeigendum fjölgaði um 3.455 fjölskyldur samkvæmt skattframtölum og voru 111.621. Framtaldar skuldir heimilanna voru við árslok 2.615 ma.kr. og hækkuðu um 9,9% milli ára. Þar af námu skuldir vegna íbúðarkaupa 1.954 ma.kr. sem er 11,5% hækkun frá því í árslok 2020. Nettóeign heimila, skilgreind sem heildareignir að frádregnum heildarskuldum, var samtals 5.876 ma.kr. og jókst um 10,9% á milli ára. Samtals voru 30.202 fjölskyldur með skuldir umfram eignir og fækkaði þeim um 231 á milli ára.
  •  Framteljendur á aldrinum 16-69 ára með tekjur yfir skattleysismörkum þurfa að greiða útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraða. Álögð útvarpsgjöld nema 4,4 ma.kr. og hækka um 4,8% á milli ára og er fjöldi greiðenda tæplega 232 þúsund. Álögð gjöld í Framkvæmdasjóð aldraða nema 2,9 ma.kr. og hækka um 4,6% á milli ára.
  •  Greiðslur ríkissjóðs vegna barnabóta, sem ákvarðast samkvæmt tekjum ársins 2021 og eru greiddar út árið 2022, nema 13,7 ma.kr. Þríþættar breytingar voru gerða á barnabótum fyrir álagningu 2022 þar sem fjárhæðir barnabóta hækkuðu um 5,5% til 5,8%, neðri skerðingarmörk hækkuðu um 8% og efri skerðingarmörk um 12%. Þessar breytingar skila sér í 9,5% hækkun barnabóta sem nemur tæplega 1,2 ma.kr. hækkun milli ára og fjölgar foreldrum sem fá barnabætur um tæplega 2.000. Sérstakur barnabótaauki verður greiddur út 1. júlí að upphæð 20 þús.kr. með hverju barni sem greiddar eru tekjutengdar barnabætur fyrir.
  •  
  • Vaxtabætur samkvæmt álagningu 2022 eru 2,1 ma.kr. sem er 13,1% lækkun á milli ára. Samtals fá 13.535 framteljendur greiddar vaxtabætur og fækkar þeim um 1.485 á milli ára. Lækkun vaxtabóta nú eins og fyrri ár skýrist af betri eiginfjárstöðu heimila, auknum tekjum og lækkun vaxtagjalda á sama tíma og viðmiðunarfjárhæðir hafa haldist óbreyttar.
  • Inneign framteljenda að lokinni álagningu er alls 28,8 ma.kr. en þar af verður 6,0 ma.kr. ráðstafað upp í kröfur vegna vangoldinna gjalda. Eftir stendur því 22,8 ma.kr. sem rúmlega 167 þúsund manns eiga í inneign hjá ríkissjóði nú um mánaðamótin. Um er að ræða endurgreiðslur á ofgreiddum sköttum, barnabætur og vaxtabætur. Þá á ríkið kröfur á hluta gjaldenda sem verða á gjalddaga á síðari hluta ársins 2022 vegna vangreiddra skatta ársins 2021 og eldri krafna. Sú fjárhæð nemur alls 70,5 ma.kr.

    M.kr. 2021 2022
    Barnabætur 3.438 3.740
    Sérstakur barnabótaauki 1.613 .
    Vaxtabætur 1.987 1.677
    Ofgreidd staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars 14.725 16.209
    Ofgreidd staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts 957 794
    Annað 397 421
    Alls 23.117 22.841
  • Heildarfjárhæð sem greidd er út við álagninguna er 22,8 ma.kr. og lækkar hún um 1,2% á milli ára. Töluverð aukning varð á ofgreiddri staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars en á móti er ekki greiddur sérstakur barnabótaauki samhliða álagningu heldur mun hann verða greiddur þann 1. júlí. Þá mun ríkissjóður auk þess greiða 3,7 ma.kr. í barnabætur þann 1. október næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum