Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 155/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 5. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 155/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18010005

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. janúar 2018 […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. janúar 2018 um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt eiginkonu sinni og tveimur börnum þeirra.

Kærandi krefst þess aðallega að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun, hvað varðar brottvísun og endurkomubann, verði felld úr gildi, sbr. 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara kefst kærandi þess að Útlendingastofnun verði gert að taka málin til rannsóknar að nýju þar sem rannsóknarskylda stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið uppfyllt í málinu.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 25. ágúst 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 22. nóvember 2017, ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun dags. 2. janúar 2018 synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Að ósk kæranda var veittur frekari rökstuðningur fyrir ákvörðunum Útlendingastofnunar með bréfi stofnunarinnar, dags. 18. janúar 2018. Var ofangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála við birtingu þann 5. janúar sl. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 5. febrúar 2018, ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd upplýsingar frá Útlendingastofnun og talsmanni kæranda með tölvubréfum dags. 5. og 7. mars 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að honum og fjölskyldu hans sé mismunað í heimaríki sínu vegna […] uppruna síns auk þess sem þau séu í hættu vegna hótana frá lánadrottni hans.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Kæranda var brottvísað frá landinu með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laganna. Var kæranda ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 101. gr. sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann verði fyrir mismunun í heimaríki á grundvelli þjóðernis síns þar sem hann sé […] í […]. Árið […] hafi átt sér stað bylting í […] þar sem átök hafi orðið milli […] og […]. Í kjölfarið hafi […] stjórnvöld fyrirskipað að ákveðinn hluti ríkisstarfsmanna skyldu vera af […] uppruna. Þrátt fyrir að það hafi gengið eftir hafi einstaklingum af […] uppruna enn verið mismunað. Kærandi hafi starfað fyrir herinn en hafi ítrekað verið færður til vegna uppruna síns. Vegna þess hafi kærandi greitt yfirmanni sínum fé í því skyni eða vera fluttur aftur í sinn heimabæ. Í kjölfarið hafi yfirmaður hans beitt hann fjárkúgunum og hafi kærandi kært hann fyrir athæfið. Yfirmaður kæranda hafi verið dæmdur til fangelsisvistar en í kjölfarið hafi hann komið illa fram við kæranda og hafi kærandi heyrt orðróm þess efnis að yfirmaður kæranda hefði haft áform um að myrða hann. Þá greindi kærandi frá því að hans bíði fangelsisdómur í heimaríki sem megi rekja til þess að kærandi hafi ásamt fjölskyldu sinni sótt um alþjóðlega vernd í […] og […]. Þegar fjölskylda kæranda hafi fengið synjun og snúið aftur til heimaríkis hafi [...] leyniþjónustan sakað kæranda um [...]. Í kjölfarið hafi kærandi hlotið [...] fangelsisdóm án undangenginnar rannsóknar eða sannana. Telur kærandi að raunveruleg ástæða dómsins sé [...] uppruni hans. Þá greindi kærandi frá því að hann og fjölskylda hans væru í lífshættu vegna hótana frá ábyrgðarmanni láns sem kærandi hafi tekið.

Kærandi fjallar í greinargerð sinni um stöðu mannréttinda í […]. Í greinargerð er gerð grein fyrir að í skýrslu frjálsra félagasamtaka komi fram að mikil spilling ríki í stjórnkerfi landsins og almenningur beri þ.a.l. lítið traust til stjórnvalda og stofnana. Þá séu alvarlegustu mannréttindabrotin sem viðgangist í ríkinu tengd spillingu í stjórnkerfinu, tregðu stjórnvalda til að fylgja lögum og reglum, viðvarandi höft á frelsi fjölmiðla, afskipti af dómsvaldinu, afskiptum af embætti saksóknara og ákæruvaldinu, almenn pólitísk afskipti, óskilvirkni kerfisins, frændsemi, brot á réttlátri málsmeðferð og almenn spilling í dómskerfinu. Þá sé brotið á mannréttindum fanga af lögreglu og fangavörðum í heimaríki kæranda og þeim sé misþyrmt. Aðbúnaður í fangelsum sé slæmur og séu mörg fangelsi yfirfull. Einnig séu dæmi þess að fangar verði fyrir ofbeldi af hálfu lögreglu þegar verið er að flytja þá á milli staða. Illa hafi gengið að fá lögreglumenn og fangaverði dæmda fyrir brot í starfi þrátt fyrir að fjöldi fanga hafi lagt fram kærur. Enn fremur uppfylli fangelsi ríkisins ekki alþjóðlega staðla um aðbúnað þar sem skortur sé á starfsfólki og húsnæði auk þess sem starfsfólk fái ófullnægjandi þjálfun. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins komi fram að í ríkinu sé farið með fanga á ómannúðlegan og vanvirðandi hátt.

Kærandi krefst þess til þrautaþrautavara að Útlendingastofnun verði gert að taka mál kæranda til rannsóknar að nýju þar sem rannsóknarskylda stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið uppfyllt í málinu. Kærandi gerir athugasemd við þá málsmeðferð sem hann og fjölskylda hans hafi fengið hjá Útlendingastofnun en hann telji að málin hafi ekki verið rannsökuð með fullnægjandi hætti áður en ákvarðanir hafi verið teknar. Þá geri kærandi alvarlegar athugasemdir við að kæranda og fjölskyldu hans hafi verið brottvísað til heimaríkis áður en rökstuðningur hafi legið fyrir í málum þeirra, sérstaklega í ljósi dvalartíma þeirra hér á landi og þess að viðtal hafi farið fram við þau einum og hálfum mánuði fyrir birtingu ákvarðana í málum þeirra. Kærandi hafi óskað eftir því að flutningi hans og fjölskyldu hans yrði frestað þar sem að enginn rökstuðningur hafi legið fyrir í málum þeirra auk þess sem ekki hafi verið minnst á þá fangelsisrefsingu sem kærandi eigi í vændum í heimaríki í ákvörðun Útlendingastofnunar dags. 2. janúar 2018. Útlendingastofnun hafi ekki fallist á að fresta brottflutningi en áframsent erindi kæranda til kærunefndar útlendingamála sem hafi tekið það fyrir en ekki hafi verið unnt að úrskurða í málinu áður en kærandi og fjölskylda hans hafi verið send úr landi. Kærandi bendir á að auk þeirra rannsóknarskyldu sem felist í 10. gr. stjórnsýslulaga sé lögð sérstök rannsóknarskylda á Útlendingastofnun í 2. mgr. 23. gr. útlendingalaga. Þá bendir kærandi á að þrátt fyrir ákvæði 29. gr. laga um útlendinga um að heimilt sé að notast við lista um örugg upprunaríki gildi framangreindar rannsóknarreglur í máli einstaklinga frá slíkum ríkjum. Kærandi telur að í ljósi málsmeðferðartíma máls kæranda hjá Útlendingastofnun og þeirra gagna sem kærandi hafi lagt fram hafi ekki verið tækt að taka ákvarðanir í málinu og uppfylla rannsóknarskyldu stjórnsýslulaga án þess að fyllileg rannsókn færi fram fyrir töku ákvörðunarinnar og birtingu hennar. Í ákvörðun dags. 2. janúar 2018 séu talin upp þau gögn sem kærandi lagði fram og grundvelli umsóknar hans lýst í einni setningu. Utan þessarar setningar hafi texti ákvörðunarinnar verið almennur og ekki rökstuddur með neinum hætti.

Í greinargerð kemur jafnframt fram að kærandi hafi hlotið fangelsisdóm í heimaríki sem sé að hans sögn óréttmætur. Í ákvörðun Útlendingastofnunar dags. 2. janúar 2018 sé ekki fjallað um fyrirhugaða fangelsisvist að öðru leyti en því að skjal um afplánun kæranda hafi verið sent til þýðingar. Af hálfu kæranda hafi verið óskað eftir upplýsingum dags. 15. janúar 2018 um hvort framangreint skjal hafi borist úr þýðingu en í svari stofnunarinnar hafi því atriði ekki verið svarað en m.a. vísað til þess að heimilt sé að taka ákvarðanir í forgangsmálum án samhliða rökstuðnings. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi borið að rannsaka til hlítar ástæður fangelsisdóms kæranda og að nauðsynlegt hefði verið að þýðingar á framlögðum gögnum lægju fyrir við töku ákvörðunarinnar. Í nánari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni komi fram að stofnuninni hafi ekki verið fært að meta lögmæti dómsins og fangelsisrefsingarinnar út frá framlögðum gögnum. Er það mat kæranda að Útlendingastofnun hefði borið að rannsaka fyrir hvað kærandi hafi verið dæmdur og að kalla eftir nánari gögnum að lokinni þýðingu framlagðra gagna þegar fyrir hafi legið að gögnin sem stofnunin hafi haft undir höndum hafi ekki verið fullnægjandi. Útlendingastofnun hafi ekki sýnt fram á að stofnunin hafi uppfyllt skyldu sína til að komast í raun að staðreyndum málsins og meta þær og erfitt sé og jafnvel ómögulegt að bæta úr þessum ágalla á málsmeðferðinni þar sem kæranda hafi verið brottvísað frá landinu og hann hafi að öllum líkindum hafið afplánun.

Í ljósi framangreinds er það mat kæranda að misvísandi sé að tekið sé fram í ákvörðun Útlendingastofnunnar frá 2. janúar 2018 að ástæður flótta kæranda og fjölskyldu hans sé […] uppruni þeirra og þær hótanir sem þau hafi orðið fyrir en ekki sé fjallað um fangelsisvistina sem bíði kæranda í heimaríki. Athygli hafi verið vakin á þessu af hálfu kæranda við birtingu ákvarðananna þann 5. janúar sl., áður en nánari rökstuðningur hafi legið fyrir, og er því velt upp af hálfu kæranda hvort framangreind atriði hafi ekki verið tekin inn í mat stofnunarinnar fyrr en við ritun nánari rökstuðnings, eftir að ákvörðun hafi verið tekin í máli kæranda.

Kærandi telur, í ljósi rýrs rökstuðnings í málum kæranda og fjölskyldu hans, að einstaklingsbundið mat hafi ekki farið fram í málum þeirra og að heimaríki þeirra hafi ráðið mestu um niðurstöðu málsins. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi m.a. til þess að einstaklingsbundið mat á aðstæðum hverju sinni sé kjarni flóttamannahugtaksins og 3. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna sem leggi bann við því að mismuna flóttamönnum eftir ættlandi. Þá sé það mat kæranda að Útlendingastofnun hafi ekki framkvæmt skyldubundið mat við ákvörðun um hvort umsókn kæranda skyldi metin bersýnilega tilhæfulaus og honum ákveðin brottvísun og endurkomubann. Jafnframt bendir kærandi á að Útlendingastofnun hafi ekki verið heimilt að beita 45. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum og vísar til túlkunar kærunefndar útlendingamála máli sínu til stuðnings. Þá áréttar kærandi sérstaklega mikilvægi þess að málsmeðferð Útlendingastofnunar séu vönduð og í samræmi við stjórnsýslulög og lög um útlendinga í ljósi þess að ákvörðunin kveður á um að kæra fresti ekki réttaráhrifum, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun á fyrsta stjórnsýslustigi geti þannig haft í för með sé óafturkræfar afleiðingar í tilfellum á borð við mál kæranda.

Útlendingastofnun hafi getað frestað réttaráhrifum í máli kæranda þar sem ljóst hafi verið að rannsaka þyrfti málið betur og umsókn kæranda hafi þ.a.l. ekki verið bersýnilega tilhæfulaus. Að mati kæranda hefði átt, í ljósi málsatvika, að birta rökstudda niðurstöðu við birtingu í máli kæranda og sýna fram á að fullnægjandi rannsókn hafi átt sér stað. Sú staðreynd að kæranda hafi verið vísað af landi brott án þess að rökstuðningur hafi legið fyrir sé að mati kæranda óásættanlegt og til marks um að mál kæranda hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal Útlendingastofnun sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga, sbr. jafnframt 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Í málum sem varða umsóknir um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmið gerir rannsóknarreglan kröfu um að í málinu liggi fyrir nauðsynlegar og aðgengilegar upplýsingar um einstaklingsbundnar aðstæður umsækjanda og aðstæður í heimaríki. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.

Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun dags. 22. nóvember 2017. Í viðtalinu greindi kærandi m.a. frá því að hann hafi verið dæmdur til fangelsisvistar fyrir […]. Ákvörðun hefði verið tekin í máli hans og hann fengið […] fangelsisdóm. Kærandi lagði fram gögn frá heimaríki sem hann kvað renna stoðum undir frásögn sína en gögn málsins bera ekki með skýrum hætti með sér hvaða gögn kærandi lagði fram til stuðnings framangreindri málsástæðu sinni og hver þeirra voru lögð fram í öðrum tilgangi. Í samskiptum kærunefndar við Útlendingastofnun kom fram að einungis eitt þeirra skjala sem kærandi lagði fram hafi verið þýtt að frumkvæði stofnunarinnar. Samkvæmt þýðingunni ber skjalið með sér að vera boðun til kæranda um að mæta til afplánunar þriggja ára fangelsisrefsingar. Þar er vísað til númer dóms kæranda og þess að hann hafi verið dæmdur til refsingar.

Eins og að framan greinir voru önnur gögn málsins ekki þýdd. Liggur því ekki fyrir hvort eitthvert skjalanna sem kærandi lagði fram til stuðnings umsókn sinni um alþjóðlega vernd renni stoðum undir fullyrðingar hans um að hann hafi veri dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir […].

Í rökstuðningi ákvörðunar Útlendingastofnunar kom m.a. fram að kærandi hafi greint frá því að hafa verið ákærður fyrir […] og að hann eigi von á fangelsisrefsingu […] vegna þess. Í ákvörðuninni sagði jafnframt að stofnunin gæti ekki metið lögmæti dóms og fangelsisrefsingar umsækjanda út frá framlögðum gögnum í málinu. Það væri mat stofnunarinnar að kæranda stæði til boða aðstoð og vernd […] yfirvalda leiti hann eftir henni. Í eftirfarandi rökstuðningi Útlendingastofnunar var umfjöllun um þessa málsástæðu kæranda undir fyrirsögninni „Skilyrði viðbótarverndar – 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga“. Þar kom m.a. fram að í Handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna komi fram að gera verði greinamun á ofsóknum annars vegar og refsingu vegna afbrota hins vegar. Þeir sem flýi saksókn eða refsingu vegna afbrots, séu að öllu jöfnu ekki flóttamenn. Hugtökin ómannleg og vanvirðandi meðferð séu ekki skilgreind á samræmdan hátt í þjóðarétti en líta verði til eðlis máls og kringumstæðna í hverju tilviki fyrir sig til að ákvarða hvort aðstæður séu ómannlegar og/eða vanvirðandi. Í því sambandi var í ákvörðun Útlendingastofnunar vísað til skilgreininga á framangreindum hugtökum hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum og Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum fyrir fyrrum Júgóslavíu. Þá kom fram sá mælikvarði stofnunarinnar að til að refsing eða meðferð verði talin ómannleg þurfi þjáningin eða auðmýking, sem á sér stað, almennt að vera meiri en hin óhjákvæmilega þjáning og auðmýking sem fylgir löglegri meðferð eða refsingu. Í rökstuðningi í máli kæranda kom jafnframt fram að niðurstaða Útlendingastofnunar væri að refsingin sem kærandi ætti mögulega yfir höfði sé væri ekki talin óhófleg eða ósamrýmanleg viðurkenndum mannréttindareglum og jafngilti því ekki ofsóknum samkvæmt skilgreiningu. Þá yrði ekki talið að möguleg refsing kæranda væri ómannleg eða vanvirðandi.

Vegna rökstuðnings Útlendingastofnunar tekur kærunefnd í fyrsta lagi fram að mat á því hvort einstaklingur, sem sækir um vernd hér á landi, uppfyllir skilyrði þess að teljast flóttamaður fer fram á grundvelli laga um útlendinga nr. 80/2016 og annarra viðurkenndra réttarheimilda íslensks réttar. Þótt í einhverjum tilvikum geti verið rétt að líta til gagna sem stafa frá alþjóðastofnunum við túlkun ákvæða laganna, svo sem Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, geta slíkar vísanir eingöngu komið til fyllingar ákvæðum laganna. Í því sambandi bendir kærunefnd sérstaklega á að hugtökin ómannleg og vanvirðandi meðferð koma m.a. fyrir í 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en í samræmi við hefðbundnar lögskýringaraðferðir í íslenskum rétti eru ákvæði túlkuð til samræmis við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um athafnir sem geta talist ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laganna. Þar segir í c-lið að ofsóknir geti m.a. falist í saksókn eða refsingu sem er óhófleg eða mismunar einstaklingum á ómálefnalegum grundvelli.

Að mati kærunefndar verður frásögn kæranda í viðtali hjá Útlendingastofnun ekki skilin á annan veg en að hann hafi haldi fram ástæðuríkum ótta við ofsóknir í heimaríki sem felist í saksókn eða refsingu sem sé óhófleg og mismuni honum á ómálefnalegum grundvelli. Af rökstuðningi Útlendingastofnunar verður aftur á móti ekki ráðið að lagt hafi verið mat á hvort umrædd refsing félli að framangreindri lýsingu c-liðar 2. mgr. 38. gr. laganna. Þess í stað kemur fram mat stofnunarinnar á því að ekki væri unnt að meta „lögmæti“ dóms og fangelsisrefsingar hans og hvort refsingin væri ómannleg eða vanvirðandi í tengslum við hvort 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ætti við í málinu.

Að mati kærunefndar ber rökstuðningur Útlendingastofnunar ekki með sér að lagt hafi verið fullnægjandi mat á einstaklingsbundnar aðstæður kæranda út frá lagagrundvelli málsins. Þá bera gögn málsins og skýringar Útlendingastofnunar að mati nefndarinnar ekki annað með sér en að gögn frá heimaríki kæranda hefðu getað varpað betra ljósi á umrædda fangelsisrefsingu og þá hvort hún hafi verið óhófleg eða mismunað kæranda á ómálefnalegum grundvelli. Í því sambandi bendir kærunefnd á að í eftirfarandi rökstuðningi, dags. 18. janúar 2018, kom fram að Útlendingastofnun gæti ekki lagt mat á réttmæti og lögmæti dóms og fangelsisrefsingar kæranda á grundvelli framlagðra gagna en gögn málsins bera ekki með sér að kæranda hafi verið leiðbeint um að leggja fram frekari gögn í tengslum við þetta atriði málsins.

Til að Útlendingastofnun gæti lagt mat á ofangreinda þætti hefði verið óhjákvæmilegt að leiðbeina kæranda um að leggja fram afrit af þeim dómi sem kærandi vísaði til og að senda til þýðingar umræddan dóm, legði kærandi hann fram. Útlendingastofnun gaf ekki slíkar leiðbeiningar. Að mati kærunefndar hafði málið því ekki verið nægilega upplýst til að Útlendingastofnun gæti tekið efnislega rétta ákvörðun í því. Kærunefnd telur að með þessu hafi Útlendingastofnun brotið gegn 7. og 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd telur ástæðu til að árétta að þó svo að kærandi komi frá landi sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki er Útlendingastofnun engu að síður skylt að leggja einstaklingsbundið mat á þær aðstæður hans sem hafa þýðingu fyrir umsókn hans um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í 1. mgr. 29. gr. laga um útlendinga kemur fram að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála geta ákveðið að mál sæti forgangsmeðferð að uppfylltum skilyrðum sem tiltekin eru í a- og b-lið málsgreinarinnar. Þá kemur fram í 2. mgr. að styðjast megi við lista yfir ríki sem almennt eru talin örugg upprunaríki. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að mál þetta sætti forgangsmeðferð skv. 29. gr. laga um útlendinga. Málsmeðferð skv. 29. gr. laganna er ekki flýtimeðferð heldur aðeins forgangsmeðferð sem felur í sér heimild til að setja mál framar í röðina og afgreiða þau á undan þeim sem ekki frá slíka meðferð. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að 29. gr. frumvarpsins feli ekki í sér heimild til að falla frá neinum málsmeðferðarreglum laga um útlendinga heldur eingöngu heimild til forgangsröðunar. Hafið er yfir vafa að skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttar og málsmeðferðarreglur laga um útlendinga gilda að fullu um málsmeðferð skv. 29. gr. laga um útlendinga og að ákvörðun um að afgreiða mál sem forgangsmál felur ekki í sér heimild fyrir stjórnvöld til að beita reglunum með öðrum hætti en almennt gildir um meðferð umsókna um alþjóðlega vernd.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn í máli kæranda og að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á máli hans. Kærandi hefur verið fluttur úr landi. Kærunefnd telur ekki unnt að bæta úr þeim annmarka sem var á meðfer málsins hjá Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar er því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun. Með vísan til ofangreinds verður ekki hjá því komist að fella ákvörðun í máli kæranda úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

Athugasemd kærunefndar við mat Útlendingastofnunar á því hvort umsókn sé bersýnilega tilhæfulaus

Kærunefnd hefur hér að framan talið að umsókn kæranda hafi kallað á frekari rannsókn og að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. Af því myndi almennt leiða að umsókn hans teldist ekki bersýnilega tilhæfulaus í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Afleiðingar þess að Útlendingastofnun meti umsókn bersýnilega tilhæfulausa á röngum grundvelli eru meðal annars þær að takmarka verulega möguleika kærunefndar til að sinna lögbundnu hlutverki sínu, sem kann að felast í því að kalla umsækjanda til viðtals til að endurmeta trúverðugleika hans og rannsaka frekar þætti máls sem kærunefnd telur óljósa. Í ljósi þess árréttar kærunefnd fyrri tilmæli um að Útlendingastofnun þurfi að beita þessu mati af meiri varfærni til að draga úr líkum þess að umsækjandi verði fyrir óafturkræfum skaða vegna ótímabærs eða, eins og í tilviki kæranda, ólögmæts flutnings til heimaríkis.

Kærunefnd telur, eins og hér stendur á, þó ekki ástæðu til þess að taka afstöðu í þessu máli að hvaða marki flutningur kæranda til heimaríkis, sem var framkvæmdur áður en eftirfarandi rökstuðningur lá fyrir, kunni að samrýmast reglum stjórnsýsluréttar.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine his application for international protection.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Tryggvadóttir                                                                                               Pétur Dam Leifsson


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum