Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Um rafsígarettur og breytingu á lögum um tóbaksvarnir

Eftirfarandi eru nokkrar staðreyndir um efni frumvarps til breytinga á lögum um tóbaksvarnir að því er lýtur að rafsígarettum og regluverki um þær. Óhjákvæmilegt er að setja lagaumgjörð um rafsígarettur sem skortir hér á landi og er einnig skylt að setja, m.a. vegna innleiðingar Evróputilskipunar þar að lútandi á sviði tóbaksvarna.

Hingað til hafa engin sérstök ákvæði í lögum fjallað um heimildir til neyslu, sölu og markaðssetningar á rafsígarettum. Eins og staðan er í dag falla rafsígarettur sem innihalda nikótín undir skilgreiningu á lyfi samkvæmt lyfjalögum. Því má enginn flytja þær inn eða selja nema hafa áður fengið til þess markaðsleyfi frá Lyfjastofnun, ella er um brot á lyfjalögum að ræða.

Nikótínfíkn og lýðheilsusjónarmið

Í tilskipun Evrópusambandsins 2014/40/ESB er kveðið á um reglur innri markaðs Evrópusambandsins vegna framleiðslu, kynningar og sölu á tóbaki og tengdum vörum. Þar er aðildarríkjunum m.a. gert skylt að setja heildstæðar reglur um rafsígarettur. Sérstaklega er tekið fram að rafsígarettur geti leitt til nikótínfíknar og jafnframt stuðlað að hefðbundinni tóbaksneyslu þar sem með notkun þeirra er líkt eftir hefðbundnum sígarettureykingum. Þetta er í samræmi við ábendingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem hefur hvatt til þess að sambærileg lagaumgjörð gildi um rafsígarettur og um tóbaksreykingar. Drög að frumvarpi heilbrigðisráðherra sem birt voru til umsagnar fyrir skömmu byggjast á þessum sjónarmiðum.

Skýrar reglur um sölu, markaðssetningu og takmarkanir á neyslu

Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpsdrögum munu sömu reglur gilda um sölu og markaðssetningu á rafsígarettum og nú gilda hér á landi um tóbak. Sama máli gegnir um takmarkanir á neyslu, þannig að óheimilt verður að nota rafsígarettur á opinberum stöðum á sama hátt og gildir um tóbaksreykingar, líkt og nánar er kveðið á um í lögum um tóbaksvarnir.

Sömu aldurstakmörk munu gilda varðandi kaup á rafsígarettum og áfyllingarílátum og gilda um tóbak og sama gildir enn fremur um heimildir til að selja rafsígarettur og áfyllingarílát.

Vert er að geta þess að efni frumvarpsins snýr ekki að ákvörðunum um verðlagningu rafsígarettna eða vörum sem þeim tengjast.

Umsagnarfrestur

Bent er á að frestur til að skila umsögnum um drög að frumvarpi til breytinga á lögum um tóbaksvarnir rennur út 24. febrúar.

Óskað er eftir að umsagnir verði sendar velferðarráðuneytinu í tölvupósti á póstfangið: [email protected] og að í efnislínu standi: „Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um tóbaksvarnir.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira