Hoppa yfir valmynd
27. október 2000 Utanríkisráðuneytið

Nr. 083, 27. október 2000 Ræða fastafulltrúa á allsherjarþingi S.þ. um málefni hafsins og hafréttarmál

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Þorsteinn Ingólfsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, flutti í gær ræðu á allsherjarþingi S.þ. um málefni hafsins og hafréttarmál. Í ræðu sinni fagnaði fastafulltrúi því að málefni hafsins fengju stöðugt meiri athygli á allsherjarþinginu. Hafið hefði sérstaka þýðingu fyrir Ísland þar sem efnahagur þess byggðist á sjálfbærri nýtingu lifandi auðlinda hafsins. Gott ástand og ábyrg stjórnun hafsins hefði því afgerandi þýðingu fyrir Ísland.
Fastafulltrúi gerði sérstaklega að umtalsefni umfjöllun allsherjarþingsins um mál sem tengjast fiskveiðum. Lagði hann áherslu á að á þessum vettvangi bæri að fjalla um tiltekin málefni sem væru hnattræns eðlis en ekki mál sem féllu undir fullveldisrétt ríkja. Þannig væri rétt að ræða á allsherjarþinginu um mengun hafsins, enda virti hún engin landamæri og glíma yrði við hana með hnattrænum aðgerðum. Verndun og sjálfbær nýting lifandi auðlinda hafsins væri hins vegar dæmi um staðbundið eða svæðisbundið málefni. Ísland gæti ekki fallist á hnattræna stjórnun fiskveiða þar sem fiskveiðistjórnun félli undir fullveldisrétt einstakra ríkja eða væri á ábyrgð svæðisbundinna fiskveiðistjórnunarstofnana. Ísland stæði ákveðið gegn öllum tilraunum á allsherjarþinginu til að samþykkja ályktanir þessa eðlis.
Í þessu sambandi minnti fastafulltrúi á að hafréttarsamningurinn myndaði hinn lagalega ramma sem umfjöllun um málefni hafsins yrði að byggjast á. Undirstrikaði hann mikilvægi hafréttarsamningsins og úthafsveiðisamningsins og hvatti þau ríki, sem ekki hefðu fullgilt þessa samninga, til þess að gera það hið fyrsta.
Ræða fastafulltrúa fylgir hjálagt.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum