Hoppa yfir valmynd
20. september 2022 Utanríkisráðuneytið

Fjórðungur jarðarbúa býr í óstöðugum ríkjum

Stríð Rússa gegn Úkraínu, langvarandi faraldur kórónuveirunnar og tjón af völdum hamfarahlýnunar eru þrír samverandi þættir sem veikja stöðu fátækustu ríkja heims, að því er fram kemur í árlegri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunar Sameinuðu þjóðann, OECD, um óstöðug ríki.

Samkvæmt skýrslunni - States of Fragility 2022 – sem kom út í gær eru sextíu ríki í flokki óstöðugra ríkja, fleiri en nokkru sinni frá því OECD hóf útgáfu árlegra samantekta fyrir sjö árum um ríki sem búa við efnahagslegar, umhverfislegar, félagslegar og pólitískar ógnir, sem þau hafa ekki burði til að takast á við.

Í þessum sextíu ríkjum, svæðum eða heimshlutum býr um fjórðungur mannkyns, eða 24 prósent jarðarbúa. Um 73 prósent lifa við sárafátækt og þar búa 95 prósent þeirra 274 milljóna manna sem Sameinuðu þjóðirnar telja að þurfi á mannúðaraðstoð að halda.

„Við lifum tíma sem skilgreindir eru út frá margþættum ógnum, áföllum og óvissu,“ segir í skýrslu OECD.

Aðeins einn af hverjum þremur einstaklingum í óstöðugum ríkjum hefur fengið bóluefni gegn COVID-19, samanborið við þrjá af fjórum í vel stæðum ríkjum OECD. Þá er vakin athygli á því í skýrslunni að óstöðugu ríkin sextíu standa einungis undir 4 prósenta losun gróðurhúsalofttegunda en verða hins vegar illilega fyrir barðinu á náttúruhamförum sem tengjast hamfarahlýnun.

Þau fimm ríki á lista OECD sem er verst stödd eru Sómalía, Suður-Súdan, Afganistan, Jemen og Miðafríkulýðveldið. Ný ríki á listanum eru Benín, Tímor-Leste og Túrkmenistan. Engin ríki hurfu af listanum frá fyrra ári.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

1 Engin fátækt
2. Ekkert hungur
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum