Hoppa yfir valmynd
13. desember 2018 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Frumkvöðlafræðsla skapar ný tækifæri

Frumkvöðlafræðsla skapar ný tækifæri - myndMOTIV/ Jón Svavarsson
Markmið samtakanna Ungir frumkvöðlar á Íslandi (e. JA Iceland) er að undirbúa ungt fólk fyrir framtíðina og auka færni þeirra til atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar með því að stuðla að aukinni nýsköpunar- og frumkvöðlafræðslu í skólum. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sótti stjórnarfund samtakanna á dögunum og ræddi við stjórnarfólk um áherslur í íslenska menntakerfi og verkefni á sviði nýsköpunar- og frumkvöðlafræðslu í grunn- og framhaldsskólum.

„Skapandi hugsun og hagnýting þekkingar eru lykilhæfni samkvæmt aðalnámsskrá grunnskólanna og á þeim vettvangi eru ýmis spennandi verkefni sem við sjáum til dæmis árangurinn af í gegnum í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Á framhaldsskólastiginu er líka mikil gróska, til dæmis gegnum Fablab-smiðjur sem veita nemendum aðgang að stafrænni framleiðslutækni til að þróa áþreifanlegar lausnir og Boxið sem er keppni milli framhaldsskóla landsins þar sem markmiðið er að vekja áhuga á tækni og tækninámi. Framtak Ungra frumkvöðla er þarft og þakklátt – við þurfum ávallt að vera vakandi fyrir nýjum leiðum til þess að efla unga fólkið okkar, kynna möguleika sem bjóðast og skapa ný tækifæri,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti styrkir Fyrirtækjasmiðju samtakanna sem skipulögð verður í 15 framhaldsskólum á vorönn 2019. Í því felst 13 vikna námskeið þar sem nemendum gefst tækifæri til þess að stofna og reka eigið fyrirtæki. Markmiðið með því er meðal annars að kynna ólíkan starfsvettvang og undirstöðuatriði þess að taka þátt í atvinnulífi, og efla skilning og þekkingu nemenda á því hvernig fyrirtæki eru skipulögð og rekin. Nemendur munu meðal annars þróa sínar eigin viðskiptahugmyndir, sækja um og ráða í stöður, gera viðskiptaáætlanir og fræðast um siðferði, samvinnu, stjórnun og ábyrgð.
Fyrirtækjasmiðja var haldin árið 2017 og tóku þá rúmlega 300 ungir frumkvöðlar þátt.

Samtökin Ungir frumkvöðlar tilheyra alþjóðlegum samtökum Junior Achievement sem starfa í 123 löndum en um 10,5 milljónir nemenda hafa tekið þátt í verkefnum á vegum samtakanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum