Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 342/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 15. júlí 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 342/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21050032

 

Beiðni […]

um endurupptöku

 

I.             Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 26. apríl 2019, í máli nr. KNU19020075, staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. febrúar 2019, um að synja einstaklingi er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Írak (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi samkvæmt 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, samkvæmt 1. mgr. 74. gr. sömu laga.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 29. apríl 2019. Þann 6. maí 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun á réttaráhrifum úrskurðarins og þann 16. maí 2019 var þeirri beiðni hafnað. Þann 26. mars 2020 lagði kærandi fram stefnu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, á hendur íslenska ríkinu, til ógildingar á framangreindum úrskurði kærunefndar í máli hans og samkvæmt upplýsingum frá ríkislögmanni er dómsmálið enn til meðferðar. Þann 14. maí 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurðinum og barst greinargerð sama dag ásamt fylgigögnum. Þann 1. júlí 2021 bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir og fylgiskjöl.

Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans er reist á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kærenda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku aðallega á því að úrskurður kærunefndar í máli hans hafi verið byggður á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga og til vara að aðstæður í máli hans hafi breyst verulega frá því úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Í greinargerð vísar kærandi til fylgiskjala sem hann kveður að sé frumrit handtökutilskipana frá heimaríki hans þar sem því sé slegið föstu að kærandi sé eftirlýstur í heimahéraði sínu, Sulaymaniyah. Kærandi vísar til þess að í úrskurði kærunefndar í máli hans nr. KNU19020075 hafi hann greint frá því að hann óttist að snúa aftur til heimaríkis þar sem valdamiklir einstaklingar hafi hótað honum lífláti og pyndingum. Telur kærandi að umræddar handtökutilskipanir séu tilraun þeirra til þess að beita lögreglu og dómskerfi héraðsins gegn kæranda. Kærandi kveður að umræddar handtökutilskipanir séu í fullu samræmi við frásögn hans og til þess fallin að varpa ljósi á að úrskurður kærunefndar í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, en í málinu hafi verið talið að gögn málsins gæfu ekki til kynna að kærandi væri í raunverulegri hættu á heimasvæði sínu.

Í viðbótarathugasemdum kæranda kemur fram að öryggisástand í heimaríki kæranda, sem og á yfirráðasvæði Kúrda, hafi farið versnandi síðan ákvörðun í máli hans hafi verið tekin. Vísar kærandi til þess að á árinu 2021 hafi árásir verið gerðar, m.a. á Erbil höfuðborg Kúrda, auk þess sem tyrkneski herinn hafi m.a. hæft skotmörk sem hafi orðið til þess að flóttamenn hafi látið lífið. Þá hafi Bandaríkjaher framkvæmt loftárásir á landamærum Írak og Sýrlands og telur kærandi að slíkar árásir muni hafa í för með sér meiri óstöðugleika á svæðinu. Kærandi telur að flótti innan yfirráðasvæðis Íraks sé af þessum sökum ekki raunhæfur eða a.m.k. ekki mannúðlegur kostur. Framangreindu til stuðnings vísar kærandi til fréttagreina meðfylgjandi greinargerð hans. Þá kveður kærandi að þörf sé á að endurmeta hvort hann falli undir 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir að kærunefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu árið 2019 að heimaríki kæranda hafi verið öruggt bendi nú allt til þess að hann muni vera í raunverulegri hættu verði hann sendur til heimaríkis. Aðstæður í máli hans hafi því breyst verulega frá því úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp og því séu skilyrði fyrir endurupptöku, samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, uppfyllt.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærunefnd kvað upp úrskurð í máli kæranda þann 26. apríl 2019. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku í fyrsta lagi á því að niðurstaða í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og vísar í því sambandi m.a. til framlagðra handtökutilskipana, og enskrar þýðingar kæranda á þeim, máli sínu til stuðnings. Í framlögðum handtökutilskipunum, sem dagsettar eru þann 4. október 2020, kemur m.a. fram nafn kæranda, hverfi og heimaborg kæranda auk þess sem tilgreint er að kærandi sé grunaður um að hafa framið glæp gegn fjölskyldunni (e. family crime). Tilskipanirnar bera með sér að hafa verið gefnar út af dómstólaráði í Sulaymaniyah (e. Judicial Council) til handa lögreglu o.fl. og undirritaðar af tveimur dómurum hjá áfrýjunardómstóli borgarinnar.

Þann 25. maí 2021 sendi kærunefnd umræddar handtökutilskipanir til flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum til rannsóknar. Í skýrslu lögreglu, dags. 27. maí 2021, kemur m.a. fram að skjölin séu ekki öryggisskjöl, grunnefni þeirra, pappírinn, sé ekki öryggispappír og beri enga öryggisþætti. Þá finnist engin samanburðargögn fyrir skjöl af þessari gerð í gagnagrunnum lögreglunnar. Prentun skjalanna sé gerð með tækni sem sé aðgengileg og af litlum gæðum. Þá séu innfærðar upplýsingar skrifaðar með penna auk þess sem stimplarnir í skjölunum eru blautstimplar, sem þó líkist stimplum sem sjá megi á samanburðargögnum fyrir skjöl útgefin af dómstólum í heimaríki kæranda. Þá kemur fram, varðandi aðra handtökutilskipunina, að grunur sé um að mynd hafi verið tekin af öðru skjali, handskrifaðar upplýsingar strokaðar út og skjalið prentað þannig út til nýrrar útfyllingar. Kemur þá jafnframt fram að við skoðun á bleki skjalanna þyki mjög líklegt að einn og sami aðilinn hafi fyllt skjölin út þrátt fyrir að undirskriftir beri með sér að undirritun stafi frá tveimur aðilum. Þá séu skjölin stíluð á aðila innan dómskerfisins og lögreglu sem veki upp spurningar um hvernig skjölin hafi ratað í hendur þess aðila sem tilskipunin er gefin út á hendur. Þá veki líka grunsemdir að samskonar en þó ólík skjöl séu gefin út um sama efni á sama degi. Er það niðurstaða lögreglu í skýrslunni að skjölin tvö og innihald þeirra sé ótraustvekjandi.

Kærunefnd áframsendi, þann 11. júní 2021, skýrslu flugstöðvardeildar til kæranda og veitti honum frest til þess að koma á framfæri andmælum og athugasemdum við hana á grundvelli 13. gr. stjórnsýslulaga. Í svari kæranda, dags. 18. júní 2021, kemur fram að kærandi mótmæli efni rannsóknarskýrslunnar og kveður að engin afgerandi niðurstaða um efni skjalanna hafi komið fram. Í samræmi við meginreglur flóttamannaréttar sé gerð sú krafa að kærunefnd rannsaki efni og uppruna skjalanna frekar ellegar láti kæranda njóta vafans. Kærandi kveður að honum hafi ekki verið leiðbeint með fullnægjandi hætti um hvaða skjöl honum hafi staðið næst til að afla líkt og eðlilegt hefði verið í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga og 196., 197. og 203. gr. handbókar um réttarstöðu flóttamanna frá 1979. Þá hafi ekki verið gerð tilraun til að afla samþykkis kæranda um að haft yrði samband við viðeigandi yfirvöld sem kynnu að hafa skjöl sem þýðingu hefðu fyrir mál hans undir höndum. Þá ítrekar kærandi óskir sínar um að mál hans skuli endurupptekið auk þess að gera frekari athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar og kærunefndar í máli hans.

Í úrskurði í máli kæranda, nr. KNU19020075, kemur fram að gögn um aðstæður í heimaríki hans hafi dregið úr trúverðugleika frásagnar hans um að hann ætti á hættu heiðurstengt ofbeldi í heimaríki af hálfu frænda konu sem hann hafi verið í sambandi við, sem sé háttsettur embættismaður þar í landi. Kærandi lagði jafnframt fram fyrir kærunefnd nokkuð af gögnum og er innihald þeirra rakið í úrskurðinum. Var það niðurstaða kærunefndar að framlögð gögn og frásögn kæranda hafi verið að öllu leyti ótrúverðug og voru ekki lögð til grundvallar í máli hans.

Líkt og að framan greinir hefur kærandi m.a. lagt fram tvö skjöl frá heimaríki sem hann kveður að séu handtökutilskipanir á hendur honum en það var niðurstaða rannsóknar flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum að umrædd skjöl og innihald þeirra væri ótraustvekjandi. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar og fyrri úrskurðar kærunefndar í máli kæranda, er það mat kærunefndar að framlagðar handtökutilskipanir leggi ekki frekari grunn að málsástæðum kæranda eða gefi til kynna að þær upplýsingar sem nefndin byggði á þegar hún kvað upp úrskurð sinn, þann 26. apríl 2019, hafi verið ófullnægjandi eða rangar.

Þá byggir kærandi beiðni sína um endurupptöku í öðru lagi á því að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin og vísar til framlagðra handtökutilskipana og til fréttagreina um aukin átök í heimaríki. Með vísan til framangreindar umfjöllunar um handtökutilskipanirnar er það mat kærunefndar að umrædd skjöl gefi ekki til tilefni til að ætla að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá því ákvörðunin var tekin.

Þá hefur kærandi lagt fram fréttagreinar sem að hans mati gefa til kynna aukin átök í heimaríki hans. Kærunefnd tekur fram að þrátt fyrir að umræddar árásir hafi verið gerðar í heimaríki kæranda þá hafi þær annars vegar beinst að svæðum á landamærum ríkisins við Tyrkland og Sýrland og hins vegar á borgina Erbil en kærandi er sem áður segir frá borginni Sulaymaniyah. Telur kærunefnd af þeim sökum að umræddar fréttagreinar hafi takmarkað vægi fyrir beiðni kæranda um endurupptöku. Kærunefnd áréttar jafnframt að fréttagreinar um afmarkaðar árásir á hernaðarleg skotmörk í fjölmennu ríki líkt og heimaríki kæranda hafa takmarkað vægi þegar kemur að rannsókn kærunefndar á almennum aðstæðum í ríkinu. Það er mat kærunefndar að þrátt fyrir upplýsingar sem fram koma í framlögðum fréttargreinum um að átök hafi átt sér stað í Írak og við landamæri þeirra þá gefi upplýsingar og heimildir sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Kúrdistan, m.a. skýrsla European Asylum Support Office (EASO. Country Guidance: Iraq. Common analysis and guidance note. Janúar 2021. https://easo.europa.eu/country-guidance-iraq-2021 ) ekki til kynna að aðstæður þar í landi hafi breyst verulega frá árinu 2019. Að mati kærunefndar gefa framlögð gögn kæranda ekki tilefni til endurskoðunar á mati á stöðu hans með hliðsjón af 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Að framangreindu virtu er það því mat kærunefndar að ný gögn, þ.e. umræddar handtökuskipanir og upplýsingar af fréttarmiðlum séu ekki þess eðlis að hægt sé að leggja til grundvallar að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá því að nefndin úrskurðaði í máli hans.

Samantekt

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar, frá 26. apríl 2019, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt.

Er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                     Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum