Hoppa yfir valmynd
16. desember 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fjármagni veitt til bráðaaðgerða við Öxará, Hljóðakletta og Hesteyri

Gamla bryggjan við Hesteyri. - myndUmhverfisstofnun /Kristín Ósk

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið samþykkti nýverið að fjármagna eða flýta aðkallandi verkefnum á þremur viðkvæmum náttúruverndarsvæðum í gegnum landsáætlun um uppbyggingu innviða. Í gildand verkefnaáætlun Landsáætlunar 2021-2023, er gert ráð fyrir að hægt sé bregðast hratt við aðstæðum ef nauðsyn ber til, hvort sem er til að flýta verkefnum eða samþykkja ný, til að mynda vegna aðstæðna í náttúru eða skemmda af völdum veðurs.

Verkefnaáætlun Landsáætlunar 2021-2023 er hluti af tólf ára landsáætlun um uppbyggingu innviða. Alls hafa verið skilgreindir 150 ferðamannastaðir, ferðamannaleiðir og ferðamannasvæði, þar sem aðgerðir hafa þegar hafist fyrir tilstuðlan landsáætlunar eða eru fyrirhugaðar til og með árinu 2023. Í útgefinni verkefnaáætlun 2021-2023 er gert ráð fyrir um 720 m.kr. í innviðaverkefni þessa árs.

Ein bráðaaðgerðanna er á Hesteyri í Hornstrandarfriðlandinu, sem er vinsæll viðkomustaður ferðamanna, þar sem gestir koma sjóleiðina. Samþykkt hefur verið að flýta framkvæmdum  vegna endurnýjunar samgöngubryggju og gerð brúar, en áætlað er að kostnaður við þær nemi 48,5 m. kr. Flotbryggjan á Hesteyri var orðin hrörleg og var endurnýjun hennar á áætlun árið 2023. Þegar gamla bryggjan eyðilagðist í haustlægð nú í september var samþykkt að flýta verkefninu og tryggja með því að aðkoma að Hesteyri yrði komin í lag næsta sumar.  Í ljósi aðstæðna og til hagræðingar var framkvæmdum við brú yfir Hesteyrará einnig flýtt til 2021, en brúin mun auðvelda aðgengi að gamalli hvalstöð sem stór hluti gesta á Hesteyri heimsækir. Unnið er að undirbúningi hönnunar.

Viðgerð á brúarsporði og afmörkun gönguleiða

Í vor grófst undan brúarsporði við Öxará á Þingvöllum og var aðgengi þegar leyst til bráðabirgða. Til að hindra frekari skemmdir reyndist nauðsynlegt að gera lagfæringar á brúnni fyrir veturinn og var samþykkt að veita strax 4 m.kr. í verkið, sem nú er er í vinnslu.

Einnig má nefna að 7,5 m.kr. verður varið í afmörkun gönguleiða við Hljóðakletta (Rauðhóla) til að fyrirbyggja gróðurskemmdir á svæðinu, en von er á stóraukinni umferð í vor í tengslum við svonefndan Demantshring sem liggur um margar af náttúruperlum Norðausturlands.

„Það er mikilvægt að tryggja aðgengi og öryggi á áfangastöðum ferðamanna og Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarminjum er gott tæki til þess. Hún felur einnig í sér nauðsynlegan sveigjanleika til að unnt sé að bregðast skjótt við þar sem úrbóta er þörf, vegna álags eða tjóns sem verður á innviðum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. 

 

 


 

  • Brak úr gömlu bryggjunni hreinsað og flutt á brott. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum