Hoppa yfir valmynd
29. september 2020 Utanríkisráðuneytið

Söfnunarfé SOS Barnaþorpanna komið til Beirút

Ljósmynd frá Beirút: SOS Barnaþorpin. - mynd

Níu evrópsk samtök SOS Barnaþorpa söfnuðu 84 milljónum króna í neyðarsöfnun vegna sprenginganna í Beirút, höfuðborg Líbanons, í byrjun ágústmánaðar. SOS Barnaþorpin á Íslandi tóku þátt í söfnuninni og Íslendingar lögðu af mörkum eina og hálfa milljón króna. Söfnunarfé hefur verið sent til Beirút til stuðnings við neyðaraðgerðir eftir sprenginguna.

SOS Barnaþorpin leggja áherslu á að aðstoðin nái til barna sem hlutu andlegan, líkamlegan og félagslegan skaða. Einnig börn sem misstu foreldra eða forráðamenn og þurfa á umönnun að halda, börn sem eiga í hættu að missa foreldraumsjá, búa hjá tekjulitlum fjölskyldum eða búa á heimilum einstæðra mæðra.

Beinn stuðningur felst að sögn Hans Steinars Bjarnasonar upplýsingafulltrúa SOS Barnaþorpanna meðal annars í því að 130 fjölskyldur fá fjárhagslegan stuðning, 120 börnum er tryggður stuðningur við menntun gegnum spjaldtölvur, 50 börn fá nauðsynlega lyfjameðferð og 75 börn fá stuðning á sérstökum barnvænum svæðum. Þá hafa 5 til 10 börn sem misstu foreldra sína fengið tímabundna umönnun eða til lengri tíma í fjölskylduumhverfi í SOS barnaþorpi.

Hans Steinar segir að sálfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk á vegum SOS Barnaþorpanna séu til staðar í Beirút og áfram sé fylgst með berskjölduðum börnum og fjölskyldum sem gætu þurft á aðstoð að halda.

Hamfarirnar kostuðu minnst 135 mannslíf, yfir fjögur þúsund særðust og um 300 þúsund misstu heimili sín.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

 Heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna - Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira