Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp ráðherra á ráðstefnu um ofbeldi gagnvart öldruðum

Ávarp félags- og húsnæðismálaráðherra, flutt af Önnu Lilju Gunnarsdóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Sælir góðir gestir.

Það er gott að sjá svo marga á ráðstefnu um ofbeldi gagnvart öldruðum. Þetta er mikilvægt málefni, þetta er raunverulegt vandamál – en þetta er jafnframt, eins og svo margt sem miður fer í mannlegum samskiptum, afar dulið og því erfitt að festa hendur á því.

Áður en lengra er haldið vil ég þakka Öldrunarráði sérstaklega fyrir að eiga frumkvæði að ráðstefnunni hér í dag – en einnig öðrum sem að henni koma fyrir þeirra framlag.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki fróð um þetta umfjöllunarefni og því lá auðvitað beinast við hjá mér að setjast við tölvuna og googla svolítið eins og sagt er þegar ég var beðin um að segja hér nokkur orð. Í fyrsta lagi vildi ég vita hvernig ofbeldi gagnvart öldruðum er skilgreint og hvort slík skilgreining liggi fyrir. Ég fann fljótt að margir hafa gert tilraunir til að skilgreina ofbeldi gagnvart öldruðum og skilgreiningar eru því til og fleiri en ein og fleiri en tvær.

Ég vildi líka vita hvort einhverjar rannsóknir hefðu verið gerðar hér á landi á ofbeldi gagnvart öldruðum og sá strax að það er nærri óplægður akur. Í prentuðu erindi eftir Matthías Halldórsson frá árinu 2006, þá aðstoðarlandlækni, sagði hann enga tilraun hafa verið gerða til að meta ofbeldi gegn öldruðum hér á landi eftir því sem hann best vissi. Þar vakti hann líka athygli á því að erlendar rannsóknir sýndu oft mjög mismunandi tíðni á umfangi ofbeldis þótt rannsóknir væru gerðar í sama landi. Þetta skýrði hann meðal annars með skilgreiningarvanda en einnig því hve ofbeldi af þessum toga er mikið feimnismál, ekki aðeins af hálfu gerandans heldur oft þolandans líka.

Svo ég víki aftur að leit minni að upplýsingum um ofbeldi gegn öldruðum hér á landi er skemmst frá því að segja að böndin bárust fljótt að Sigrúnu Ingvarsdóttur sem flytur erindi hér á eftir og meistaraprófsritgerð hennar um ofbeldi gegn öldruðum, viðhorf, þekkingu og reynslu starfsfólks í heimaþjónustu. Þetta er tvímælalaust mjög mikilvægt sjónarhorn, því augljóslega er það starfsfólk sem sinnir hjúkrun og umönnun og veitir öldruðum liðsinni í lykilstöðu til að greina ofbeldi ef um slíkt er að ræða, hafi það til þess þjálfun og þekkingu. Um þetta mun Sigrún eflaust fjalla hér á eftir og einnig vænti ég um rannsókn hennar og Líneyjar Úlfarsdóttur þar sem endurtekin verður rannsókn sem gerð var árið 2007 meðal starfsfólks heimaþjónustu í Reykjavík. Í þeirri rannsóknin kom á daginn að margir starfsmenn höfðu grun um að aldraðir væru beittir ofbeldi og/eða höfðu orðið vitni að slíku. Þetta staðfestir auðvitað að vandinn er til staðar – og þessi vitneskja gerir þá kröfu til samfélagsins að horfast í augu við vandann og takast á við hann með einhverjum hætti.

Þess má geta hér að árið 2012 gerði Gallup könnun fyrir velferðarráðuneytið á Högum aldraðra – sem var sambærileg annarri könnun frá árinu 2006. Þar voru aldraðir sjálfir spurðir ýmissa spurninga um aðstæður sínar og ein þeirra var um hvort viðkomandi þekkti til eða hefði orðið var við að eldri borgarar hefðu verið vanræktir eða beittir ofbeldi af skyldmenni eða samfélaginu. Í könnuninni 2012 sögðust 3,7% þetta eiga við af hálfu skyldmenna og 5,9% af hálfu samfélagsins. Þetta gerir auðvitað ekki meira en að staðfesta vitneskju um vandann en gefur ekki kost á að draga ályktanir að öðru leyti.

Ég sá í grein eftir Sigrúnu Ingvarsdóttur og Sigurveigu H. Sigurðardóttur íslenska þýðingu á skilgreiningu ofbeldis gagnvart öldruðum sem margir styðjast við og er m.a. sama skilgreining og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin beitir en hún er svohljóðandi:

„Ofbeldi gegn öldruðum er ýmist einstök eða endurtekin athöfn eða skortur á athöfnum af hálfu þess/þeirra aðila sem hinn aldraði ætti að geta treyst. Þetta atferli veldur honum skaða eða andlegri þjáningu. Ofbeldið getur tekið á sig ýmsar myndir: líkamlegt ofbeldi, andlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, fjárhagsleg misnotkun eða viljandi/óviljandi vanræksla.“

Það er mjög mikilvægt þegar rætt er um þetta vandamál að þeir sem um það fjalla á einhvern hátt hafi sama skilning á inntakinu. Annars lendum við fljótt í ógöngum.

Erlendar rannsóknir á ofbeldi gegn öldruðum benda til þess að á bilinu 2 – 10% aldraðra verði fyrir ofbeldi. Þetta er víð spönn og segir okkur ekki mikið. Við þurfum líka að fara varlega í að heimfæra erlendar rannsóknarniðurstöður yfir á Ísland, því það er svo margt í aðstæðum og menningu þjóða sem haft getur áhrif, skipulag þjónustu við aldraða skiptir máli og eflaust svo ótal margt annað. Eins er mjög mikilvægt líka að átta sig á hvaða hópar aldraðra eru í mestri hættu á að sæta ofbeldi og við hvaða aðstæður það gerist helst.

Eitt er víst að öldruðum Íslendingum fjölgar ört og þróunin hér er sú sama og annars staðar á Vesturlöndum þótt hún sé heldur hægari. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur varað við því að fjölgun aldraðra ásamt þjóðfélagslegum breytingum geti leitt til hærri tíðni ofbeldis gegn öldruðum. Þetta þurfum við að taka alvarlega og finna leiðir til að greina ofbeldi, bregðast við því og síðast en ekki síst, finna leiðir til að fyrirbyggja að aldraðir séu beittir ofbeldi.

Mér finnst áhugaverð hugmynd sem rædd verður hér á eftir um réttindagæslumenn og hvort kerfi réttindagæslumanna fatlaðra sem nú er komin töluverð reynsla á – gæti verið þarft meðal aldraðra.

Ofbeldi í samfélaginu á sér mörg skuggaleg andlit sem víða leynast og valda tjóni. Til að vinna gegn ofbeldi er fyrsta verkefnið ávallt að afhjúpa það og viðurkenna það. Við þurfum ekki að fara mjög langt aftur í tímann til þess að sjá ákveðin svið ofbeldis sem aldrei voru rædd – aldrei færð í orð – eða klædd með orðum í búning. Þetta gerir lítið úr alvarleika ofbeldis og ef svona er horft á málin er augljóst að ekkert er gert til að sporna gegn ofbeldinu. Sem betur fer hefur mikið breyst í þessum efnum og viðhorf samfélagsins í þessum efnum þroskast.

 

Góðir gestir.

Fyrir tæpum mánuði var haldinn upphafsfundur landssamráðs gegn ofbeldi. Þar er um að ræða víðtækt samráð lykilaðila sem ákveðið hefur verið að efna til í því skyni að vinna gegn ofbeldi í samfélaginu, hvaða nafni sem það nefnist. Þetta starf er byggt á samstarfsyfirlýsingu sem ég tel til tímamóta – yfirlýsingu sem þrír ráðherrar undirrituðu þann 18. desember í fyrra um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

Í yfirlýsingunni sem að standa - auk mín – mennta- og menningarmálaráðherra og innanríkisráðherra segir að við séum einhuga um að vinna saman gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess, auka fræðslu og forvarnarstarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála“

Í yfirlýsingu er tilgreint að samstarfið muni beinast að aðgerðum til að sporna við ofbeldi gegn börnum, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi og ofbeldi gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Þá segir einnig að til ofbeldis sem yfirlýsingin tekur til teljist einnig hatursfull orðræða sem hvetur til ofbeldis eða annarrar refsiverðar háttsemi sem er lítillækkandi eða ógnandi í garð einstaklinga eða hópa.

Samhliða áherslu á stóraukið samráð verður unnið að því að bæta verklag þar sem þess gerist þörf, auka forvarnir og fræðslu, annars vegar gagnvart almenningi og börnum og hins vegar gagnvart þeim sem í störfum sínum geta á einhvern hátt komið að málum sem tengjast ofbeldi, hvort sem er innan menntakerfisins, velferðarkerfisins eða réttarvörslukerfisins. Rík áhersla er lögð á stuðning við þolendur ofbeldis og vernd þeirra en jafnframt er í yfirlýsingunni getið um nauðsyn þess að aðstoða gerendur ofbeldis við að horfast í augu við vanda sinn og takast á við hann svo draga megi úr ofbeldi í samfélaginu.

Ég er ekki í vafa um að þetta mikla samráð, þar sem skorin er upp herör gegn ofbeldi, hvaða nafni sem það nefnist og gegn hverjum sem það beinist mun skila árangri. Aldraðir verða að sjálfsögðu ekki undanskildir í þessu starfi og ég ætla að tryggja að sú áhersla skili sér örugglega inn í samráðið og að kallaðir verði til þeir sem búa yfir þekkingu og kunnáttu sem nauðsynleg er í þessu starfi.

Þakka ykkur fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum