Hoppa yfir valmynd
15. september 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 15. september 2023

Heilsum ykkur héðan af Rauðarárstígnum í blíðskaparveðri. Lítum yfir það sem var efst á baugi hjá ráðherra og sendiskrifstofum okkar um víða veröld í vikunni. 

Staða hinsegin fólks í Úganda og stuðningur við Úkraínu voru til umræðu á fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Anne Beathe Tvinnereim, þróunarmálaráðherra Noregs sem fór fram í Osló í vikunni.

„Það er ömurlegt að sjá hvernig mannréttindi hinsegin fólks í Úganda eru nú fótum troðin. Allar ákvarðanir í þessa veru eru einungis til þess fallnar að ala á fordómum, hatri og útskúfun minnihlutahópa, sem eru engu samfélagi til heilla. Samkynhneigð er enn álitin glæpur í yfir sjötíu aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna og víða um heim á sér nú stað alvarlegt bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks. Bæði Ísland og Noregur hafa beitt sér fyrir umbótum í mannréttindum hinsegin fólks á alþjóðavettvangi og við munum halda því áfram,” sagði Þórdís Kolbrún.   

Í sömu ferð hitti Þórdís Kolbrún Ajay Banga, forseta Alþjóðabankans ásamt öðrum ráðherrum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Á þeim fundi voru breytingar á hlutverki alþjoðlegra þróunarbankans, sem miða að því að endurskoða alla starfshætti, til umræðu. Einnig ræddu ráðherrarnir um málefni Úkraínu og hlutverk bankans til að milda áhrif stríðsins á fátækari ríki heims. 

Ráðherra tók einnig undir raddir sem lýstu yfir vanþóknun á rússneskum kosningunum sem fóru á dögunum fram í herteknum héruðum Úkraínu. 

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins tók þátt í 54. lotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sem hófst í Genf í vikunni og undirritaði í leiðinni samning við Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) um fjárstuðning til þróunarríkja við að koma á fót sjálfbærri fiskveiðistjórnun.

Ragnhildur Arnljótsdóttir, fastafulltrúi Íslands gagnvart Evrópuráðinu ítrekaði stuðning Íslands við Úkraínu á óformlegri ráðstefnu dómsmálaráðherra sem fór fram í Riga í vikunni.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, hefur í samstarfi við Félags Sameinuðu þjóðanna þýtt kennsluefni um flóttafólk á íslensku. Efnið er aðgengilegt á netinu og ókeypis. Heimsljós, fréttaveita utanríkisráðuneytisins um mannúðar- og þróunarmál greindi frá þessu í vikunni. 

Í sendiherrabústaðnum í Berlín stendur um þessar mundir yfir sýning Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur en gestum sem skrá sig býðst að koma á sérstaka leiðsögn um sýninguna þann 20. september næstkomandi. 

Á þriðjudaginn var fór fram kynning á bók Elizu Reid Sprakkar í sameiginlegu húsnæði norrænu sendiráðanna í Berlín, Felleshus. Bókin kom nýlega út í þýskri þýðingu og er bók mánaðarins í Felleshus. Sendiherra Íslands í Berlín, María Erla Marelsdóttir bauð gesti velkomna, þar á meðal forsetafrú Þýskalands, Elke Büdenbender, og útgefanda bókarinnar í Þýskalandi, Reginu Kammerer, sem er einnig handhafi íslensku fálkaorðunnar. Fjörlegum jafnréttisumræðum stjórnaði blaðakona frá Spiegel og að kynningu lokinni áritaði forsetafrú eintök bókarinnar.

William Freyr, staðgengill sendiherra í Peking fylgdi sendinefnd Atlanta flugfélagsins til Zhengzhou til að ræða þar  aukin viðskipti og samstarf.

Alþjóðlega jarðvarmaráðstefnan var opnuð í Peking í  lok vikunnar. Á meðal opnunarávarpa var upptaka af ávarpi Katrínar Jakobsdóttur. Ráðstefnan var síðast haldin á Íslandi 2021. Að þessu sinni var hún sótt af fleiri en 1300 sérfræðingum og fulltrúum fyrirtækja, stofnanna og stjórnvalda frá 61 landi. Um 40 Íslendingar sækja ráðstefnuna.

Hönnunarvika stendur nú yfir í Helsinki. Sendiherra Íslands í Finnlandi, Harald Aspelund bauð af því tilefni til viðburðar þar sem tveir hönnuðir frá hverju þátttökulandi kynna hönnun sína. Hönnuðurnir sem tóku þátt í viðburðinum að þessu sinni voru Sigríður Sunna Reynisdóttir og Jonathan Ingberg.

Og íslenska hönnunarteymið Þykjó stóð fyrir pop-up vinnustofu þar sem börn fengu að spreyta sig á hönnun á borgarlandslagi.

Á alþjóðadegi læsis, 8. september síðastliðinn greindu sendiráðsstarfsmenn Íslands í Kampala frá góðum árangri sem náðst hefur í menntun í gegnum þróunarsamvinnuverkefni Íslands í Úganda.

Árni Þór Sigurðsson sendiherra bauð til móttöku þann 12. september í samstarfi við Íslandsstofu og Iceland Innovation Week í tilefni komu sendinfndar á TechBBQ ráðstefnuna. Í ár taka yfir 40 íslensk fyrirtæki og sjóðir þátt í ráðstefnunni sem er met. 

Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Lilongwe og Kristjana Sigurbjörnsdóttir staðgengill forstöðumanns funduðu með Rosemary Kanyuka, aðallögmanni laganefndar Malaví um mikilvægi laga og réttar og samvinnu á því sviði milli ríkjanna.

Haustinu var fagnað og veturinn kortlagður á hádegisfundi í Aðalræðisskrifstofunni í Nuuk. 

Djassinn dunar víða í veröldinni, meðal annars í Ottawa þar sem hinn íslenski Sigmar Matthíasson heldur tónleika í næstu viku. Sigmar leikur á kontrabassa, kanadískur kollegi hans John Kofi Dapaah leikur á píanó og Joel Oppong-Boateng á trommur. Greint er frá tónleikunum á Facebook síðu sendiráðs Íslands í Kanada og fólk hvatt til að fjölmenna.

Í Osló tók sendiherra Íslands Högni Kristjánsson og starfsfólk sendiráðsins á móti fyrrum sendiherra Noregs á Íslandi, Aud Lise Norheim, á góðum fundi þar sem farið var yfir fyrri og komandi tvíhliða verkefni íslands og Noregs. 

Sendiráð Íslands í París auglýsti viðburð sem haldinn verður á mánudaginn næstkomandi í tilefni af Jafnlaunadeginum og hvetur fólk til að skrá sig.

Starfsfólk sendiráðsins í Stokkhólmi óskaði Karli XVI Gústaf konungi til hamingju með 50 ár í hásætinu. Hann hefur nú setið lengst allra sænskra konunga í Svíþjóð í sætinu. 

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Japan hitti ræðismann Íslands í Suður Kóreu Hyun-Jin Cho og kom af því tilefni þökkum til ræðismannanetsins alls sem Íslendingar þurfa oft og tíðum að reiða sig á ferðum sínum um heiminn.

Þá óskaði hann einnig tveimur nýjum ráðherrum í ríkisstjórn Japan, utanríkisráðherranum Yoko Kamikawa og uppbyggingarráðherranum Shinako Tsuchiya til hamingju með skipanina.

Sendiherra Íslands í Washington, Bergdís Ellertsdóttir afhenti á dögunum trúnaðarbréf sitt til sendiherra Mexíkó í Bandaríkjunum. 

Starfsfólk sendiráðsins í Washington fékk tækifæri til aðfyljast með æfingu íslensks glímufólks sem æfði í æfingabúðum í Vestur-Virginíu.Hópurinn samanstóð af núverandi glímukóngi, Einari Eyþórssyni, fyrrverandi glímudrottningu, Jönu Lind Ellertsdóttur og varaformanni Glímusambands Íslands Guðmundi Stefáni Gunnarssyni. Markmið ferðarinnar var að kynna íslenska glímu fyrir fyrstu viðbragsaðilum. Með hópnum í för var einnig Reynir A. Óskarsson sem hefur, ásamt William R. Short, rannsakað líf og bardagaaðgerðir víkinga og er hafsjór fróðleiks um glímu og margt annað sem viðkemur þjóðveldistímanum. 

Nú fer hver að verða síðastur að nýta sér snemmskráningarafslátt á Arctic Plastic ráðstefnuna sem fer fram í nóvemberlok.


Föstudagspósturinn verður ekki lengri að sinni. Við óskum ykkur endurnærandi helgar. 

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum