Hoppa yfir valmynd
9. júní 2017 Matvælaráðuneytið

Rödd Íslands sterk á hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir flytur ræðu á hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna - mynd

Þessa vikuna fer fram ráðstefna Sameinuðu þjóðanna, sem fjallar um heimsmarkmið samtakanna sem samþykkt voru árið 2015 og snúa að málefnum hafsins. Ráðstefnan, sem fram fer í höfuðstöðvum Sþ, samanstendur af almennri umræðu og sjö þemamálstofum, þar sem fjallað er um helstu hafáherslurnar; mengun heimshafanna, stjórn og verndun strandsvæða, súrnun sjávar, sjálfbærar fiskveiðar, stöðu smáeyríkja, vísindi og tæknilausnir og miðlun þekkingar, og frakvæmd Hafréttarsáttmála Sþ. Þá hafa ríki Sþ sameinast um ákall um aðgerðir til að bæta ástand heimshafanna, treysta samstarf og efla rannsóknir, vöktun hafsins og miðlun þekkingar og reynslu. Að síðustu hafa þáttakendur ráðstefnunnar lagt fram hátt í eitt þúsund áheit um aðgerðir, sem snúa að hreinna hafi, minni mengun, verndun lífríkis og sjálfbærum fiskveiðum.

Eins og eðlilegt er, skiptir ástand heimshafanna og lífríkis sjávar Ísland afar miklu máli í bráð og lengd. Þess vegna ákváðu íslensk stjórnvöld að taka virkan þátt í ráðstefnunni og hefur verið unnið að undirbúningi hennar í samstarfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis,  umhverfis- og auðlindaráðuneytis undir forystu utanríkisráðuneytisins. Þessi þrjú ráðuneyti skipuðu sendinefnd Íslands undir forystu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þorgerður Katrín stýrði ásamt fulltrúa Perú málstofu um hafvísindi og tækni í sjávarútvegi, en auk þess átti íslenska sendinefndin sérstakt framlag í málstofu um súrnun hafsins þar sem Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra talaði. Þá tóku fulltrúar Íslands þátt í málstofu um sjálfbærar fiskveiðar, og  um hafréttarmál. Jafnframt því tók íslenska sendinefndin þátt í fjölda hliðarviðburða.

Íslenska sendinefndin lagði áherslu á að mikilvægt væri að þjóðir heims tækju höndum saman til að bæta ástand heimshafanna með átaki í baráttunni gegn plastmengun og annarri, eftirfylgni við Parísarsamkomulagið m.t.t. losunar gróðurhúsalofttegunda og síðast en ekki síst með því að tileinka sér ábyrga fiksveiðistjórnun, sem í dag væri mjög vel mögulegt á grundvelli vísinda og tækni, eins og dæmin sanna. Íslendingar væru reiðubúnir til að miðla af reynslu sinni í þessum efnum og gerðu það m.a. með starfsemi sjávarútvegsskóla Háskóla Sþ, sem rekin væri á Íslandi. Fulltrúar skólans sóttu einnig ráðstefnuna og kynntu starfsemi hans.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum