Mál nr. 28/2024-Úrskurður
Mál nr. 28/2024
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A ehf.
gegn
B
Frávísun. Gildissvið.
Málinu var vísað frá kærunefnd jafnréttismála þar sem gildissvið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, tekur til jafnrar meðferðar einstaklinga. Kærandi, sem var lögaðili, gat því ekki reist rétt á lögunum á þeim grundvelli að honum hefði verið mismunað.
1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 27. febrúar 2025 er tekið fyrir mál nr. 28/2024 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
2. Með kæru, dags. 10. september 2024, kærði A ehf. synjun sveitarfélagsins B á umsókn kæranda um framkvæmdarleyfi fyrir efnistöku.
3. Með tölvupósti kærunefndar til fyrirsvarsmanns kæranda 31. október 2024 óskaði nefndin eftir nánari skýringum á efni kærunnar. Erindið var ítrekað 4. febrúar 2025 og kæranda greint frá því að ef umbeðnar skýringar bærust ekki kynni að koma til þess að málinu yrði vísað frá nefndinni, sbr. 1. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 408/2021, um kærunefnd jafnréttismála. Engin svör hafa borist frá kæranda.
Niðurstaða
4. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, kemur fram að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Í 2. gr. sömu laga kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, óháð þeim þáttum sem um geti í 1. mgr. 1. gr.
5. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
6. Gildissvið laga nr. 85/2018 tekur samkvæmt 1. mgr. 1. gr. til jafnrar meðferðar einstaklinga eins og að framan er rakið. Kærandi sem er lögaðili getur því ekki reist rétt á lögunum á grundvelli þess að sér hafi verið mismunað. Að því virtu er máli þessu vísað frá nefndinni, sbr. og 1. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 408/2021, um kærunefnd jafnréttismála.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.
Ari Karlsson
Andri Árnason
Maren Albertsdóttir