Hoppa yfir valmynd
17. september 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 433/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 17. september 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 433/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19060032

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. júní 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari Líbanon (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. júní 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 8. september 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 3. maí 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 6. júní 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 24. júní 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 8. júlí 2019. Þá bárust gögn frá kæranda þann 24. júlí 2019 og viðbótarathugasemdir 25. júlí og 4. september sl.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna hótana fyrrum viðskiptafélaga og bróður fyrrverandi eiginkonu sinnar.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé ríkisborgari Líbanon en hafi lengst af búið í Kúveit. Kærandi hafi haft atvinnu af viðskiptum en verið svikinn af viðskiptafélögum sínum í Kúveit og ofsóttur af þeim. Byggir kærandi á því að valdamikill maður að nafni […] sé á eftir honum og að hann hafi reynt að ná til kæranda í Líbanon. Árið 2008 hafi kærandi farið til Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og stundað viðskipti í félagi við annan mann að nafni […]. Kveður kærandi að sá maður hafi einnig svikið kæranda og beitt samböndum sínum í stjórnsýslunni og hjá dómstólum gegn honum, en kærandi hafi verið dæmdur til fangelsisvistar vegna viðskiptanna. Kærandi hafi afplánað fangelsisrefsingu á árunum 2009 til 2013 og í kjölfarið hafi hann leitað skjóls í heimaríki. Kveður kærandi að áðurnefndur […] hafi nokkrum sinnum hringt í systkini kæranda í heimaríki og krafist upplýsinga um hann. Í eitt skipti hafi mágkona kæranda svarað símanum og gefið […] fjölskyldunafn fyrrum eiginkonu kæranda. Skömmu síðar hafi bróðir fyrrverandi eiginkonu kæranda, sem hafi víðtæk tengsl innan hersins í heimaríki kæranda, neytt kæranda til að skilja við eiginkonu sína og tjáð kæranda að hann myndi drepa kæranda ef hann hefði samband við börn sín. Þá óttist kærandi að fyrrverandi viðskiptafélagar hans geti náð honum í heimaríki. Eftir komu hingað til lands hafi kærandi fengið upplýsingar frá fjölskyldumeðlim um að maður hefði komið í vinnuna til hans og spurt um kæranda. Kærandi kveðst jafnframt vera eftirlýstur í heimaríki.

Í greinargerð fjallar kærandi um aðstæður í heimaríki. Segir m.a. að þrátt fyrir að spilling opinberra starfsmanna sé refsiverð gerist embættismenn uppvísir að spillingu í stórum stíl í skjóli refsileysis. Dómstólar séu undir þrýstingi stjórnvalda og mútur greiddar í þeim tilgangi að hljóta hagstæða niðurstöðu. Þá sé mikil spilling sögð ríkja innan lögreglunnar.

Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að hann hafi orðið fyrir ofsóknum og verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis séu líkur á því að hann muni halda áfram að verða fyrir slíkum ofsóknum. Þá byggir kærandi á því að stjórnvöld hafi hvorki vilja né getu til að veita kæranda þá vernd sem hann þarfnist. Kærandi byggir einnig á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna samsafns athafna, sbr. 1. mgr. 38. laga um útlendinga. Byggir kærandi á því að að fyrrnefndir viðskiptafélagar hafi gert ítrekaðar tilraunir til að ná til hans í heimaríki. Með vísan til heimilda um spillingu og mútuþægni muni þessir aðilar ekki eiga í vandræðum með að fá upplýsingar um hann frá opinberum aðilum þar í landi. Þá óttist kærandi fyrrum mág sinn sem hafi tengsl innan stjórnkerfisins, en hann hafi hótað kæranda lífláti. Loks byggir kærandi á því að hann muni verða fyrir alvarlegri mismunun í heimaríki þar sem hann hafi búið erlendis nær alla sína ævi og sé súnní-múslimi en í heimaríki hans fari sjíta-múslimar með meiri völd. Byggir kærandi á því að með því að senda hann til heimaríkis myndu stjórnvöld brjóta gegn non-refoulement reglu þjóðaréttar sem m.a. lögfest sé í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Varakrafa kæranda er reist á því að raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í heimaríki, en hann hafi þegar orðið fyrir beinum hótunum um ofsóknir og skaða. Í umfjöllun um þrautavarakröfu byggir kærandi á því að vegna dvalar erlendis sé hann utangarðsmaður í heimaríki. Með vísan til þess og þeirra erfiðu persónulegu aðstæðna sem hann hafi lýst verði að telja hættu á að hann muni búa við erfiðar félagslegar aðstæður þar í landi. Í greinargerð gerir kærandi athugasemdir við hina kærðu ákvörðun er lúta m.a. að mati Útlendingastofnunar á því hvort kærandi geti notið verndar í heimaríki og vandamálum við túlkun í viðtali hjá Útlendingastofnun.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 25. júlí 2019, kemur fram að kærandi hafi lagt fram tiltekin skjöl til stuðnings framburði sínum, svo sem skjöl um handtökuskipun og farbann, upplýsingar um fjölskyldu kæranda og gögn um skilnað kæranda við fyrrverandi eiginkonu sína.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað líbönsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé ríkisborgari Líbanon.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Líbanon m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  •         2018 Country Reports on Human Rights Practices - Lebanon (U.S. Department of State, 13. mars 2019)
  •         World Report 2019 – Lebanon (Human Rights Watch, 17. febrúar 2019);
  •          Amnesty International Report 2017/18 – Lebanon (Amnesty International, 22. febrúar 2018)
  •         Hizbollah‘s Syria Conundrum. Middle East Report N°175 (International Crisis Group, 14. mars 2017); 
  •         Country Reports on Terrorism 2017 – Lebanon (U.S. Department of State, 19, september 2018); 
  •          2018 Report on International Religious Freedom: Lebanon (U.S. Department of State, 21. júní 2019) og
  •         Freedom in the World 2019 – Lebanon (Freedom House, 4. febrúar 2019).

Samkvæmt framangreindum gögnum er Líbanon lýðræðisríki með rúmlega sex milljónir íbúa. Rúmlega helmingur íbúa landsins eru múslimar, þar af eru 28,5% súnní-múslimar og 28,3% sjía-múslimar. Þá eru tæplega 37% íbúa landsins kristnir. Ríkið gerðist aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þann 3. nóvember 1972 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 5. október 2000.

Af framangreindum gögnum má ráða að nokkuð skorti á réttindavernd tiltekinna minnihlutahópa í Líbanon, þ. á m. fatlaðs fólks og hinsegin fólks, auk þess sem mismunun gagnvart konum sé viðvarandi í landinu. Alvarlegustu mannréttindabrotin í Líbanon séu handahófskenndar og ólöglegar aftökur og ofbeldi og pyndingar af hálfu öryggissveita landsins. Þá sé aðbúnaður í fangelsum og varðhaldi slæmur og takmarkanir á ferðafrelsi flóttamanna. Í ofangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að yfirvöld hafi virk úrræði til að rannsaka og refsa vegna misnotkunar á valdi. Þá sé deild innan innanríkisráðuneytisins sem hafi það hlutverk að stuðla að bættri virðingu lögreglunnar fyrir mannréttindum, m.a. með fræðslu til lögreglumanna. Samkvæmt skýrslunni geti borgarar lagt fram kvartanir gegn lögreglunni og fengið upplýsingar um niðurstöður málsmeðferðar vegna þeirra. Ber skýrslan einnig með sér að þótt lög kveði á um að spilling innan hins opinbera sé refsiverð hafi lögunum ekki verið framfylgt með fullnægjandi hætti og að víðtæk spilling innan hins opinbera þrífist í skjóli refsileysis. Þá séu takmarkanir á borgaralegum réttindum, s.s. tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að líbönsk yfirvöld hafi stjórn yfir hersveitum og öryggissveitum landsins. Hins vegar séu palestínskar hersveitir, Hezbollah samtökin og aðrir hópar sem yfirvöld hafi ekki stjórn yfir starfandi í Líbanon. Hezbollah samtökin séu hernaðar- og stjórnmálasamtök og hafi orðið til í kjölfar árásar Ísraels inn í Líbanon árið 1982. Meðlimir Hezbollah séu sjía-múslimar og njóti stuðnings fjölmargra sjía-múslima auk þess sem þeir njóti stuðnings frá hluta af kristnum íbúum landsins. Samtökin hafi töluverð ítök í Líbanon og taki virkan þátt í stjórnmálum landsins en samtökin eigi t.a.m. nokkra fulltrúa á líbanska þinginu. Samkvæmt gögnunum stundi samtökin ólöglegar handtökur og varðhald og hafi auk þess lýst yfir ábyrgð á mörgum umfangsmiklum hryðjuverkaárásum. Yfirvöld í Líbanon hafi ekki ráðist í neinar aðgerðir á síðustu árum til þess að takmarka eða útrýma starfsemi Hezbollah í landinu. Varnir landsins gegn öfgahópum hafi þó verið efldar á síðustu árum s.s. með auknu eftirliti á landamærum og flugvöllum. Þá hafi líbönsk yfirvöld lagt aukna áherslu á að draga úr peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, þ. á m. af hálfu Hezbollah.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Aðalkrafa kæranda er einkum reist á því að hann hafi orðið fyrir hótunum í heimaríki. Eins og áður er rakið kveður kærandi að fyrrum viðskiptafélagi hans, maður að nafni […], hafi ofsótt hann allt frá árinu 2008. Kærandi og […] hafi stundað viðskipti í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, en […] hafi svikið kæranda og beitt tengslum sínum við stjórnsýslu og dómstóla til að koma kæranda í fangelsi þar í landi. Eftir að hafa afplánað fangelsisrefsingu á árunum 2009 til 2013 hafi kærandi leitað skjóls í heimaríki. […] hafi hins vegar hringt í fjölskyldumeðlimi kæranda í heimaríki í nokkur skipti og óskað eftir upplýsingum um hann. Í einu slíku símtali hafi […] verið veittar upplýsingar um fjölskyldunafn eiginkonu kæranda. Í kjölfarið hafi bróðir eiginkonu kæranda, sem kærandi kveður að hafi víðtæk tengsl innan hersins, neytt kæranda til að skilja við eiginkonu sína. Þá hafi hann hótað kæranda lífláti ef hann hefði samband við börn sín. Kærandi byggir kröfuna einnig á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna samsafns athafna, þ.e. framangreindum atriðum, auk þess sem hann eigi á hættu að verða fyrir alvarlegri mismunun í heimaríki þar sem hann sé aðkomumaður og súnní-múslimi. Heldur kærandi því fram að lögregla hafi í eitt skipti haft afskipti af honum í heimaríki vegna trúar sinnar.

Þann 24. júlí sl. lagði kærandi fram ýmis gögn í tengslum við umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi. Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 25. sama mánaðar, kveður kærandi að m.a. sé um að ræða handtökuskipun á hendur kæranda, staðfestingu á því að kæranda hafi verið ákvarðað farbann frá heimaríki, svokallaða fjölskyldubók, þar sem fram komi upplýsingar um fjölskyldu kæranda, ásamt skjölum um skilnað kæranda við eiginkonu sína. Við meðferð málsins óskaði kærunefnd útlendingamála eftir því að lögregla framkvæmdi rannsókn á skjölunum og liggja niðurstöður þeirra rannsóknar fyrir í skýrslu frá lögreglu, dags. 12. ágúst 2019. Í skýrslunni kemur m.a. fram það mat lögreglu að grunsamlegt sé að sama leturgerð sé í meintum staðfestum afritum af handtökuskipun og ákvörðun um farbann og í útprentaðri þýðingu skjalanna á ensku, en þetta megi sjá á tölustöfum í skjölunum. Þýðingar skjalanna beri engan stimpil til staðfestingar á að þær hafi verið gerðar af löggiltum skjalaþýðanda. Að mati lögreglu sé ekki annað að sjá en að gjaldmerki séu ófölsuð en þau megi kaupa á internetinu. Í skýrslunni kemur fram að lögregla hafi lagt hald á sendingu frá Kína þann 4. júlí 2019 sem stíluð hafi verið á kæranda, en í sendingunni hafi verið fimm stimplar ásamt fjórum blekpúðum. Samkvæmt upplýsingum á sendingunni hafi stimplarnir verið sérsniðnir eftir pöntun. Fram kemur að tveir stimplanna séu sömu gerðar og notaðir hafi verið á tvö þeirra skjala sem hafi verið til skoðunar, þ.e. meintum gögnum um handtökuskipun og farbann. Var það ályktun lögreglu, með vísan til framangreinds, að þau skjöl væru ótrúverðug og líkur á að þau væru fölsuð. Þá var það ályktun lögreglu að afrit af skilnaðarvottorði sem kærandi lagði fram væri trúverðugt.

Skýrsla lögreglu var send kæranda þann 23. ágúst 2019 þar sem honum var veittur frestur til að koma á framfæri athugasemdum vegna hennar. Bárust athugasemdir þann 4. september 2019. Í athugasemdunum segir m.a. að þar sem stimplarnir hafi verið haldlagðir af lögreglu þann 4. júlí 2019 hafi hann aldrei haft stimplana undir höndum. Kærandi hafi lagt fram gögn hjá kærunefnd útlendingamála eftir haldlagninguna, eða þann 24. júlí 2019. Að því er varðar athugasemd lögreglu um að sama leturgerð hafi verið í gögnum kæranda og þýðingum þeirra telur kærandi að það bendi ekki til þess að skjölin hafi verið fölsuð, enda sé um að ræða mjög algenga leturgerð. Í athugasemdum frá kæranda segir að ætlunin hafi verið að afhenda yfirvöldum stimplana til stuðnings framburði hans um að stjórnvöld í heimaríki hans séu spillt og að auðvelt sé að múta stjórnvöldum.

Að mati kærunefndar gefa skýringar kæranda ekki til kynna að stimplanna hafi verið aflað í öðrum tilgangi en þeim að nota þá til fölsunar skjala. Þá hefur ekkert annað komið fram af hálfu kæranda sem gæti leitt til þess að vikið yrði frá ályktun lögreglu um framangreind gögn. Þegar horft er til þess að kærandi sérpantaði stimpla sömu gerðar og fram koma á fyrrnefndum skjölum og til þess sem fram kemur í skýrslu lögreglu að öðru leyti verður að leggja til grundvallar að framlögð gögn um handtökuskipun og farbann séu ótrúverðug. Verður frásögn kæranda um þau atriði því ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins enda er hún ekki studd öðrum trúverðugum gögnum. Er það jafnframt mat kærunefndar að framlagning gagnanna og kaup stimplanna rýri trúverðugleika frásagnar kæranda um önnur atriði málsins.

Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki sýnt fram á að honum stafi ógn af bróður fyrrum konu sinnar eða að sá einstaklingur hafi völd eða tengsl af þeim toga að kæranda kunni að stafa hætta af honum að því marki að hann teljist hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Við það mat er m.a. litið til trúverðugleika frásagnar kæranda að öðru leyti.

Kærandi byggir aðalkröfu enn fremur á því að hann hafi orðið fyrir afskiptum lögreglu í heimaríki vegna trúar. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um heimaríki kæranda verður ekki séð að súnní-múslimar verði fyrir aðkasti í ríkinu vegna trúar og að kærandi eigi á hættu að sæta ofsóknum af þeim sökum. Verður því heldur ekki talið að kærandi hafi sætt ofsóknum eða hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Verði kærandi fyrir áreiti í heimaríki sínu bera skýrslur um aðstæður í heimaríki kæranda sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar það með sér að hann eigi þess kost að leita viðeigandi aðstoðar og verndar yfirvalda. Þó að fallast megi á að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla í heimaríki kæranda sé að einhverju leyti ábótavant er það mat kærunefndar ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld þar í landi vilji ekki veita kæranda vernd gegn ofbeldi, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi byggir á því að hans bíði erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki, en hann hafi búið erlendis alla tíð og glími við erfiðar persónulegar aðstæður. Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga eru, í umfjöllun um erfiðar félagslegar aðstæður, tekin dæmi um aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi eða fella sig ekki við kynhlutverk sem sé hefðbundið í heimaríki og eigi á hættu útskúfun og ofbeldi við endurkomu. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda ekki til þess að kærandi muni búa við erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki vegna þeirra atriða sem hann vísar til. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi vera við ágæta heilsu en að hann væri með hátt kólesteról.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 8. september 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                Bjarnveig Eiríksdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum