Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Frá fréttafundi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar 2. nóvember um COVID-19

Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus aðalframkvædmastjóri WHO - myndMynd: Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) heldur reglulega fréttafundi þar sem fjallað er COVID-19 heimsfaraldurinn. Upptökur frá fréttafundum WHO eru aðgengilegar á vef stofnunarinnar og einnig er hægt að fylgjast með fundunum í beinni útsendingu. Hér á eftir samantekt frá síðasta fundi sem haldinn var 2. nóvember síðastliðinn. Næsti fundur verður haldinn næstkomandi föstudag.

Dr. Tedros Adhanom, framkvæmdastjóri WHO ávarpaði fundinn eins og venjulega en fram kom að hann er nú í sóttkví vegna samvista við einstakling sem hefur verið greindur með COVID-19. Hann hefur ekki fundið fyrir neinum sjúkdómseinkennum en er í sóttkví eins og reglur og verkferlar WHO segja fyrir um.

Dr. Tedros leggur áherslu á að allir fylgi leiðbeiningum því með því er mögulegt að rjúfa smitkeðjuna og verja heilbrigðiskerfin. Mörgum þjóðum hefur gengið vel að halda faraldrinum niðri en hjá sumum þjóðum í Evrópu og Norður Ameríku er hann í vexti. Því er mikilvægt að vera með virkar aðgerðir til að ná tökum á veirunni. Leiðtogar þessara þjóða þurfa að ákveða aðgerðir og kynna þær vel fyrir almenningi: „Það er á ábyrgð okkar allra að ná tökum á faraldrinum og við höfum séð það gert í mörgum löndum heims“ sagði Dr. Tedros.

WHO hefur gefið út myndbönd sem sýna hvernig margar þjóðir hafa náð árangri í baráttunni við COVID-19. „Við getum öll lært af reynslu og árangri þjóða í baráttunni“ sagði dr. Tedros. Því miður er faraldurinn í veldisvexti í sumum löndum og sjúkrahús við þolmörk sem eykur áhættu bæði sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks og setur starfsfólk í þá stöðu að þurfa að forgangsraða þjónustu við veika einstaklinga."O

Á fundinum kynnti Tedros þrjá sérfræðinga sem hver um sig fjallaði um reynslu frá eigin landi af COVID-19 og hvernig tekist hefur verið á við faraldurinn.

Prófessor YaeJean Kim frá Suður Kóreu sagði land sitt hafa verið með næst mesta fjölda tilfella í heiminum í febrúar og mars en nú greinast þar fáir með COVID-19. Lögð var áhersla á að fjölga COVID prófunum, rekja smit í hópsýkingum og setja fólk í sóttkví. Reynsla af MERS frá árinu 2016 hafði sýnt fram á mikilvægi þess að prófa sem fyrst og einangra smitaða fljótt. Sett var upp miðstöð fyrir þá sem voru með væg einkenni og opinberu sjúkrahúsin undirbjuggu sig fyrir mikinn fjölda innlagna vegna COVID-19. Læknar frá öðrum sjúkrahúsum komu til aðstoðar þegar mikið álag myndaðist og einkasjúkrahús komu einnig til aðstoðar við meðferð smitaðra. Samvinna stjórnvalda og heilbrigðisstarfsfólks var mjög mikilvæg í baráttunni og einnig þátttaka almennings við að fylgja leiðbeiningum. Sett var á fót teymi sérfræðinga sem vann með CDC (Center for Disease Control and Prevention) í Suður Kóreu að tillögum og hélt fréttamannafundi daglega til að kynna stöðu faraldursins. Landamærum Suður Kóreu var ekki lokað og ekki gripið til allsherjarlokana en áhersla var lögð á fjarlægðarmörk og þátttöku almennings. Önnur bylgja faraldursins varð um miðjan ágúst og september en náðist að ráða við þá bylgju með sameiginlegu átaki allra. Nú er landið að undirbúa sig fyrir veturinn.   

Prófessor Mervyn Mer frá Wits háskólanum í Suður Afríku og framkvæmdastjóri gjörgæsludeildar hjá Charlotte Maxeke í Jóhannesarborg tók næst til máls. Hann sagði 60 milljónir manna búa í Suður Afríku og um 55% íbúa með tekjur undir tveimur dollurum á dag. Skömmu eftir að fyrstu tilfellin greindust í Kína var settur á fót vinnuhópur sem undirbjó aðgerðaráætlun. Fyrstu tilfellin í Suður Afríku voru greind mun síðar en í Evrópu og Ameríku og tíminn nýttur til undirbúnings, m.a. með eflingu gjörgæsludeilda, útvegun ýmissa lækningavara og lækningatækja, þjálfun hjúkrunarfræðinga og ráðningu annars starfsfólks. Á nokkrum vikum var geta heilbrigðiskerfisins til að sinna COVID-19 sjúklingum aukin um helming. Prófessor Mer sagði að tækifæri fylgja hverri áskorun og að hinn mikli undirbúningur fyrir COVID-19 hafi styrkt kerfið og muni gagnast við meðferð annarra sjúkdóma í framtíðinni. Hann sagði reynsluna og þekkinguna sem orðið hefði til í faraldrinum sýna hvernig mögulegt er að gera meira fyrir minna. Undirbúningur er mikilvægur ásamt góðum samskiptum innan kerfisins og einnig að sýna frumkvæði. Í öllu ferlinu var samvinna mikil við sérfæðinga í öðrum löndum. „Lokaskilaboðin eru að gleyma ekki að sýna miskunnsemi og fylgja því sem Nelson Mandela kenndi þjóðinni að hægt er að sigrast á öllum aðstæðum.“

Síðust talaði Dr. Martha Lado, framkvæmdastjóri lækninga hjá Partners in Health í Sierra Leone og klínískur stjórnandi í gjörgæslu fyrir COVID-19 sjúklinga á herspítala í Freetown. Fyrsta tilfelli COVID-19 varð ekki fyrr en í lok mars og á síðustu sex mánuðum hafa verið greind rúmlega tvö þúsund tilfelli og 74 dauðsföll sem telst lágt hlutfall hjá sjö milljóna manna þjóð. Erfiður Ebola faraldur gekk yfir á árunum 2014 -2015 og á þeim tíma var greiningarstöðum fjölgað og smitrakning efld sem nýtist í baráttunni við COVID-19. Einnig var þjálfun heilbrigðisstarfafólks aukin á þessum árum sem nýtist einnig í dag. Takmarkanir voru settar á flugvöllum og víðtækar lokanir í þjóðfélaginu. Gjörgæslurúmum var fjölgað ásamt aðstöðu fyrir súrefnisgjöf. Undirbúningur fyrir aðra bylgju af COVID-19 hefur staðið yfir og reynslan frá Ebola-faraldrinum hefur nýst vel við að byggja upp heilbrigðiskerfið.

Dr. Tedros sagði slíkar reynslusögur sýna að faraldurinn hefur skapað tækifæri til að styrkja heilbrigðiskerfi þjóða sem er mikilvægt þegar kemur að því að þjóðir fara að aflétta takmörkunum. Leggja þurfi sérstaka áherslu á að verja og styrkja heilbrigðiskerfin. Að greina fljótt þá sem sýkjast, rekja smit og veita góða meðferð eru lykilþættir í baráttunni við COVID-19 sagði Dr. Tedros. „Mikilvægt er að allir geirar þjóðfélagsins taki þátt í því verkefni því fjárfesting í heilsu er fjárfesting í framtíðinni. Þátttaka þjóða í ACT Accelerator eykur möguleikann á að vinna sigur í baráttunni við veiruna.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum