Hoppa yfir valmynd
18. maí 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 532/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 532/2021

Miðvikudaginn 18. maí 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 12. október 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning búsetuhlutfalls ellilífeyris.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn 24. nóvember 2020 sótti kærandi um ellilífeyri og heimilisuppbót. Tryggingastofnun ríkisins samþykkti umsókn kæranda um ellilífeyri 1. janúar 2021. Með tölvubréfi 3. maí 2021 fór kærandi fram á skýringar frá stofnuninni á útreikningum lífeyris sem var svarað með tölvubréfi 16. júlí 2021 þar sem kærandi var upplýstur um að samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá Íslands hafi búsetutími hans á Íslandi á aldursbilinu 16 til 67 ára verið frá 27. desember 1965 til 1. september 1976 og svo frá 15. nóvember 2005 og greiðsluhlutfall væri því 54,49%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. október 2021. Með bréfi, dags. 19. október 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 19. nóvember 2021, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. nóvember 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 4. desember 2021 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. desember 2021. Viðbótargreinargerð barst frá stofnuninni með bréfi, dags. 5. janúar 2022, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. janúar 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 23. janúar 2022 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. janúar 2022. Viðbótargreinargerð barst frá stofnuninni, dags. 10. febrúar 2022, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. febrúar 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 18. febrúar 2022 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. febrúar 2022. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að frá byrjun árs 2021 hafi hann fengið greiddan ellilífeyri og heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins eftir að hafa frestað töku lífeyris í um fjögur ár.

Í byrjun árs 2015 hafi kærandi sótt um töku lífeyris frá Svíþjóð. Umsóknin hafi verið unnin í samráði við Tryggingastofnun á Íslandi og komi þar fram hvaða tímabil skuli reiknast sem búsetutími í Svíþjóð sem séu alls 162 mánuðir eða 13,5 ár. Að öðru leyti skuli búseta reiknast vera á Íslandi og þar segir „du ska därmed bli beräknad för bosättning på Island för de perioder som du har arbetstid på Island.” Í samræmi við þetta sé greiddur 2.815 SEK lífeyrir frá Svíþjóð mánaðarlega einungis árið 2021, eða sem nemi 41.775 íslenskum krónur miðað við núverandi gengi.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda hafi sænska Pensionsmyndigheten verið í samskiptum við Tryggingastofnun og fengið upplýsingar um atvinnutekjur kæranda á Íslandi, þar með talið fyrir tímabilið 1993 til 2005. Á árunum 1993 til 2005 hafi kærandi ekki verið með neinar atvinnutekjur í Svíþjóð en hann hafi hins vegar verið skráður í framhaldsnám þar og þess vegna hafi hann á þessum árum ekki unnið sér inn nein lífeyrisréttindi í Svíþjóð. Tryggingastofnun sé fullkunnugt um að allar atvinnutekjur kæranda hafi verið á Íslandi, bæði af áður innsendum gögnum frá kæranda og þeim upplýsingum sem stofnunin hafi látið Pensionsmyndigheten í té snemma árs 2015.

Það geti ekki verið eðlilegt að kærandi hafi hvorki í Svíþjóð né á Íslandi unnið sér inn nein lífeyrisréttindi á tímabilinu 1993 til 2005. Tryggingastofnun virðist ekki vilja taka tillit til þess að kærandi hafi verið með atvinnutekjur á Íslandi og hafi á umræddu tímabili greitt margvísleg opinber gjöld. Öll árin hafi hann verið með fullan persónuafslátt á Íslandi, enda úrskurðaður með skattalega heimilisfesti á Íslandi á tímabilinu. Engin opinber gjöld hafi verið greidd í Svíþjóð á þessum árum, enda hafi hann ekki stundað þar atvinnu

Í gildi sé samningur á milli Norðurlandanna er varði lífeyrismál sem eigi að tryggja að einstaklingar sitji ekki uppi réttindalausir við það að flytja á milli landa þegar komi að töku ellilífeyris og annarra lífeyrisgreiðslna. Búsetutími í Svíþjóð hafi á sínum tíma verið ákvarðaður 13,5 ár og hafi sú ákvörðun meðal annars verið byggð á upplýsingum frá Tryggingastofnun snemma árs 2015. Þar sé greinilega stuðst við eftirfarandi reglu: „Har man arbetstid í ett annat land ska det landet även bevilja bosättning.“ Tryggingastofnun hafi ákveðið að hafa þessa síðustu reglu að engu sem hafi leitt til þess að búsetuhlutfall kæranda hafi verið skert úr hófi og hann fái engin lífeyrisréttindi vegna tímabilsins 1993 til 2005.

Í ljósi framangreindra upplýsinga þurfi að leiðrétta þær greiðslur sem kærandi hafi fengið frá Tryggingastofnun. Með vísun til framangreinds óski kærandi eftir endurútreikningi og leiðréttingu á ellilífeyri og heimilisuppbót.

Í athugasemdum kæranda, dags. 4. desember 2021, kemur fram að ágreiningur málsins varði tímabilið 1. nóvember 1992 til 15. nóvember 2005 þegar kærandi hafi verið við háskólanám í Svíþjóð sem hann hafi fjármagnað alfarið með skattskyldum tekjum af eigin rekstri á Íslandi. Ekki hafi verið um að ræða neinar skattskyldar tekjur í Svíþjóð á þessu tímabili.

Ekki sé deilt um að lögheimili hafi verið formlega skráð á umræddu tímabili í Svíþjóð. Kærandi hafi hins vegar, vegna námsins, árlega sótt um skattalega heimilisfesti á Íslandi við skil á skattframtali sem hafi verið samþykkt af skattyfirvöldum. Megi því segja að í skattalegu tilliti hafi lögheimili verið skráð á Íslandi allt tímabilið.

Kærandi hafi lokið prófi þann 5. mars 1998 og framhaldsnámi þann 17. júní 2004. Eftir það hafi hann lokið við nokkur námskeið sem krafist hafi verið til doktorsprófs.

Við skoðun skattseðla (álagningarseðla skattstjóra) vegna tekjuáranna 1993 til 2005, komi fram að kærandi hafi verið með lögheimili á Íslandi á umræddu tímabili.

Framtaldar tekjur á Íslandi á umræddu tímabili hafi verið af eigin rekstri.

Kærandi vísar í fyrirliggjandi gögn þar sem komi fram að hann hafi greitt til íslenska ríkisins margs konar opinber gjöld á tímabilinu.

Í upphafi árs 2015 hafi kærandi sótt um ellilífeyri hjá Pensionsmyndigheten í Svíþjóð. Í mars sama ár hafi kæranda verið tilkynnt að haft hafi verið samband við Tryggingastofnun á Íslandi í því augnamiði að ákvarða búsetutímabil í Svíþjóð sem legið gæti til grundvallar ákvörðun á lífeyrisréttindum þarlendis. Á grundvelli upplýsinga frá Tryggingastofnun og annarra gagna hafi Pensionsmyndigheten úrskurðað hvaða tímabil skuli miða við þegar tekin hafi verið ákvörðun um búsetu og þar af leiðandi réttindi kæranda til lífeyris þar í landi. Þau séu: a) 31. ágúst 1976 til 31. desember 1984, b) 1. janúar 1986 til 31. maí 1986, c) 1. ágúst 1986 til 31. desember 1988 og d) 1. júlí 1990 til 31. október 1992.

Búsetutíminn í Svíþjóð sé því 13 ár, sex mánuðir og einn dagur. Af þessu sé augljóst að tímabilið 1. nóvember 1992 til 15. nóvember 2005 liggi fyrir utan framangreind búsetutímabil og leiði því ekki til neinna réttinda hvað lífeyri varði frá Svíþjóð.

Ekki sé ljóst hvaða tímabil Tryggingastofnun hafi upplýst Pensionsmyndigheten um að væru vinnutími á Íslandi. Hvorki hafi verið haft samband við kæranda og málið borið undir hann né hann upplýstur um niðurstöðuna á sínum tíma. Það verði að teljast undarlegt að stofnunin geti veitt slíkar upplýsingar um aðila sem hafi verið með sjálfstæðan rekstur. Kallað hafi verið eftir upplýsingum um þessi samskipti, bæði frá Tryggingastofnun og Pensionsmyndigheten, en svör hafi ekki borist.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segi: „Það er kærandi sjálfur sem ber ábyrgð á því tilkynna sig til og frá landi hverju sinni. Almennt telst lögheimili einstaklings vera þar sem hann dvelur meirihluta ársins.“ Varðandi þetta hafi kærandi fylgt öllum settum reglum þar sem hann hafi á árabilinu 1992 til 2005 dvalist meirihluta ársins í Svíþjóð, en hins vegar unnið á Íslandi nokkur styttri tímabil ár hvert, ávallt styttri en þrjá mánuði í hvert sinn. Þá sé ekki raunhæft að vera að færa lögheimili á milli landa í hvert sinn, þrisvar til fjórum sinnum á ári.

Í greinargerð Tryggingastofnunar sé fjallað um að útreikningar stofnunarinnar séu byggðir á skráningu á lögheimili og vilji kærandi breyta lögheimili sínu beri honum að snúa erindi sínu til Þjóðskrár Íslands. Kærandi kannast ekki við að hafa farið fram á það við stofnunina að lögheimilisskráningu hans verði breytt. Hins vegar telji hann eðlilegt í ljósi aðstæðna að búsetuskráning á Íslandi á tímabilinu 1. nóvember 1992 til 15. nóvember 2005 miðist við skattalega heimilisfesti á Íslandi sem í skattalegu tilliti sé litið á sem lögheimili af hálfu Ríkisskattstjóra. Allar tekjur kæranda á umræddu tímabili hafi verið taldar fram til skatts á Íslandi (en engar í Svíþjóð) og hafi íslenska ríkið, ásamt viðeigandi sveitarfélagi, rukkað inn öll opinber gjöld sem lögð hafi verið á kæranda á tímabilinu.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segi: „Varðandi námsmenn er einnig að finna sérákvæði í 15. gr. reglugerðar nr. 463/1999 en kærandi telur að námstímabil hans séu ekki reiknuð inn í búsetutíma hér á landi. Í þessu ákvæði er átt við þegar námsmenn eru áfram búsettir hér á landi en eru erlendis við nám enda séu þeir ekki tryggðir í almannatryggingum námslandsins. Kærandi var með búsetu í Svíþjóð á sínum námsárum og tryggður þar í landi meðan á námi hans stóð.” Þarna sé stofnunin með staðhæfingu í lokin sem standist varla skoðun. Í fylgiskjali E 205 SE lið 8 með greinargerðinni komi fram:

„1) Försäkringsperioder som ger rätt till inkomstgrundad pension/sjukersättning:

01.01.1977 – 31.12.1980 (4 år)

3) Bosättningsperioder som ger rätt till garantiersättning/garantipension:

31.08.1976 – 31.12.1984

01.01.1986 – 31.05.1986

01.08.1986 – 31.12.1988

01.07.1990 – 31.10.1992“

Ekkert þessara tímabila nái inn á það tímabil sem deilt sé um. Til frekari áréttingar sé rétt að vísa til greinar 8.1 og greinar 8.3 í sama skjali:

„8.1 Försäkringsperioder i Sverige: 4 år, 8.3 Bosättningsperioder i Sverige: 13 år 6 månader 1 dagar.“

Í bréfi frá Pensionsmyndigheten, dags. 27. apríl 2015, segi:

„Försäkringstid i Sverige 13 år 6 månader 1 dag.“

Að halda því fram að kærandi hafi notið fullrar tryggingaverndar erlendis á námstímanum sé því í hæsta máta vafasamt þegar ljóst sé til dæmis að alls engin lífeyrisréttindi hafa áunnist í Svíþjóð á umræddu tímabili.

Í skjali frá Pensionsmyndigheten segi: „För övrig tid som du uppgav bosättning i Sverige har du arbetstid på Island och du skall därmed bli beräknad för bosättning på Island för de perioder som du har arbetstid på Island.“ Vinnutímabilin á Íslandi hafi greinilega verið ákvörðuð á grundvelli upplýsinga frá Tryggingastofnun og því hafi ákvörðun Pensionsmyndigheten um að hafna öllum réttindum kæranda fyrir tímabilið 1. nóvember 1992 til 15. nóvember 2005 alfarið verið grundvölluð á þeim gögnum. Ljóst sé af framansögðu að afstaða Tryggingastofnunar stangist algerlega á við það sem Pensionsmyndigheten haldi fram.

Í greinargerð Tryggingastofnunar sé vísað í 5. gr. laga nr. 119/2019. Þau lög fjalli um skráningarskyldu félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri og geti því ekki átt við hér. Hér virðist hafa verið átt við lög nr. 119/2013 um lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar sem hafi tekið gildi 26. nóvember 2013, sem sagt áður en umsókn kæranda hafi verið til umfjöllunar hjá „sænska Pensionsfonden.“ Í þessu samhengi sé rétt að benda á fylgigagn E 210 SE með greinargerð Tryggingastofnunar, sem sé afrit af útfylltu eyðublaði með erindi sem beint sé til Tryggingastofnunar á Íslandi, en þar sé stofnunin tilgreind sem „utredande institution.“ Greinilegt sé af þessu og því sem áður hafi verið nefnt að Tryggingastofnun hafi verið höfð með í ráðum við meðhöndlun umsóknar kæranda hjá Pensionsmyndigheten í byrjun árs 2015. Sendar hafi verið út upplýsingar um vinnutíma á Íslandi sem Tryggingastofnun vilji nú meina að hafi ekki átt að skipta neinu máli fyrir niðurstöðuna. Ekkert bendi til þess að Tryggingastofnun hafi gert athugasemd við afgreiðslu umsóknarinnar á sínum tíma, sem stofnunin hefði ábyggilega gert ef hún hefði álitið að verið væri að brjóta á réttindum íslensks ríkisborgara erlendis.

Í ljósi framangreinds verði því ekki trúað að Tryggingastofnun sé stætt á því að snúa nú við blaði og gera ágreining úr þessu eftir meira en sex ár í því augnamiði að ná fram ítrustu skerðingu á lífeyri kæranda, sem ekki sé mikill fyrir.

Í lok greinargerðar Tryggingastofnunar sé vísað til þess að kærandi fái ellilífeyri frá Pensionsmyndigheten, til upplýsinga sé um 2.815 SEK að ræða.

Í stuttu máli megi segja að niðurstaðan sé sú að bæði Pensionsmyndigheten í Svíþjóð og Tryggingastofnun segi að kærandi eigi engin réttindi á umræddu tímabili. Að mörgu leyti megi þó segja að það sé ólíku saman að jafna. Á meðan kærandi hafi stundað háskólanám í Svíþjóð á tímabilinu hafi hann greitt öll sín opinberu gjöld til íslenska ríkisins á um 13 ára skeiði. Svo sé reynt að túlka allar hugsanlegar reglur á þann veg að ekki komi til greina að hann fái eina einustu krónu í lífeyrisgreiðslur frá íslenska ríkinu, byggt á réttindum fyrir þetta tímabil. Því verði vart trúað að íslenska ríkið geri svo óburðuga milliríkjasamninga að íslenskur ríkisborgari, sem stundi nám í öðru norrænu landi og velji að fjármagna það með skattskyldum tekjum sínum á Íslandi, þurfi að sætta sig við að vinna sér ekki inn nein réttindi í skilningi lífeyristrygginga á meðan á námi stendur.

Ef rýnt sé í fylgigögn Tryggingastofnunar megi sjá að Pensionsmyndigheten byggi sína ákvörðun á nokkrum reglugerðum/lögum: 1) Artikel 46.1a i förordning (EEG) nr. 1408/71 (nationellt) (sjá E 210 SE lið 6.1), 2) Kapitel 62-64 socialförsäkringsbalken (2010:110) (sjá bréf frá Pensionsmyndigheten, dags. 27. apríl 2015.), 3) Kapitel 67 socialförsäkringsbalken (2010:110) (sjá bréf frá Pensionsmyndigheten, dags. 27. apríl 2015.) og 4) EG-förordning 883/2004 (sjá bréf frá Pensionsmyndigheten, dags. 27. apríl 2015.)

Það sé ekki á færi kæranda að kafa djúpt ofan í þessi lög og reglugerðir. Ljóst sé hins vegar að afstaða Pensionsmyndigheten gangi algerlega í berhögg við það sem Tryggingastofnun telji að eigi að gilda.

Kærandi telji greinargerð Tryggingastofnunar bera með sér að stofnunin túlki lög og reglur mjög þröngt og ávallt með það að markmiði að hámarka skerðingu bótaþega, jafnvel þótt það virðist brjóta í bága við gerða milliríkjasamninga, sbr. afstöðu Pensionsmyndigheten í Svíþjóð til málsins.

Í athugasemdum kæranda, dags. 23. janúar 2022, er greint frá eftirfarandi athugasemdum.

Ágreiningur málsins varði tímabilið 1. nóvember 1992 til 15. nóvember 2005. Álit Tryggingastofnunar stangist algerlega á við afstöðu sænska tryggingakerfisins (Pensionsmyndigheten), þar sem fram komi:

„För att kunna bli godkänd för bosättning i Sverige krävs pensionsgrundande inkomst, folkbokföring eller annan uppgift som styrker bosättning i Sverige. Har man arbetstid i ett annat land ska det landet även bevilja bosättning.“

Þarna sé skilyrðið um lögheimilisskráningu („folkbokföring“) vissulega uppfyllt, en einnig sé ljóst að leitað hafi verið eftir upplýsingum frá Tryggingastofnun um vinnutíma („arbetstid“) kæranda á Íslandi á þeim tíma sem hann hafi verið skráður með lögheimili í Svíþjóð, þar með talið fyrir framangreint námstímabil. Það hafi greinilega ekki vafist fyrir Tryggingastofnun að veita slíkar upplýsingar snemma árs 2015, án þess þó að bera það undir kæranda eða upplýsa hann um innihald eða uppruna þeirra gagna.

Það sé kæranda ráðgáta hvernig Tryggingastofnun hafi getað upplýst Pensionsmyndigheten um vinnutíma kæranda á Íslandi á námstímanum, án þess að leita eftir staðfestingu frá honum sjálfum. Um hafi verið að ræða sjálfstæðan rekstur og framtaldar tekjur í formi reiknaðs endurgjalds, byggðar á […].

Framtaldar tekjur til skatts segi lítið til um hver vinnutíminn á Íslandi hafi verið í raun og megi í því samhengi til dæmis nefna að nánast öll bókhaldsvinna fyrir reksturinn hafi verið unnin af kæranda þegar hann hafi dvalið í Svíþjóð.

Send hafi verið fyrirspurn varðandi þetta til Tryggingastofnunar með tölvupósti þann 29. nóvember 2021 en ekkert svar hafi borist.

Ákvörðun Pensionsmyndigheten í Svíþjóð um að hafna alfarið umsókn kæranda um lífeyrisréttindi fyrir tímabilið 1. nóvember 1992 til 15. nóvember 2005 hafi verið byggð á upplýsingum frá Tryggingastofnun. Hafi þær verið rangar eða villandi sé það alfarið á ábyrgð Tryggingastofnunar og muni það verða kannað til hlítar þótt síðar verði. Kærandi hafi gert athugasemd við afgreiðslu Pensionsmyndigheten í tölvupósti þann 4. apríl 2015 en hann hafi ekki haft erindi sem erfiði, þeir hafi trúað gögnum frá Tryggingastofnun.

Tryggingastofnun vísi ítrekað í lög um almannatryggingar máli sínu til stuðnings, en hafa verði í huga að Ísland sé aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og hafi að auki gert margs konar milliríkjasamninga við hin Norðurlöndin, tengda velferðarmálum sem þurfi að virða. Athygli sé vakin á því að hvergi í greinargerðum stofnunarinnar sé að finna neina staðhæfingu þess efnis að Pensionsmyndigheten hafi farið með rangt mál í fylgiskjali FS1 („Har man arbetstid í ett annat land ska det landet även bevilja bosättning.”) Eins og þessu sé stillt upp núna eigi hver vinnustund unnin á Íslandi á námstímanum að leiða til skerðingar á lífeyrisréttindum í Svíþjóð en hins vegar ekki að veita nein slík réttindi á Íslandi. Það verði að teljast undarlegir samningar ef rétt reynist.

Tryggingastofnun hafi staðhæft eftirfarandi: „Kærandi var með lögheimili í Svíþjóð og í tryggingum þar meðan á námstíma stóð.“ Þessi tryggingavernd hafi verið frekar takmörkuð í Svíþjóð á námstímanum, að minnsta kosti hvað lífeyrisréttindin varði, eins og greint hafi verið frá áður.

Tryggingastofnun sé ekki í vandræðum með að nýta sér gögn frá Ríkisskattstjóra og taka fullt mark á þeim þegar það henti, til dæmis ef hægt sé að nota þau til að skerða lífeyri bótaþega vegna einhverra aukatekna. Öðru máli virðist hins vegar gegna ef upplýsingarnar gætu virkað á hinn veginn. Ríkisskattstjóri velji að skrá sveitarfélag lögheimili á Íslandi öll árin 1993 til 2005 og kærandi greiði eftir álagningu öll sín opinberu gjöld til íslenska ríkisins á þessu tímabili. Velferðarkerfið sé fjármagnað með skattfé og því ekki nema eðlilegt að þeir sem taki þátt í að fjármagna það öðlist einhver réttindi fyrir vikið.

Tryggingastofnun velji að notast við orðalagið „einhverjar tekjur“ kæranda og sé þá væntanlega að gefa í skyn að þær hafi verið heldur óburðugar. Kærandi vilji þó benda á að þær hafi verið nægjanlega miklar til að fjármagna allt námið á umræddu tímabili því að ekki hafi kærandi verið samtímis með neinar atvinnutekjur í Svíþjóð, enda hafi hann ekki unnið sér inn nein réttindi þarlendis í formi þess sem sé kallað „inkomstpension.“

Tryggingastofnun nefni að samkvæmt lögum um almannatryggingar sé miðað við lögheimili eins og það sé skráð hjá Þjóðskrá, sbr. 5. tölul. 2. gr. laga um almannatrygginar. Í þessu sambandi sé rétt að minna aftur á það sem kærandi hafi greint áður í fyrri athugasemdum: „Komi upp ágreiningur um hvaða löggjöf skuli beita gagnvart einstaklingi skal hann teljast búsettur í því norræna landi þar sem hann er skráður í þjóðskrá ef ekki eru sérstakar ástæður til annars.“ Ekki fari á milli mála að það liggi fyrir verulegur ágreiningur milli Tryggingastofnunar og Pensionsmyndigheten í málinu. Afstaða Pensionsmyndigheten byggi þó á upplýsingum frá Tryggingastofnun um vinnutíma kæranda á Íslandi á árunum 1993 til 2005 sem draga verði í efa að geti verið réttar eins og fjallað verði um síðar. Afleiðingin sé sú að kæranda hafi ekki verið úrskurðuð nein lífeyrisréttindi (ekki einu sinni „garantipension“) í Svíþjóð á námstímabilinu 1993 til 2005. Pensionsmyndigheten virðist því hafa túlkað gögnin frá Tryggingastofnun sem svo að kærandi hafi ekki búið neitt í Svíþjóð á þessu tímabili heldur hafi hann verið í launavinnu á Íslandi allan tímann. Með hliðsjón af þessu telji kærandi því að fyrir liggi „sérstakar ástæður“ í þessu máli, hann hafi þegar orðið fyrir tjóni vegna skertra lífeyrisgreiðslna frá Svíþjóð undanfarin sjö ár og svo verði áfram á komandi árum. Því sé ekki nema sanngjarnt að Tryggingastofnun bæti að hluta þann fjárhagslega skaða með því að afnema að fullu þá skerðingu sem felist í fyrri ákvörðun stofnunarinnar um skert búsetuhlutfall á Íslandi.

Varðandi skráningu á lögheimili hafi kærandi fylgt þeim reglum sem Tryggingastofnun hafi tiltekið í fyrri greinargerð að eigi að gilda þar eð hann hafi á árabilinu 1992 til 2005 dvalist meirihluta ársins í Svíþjóð, en hafi hins vegar dvalið á Íslandi nokkur styttri tímabil ár hvert í páska-, sumar- og jólaleyfi, ávallt styttri en þrjá mánuði í hvert sinn. Að fara nú að breyta lögheimilisskráningu þannig að hún stemmi við upplýsingar um vinnutíma kæranda sem Tryggingastofnun hafi látið „Pensionsfonden“ í té fyrir um sjö árum sé fráleitt. Kærandi leyfi sér að efast um að íslenskir námsmenn sem stundi nám á hinum Norðurlöndunum séu almennt að færa lögheimili sitt á milli landa, þótt þeir bregði sér heim til Íslands í jóla-, páska- eða sumarleyfum, jafnvel þótt þeir grípi í einhverja vinnu í leiðinni og væntanlega missi þeir ekki við það nein réttindi í námslandinu, nema þá að Tryggingastofnun sé að fylgjast með og sendi um það gögn til námslandsins.

Kærandi hafi gert athugasemd við afgreiðslu Pensionsmyndigheten á búsetuskráningunni í tölvupósti þann 4. apríl 2015. Því erindi hafi ekki verið sinnt, enda við ramman reip að draga þar sem gögnin frá Tryggingastofnun hafi greinilega verið talin trúverðugri, enda um ríkisstofnun að ræða. Auk þess hafi þessum vinnutímaupplýsingum frá Tryggingastofnun verið haldið leyndum fyrir kæranda sem hafi gert það erfiðara að bregðast við en ella hefði verið. Það hafi verið Tryggingastofnun sem hafi átt að ganga úr skugga um að réttar upplýsingar væru veittar frá byrjun í staðinn fyrir að senda eitthvað frá sér sem hún hafi ekki haft forsendur til að meta og ætlast svo til þess að kærandi sæi um það að ná fram leiðréttingu á þeim.

Í framhaldinu hafi kærandi ekki haft ástæðu til að ætla að Pensionsmyndigheten færi með rangt mál þegar staðhæft hafi verið að: „Har man arbetstid i ett annat land ska det landet även bevilja bosättning.“ Kærandi hafi ekki getað vitað það þá að Tryggingastofnun myndi vefengja þetta rúmum sex árum síðar, heldur haldi sig við að telja vinnutímana sem stofnunin hafi tilgreint á Íslandi sem búsetutíma í samræmi við það sem Pensionsmyndigheten hafi talið að ætti að gilda. Kærandi hafi því ekki séð ástæðu til að viðhafast frekar í kærumálum á sínum tíma þar eð búsetuskráning hafi ekki fengist breytt og ætla hafi mátt að til kæmu ákveðin lífeyrisréttindi á Íslandi í staðinn fyrir umrætt tímabil. Auk þess hafi kærandi séð að Ríkisskattstjóri hafi skráð sveitarfélag lögheimilis sem verandi á Íslandi öll árin 1993 til 2005 og hafi talið af þeim sökum að hann myndi njóta einhverra réttinda fyrir það tímabil.

Í viðbótargreinargerð stofnunarinnar segi: „Tryggingastofnun bendir á eins og kærandi sjálfur tekur undir hafi hann dvalist meirihluta ársins í Svíþjóð 1992-2005. Hann hafi unnið stutt tímabil innan þessa tímaramma en haft lögheimili í Svíþjóð.“ Spurt er hvort þetta sé í samræmi við þær vinnutímaupplýsingar sem Tryggingastofnun hafi sent frá sér snemma árs 2015. Því hljóti stofnunin að geta svarað. Síðar í sama lið segi: „.... ef kærandi hafi unnið stutt tímabil hér á landi þá ávinnast lífeyrisréttindi í þeim lífeyrissjóðum sem kærandi greiddi iðgjöld sín til á fyrrgreindu tímabili.“ Að blanda lífeyrissjóðakerfinu inn í þetta mál verði að teljast undarlegt. Í fyrsta lagi sé það svo að iðgjöld kæranda í lífeyrissjóð hafi ekki verið reiknuð út frá vinnutíma hans á landinu, heldur sem ákveðið hlutfall af skattskyldum tekjum í landinu. Í öðru lagi hafi engin krafa verið gerð um búsetu í landinu til að geta greitt í þann sjóð. Það hafi verið skylda óháð búsetu.

Það sé sjálfsagt rétt að hugtakið skattalegt lögheimili sé ekki að finna í lögum um almannatryggingar og trúlega ekki heldur í skattalögum. Skatturinn tali um skattalega heimilisfesti en á álagningarseðlum sé tilgreint sveitarfélag lögheimilis en ekki sveitarfélag skattalegrar heimilisfesti sem kunni að hljóma villandi.

Tryggingastofnun nefni í viðbótargreinargerð að „þar sem kærandi var í tímabundinni vinnu á Íslandi en ekki með skráð lögheimili hér á landi þá taki Pensionsmyndigheten í Svíþjóð ekki til greina þau tímabil við útreikning sinn.“ Nú sé það svo að Pensionsmyndigheten hafi fellt út allt tímabilið 1. nóvember 1992 til 15. nóvember 2005 eins og kærandi hafi verið í stöðugri og samfelldri vinnu á Íslandi allan þann tíma og ekki verið búsettur í Svíþjóð yfirhöfuð á þeim tíma. Þetta hljóti að hafa verið gert á grundvelli upplýsinga frá Tryggingastofnun og bendi til þess að stofnunin hafi á sínum tíma sent frá sér kolrangar vinnutímaupplýsingar, þ.e. staðhæft að vinnutímabilið hafi verið 12 mánuðir á ári eða eitthvað nálægt því.

Það sé ekki heiglum hent fyrir einstakling án öflugrar lögfræðiaðstoðar að sækja mál gegn Tryggingastofnun, tölvupóstum sé ekki svarað og tregða við að láta af hendi umbeðin gögn sem kunni að styðja við málflutning kæranda. Það sé enn álit kæranda að greinargerðir Tryggingastofnunar beri það með sér að stofnunin túlki lög á þann veg sem leiði af sér mestu hugsanlegu skerðingu lífeyrisþega, jafnvel þótt þau veiti rými til að taka tillit til sérstakra ástæðna. Einungis sé fullyrt án rökstuðnings að slíkt eigi ekki við í máli kæranda. Umboðsmaður Alþingis hafi nýlega látið í ljós það álit að rík leiðbeiningarskylda hvíli á Tryggingastofnun lögum samkvæmt og að henni beri að skoða réttindi og stöðu umsækjenda heildstætt. Lítið virðist hafa farið fyrir því í þessu máli.

Í athugasemdum kæranda, dags. 18. febrúar 2022, kemur fram að greinargerðir Tryggingastofnunar beri með sér að skautað hafi verið fram hjá ýmsum atriðum sem kærandi hafi fært fram máli sínu til stuðnings. Það gildi sér í lagi um þau gögn varðandi vinnutímaskráningu sem sænska Pensionsmyndigheten byggi niðurstöðu sína að verulegu leyti á og hafi fengist frá Tryggingastofnun snemma árs 2015. Eins og greint hafi verið frá áður hafi fyrirspurn varðandi þetta verið send til Tryggingastofnunar með tölvupósti þann 29. nóvember 2021. Ekkert svar hafi enn borist þótt liðnir séu 80 dagar. Ekki verði annað séð en að kærandi þurfi að snúa sér til hlutaðeigandi ráðuneytis til að knýja fram þessar upplýsingar.

Það liggi fyrir að Pensionsmyndigheten í Svíþjóð reikni með að búsetutími kæranda þar í landi séu 13,5 ár. Byggt á þeirri niðurstöðu verði mánaðarlegur heildarlífeyrir frá Svíþjóð fyrir árið 2022 alls 2.857 SEK sem samsvari um 38.190 ISK á núverandi gengi. Fyrir febrúar þessa árs sé heildargreiðslan frá Tryggingastofnun vegna mikillar skerðingar einungis 91.364 kr. (eftir skatt), þrátt fyrir að töku lífeyris hafi verið frestað um fjögur ár. Samanlagt geri þetta heilar 129.554 kr. í lífeyri á mánuði frá opinberum aðilum.

Tryggingastofnun verði tíðrætt um að farið sé eftir lögum um almannatryggingar og nefni að það sé Alþingi sem setji lögin og hafi falið stofnuninni að framkvæma þau. Tryggingastofnun telji sig vafalaust einnig hafa gert það í öllum þeim málum sem ratað hafi til umboðsmanns Alþingis og gerðar hafa verið alvarlegar athugasemdir við af hans hálfu hvað eftir annað undangengin misseri.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé afgreiðsla á ellilífeyri og heimilisuppbót.

Í 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé fjallað um ellilífeyri og sé ákvæðið svohljóðandi:

„Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma“. 

Í 4. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um hverjir séu tryggðir samkvæmt lögunum. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Tryggðir samkvæmt lögunum. 

Sá sem búsettur er hér á landi, sbr. 5. tölul. 2. gr., telst tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laga þessara nema annað leiði af milliríkjasamningum.

Tryggingavernd fellur niður þegar búseta er flutt frá Íslandi nema annað leiði af milliríkjasamningum eða ákvæðum þessa kafla.

Tryggingastofnun ákvarðar hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi samkvæmt lögum þessum.“

Í 2. gr. laga um almannatryggingar koma fram eftirfarandi orðskýringar:

„1. Lífeyrisþegi: Einstaklingur sem fær greiddan lífeyri sem hann hefur sjálfur áunnið sér samkvæmt lögum þessum.

2. Greiðsluþegi: Einstaklingur sem fær greiðslur samkvæmt lögum þessum.

3. Bætur: Bætur greiddar í peningum og aðstoð sem veitt er á annan hátt.

4. Tekjutengdar bætur: Bætur þar sem tekjur hafa áhrif á fjárhæð greiðslna.

5. Búseta: Lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur nema sérstakar ástæður leiði til annars.“

Svohljóðandi sé 14. gr laga nr. 80/2018 um lögheimili varðandi flutning til Íslands og dvöl:

„Sá sem dvelst eða ætlar að dveljast á Íslandi vegna atvinnu eða náms í þrjá mánuði eða lengur má skrá lögheimili hér. Dveljist einstaklingur í landinu í sex mánuði eða lengur skal hann eiga hér lögheimili samkvæmt því sem mælt er fyrir um í lögum þessum.

Við tilkynningu flutnings til Íslands skal sá sem flytur koma í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands eða á skrifstofu viðkomandi lögregluembættis, sanna á sér deili og skrá lögheimili sitt. Skal framvísa gildum persónuskilríkjum við skráningu.“

Í reglugerð nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá segi:

„Búseta.

5. gr.

Sá sem búsettur er hér á landi telst tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum almannatryggingalaga. Með búsetu er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga.

Sá sem flytur búsetu sína frá Íslandi telst ekki lengur tryggður.

Námsmenn.
15. gr.

Sá sem er búsettur og tryggður hér á landi og dvelst erlendis við nám er áfram tryggður meðan á námi stendur enda sé hann ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Sama gildir um aðstandendur hans sem með honum dveljast.

Með námsmanni í þessari reglugerð er átt við einstakling, annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling, sem er við nám eða starfsþjálfun er lýkur með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt er af yfirvöldum.

Heimilt er að veita námsmönnum og fjölskyldum þeirra sömu aðstoð og sjúkratryggðir einstaklingar á Íslandi njóta meðan á tímabundinni dvöl hér á landi stendur á námstímanum.

Heimilt er að hafa skráningu óbreytta í allt að sex mánuði eftir að námi lýkur. Snúi námsmaður ekki aftur til Íslands innan þess tíma fellur réttur til að vera skráður niður.“

Í lögum nr. 119/2013 um lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar segi:

„II. hluti. Ákvæði um hvaða löggjöf skuli beita.

5. gr. Búseta.

Einstaklingur telst vera búsettur í norrænu landi í samræmi við löggjöf viðkomandi ríkis. Komi upp ágreiningur um hvaða löggjöf skuli beita gagnvart einstaklingi skal hann teljast búsettur í því norræna landi þar sem hann er skráður í þjóðskrá ef ekki eru sérstakar ástæður til annars.“

Í 1. og 4. mgr. 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segi um heimilisuppbót:

„Heimilt er að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. […]

Hafi ellilífeyrisþegi nýtt sér heimild 2.–4. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar til að fresta eða flýta töku lífeyris að fullu eða hluta gildir það einnig um heimilisuppbót. Um áhrif á fjárhæð heimilisuppbótar fer skv. 23. gr. sömu laga.“

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um ellilífeyri og heimilisuppbót þann 24. nóvember 2020 og hafi greiðslur lífeyris hafist 1. janúar 2021. Kærandi hafi sent fyrirspurn 3. maí 2021 varðandi útreikning á ellilífeyri sem hafi verið svarað 16. júlí 2021 þar sem útskýrður hafi verið útreikningur ellilífeyris.

Kærandi hafi verið upplýstur um að réttindi til ellilífeyris almannatrygginga byggi á búsetu einstaklinga á Íslandi, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar. Full réttindi ávinnist með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 ár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann.

Búsetutími kæranda hafi reiknast eftir upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands en þar komi fram að búsetutími á Íslandi á aldursbilinu 16 til 67 ára hafi verið frá 27. desember 1965 til 1. september 1976 og svo frá 15. nóvember 2005. Búsetuhlutfall hafi því verið 54,49%.

Eins og komi fram í bréfi Pensionsmyndigheten „Allmän pension“, sem hafi fylgt erindi kæranda, hafi hann verið með skráða búsetu í Svíþjóð til nóvember 2005, en telji hann að búsetuskráning sé röng þá þurfi hann að hafa samband við Þjóðskrá Íslands og óska eftir leiðréttingu á henni.

Greiðsluréttur til ellilífeyris taki einnig mið af þeirri forsendu að kærandi hafi frestað töku ellilífeyris þangað til hann hafi orðið 71 árs, en fyrir hvern mánuð sem töku ellilífeyris hafi verið frestað eftir 67 ára aldur hafi varanleg réttindi hækkað um 0,5% á mánuði. Alls hafi réttindin hækkað um 24%. Greiðsluhlutfall sé því 67,57% (124% frestunarhlutfall margfaldað með búsetuhlutfalli 54,49%).

Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá útreikningi ellilífeyris fyrir árið 2021 og tekjuforsendum.

Í svari Tryggingastofnunar hafi enn fremur verið bent á að fyrirliggjandi gögn hafi ekki gefið tilefni til endurskoðunar á útreikningi réttinda til ellilífeyris frá stofnuninni.

Í 17. gr. laga um almannatryggingar komi fram að réttur til ellilífeyris sé bundinn við búsetu og miðist fullur réttur til ellilífeyris við þá sem hafi náð 67 ára aldri og hafi verið búsettir hér á landi, að minnsta kosti þrjú almanaksár á aldursbilinu 16 til 67 ára.  

Fullur réttur til ellilífeyris miðist við 40 ára búsetu en sé um skemmri búsetutíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann.

Með búsetu hér á landi sé miðað við skráð lögheimili, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um almannatryggingar. Skráð búseta hér á landi sé því grunnskilyrði tryggingaverndar en tryggingavernd falli almennt niður þegar búseta sé flutt frá Íslandi, sbr. 4. gr. laga um almannatryggingar, nema annað leiði af milliríkjasamningum eða ákvæðum sem fram komi í 5. gr. laga um almannatryggingar.

Samkvæmt skráningu hjá Þjóðskrá hafi kærandi verið skráður með búsetu hér á landi frá 16. október 1952 til 1. september 1976 og í Svíþjóð frá 1. september 1976 til 15. nóvember 2005 er hann hafi flutt búsetu sína aftur til Íslands. Búsetutími kæranda á aldurstímabilinu 16-67 ára hafi reiknast þar af frá 27. desember 1965 til 1. september 1976 og svo frá 15. nóvember 2005. Búsetuhlutfall kæranda reiknast því 54,49%.

Búsetuhlutfall kæranda sé reiknað út frá þeim upplýsingum sem Þjóðskrá veiti varðandi lögheimilisskráningu hans og sé Tryggingstofnun bundin af þeirri skráningu. Á vottorði E 210 SE komi einnig fram yfirlit yfir trygginga- og búsetutímabil kæranda í Svíþjóð.

Tryggingastofnun starfi eftir lögum um almannatryggingar og afli sér upplýsinga um lögheimilisskráningu, bæði frá Þjóðskrá og erlendum tengistofnunum, þegar búsetu- og tryggingatímabil séu metin. Tryggingastofnun byggi útreikninga sína á skráningu á lögheimili og því beri kæranda að snúa erindi sínu um leiðréttingu á búsetu og skráningu á lögheimili til Þjóðskrár en ekki til Tryggingastofnunar, telji hann að lögheimilisskráning hans sé röng, sér í lagi þau tímabil sem kærandi hafi tiltekið er hann hafi verið skráður í nám í Svíþjóð.

Bent skuli á að í lögum nr. 119/2019 um lögfestingu Norðurlandasamnings komi fram í 5. gr., varðandi búsetu að einstaklingur teljist vera búsettur í norrænu landi í samræmi við löggjöf viðkomandi ríkis. Komi upp ágreiningur um hvaða löggjöf skuli beita gagnvart einstaklingi skuli hann teljast búsettur í því norræna landi þar sem hann sé skráður í þjóðskrá ef ekki séu sérstakar ástæður til annars.

Enn fremur sé bent á ákvæði í reglugerð nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá, er varði búsetu og námsmenn, sbr. ákvæði í 5. gr., en þar komi fram að sá sem búsettur sé hér á landi teljist tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laga um almannatryggingar. Með búsetu sé átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Einnig að sá sem flytji búsetu sína frá Íslandi teljist ekki lengur tryggður.

Varðandi námsmenn sé einnig að finna sérákvæði í 15. gr. reglugerðar nr. 463/1999 en kærandi telji að námstímabil hans séu ekki reiknuð inn í búsetutíma hér á landi. Í þessu ákvæði sé átt við það þegar námsmenn séu áfram búsettir hér á landi en séu erlendis við nám, enda séu þeir ekki tryggðir í almannatryggingum námslandsins. Kærandi hafi verið með búsetu í Svíþjóð á sínum námsárum og verið tryggður þar í landi á meðan á námi hans stóð.

Það sé kærandi sjálfur sem beri ábyrgð á því að tilkynna sig til og frá landi hverju sinni. Almennt teljist lögheimili einstaklings vera þar sem hann dvelji meirihluta ársins. Í eldri lögum nr. 73/1952 um tilkynningar aðsetursskipta, með síðari breytingum, hafi verið að finna undanþágu frá þessari skyldu en undanþágan hafi átt við þá sem hafi dvalist hér í skemmri tíma en þrjá mánuði og hafi haldið lögheimili í öðru landi, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 73/1952. Í núgildandi lögum nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur segi í 14. gr. að sá sem dveljist eða ætli að dveljast á Íslandi vegna atvinnu eða náms í þrjá mánuði eða lengur megi skrá lögheimili hér. Dveljist einstaklingur í landinu í sex mánuði eða lengur skuli hann eiga hér lögheimili.

Varðandi útreikning á heimilisuppbót, sem kærandi telji að sé rangt út reiknuð, þá greiðist hún í samræmi við búseturétt kæranda, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð og einnig hafi ellilífeyrisþegi nýtt sér heimild 2.- 4. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar til að fresta eða flýta töku lífeyris að fullu eða að hluta, gildi það einnig um heimilisuppbót. Um áhrif á fjárhæð heimilisuppbótar fari samkvæmt 23. gr. sömu laga.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá þeim gögnum sem hafi legið fyrir við ákvarðanatöku í máli þessu.

Tryggingastofnun hafi farið yfir búsetuútreikning kæranda miðað við búsetuupplýsingar hjá Þjóðskrá. Eins og komið hafi fram ávinnist ellilífeyrir hér á landi með búsetu og sé miðað við búsetu í skilningi lögheimilislaga, sbr. 17. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 4. gr. og 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. sömu laga.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi kærandi verið skráður með búsetu hér á landi frá 16. október 1952 til 1. september 1976 og í Svíþjóð frá 1. september 1976 til 15. nóvember 2005 er hann hafi flutt búsetu sína aftur til Íslands. Búsetutími kæranda á aldurstímabilinu 16-67 ára reiknist frá 27. desember 1965 til 1. september 1976 og frá 15. nóvember 2005. Búsetuhlutfall kæranda reiknist því 54,49 % út frá þeim upplýsingum sem Tryggingastofnun hafi frá Þjóðskrá. Greiðslur á ellilífeyri og heimilisuppbót til kæranda taki því mið af því búsetuhlutfalli.

Það sé niðurstaða Tryggingastofnunar að búsetuhlufall kæranda sé rétt reiknað miðað við fyrirliggjandi gögn. Kærandi njóti einnig ellilífeyris frá Pensionsmyndigheten, sbr. upplýsingar á eyðublaði E 210 SE og búsetuupplýsingar á eyðublaði E 205 SE, auk bréfs frá Pensionsmyndigheten frá 27. apríl 2015. 

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 5. janúar 2022, komi fram að stofnunin geri eftirfarandi athugasemdir við síðari greinargerð kæranda.

Kærandi líti svo á að ágreiningur sé um þau tímabil sem hann hafi verið í námi í Svíþjóð og hvort þau tímabil eigi að reiknast sem búsetutímabil á Íslandi eða í Svíþjóð. Eins og vikið hafi verið að í fyrri greinargerð stofnunarinnar þá teljist einstaklingur tryggður hér á landi sé hann skráður með lögheimili hér á landi, sbr. 4. gr. laga um almannatryggingar. Einnig komi fram í 4. gr. laga um almannatryggingar að tryggingavernd falli niður þegar búseta sé flutt frá Íslandi.

Kærandi nefni að ekki sé deilt um skráningu á lögheimili á meðan á námsdvöl hans hafi staðið en kærandi hafi verið skráður með lögheimili í Svíþjóð allan námstímann. Bent skuli á að í lögum um almannatryggingar sé skýrt kveðið á um það í 17. gr. laganna varðandi ávinnslutíma til ellilífeyris, en þar sé kveðið á um að þeir einir sem hafi verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, í að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16 - 67 ára aldurs ávinni sér rétt til ellilífeyris. Með búsetu sé átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur, nema sérstakar ástæður leiði til annars. Engar aðrar undantekningar sé að finna varðandi þetta tiltekna lagaákvæði.

Tryggingastofnun bendi á að í reglugerð nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá komi fram í 15. gr. er varði námsmenn að sé námsmaður búsettur og tryggður hér á landi og dveljist erlendis við nám sé viðkomandi áfram tryggður hér á landi, enda sé hann ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Kærandi hafi verið skráður með lögheimili í Svíþjóð og í tryggingum þar í landi á meðan á námstíma hafi staðið.

Kærandi birti lista yfir álagningarseðla frá skattstjóra vegna tekjuáranna 1993-2005. Á þeim álagningarseðlum sé vísað til lögheimilis í B, C og D á fyrrnefndum tekjuárum. Tryggingastofnun bendi hins vegar á að stofnunin afli upplýsinga frá Þjóðskrá Íslands varðandi búsetu varðandi útreikning á ellilífeyri, sbr. ákvæði 17. gr., sbr. 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra miðist skattaleg heimilisfesti við það að við skattlagningu sé tekið tillit til þess skattaafsláttar og bóta sem viðkomandi ætti rétt á ef lögheimili hans hefði verið hér allt árið. Eingöngu sé hér miðað við það skattalega hagræði sem viðkomandi njóti með því að fá að halda skattalegu lögheimili hér á landi. Tekjur og eignir hafi áhrif á skattlagninguna, að teknu tilliti til ákvæða tvísköttunarsamninga.

Kærandi upplýsi að hann hafi haft tekjur af eigin rekstri og að reksturinn hafi verið […]. Tryggingastofnun bendi á að þó svo að kærandi hafi verið með einhverjar tekjur hér á landi á sínum námsárum þá hafi formlegt lögheimili hans verið skráð í Svíþjóð. 

Kærandi bendi á að hann hafi greitt opinber gjöld til íslenska ríkisins á námstíma sínum í Svíþjóð. Einnig hafi hann bent á að greitt hafi verið útsvar til viðkomandi sveitarfélags þar sem skattalegt lögheimili hafi verið skráð. Tryggingastofnun bendi á að samkvæmt 5. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar sé miðað við lögheimili eins og það sé skráð hjá Þjóðskrá.

Tryggingastofnun hafi sent bréf, dags. 14. júlí 2015, til kæranda vegna umsóknar hans um sænskan lífeyri. Með bréfi til kæranda hafi verið vakin athygli á því að hann gæti kært ákvörðun frá Pensionsmyndigheten innan tveggja mánaða frá móttöku hennar. Kærandi hafi ekki kært þá ákvörðun. Þar sem ákvörðun frá Pensionsmyndigheten hafi ekki verið kærð á sínum tíma þá standi sú ákvörðun varðandi lífeyrisréttindi kæranda.

Tryggingastofnun bendi á að á tímabilinu 1992 til 2005 hafi kærandi dvalist meirihluta þessa tímabils í Svíþjóð. Hann hafi unnið stutt tímabil á Íslandi innan þessa tímaramma en hafi haft lögheimili í Svíþjóð. Tryggingastofnun greiði einungis út ellilífeyri á grundvelli búsetu hér á landi sem breyti því ekki að ef kærandi hafi unnið stutt tímabil hér á landi þá ávinnist lífeyrisréttindi í þeim lífeyrissjóðum sem kærandi hafi greitt iðgjöld sín til á fyrrgreindu tímabili. 

Það sé rétt að Tryggingastofnun miði við skráningu á lögheimili hér á landi við vinnslu á lífeyrisumsóknum. Bent sé hins vegar á að í lögum um almannatryggingar sé átt við lögheimili í skilningi laga nr. 80/2015 um lögheimili og aðsetur. Í 2. gr. lögheimilislaga sé lögheimili skilgreint á eftirfarandi hátt: 

„Lögheimili er sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu. Ekki er heimilt að eiga lögheimili á Íslandi á fleiri en einum stað í senn. Óheimilt er að eiga lögheimili á Íslandi eigi viðkomandi lögheimili erlendis.“

Hvorki sé vikið að skattalegu lögheimili í lögum um almannatryggingar né í lögum um lögheimili og aðsetur. Með skattalegu lögheimili sé námsmönnum einungis veittur réttur til skattaafsláttar og bóta, að teknu tilliti til tvísköttunarsamninga.

Tryggingastofnun hafi einungis verið að benda á að námsmenn geti haldið sínu lögheimili hér á landi ef þeir geti ekki tryggt sig í námslandinu, en eins og kærandi hafi nefnt þá hafi hann verið tryggður í Svíþjóð á umræddu tímabili. Tryggingastofnun bendi jafnframt á ákvæði í Norðurlandasamningi, sbr. lög nr. 119/2013. Þar komi fram í 5. gr. að einstaklingur teljist vera búsettur í norrænu landi í samræmi við löggjöf viðkomandi ríkis.

Tryggingastofnun bendi á að þar sem kærandi hafi verið í tímabundinni vinnu á Íslandi en ekki með skráð lögheimili hér á landi þá taki Pensionsmyndigheten í Svíþjóð ekki til greina þau tímabil við útreikning sinn. Þau tímabil sem kærandi hafi verið í vinnu hér á landi reiknist að öllu leyti til lífeyrisréttinda í þeim lífeyrissjóðum sem greidd hafi verið iðgjöld til hér á landi. Aftur á móti reiknist ekki réttur til búsetulífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar þar sem kærandi hafi verið með skráð lögheimili í Svíþjóð. Pensionsmyndigheten sé jafnframt að segja að þar sem kærandi hafi verið í vinnu á Íslandi þá geti kærandi ekki á sama tíma safnað lífeyrisréttindum samhliða vinnutímabilum á Íslandi. 

Tryggingastofnun starfi samkvæmt lögum um almannatryggingar og beri jafnframt að taka tillit til þeirra milliríkjasamninga um almannatryggingar sem Ísland sé aðili að. Tryggingastofnun mótmæli því þeirri staðhæfingu kæranda að stofnunin brjóti lög varðandi þá milliríkjasamninga sem stofnunin starfi eftir. Að öðru leyti vísi stofnunin til fyrri greinargerðar í máli þessu.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 10. febrúar 2022, kemur meðal annars fram að að lífeyriskerfið á Íslandi grundvallist af þremur meginstoðum, þ.e. almannatryggingum, skyldulífeyrissparnaði hjá lífeyrissjóðum og valkvæðum viðbótarlífeyrissparnaði. Lífeyrisréttindi geti bæði áunnist með búsetu og/eða iðgjöldum. Á Norðurlöndunum sé að finna svokallaðan búsetulífeyri sem sé ekki að finna víða í Evrópu þar sem réttindi ávinnist nær eingöngu á grundvelli iðgjaldagreiðslna.

Tryggingastofnun starfi eftir lögum um almannatryggingar en það sé Alþingi Íslendinga sem setji lögin og hafi falið Tryggingastofnun að framkvæma þau. Að halda því fram að stofnunin túlki lögin á þann veg að þau leiði af sér mestu hugsanlega skerðingu fyrir lífeyrisþega sé hér með vísað alfarið á bug. Að öðru leyti sé vísað til fyrri greinargerðar í máli þessu.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar útreikning Tryggingastofnunar ríkisins á búsetuhlutfalli kæranda á Íslandi. Af kæru verður ráðið að kærandi óski eftir að tímabilið 1. nóvember 1992 til 15. nóvember 2005 verði tekið með við útreikning á búsetuhlutfalli hans á Íslandi.

Ákvæði um ellilífeyri er í 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum. Ákvæði 1. mgr. 18. gr. laganna hljóðar svo:

„Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

Í 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna er búseta skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur, nema sérstakar ástæður leiði til annars.

Í 4. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um hverjir séu tryggðir samkvæmt lögunum. Lagagreinin er svohljóðandi:

„Sá sem búsettur er hér á landi, sbr. 5. tölul. 2. gr., telst tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laga þessara nema annað leiði af milliríkjasamningum.

Tryggingavernd fellur niður þegar búseta er flutt frá Íslandi nema annað leiði af milliríkjasamningum eða ákvæðum þessa kafla.

Tryggingastofnun ákvarðar hvort einstaklingur telst tryggður hér á landi samkvæmt lögum þessum.“

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Ákvæði 1. mgr. 2. gr. laganna hljóðar svo:

„Lögheimili er sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu. Ekki er heimilt að eiga lögheimili á Íslandi á fleiri en einum stað í senn. Óheimilt er að eiga lögheimili á Íslandi eigi viðkomandi lögheimili erlendis.“

Af framangreindu má ráða að réttur til ellilífeyris ávinnst með fastri búsetu á Íslandi á tímabilinu frá 16 ára til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með 40 ára búsetu en sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Fyrir liggja upplýsingar frá Þjóðskrá um að kærandi hafi verið með skráð lögheimili hér á landi eftir 16 ára aldur frá 27. desember 1965 til 31. ágúst 1976 og frá 16. nóvember 2005. Við mat á rétti kæranda til ellilífeyris miðar Tryggingastofnun við að kærandi hafi búið á Íslandi frá 27. desember 1965 til 1. september 1976 og frá 16. nóvember 2005 til 27. desember 2016, eða samtals 21 ár, 9 mánuði og 15 daga. Útreikningur Tryggingastofnunar leiðir til þess að búsetuhlutfall kæranda hér á landi sé 54,49% og taka ellilífeyrisgreiðslur og tengdar bætur til hans mið af því. Þá kemur fram í greinargerð Tryggingastofnunar að greiðsluhlutfallið sé 67,57% vegna frestunar á töku ellilífeyris.

Kærandi fer fram á að við útreikning búsetuhlutfalls sé tekið til tillit til skattalegrar heimilisfesti á Íslandi á framangreindu tímabili sem um sé deilt. Samkvæmt 4. gr. laga um almannatryggingar er sá aðili tryggður hér á landi sem sé búsettur hér, sbr. 5. tölul. 2. gr. sömu laga. Í því ákvæði er búseta skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur, nema sérstakar ástæður leiði til annars. Tryggingastofnun er því ekki heimilt að líta til þess að kærandi hafi á umræddu tímabili greitt skatta og gjöld hér á landi vegna atvinnu á Íslandi.

Kærandi fer fram á að við útreikning búsetuhlutfalls sé tekið tillit til hvernig afgreiðsla Pensionsmyndigheten á umsókn hans um greiðslur lífeyris í Svíþjóð á árinu 2015 hafi verið háttað. Pensionsmyndigheten hafi ákveðið á grundvelli upplýsinga frá Tryggingastofnun að þar sem hann hafi verið með atvinnutekjur á Íslandi á tímabilinu 1993 til 2005 eigi hann ekki nein lífeyrisréttindi í Svíþjóð á því tímabili. Kærandi byggir á því að sú niðurstaða hafi verið byggð á upplýsingum frá Tryggingastofnun, án þess að honum hafi verið gefið færi á að andmæla þeim. Samkvæmt gögnum málsins benti Tryggingastofnun kæranda á árinu 2015 á að hægt væri að kæra niðurstöðu Pensionsmyndigheten innan gefins frests. Samkvæmt því sem fram kemur í kæru ákvað kærandi að kæra ekki þá ákvörðun. Ekki er heimilt að taka tilllit til ákvörðunar Pensionsmyndigheten við ákvörðun búsetuhlutfalls samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Í ljósi framangreindra upplýsinga frá Þjóðskrá og kæranda sjálfum, er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi ekki átt lögheimili hér á landi á umdeildu tímabili í skilningi laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur. Því var Tryggingastofnun ekki heimilt að taka tillit til þess tímabils við útreikning á búsetutíma í skilningi 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við útreikninga Tryggingastofnunar á búsetuhlutfalli kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er fallist á þá niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins að búsetuhlutfall kæranda vegna greiðslu ellilífeyris skuli vera 54,49%.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á búsetuhlutfalli A, vegna umsóknar hans um ellilífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum