Hoppa yfir valmynd
25. október 2010 Innviðaráðuneytið

Áætluð úthlutun aukaframlaga Jöfnunarsjóðs 2010

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur gefið út reglur um úthlutun aukaframlags Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árinu 2010. Aukaframlaginu er ætlað að bæta rekstrarstöðu sveitarfélaga en við ákvörðun um úthlutun framlagsins var m.a. horft til ársreikninga sveitarfélaganna árið 2009.

Sérstakt aukaframlag Jöfnunarsjóðs hefur verið veitt síðan 1999 að undanskildum árunum 2002 og 2005. Aukaframlag ársins er einn milljarður króna og er framlaginu ætlað að bæta rekstrarstöðu sveitarfélaga á yfirstandandi ári. Með hliðsjón af ýmsum breytingum sem orðið hafa í rekstrarumhverfi skuldsettra sveitarfélaga hefur reglum um úthlutun framlagsins í ár verið breytt. Úthlutun framlaga skiptist í eftirtalin fjögur framlög:

2. gr.  Framlag samtals að fjárhæð 600 m.kr. vegna íbúaþróunar og heildartekna.

  • Varið skal 400 m. kr. til sveitarfélaga sem ekki hafa fylgt þróun Reykjavíkurborgar hvað varðar íbúafjölda árin 2004 -2009.
  • Varið skal 200 m. kr. til sveitarfélaga þar sem hlutfallsleg þróun heildartekna milli áranna 2005 og 2010 er lægri en meðaltal heildartekna allra sveitarfélaga á landsvísu fyrir sama tímabil. Einungis kemur til úthlutunar framlags hafi sveitarfélag ekki fylgt íbúaþróun Reykjavíkurborgar á sama tímabili.

3. gr.  Framlag vegna lágra meðaltekna

  • Varið skal 200 m. kr. til sveitarfélaga þar sem meðaltekjur hafa verið minni en hjá Reykjavíkurborg árin 2004 -2009. Reikna skal út meðaltekjur ársins 2009 á íbúa í öllum þeim sveitarfélögum sem uppfylla skilyrði samkvæmt þessari grein.

4. gr. Framlag vegna íþyngjandi skulda

  • Varið skal 150 m. kr. til þeirra sveitarfélaga þar sem útreiknað viðmið heildarskulda og skuldbindinga er hærri en sem nemur 100% af heildartekjum að frádregnum óreglulegum tekjum   og rekstrarniðurstaða er neikvæð.

5. gr.  Framlag til fjölkjarna sveitarfélaga

  • Varið skal 50 m. kr. til sveitarfélaga, annarra en Reykjavíkurborgar, þar sem tekið er tillit til sérstakrar útgjaldaþarfar sveitarfélaga sem halda þurfa úti þjónustu á fleiri en einum þéttbýlisstað innan sveitarfélagsins.

Sveitarfélög sem ekki nýta hámarksútsvar á yfirstandandi ári fá ekki aukaframlag.

75% af framlaginu koma til greiðslu nú í þessari viku. Eftirstöðvar framlagsins verða greiddar í desember þegar upplýsingar um tekjuforsendur ársins 2010 liggja fyrir og endurskoðun framlagsins hefur farið fram.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum