Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2010 Innviðaráðuneytið

Stefnt að breytingum á reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um áramótin

Stefnt er að því að tillögur að breyttum reglum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er falla undir valkost 1 taki gildi um næstu áramót.

Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu er nú unnið að innleiðingu breytinga á gildandi laga- og reglugerðarákvæðum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er falla undir valkost 1 í tillögum starfshóps sem skipaður var af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í ársbyrjun 2009.

Á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 15. október síðastliðinn voru kynntar tillögur starfshópsins að breytingum á regluverki sjóðsins og gerð grein fyrir fjárhagslegum áhrifum þeirra breytinga er falla undir valkost 1 og valkost 2.

Valkostur 1 felur í sér nauðsynlegar breytingar á núverandi kerfi og ber þar helst að nefna eftirfarandi framlög:

  • Framlag til jöfnunar á tekjutapi einstakra sveitarfélaga í kjölfar breytingar á álagningarstofni fasteignaskatts.

Breyting: Núgildandi álagningarprósenta fasteignaskatts verður notuð við útreikning framlaganna í stað viðmiða frá árinu 2000.

  • Almenn jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla. 

Breyting: Meðallaun kennara verða ekki lengur eitt af viðmiðum við útreikning framlaganna.

Valkostur 2 felur í sér eftirfarandi breytingar til viðbótar við þær breytingar sem falla undir valkost 1:

  • Innleiðingu á nýju fyrirkomulagi útgjaldajöfnunar þar sem tekjujöfnunarframlög sjóðsins í sinni núverandi mynd verða lögð niður.
  • Endurskoðun á útreiknaðri stærðarhagkvæmni sveitarfélaga.

Til viðbótar þeim breytingum er falla undir valkost 1 og eru tilgreindar hér að framan þá er hugsanlegt að einhverjar breytingar verði gerðar á innbyrðis vægi viðmiða er útgjaldajöfnunarframlög sjóðsins byggja á. Fyrir liggur að forsenda fyrir úthlutun tekjujöfnunarframlaga á árinu 2011 verði fullnýting heimildar sveitarstjórna til álagningar útsvars.

Eins og að framan greinir er stefnt að því að tillögur að breytingum er falla undir valkost 1 taki gildi um næstu  áramót.  

Breytingar þær er falla undir valkost 2 munu ekki koma til framkvæmda á árinu 2011. Tekjujöfnunarframlögin munu því koma til úthlutunar á árinu 2011 en forsenda fyrir úthlutun þeirra mun verða fullnýting sveitarstjórnar á heimild til álagningar útsvars eins og áður segir.

Þá er rétt að upplýsa að  samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hyggst skipa vinnuhóp með aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga til að útfæra upplýsingakerfi sem byggist á mælingu helstu útgjaldaþátta sveitarfélaga. Kerfið er grundvöllur þess  að valkostur 3 í tillögum starfshópsins um breytingar á gildandi laga- og reglugerðarákvæðum um Jöfnunarsjóð nái fram að ganga. Með þeim valkosti er lögð til grundvallarbreyting á núverandi jöfnunarkerfi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum