Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 66/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 6. febrúar 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 66/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17100060

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. október 2017 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. október 2017, að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd og endursenda hann til Möltu.

Þess er krafist að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd verði tekin til efnislegrar meðferðar með vísan til 1. - 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 42. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í gögnum málsins greinir að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 8. júní 2017. Kærandi mætti til viðtals hjá Útlendingastofnun þann 23. ágúst 2017, ásamt talsmanni sínum. Þann 4. október 2017 tók Útlendingastofnun ákvörðun í máli kæranda. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 24. október 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 3. nóvember 2017, ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd frekari gögn í máli kæranda þann 15. janúar 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnislegrar meðferðar með vísan til a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í málinu lægi fyrir að kæranda hefði verið veitt viðbótarvernd á Möltu.

Við meðferð málsins bar kærandi m.a. fyrir sig að hann vildi ekki fara aftur til Möltu því að þar væru mannréttindi ekki virt. Hann hefði fengið dvalarleyfi þar í landi en verið heimilislaus, atvinnulaus og án framfærslu. Endursending kæranda til Möltu fæli í sér brot gegn non-refoulement og sérstakar ástæður mæltu með því að mál hans yrði tekið til efnismeðferðar hér á landi. Þá byggði kærandi á því að hann væri barn að aldri, fæddur [...], og gerði hann athugasemd við aldursgreiningu Útlendingastofnunar í máli hans, n.t.t. rannsókn tannfræðilegra gagna til ákvörðunar á aldri hans, dags. 12. júlí 2017.

Það var niðurstaða Útlendingastofnunar að því er varðaði aldursgreiningu í máli kæranda að uppgefinn fæðingardagur teldist ekki réttur, enda lægi fyrir að umsækjandi hefði undirgengist aldursgreiningu hjá Tannlæknadeild Háskóla Íslands, þann 12. júlí 2017, og lægi niðurstaða hennar fyrir í málinu. Öll gögn málsins, þ.m.t. framlögð skilríki og skráning í kerfum Svíþjóðar og Möltu, bentu til þess að kærandi væri fæddur árið […] eða jafnvel fyrr. Skilríki frá Möltu væru ófölsuð og skv. þeim væri skráður fæðingardagur […]. Þá væri kærandi þekktur í Svíþjóð með sama nafni og fæðingardegi. Þó lægi fyrir að boðun í aldursgreiningu hefði verið áfátt og leitt til þess að kærandi hafi mætt þangað einn. Fulltrúi barnaverndar, talsmaður kæranda og fulltrúi Útlendingastofnunar hefðu allir verið fjarstaddir. Allt að einu hefði tannskoðun verið framkvæmd með samþykki kæranda og í greinargerð lækna hefði komið fram að ekkert hefði komið upp í skoðun sem leitt gæti til þess að framangreindur ágalli hefði haft áhrif á framkvæmd hennar eða niðurstöður. Starfsmaður Útlendingastofnunar hefði spurt kæranda út í upplifun hans af aldursgreiningunni og hefði kærandi sagt að allt hefði gengið vel og hann hefði getað tjáð sig við tannlækninn. Þá hefði Útlendingastofnun beðið kæranda afsökunar á því að enginn hefði verið boðaður með honum í aldursgreininguna.

Með vísan til heildarmats og gagna málsins lagði Útlendingastofnun til grundvallar að kærandi væri eldri en 18 ára og að uppgefinn aldur hans gæti ekki staðist.

Það var mat Útlendingastofnunar að kærandi væri ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem myndi hafa áhrif í máli hans. Stofnunin byggði á því að kæranda hefði verið veitt viðbótarvernd á Möltu og þar með leyfi til að stunda atvinnu og afla sér húsnæðis. Þá var það mat stofnunarinnar að 42. gr. laga um útlendinga kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði sendur aftur til Möltu.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun vísaði til þess að samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga frestaði kæra að meginreglu réttaráhrifum ákvörðunar um umsókn um alþjóðlega vernd. Með tilliti til atvika málsins var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kæra skyldi fresta réttaráhrifum.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi komið til landsins þann 7. júní sl. og framvísað flóttamannavegabréfi frá Möltu, hvar hann sé skráður með fæðingardaginn […]. Daginn eftir hafi hann lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi og kvaðst vera 16 ára gamall, fæddur þann [...]. Að beiðni Útlendingastofnunar hafi kærandi undirgengist rannsókn á tannfræðilegum gögnum til ákvörðunar á aldri hans, dags. þann 12. júlí 2017. Útlendingastofnun hafi láðst að boða fulltrúa barnaverndar eða talsmann kæranda hjá Rauða krossinum og því hafi enginn verið viðstaddur aldursgreininguna til að gæta réttinda hans. Niðurstöður greiningarinnar hafi verið þær að uppgefinn aldur kæranda, 16 ára og eins mánaða, gæti ekki staðist. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 23. ágúst sl., hafi kærandi hvorki verið spurður út í aldur sinn né gefið færi á að veita skýringar á því hvers vegna niðurstaða aldursgreiningar á honum væri ekki í samræmi við uppgefinn aldur. Í lok viðtalsins hafi talsmaður kæranda hins vegar spurt hann út í aldur hans. Kærandi kveður að ósamræmi sé á skráðum fæðingardegi á framlögðum skilríkjum á Möltu, og uppgefnum aldri hér á landi sökum þess að smyglari hans hafi gefið upp þennan fæðingardag á Möltu. Móðir kæranda hafi sagt honum hver fæðingardagur hans sé og hann hafi gengið í skóla með börnum á hans aldri. Kærandi kveður að hann geti ekki lagt fram gögn til sönnunar á aldri sínum þar sem honum sé ómögulegt að hafa upp á fjölskyldumeðlimum sínum.

Þá leggur kærandi fram beiðni í greinargerð um endurmat á aldri sínum. Þeirri beiðni til stuðnings vísar kærandi m.a. til þess að enginn eftirtalinna aðila hafi verið viðstaddur framangreinda aldursgreiningu; fulltrúi frá Rauða krossinum, fulltrúi barnaverndar eða túlkur. Þá vísar kærandi til 39. gr. reglugerðar um útlendinga, nr. 540/2017 frá 29. maí 2017, svo og athugasemda í greinargerð með frumvarpi til laga um útlendinga. Athugasemdir í III. kafla frumvarpsins séu í samræmi við 1. mgr. 113. gr. laganna, þess efnis að niðurstaða úr líkamsrannsókn skuli metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi skuli metinn kæranda í hag. Enn fremur vísar kærandi til skýrslu Evrópuráðsins um aldursgreiningu frá september 2017 (e. Age assessment: Council of Europe member states´ policies, procedures and practices respectful of children´s rights in the context of migration) þar sem m.a. komi fram að við aldursgreiningar skuli beita heildstæðri nálgun, með sérfræðinga á sviði þroska barna í lykilhlutverki. Kærandi kveður að ekki hafi farið fram heildstætt mat á aldri hans í samræmi við framangreindan áskilnað. Þá sé misræmi á niðurstöðu aldursgreiningar í máli kæranda og eldri greiningum og vísar kærandi í því sambandi til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá áréttar kærandi framangreinda ágalla sem hafi verið á framkvæmd aldursgreiningar en m.t.t. þeirra ætti að líta fram hjá niðurstöðu hennar með öllu. Enn fremur kveður kærandi að niðurstöður röntgenrannsókna á tönnum séu ónákvæmar. Þá skuli einungis nota líkamsrannsóknir sem lokaúrræði og vísar kærandi í því sambandi til framangreindrar skýrslu Evrópuráðsins um aldursgreiningar. Með vísan til meginreglunnar um það sem barni er fyrir bestu kveður kærandi að honum sé fyrir bestu að umsókn hans verði tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi.

Til stuðnings kröfu sinni um efnismeðferð vísar kærandi m.a. til þess að í máli hans séu fyrir hendi sérstakar ástæður. Í því sambandi vísar kærandi til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, svo og lögskýringargagna að baki ákvæðinu. Þá vísar kærandi til laga nr. 81/2017, um breytingu á lögum um útlendinga og lögskýringargagna að baki lögunum, þ. á m. greinargerðar með frumvarpi til laganna og nefndarálits meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Þá er krafa kæranda byggð á því að endursending hans til Möltu brjóti í bága við meginreglu alþjóðlegs flóttamannaréttar um non-refoulement, sbr. 3. mgr. 36. gr. og 42. gr. laga um útlendinga. Verði kærandi sendur til Möltu muni hann hafa ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð. Í því sambandi vísar kærandi til 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna. Samkvæmt gögnum málsins, þ. á m. tölvupósti fram maltneskum yfirvöldum, dags. 11. janúar 2018, hefur kæranda verið veitt viðbótarvernd á Möltu og gilt dvalarleyfi til 12. ágúst 2019. Eru skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga því uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á 42. gr. laga um útlendinga verður m.a. að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Verður því að leggja mat á hvort aðstæður á Möltu brjóti í bága við ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. mannréttindasáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Meta verði fyrirsjáanlegar afleiðingar af því að vísa einstaklingi til móttökuríkis í ljósi almennra aðstæðna í ríkinu og persónulegra aðstæðna viðkomandi einstaklings.

Rannsókn og málsmeðferð Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið byggir kærandi í greinargerð sinni m.a. á því að ágallar á framkvæmd aldursgreiningar geri það að verkum að líta eigi fram hjá niðurstöðu hennar með öllu. Eins og þegar hefur verið fjallað um undirgekkst kærandi aldursgreiningu að beiðni Útlendingastofnunar þann 12. júlí 2017 en í henni fólst rannsókn tannlæknisfræðilegra gagna. Líkt og þegar hefur verið rakið mætti kærandi einn til rannsóknarinnar en að jafnaði við slíka rannsókn eru jafnframt viðstaddir fulltrúi barnaverndar, talsmaður kæranda, fulltrúi Útlendingastofnunar og túlkur. Gögn málsins bera með sér að mistök við boðun þessara aðila hafi verið ástæða þess að kærandi var einn viðstaddur. Þá liggur fyrir að umrædd rannsókn var allt að einu framkvæmd á kæranda og lögð til grundvallar við úrlausn Útlendingastofnunar á málinu.

Í 1. málsl. 3. mgr. 26. gr. laga um útlendinga segir að vakni grunur um að umsækjandi sem segist vera fylgdarlaust barn sé lögráða, og ekki sé hægt að staðfesta það á óyggjandi hátt, skuli gerð, eins fljótt og kostur sé, aldursgreining skv. 113. gr. laganna. Í 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga kemur m.a. fram að ef grunur leiki á að umsækjandi um alþjóðlega vernd segi rangt til um aldur geti viðkomandi stjórnvald lagt fyrir útlending að hann gangist undir líkamsrannsókn til þess að ákvarða aldur hans. Niðurstaða úr slíkri líkamsrannsókn skuli metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn umsækjanda í hag. Þá segir í 3. málsl. 3. mgr. 26. gr. laga um útlendinga að ávallt skuli litið svo á við meðferð máls að umsækjandi um alþjóðlega vernd sem segist vera undir lögaldri sé barn þar til annað komi í ljós með aldursgreiningu eða á annan hátt. Þó sé heimilt að víkja frá þessu ef augljóst sé að viðkomandi sé lögráða. Í b-lið 2. mgr. 31. gr. laga um útlendinga segir að Barnaverndarstofa skuli m.a. sjá til þess að starfsmaður barnaverndar sé viðstaddur og gæti hagsmuna barns við aldursgreiningu, sé hennar krafist. Í 2. mgr. 39. gr. reglugerðar um útlendinga segir jafnframt að tryggt skuli að sú aðferð sem valin sé til greiningar á aldri sé mannúðleg og að gætt sé að réttindum og reisn þess einstaklings sem undir hana gangist. Í þeim tilvikum sem um fylgdarlaus börn sé að ræða skuli fulltrúi barnaverndarnefndar vera viðstaddur aldursgreiningar. Þá segir um talsmann í 24. tölul. 3. gr. laga um útlendinga að talsmaður tali máli útlendings eða umsækjanda um alþjóðlega vernd hér á landi og gæti hagsmuna hans gagnvart íslenskum stjórnvöldum á meðan mál hans sé til meðferðar. Um túlkaþjónustu segir í 3. mgr. 30. gr. laganna að útlendingur sem sótt hefur um alþjóðlega vernd eigi rétt á aðstoð túlks við meðferð málsins nema hann afþakki sérstaklega slíka þjónustu.

Að mati kærunefndar ber meðferð málsins með sér að Útlendingastofnun hafi ekki talið unnt að staðfesta á óyggjandi hátt að kærandi, sem sagðist vera fylgdarlaust barn við komu til landsins, væri lögráða, sbr. 1. og 4. málsl. 3. mgr. 26. gr. laga um útlendinga. Í ljósi þess bar Útlendingastofnunað líta svo á við meðferð málsins að kærandi væri barn þar til annað kæmi í ljós, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 26. gr. laga um útlendinga. Þar sem fulltrúi barnaverndarnefndar var fjarstaddur framangreinda rannsókn, sökum þess að Útlendingastofnun láðist að boða hann, er ljóst að rannsóknin fór ekki fram í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Þá telur kærunefnd ljóst að skortur á túlkaþjónustu við framkvæmd rannsóknarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög enda var túlkur ekki boðaður og því ekki unnt að líta svo á að kærandi hafi afþakkað aðstoð túlks við meðferð málsins. Í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti hefði jafnframt verið rétt, að mati kærunefndar, að boða talsmann kæranda til að vera viðstaddur rannsóknina til að gæta hagsmuna hans. Þá liggur fyrir að samkvæmt venjubundinni framkvæmd við aldursgreiningar á grundvelli laga um útlendinga eru talsmaður og túlkur ávallt boðaðir af hálfu Útlendingastofnunar. Því er það niðurstaða kærunefndar að rannsókn tannlæknisfræðilegra gagna vegna aldursgreiningar, dags. 12. júlí 2017, hafi ekki verið framkvæmd í samræmi við lög.

Vegna ummæla í ákvörðun Útlendingastofnunar tekur kærunefnd sérstaklega fram að nefndin fær ekki séð að unnt sé að byggja á því að samþykki kæranda og sátt hafi legið fyrir af hans hálfu vegna framkvæmdar framangreindrar aldursgreiningar. Kærunefnd fær ekki séð að lög um útlendinga heimili umsækjanda, sem þá telst barn að aldri, að afsala sér réttindum sem tengjast aðkomu fulltrúa barnaverndaryfirvalda að líkamsrannsókn á tönnum vegna umsóknar um alþjóðlega vernd. Þá áréttar nefndin að verulega skortir á að fullnægjandi gögn hafi legið fyrir varðandi umrætt samþykki kæranda og sátt hans við framkvæmd rannsóknarinnar. Samkvæmt gögnum málsins var niðurstaða Útlendingastofnunar um að kærandi væri ekki barn að aldri kynnt fyrir honum þann 10. ágúst s.l. Í svonefndu birtingarvottorði vegna niðurstöðu aldursgreiningar, dags. 10. ágúst 2017, kemur einungis fram niðurstaða greiningarinnar og boð til kæranda um að koma á framfæri mögulegum athugasemdum vegna hennar í greinargerð eftir viðtal. Utan fullyrðinga þess efnis í ákvörðun Útlendingastofnunar liggja ekki fyrir gögn í málinu um að fulltrúi stofnunarinnar hafi spurt kæranda út í upplifun hans af aldursgreiningunni og beðið hann afsökunar á því að enginn hafi verið boðaður með honum. Að öðru leyti liggur fyrir í gögnum málsins undirritað samþykki kæranda vegna aldursgreiningarinnar, dags. 5. júlí 2017, þ.e. viku áður en aldursgreiningin sjálf fór fram. Þá liggur fyrir greinargerð tannlækna um aldursgreiningu á kæranda, dags. þann 19. júlí 2017, þar sem fram kemur að kærandi hafi komið fylgdarlaus í aldursgreininguna og enginn fulltrúi frá barnavernd, Útlendingastofnun eða Rauða krossinum hafi fylgt honum eða gætt hagsmuna hans við aldursgreininguna. Í greinargerðinni kemur jafnframt fram að kærandi tali ágæta ensku og þurfi ekki túlk. Samkvæmt framansögðu liggja ekki fyrir gögn í málinu sem styðja þá fullyrðingu Útlendingastofnunar að greining á tönnum kæranda hafi farið fram með samþykki kæranda og verið framkvæmd í sátt hans. Þessar upplýsingar varða þó ótvírætt málsatvik sem höfðu að mati Útlendingastofnunar þýðingu fyrir úrlausn máls og var ekki að finna í öðrum gögnum og bar stofnuninni því að skrá þær upplýsingar, sbr. 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða kærunefndar að þeir ágallar sem voru á framkvæmd líkamsrannsóknar á kæranda séu slíkir að ekki sé unnt að tryggja að niðurstaða rannsóknarinnar hafi verið efnislega rétt. Í því sambandi telur kærunefnd hafa sérstaka þýðingu að líkamsrannsókn til að ákvarða aldur felur í sér inngrip stjórnvalda gagnvart einstaklingi sem á þeim tímapunkti hefur lagalega stöðu sem barn. Skortur á upplýsingum sem varpa skýru ljósi á framkvæmd rannsóknarinnar og afstöðu kæranda til hennar leiða til þess að ekki er að mati nefndarinnar unnt að fullyrða að þau réttindi, sem viðvera starfsmanns barnaverndar og talsmanns kæranda eiga að tryggja að séu virt, hafi ekki verið brotin í málinu. Er það því niðurstaða kærunefndar útlendingamála að vegna þeirra alvarlegu formannmarka sem voru á framkvæmd líkamsrannsóknar á kæranda verði niðurstöður þeirrar rannsóknar ekki lagðar til grundvallar við úrlausn um aldur hans.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er niðurstaða um aldur kæranda jafnframt stutt þeim rökum að uppgefinn fæðingardagur kæranda sé í ósamræmi við fæðingardag hans skv. framlögðum ferðaskilríkjum frá Möltu, sem séu ófölsuð. Þann 18. janúar 2018 sendi kærunefnd rafræna fyrirspurn til […], rannsóknarlögreglumanns hjá Flugstöðvardeild Lögreglustjórans á Suðurnesjum, að því er varðaði rannsókn á skilríkjum kæranda við komu hans hingað til lands. Í svari […], dags. þann sama dag, kemur fram að skilríki kæranda hafi aldrei komið til skoðunar á vegabréfarannsóknarstofunni en skv. bókun málsins hafi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fengið tölvupóst frá lögreglunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem fram hafi komið að skilríkið hafi verið skoðað af lögreglu í flugstöðinni og það metið í lagi. Kærunefnd telur því ekki ástæður til að draga í efa gildi umræddra skilríkja. Aftur á móti liggja fyrir upplýsingar frá maltneskum yfirvöldum sem benda til þess að fæðingardagur sem skráður hefur verið á skilríki kæranda sé sá sem hann gaf upp við komu til Möltu. Að mati kærunefndar eru umrædd gögn ekki þess eðlis að hægt sé að staðfesta aldur kæranda án undangenginnar aldursgreiningar, sbr. 3. mgr. 26. gr. og 113. gr. laga um útlendinga. Verður því ekki talið að mál kæranda, að því er varðar aldur hans, sé nægjanlega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Kærunefnd telur að framangreindir annmarkar á ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda séu þess eðlis að ekki verði bætt úr þeim á æðra stjórnsýslustigi. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi.

Enn fremur er það mat kærunefndar að endurtekin málsmeðferð, þar sem að nýju yrði lagt mat á það hvort rétt sé að synja umsókn kæranda um efnismeðferð á grundvelli 36. gr. laga um útlendinga, kæmi til með að vera mjög íþyngjandi fyrir kæranda. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 8. júní 2017 og hefur því, þegar úrskurður þessi er kveðinn upp, dvalist hér í tæplega átta mánuði. Það er því niðurstaða kærunefndar að það samrýmist ekki hagsmunum kæranda, m.a. í ljósi ungs aldurs hans, að leggja fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar. Þrátt fyrir að fyrir liggi í málinu að kærandi sé með viðbótarvernd og dvalarleyfi á Möltu er það mat kærunefndar, eins og hér háttar sérstaklega til, að meðferð íslenskra stjórnvalda á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd sé þess eðlis að rétt sé að taka umsókn hans til efnislegrar meðferðar hér á landi vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal                                                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum