Hoppa yfir valmynd
9. september 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Göngudeildarhús BUGL tekið í notkun

Heilbrigðisráðherra og forseti Íslands taka göngudeild BUGL í notkun
Heilbrigðisráðherra og forseti Íslands taka göngudeild BUGL í notkun

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, tekur í dag göngudeildarhús barna- og unglingageðdeildar við Dalbraut í Reykjavík formlega í notkun.

„Straumhvörf í geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni“, sagði Guðlaugur Þór Þórðarson þegar hann tók húsið formlega í notkun við hátíðlega athöfn í dag, en fjölmargir gestir voru viðstaddir hátíðlega athöfn af þessu tilefni. Auk heilbrigðisráðherra var forseti Íslands viðstaddur, stjórnendur LSH, aðstandendur geðsjúkra og velunnarar BUGL.

Nýja göngudeildarhúsnæðið mun stórbæta aðstæður skjólstæðinga og starfsfólks BUGL. Viðbyggingin er 1244 fermetrar, tvær hæðir og jarðhæð. Byggingin er tengd núverandi húsi með glerjuðum tengigangi og ný aðkoma hefur verið gerð að húsinu frá Dalbraut þar sem eru bílastæði.

Fjölmargir hafa lagt sitt af mörkum við uppbyggingu hins nýja húsnæðis og gaf Hringurinn meðal annars 50 milljónir króna til byggingarinnar á sínum tíma. Auk þess hafa margir aðrir lagt verkefninu lið með drjúgu framlagi, Thorvaldsenskonur, Kiwanismenn, Lionsmenn, kvenfélagasamtök og mörg önnur félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar.

Barna- og unglingageðdeild Landspítala tók til starfa árið 1970 og hét í upphafi Geðdeild Barnaspítala Hringsins í þakklætisskyni við Kvenfélagið Hringinn sem hafði lagt mikið af mörkum við stofnun deildarinnar. Í dag er barna- og unglingageðdeildin deild innan geðsviðs sem sérhæfir sig í mati og meðferð á geðröskunum barna og unglinga. Þar er tekið á móti börnum upp að 18 ára aldri. Geðheilbrigðisþjónusta hefur verið í örri þróun síðastliðna áratugi sem hefur endurspeglast í störfum BUGL og hefur áhersla á göngudeildar- og vettvangsþjónustu við börn og unglinga verið sívaxandi. Áherslan er lögð á að einstaklingnum sé gefinn kostur á að vera áfram í sínu daglega umhverfi en sækja þjónustu til göngudeildar. Á vegum BUGL er börnum og unglingum veitt fjölbreytt og sérhæfð geðheilbrigðisþjónusta. Unnið er þverfaglega og beinist vinnan að barninu og umhverfi þess svo sem foreldrum, heimili og skóla.

Starfsemin hefur aukist ár frá ári og nú eru rúmlega 100 starfsmenn við BUGL. Komur á göngudeild hafa verið allt að 7000 á ári.

Ávarp heilbrigðisráðherra



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum