Hoppa yfir valmynd
22. júní 2017 Dómsmálaráðuneytið

Fréttatilkynning um veitingu uppreist æru

Í ljósi umfjöllunar um uppreist æru og fyrirspurna fjölmiðla þar um til dómsmálaráðuneytisins vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi:

Þeir einstaklingar sem sótt hafa um uppreist æru og uppfylla lagaskilyrði 85. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hefur verið veitt uppreist æru.

Samkvæmt 85. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er heimilt að veita einstaklingi uppreist æru sem sætt hefur refsingu, 12 mánaða fangelsi eða lengur, ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt, þ.e. að refsing sé að fullu úttekin, að tilgreindur tími hafi liðið frá því að refsing var að fullu úttekin og að sýnt sé fram á  góða hegðun frá því að refsing var að fullu úttekin. Upplýsinga er svo aflað úr sakaskrá um sakaferil til staðfestingar á því að umsækjandi hafi ekki framið brot á tímabilinu ásamt upplýsingum úr málaskrá lögreglu um að umsækjandi eigi engin ólokin mál í refsivörslukerfinu. Til frekari staðfestingar á góðri hegðun er fengin umsögn a.m.k. tveggja umsagnaraðila.

Það er áratuga undantekningarlaus framkvæmd, a.m.k. sl. 35 ár, að ef umsækjandi um uppreist æru uppfyllir framangreind lögformleg skilyrði til að hljóta uppreist æru, þá er hún veitt. Ákvæði 2. mgr. 85. gr. alm. hgl. er heimildarákvæði og hygðist ráðherra eða forseti Íslands synja umsókn um uppreist æru, þrátt fyrir að umsækjandi uppfylli öll lagaleg skilyrði, yrðu að vera fyrir því málefnalegar ástæður.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur lýst því yfir að ef breyta eigi áratuga langri framkvæmd við veitingu uppreist æru þurfi löggjafinn mögulega að koma að því. Ráðherra hefur þegar farið fram á skoðun innan dómsmálaráðuneytis hvað þetta varðar og mögulega þörf á breytingu á löggjöf.

Það skal sérstaklega tekið fram að ekki er gerður áskilnaður í lögum að ekki sé um að ræða tiltekna tegund brots. Tegund brots hefur því engin áhrif um mat á því hvort veita eigi uppreist æru.

Nánari upplýsingar um lagaskilyrði og málsmeðferð má finna á vef dómsmálaráðuneytisins. Sjá slóð: http://www.stjornarradid.is/verkefni/log-og-rettur/fullnusta-refsinga/uppreist-aeru/

Þá er verið að taka saman tölulegar upplýsingar í ráðuneytinu um fjölda umsókna um uppreist æru sem birtar verða á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins.

Varðandi ósk eftir gögnum um uppreist æru tiltekins einstaklings, þ.e. afrit af umsókn, rökstuðningi ráðuneytisins fyrir því að umsækjandi uppfylli lagaskilyrðin og nöfn þeirra einstaklinga sem skiluðu inn umsögn um góða hegðun umsækjenda, tekur ráðuneytið fram eftirfarandi:

Viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 eru allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Af þeim sökum afhendir ráðuneytið ekki gögn er varða einstaka umsóknir um uppreist æru.

Vinnugögn teljast þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar skv. 2. og 3. gr. upplýsingalaga hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur ekki til vinnugagna, sbr. 8. gr. laganna en hins vegar ber að afhenda vinnugögn ef þar kemur fram endanleg ákvörðun um afgreiðslu máls, sbr. 1. tl. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Í vinnugagni sem ritað var í meðförum málsins innan ráðuneytisins kemur ekki fram endanleg ákvörðun um afgreiðslu málsins heldur er þar einvörðungu gerð tillaga að afgreiðslu til ráðherra og ráðuneytisstjóra. Af þeim sökum er ráðuneytinu ekki heimilt samkvæmt upplýsingalögum að afhenda vinnugagnið.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.- 10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Í 9. gr. laganna er kveðið á um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. Þar segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að trúnaður ríki um, nema sá samþykki sem á í hlut. Á grundvelli þessarar reglu er heimilt að undanþiggja tiltekin gögn upplýsingarétti ef í þeim er að finna upplýsingar sem eru þess eðlis að rétt þykir að um þær ríki trúnaður. Ákvæðið felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að trúnaður ríki um upplýsingar um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekki erindi við allan þorra manna. Með hliðsjón af eðli upplýsinganna og þeirra sjónarmiða sem fram koma í úrskurði Persónuverndar í máli nr. 2014/911, er það mat ráðuneytisins að því sé ekki heimilt að birta nöfn þeirra einstaklinga sem hafa vottað um góða hegðun einstakra umsækjenda um uppreist æru

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira