Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2008 Innviðaráðuneytið

Veruleg áhrif samgangna á byggðaþróun - málstofa samgönguráðs

Frá málþingi samgönguráðs 17.apríl 2008. Í pontu er Sveinn Agnarsson hagfræðingur.Yfir 20% íbúar Árborgar og 17% íbúa Reykjanessbæjar sækja atvinnu á höfuðborgarsvæðið. Stækkandi höuðborgarsvæði, vaxandi ferðatími innan þess og áhrif ferðatíma og samgöngubóta á íbúðarverð og búferlaflutninga var meðal þess sem rætt var á málstofu samgönguráðs um samgöngur og byggðaþróun sem haldin var í liðinni viku.

Þrjár mögulegar borgir

Í máli Bjarna Reynarssonar skipulagsfræðings og ráðgjafa hjá Land-ráði um ferðavenjur sumarið 2007 kom fram að samkvæmt könnun um ferðavenjur, sem hann kynnti, tvöfölduðust ferðir frá jaðarbyggðum til höfuðborgarsvæðisins frá sumrinu 2004 til 2007. Um 20% svarenda í Árborg og 17% í Reykjanesbæ vinna á höfuðborgarsvæðinu og um þriðjungs aukning var á tíðni innanlandsflugs frá 2004. Um 24% ferða eru frá landsbyggðakjörnum til Reykjavíkur með flugi.

Þá kom einnig fram í máli Bjarna að ef flytja á flug úr Vatnsmýri vilja 44% svarenda á höfuðborgarsvæðinu að það verði flutt til Keflavíkur. Sundabraut og breikkun Suðurlandsvegar eru mikilvægustu framkvæmdirnar að áliti svarenda.

Svarendur á höfuðborgarsvæðinu voru að meðaltali um 11 mínútur á leiðinni til vinnu og eyddu að meðaltali 45 mínútum í bíl hvern virkan dag. Um 70% svarenda á höfuðborgarsvæði sögðust tilbúnir að skiptast á við nágranna og vinnufélaga að aka til vinnu

Bjarni setti fram þrjár hugmyndir að þróun höfuðborgarsvæðisins. Í fyrsta lagi væri mögulegt að borgin þróaðist sem línuborg og næði frá Reykjanesbæ til Reykjavíkur. Í öðru lagi væri mögulegt að hún þróaðist sem jaðarborg, og næði frá Bifröst í norðri til Árborgar í suðri og til Reykjanesbæjar í vestri. Í þriðja lagi gæti borgin orðið tvíburaborg, sem hverfðist í kringum tvö meginsvæði: Byggð í Vatnsmýri og miðborgina.

Vandi hafnanna

Sveinn Agnarsson hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands ræddi fjárhagsstöðu hafna, sem víða er slæm, og vanda landsbyggðarinnar hvað það varðaði. Hann viðraði nokkrar leiðir til úrbóta, sem gætu m.a. falið í sér aukna hagræðingu og hugsanlega aukið samstarf hafna, þar sem stofnuð yrðu fleiri hafnarsamlög. Mögulega mætti setja fram áætlun um hvaða hafnir væri hagkvæmt að starfrækja og hverjar ekki. Ríkisaðstoð til hjálpar sveitarfélögum gæti einnig skapað svigrúm til lausnar á vandanum.

Flug ómissandi fyrir byggð

Pétur Maack flugmálastjóri færði að því rök í erindi sínu um flug og byggðaþróun að flug væri ómissandi starfsemi á Íslandi og grundvöllur búsetu. Í erindi hans kom fram að framleiðslutekjur flugsamgangna árið 2006 voru 85 milljarðar króna. Velta í innanlandsflugi er fjórir til fimm milljarðar. Um 350 til 400 viðskiptafarþegar fara á hverjum virkum degi í gegnum Reykjavíkurflugvöll, en viðskiptafarþegar eru um 30-40% af ferðamönnum í flugi innanlands. Bara með hliðsjón af þessu mætti færa að því rök að flug væri ómissandi grundvöllur ýmissra starfa víða um land og þar með búsetu.

Samgöngubætur styrkja búsetu

Vífill Karlsson hagfræðingur og dósent við Háskólann á Bifröst ræddi búferlaflutninga og samgöngubætur á Íslandi á árabilinu 1986-2006. Samkvæmt niðurstöðum rannsókna Vífils hafa vegstyttingar marktæk áhrif á búferlaflutninga, sem og betri vegir og lægri slysatíðni. Samgöngubætur á milli höfuðborgarsvæðisins og landsvæða í dreifbýli virðast þannig styrkja búsetu og renna stoðum undir hana, ásamt öðrum mikilvægum áhrifaþáttum.

Ferðatími hefur áhrif á íbúðarverð

Að síðustu flutti Ásgeir Jónsson hagfræðingur og forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings erindi um staðsetningu íbúðarhúsnæðis og tengsl staðsetningar við verð á Stór-höfuðborgarsvæðinu. Ásgeir benti á, að í dag færi almennt fasteignaverð lækkandi með aukinni fjarlægð frá miðbæ Reykjavíkur og að miðbæjaráhrif væru orðin nokkuð sterk og merkjanleg í fasteignaverði. Þetta fæli í sér breytingu frá því sem áður var.

Ásgeir færði fyrir því rök að aukinn ferðatími innan borgarinnar, vegna aukins umferðarþunga, fæli í sér fórnarkostnað sem hefði áhrif á það hvar eftirsótt væri talið að búa. Fyrir fimmtán árum hafi ferðakostnaður verið talsvert lægri og fjarlægðarþátturinn því skipt minna máli. Á þeim árum hafi eignir miðsvæðis almennt verið ódýrari en í þeim hverfum er lágu utar. Miðbæjaráhrifin voru með öðrum orðin engin á þeim árum.

Ein birtingarmynd þessarar þróunar, er að samhliða hækkandi ferðakostnaði hafa bæjarkjarnar myndast í úthverfum. Miðbæjaráhrif eru því að koma fram á nokkrum stöðum í borginni og úthverfi að lifna við, með tilheyrandi þjónustu fyrir íbúa.

Ásgeir taldi líklegt að ferðatími, miðað við óbreyttar stofnbrautir og áframhaldandi stækkun borgarinnar, myndi aukast enn frekar. Áhrif vaxandi ferðakostnaðar á höfuðborgarsvæðið muni í framhaldinu einkum koma fram í fimm þáttum: Áframhaldandi þéttingu byggðar miðsvæðis, sjálfstæðari sveitarfélögum, sterkari miðbæjaráhrifum á fleiri stöðum í borginni, flutningi á plássfrekri atvinnustarfsemi á útjaðar borgarinnar og auknum verðmun á íbúðarhúsnæði milli hverfa.

Málstofan, sem fram fór 17.apríl á Hótel Sögu, var vel sótt. Fundarstjóri var Dagur B. Eggertsson formaður samgönguráðs.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum