Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 482/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 13. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 482/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18090042

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. september 2018 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. september 2018, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti í fyrsta skipti um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli vistráðningar og fékk útgefið dvalarleyfi með gildistíma frá 13. júní 2016 til 24. maí 2017. Kærandi gekk í hjúskap með íslenskum ríkisborgara þann 8. maí 2017. Kærandi lagði fram umsókn um dvalaleyfi á grundvelli hjúskapar þann 11. maí 2017. Með hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. september 2018, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 25. september sl. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 26. september 2018. Kærunefnd hefur borist greinargerð, dags. 25. október 2018, ásamt fylgigögnum. Í greinargerð óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar, 18. september 2018, á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 25. október sl. féllst kærunefndin á þá beiðni.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að samkvæmt málaskrá stofnunarinnar liggi fyrir að síðan í ársbyrjun 2013 til ársins 2017 hafi verið gefin út 22 dvalarleyfi vegna vistráðningar til [...]. Af þeim 22 umsækjendum hafi 17 verið frá [...], heimahéraði kæranda. Af þessum 22 leyfishöfum hafi enginn snúið aftur til heimalands síns þegar dvalarleyfi þeirra hafi runnið út, að undanskildum einum leyfishafa. Þá hafi 21 af þessum 22 leyfishöfum gengið í hjúskap á meðan vistráðningu hafi staðið og lagt inn dvalarleyfisumsókn á þeim grundvelli, og væri kærandi þar á meðal. Með tilliti til framangreinds var það mat Útlendingastofnunar að rannsaka þyrfti málið betur með tilliti til málamyndahjúskapar. Í framhaldinu óskaði Útlendingastofnun eftir aðstoð lögreglu við rannsókn á búsetu kæranda, þ.e. hvort hún væri sannanlega búsett hjá maka sínum líkt og skylt sé skv. 1. og 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 110. gr. sömu laga.

Þann 19. desember 2017 hafi Útlendingastofnun borist lögregluskýrsla vegna málsins, dags. 16. desember 2017. Í skýrslunni komi fram að lögregla hafi farið að skráðu heimilisfangi kæranda og maka hennar, hinn [...], en kærandi hafi ekki verið heima. Hafi lögregla rætt við nágranna kæranda sem kvaðst ekki vita til þess að kærandi væri gift, þar sem hún væri alltaf ein í húsinu. Kærandi hafi tjáð lögreglu að hún væri gift og í sambúð í umræddu húsnæði en að eiginmaður hennar væri að vinna í borginni. Þar sem hann ynni mikið væri hann ekki alltaf hjá henni á heimilinu og gisti þá í [...]. Kærandi hafi ekki vitað hvar hann gisti eða hver vinnustaður eiginmanns hennar væri í borginni. Hafi lögregla spurt kæranda um nafn eiginmanns hennar en hún hafi hvorki getað borið nafn hans fram né skrifað það rétt niður á blað. Í skýrslunni sagði jafnframt að í herbergi kæranda, sem væri um 10 fermetrar að stærð, hafi verið eitt rúm með einni sæng og einum kodda. Brúðkaupsmyndir af kæranda og eiginmanni hennar hafi verið límdar á vegginn fyrir ofan rúmið en aðspurð hvort kærandi ætti fleiri myndir af þeim hjónum hafi hún svarað því neitandi. Aðspurð mundi kærandi ekki hvenær hún og eiginmaður hennar hafi gift sig. Þegar lögregla hafi borið undir kæranda að nágranni hennar héldi að hún ætti ein heima í herberginu og vissi ekki til þess að hún ætti eiginmann, hefði kærandi breytt frásögn sinni og tjáð lögreglu að maki hennar gisti sjaldan hjá henni en þegar hann gerði það, þá væri hún alltaf ein í húsinu.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til ákvæðis 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga en þar segi að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það ekki rétt til dvalarleyfis. Vísaði stofnunin því næst til lögskýringargagna með ákvæðinu. Sé það skilyrði fyrir synjun dvalarleyfis að rökstuddur grunur sé fyrir hendi að um gerning til málamynda sé að ræða. Þá séu talin upp atriði í lögskýringargögnum sem meðal annars megi líta til við mat á því hvort grunur sé á málamyndahjúskap, en ekki sé um tæmandi talningu að ræða og því sé það háð mati hverju sinni hvaða atriði styðji rökstuddan grun um gerning til málamynda. Ástæður þess að Útlendingastofnun grunaði að hjúskap kæranda og maka væri til málamynda hafi verið raktar í bréfi, dags. 11. júní 2018 sem sent hafi verið til maka kæranda. Tók stofnunin fram að niðurstaða um hugsanlegan málamyndahjúskap byggði á heildarmati á aðstæðum í hverju máli fyrir sig. Líkt og fram hefði komið veittu athugasemdir með 70. gr. laga um útlendinga leiðbeiningar um þau atriði sem stofnunin gæti litið til við mat á því hvort að til hjúskapar hefði verið stofnað til að afla dvalarleyfis. Atriði sem ein og sér leiddu ekki til þeirrar niðurstöðu að rökstuddur grunur teldist vera fyrir hendi um að til hjúskapar hefði verið stofnað til málamynda gætu samanlögð bent sterklega til þess, líkt og í þessu máli.

Með vísan til fyrrgreindar lögregluskýrslu var það mat Útlendingastofnunar að kærandi þekkti maka sinn lítið, enda vissi hún ekki hvar hann gisti eða starfaði. Sömuleiðis teldi stofnunin það ólíklegt að kærandi byggi með maka sínum, líkt og skylt væri lögum samkvæmt, þrátt fyrir að lögheimili þeirra væri skráð á sama stað og nokkrar karlmannsflíkur og tvenn karlmannsskópör hafi verið að finna í herbergi kæranda. Þá styddu upplýsingar sem fengust frá nágranna kæranda þennan grun, enda teldi hann að kærandi byggi ein í herberginu, þar sem hún væri alltaf ein þar og þá vissi nágranninn ekki að kærandi væri gift. Þrátt fyrir tungumálaörðugleika nágrannans taldi stofnunin ekki ástæða til að draga þær upplýsingar sem fram kæmu í lögregluskýrslu í efa eða til að rengja hlutleysi lögreglu við rannsókn málsins að öðru leyti.

Að öllu framangreindu var það mat Útlendingastofnunar að tilgangur kæranda með umsókn sinni væri annar en gefinn hefði verið upp og að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi, enda hefði í málinu ekki verið sýnt fram á annað svo óyggjandi væri. Umsókn kæranda var því synjað, sbr. 2. mgr. 55. gr. og 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda, dags. 25. október 2018, kemur fram að hún telji Útlendingastofnun hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að vanda ekki til rannsóknar á því hvort kærandi hafi brotið gegn g-lið 2. mgr. 116. gr. laga um útlendinga, sbr. 8. mgr. 70. gr. Sé skyldan til rannsóknar ríkari eftir því sem ákvörðun útlendingayfirvalda er meira íþyngjandi fyrir útlending. Þannig dugi ekki í því sambandi að byggja stjórnvaldsákvörðun á því að margir samlandar kæranda hafi fengið dvalarleyfi vegna vistráðningar og gengið í hjúskap meðan þeir dvelji hér á landi. Þá byggir kærandi á því að ákvörðun Útlendingastofnunar eigi sér ekki stoð í 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga þar sem áskilið sé að um rökstuddan grun sé að ræða. Telur kærandi að stofnunin hafi ekki sýnt fram á að svo sé og að frásögn af heimsókn lögreglu á heimili kæranda feli ekki í sér sönnun fyrir því að stofnað hafi verið til hjúskapar til málamynda. Þá verði ekki byggt á þeim upplýsingum sem nágranni kæranda hafi veitt lögreglu enda tali hún hvorki íslensku né ensku. Þá hafi kærandi sýnt lögreglunni tvíbreitt rúm hjónanna og ýmsar eigur eiginmanns síns, s.s. fatnað og skó. Kærandi byggir loks á því að það sé ekki á valdsviði Útlendingastofnunar að dæma um hvort brotið sé gegn g-lið 2. mgr. 116. gr. heldur sé það dómstóla að skera úr um slíkt. Rannsókn og ákæra vegna gruns um málamyndahjúskap sé í höndum lögreglu og skeri dómstólar úr um hvort kærandi hafi gerst sek um refsiverðan verknað. Í máli kæranda hafi ekki verið gefin út ákæra á hendur henni eða hún dæmd fyrir brot gegn téðu lagaákvæði og því verði synjun á dvalarleyfi ekki byggð á því að kærandi hafi brotið lög. Þá byggir kærandi á því að hún uppfylli öll skilyrði til útgáfu dvalarleyfis.

Í greinargerð vísar kærandi til ábendingar frá kærunefnd útlendingamála um að vísbendingar væru um að maki kæranda væri í sambandi með annarri konu. Í bréfi kæranda til kærunefndar, dags. 18. október 2018, kom fram að kærandi og maki hennar væru ennþá í hjúskap en hefðu undanfarið verið að kljást við vandamál í hjónabandi sínu. Væri kærandi búin að óska eftir því að þau færu í hjónabandsráðgjöf saman. Þá segir í greinargerð, dags. 23. október 2018, að kærandi hafi mætt ásamt maka kæranda til umboðsmanns síns. Hafi maki kæranda greint frá því að ósætti hafi orðið hjá þeim og hafi hann birt myndirnar á samfélagsmiðlum í þeim tilgangi að særa eiginkonu sína. Þegar myndirnar séu skoðaðar nánar sjáist greinilega að ekki sé um kærustusamband að ræða. Séu kærandi og maki kæranda núna í hjónabandsmeðferð. Hafi maki kæranda lengi glímt við [...] sem skýri að hluta til óstöðugleika varðandi vinnumál og ójafnvægi í einkalífi. Vilji kærandi og maki kæranda gefa hjónabandi sínu tækifæri.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 70. gr. laga um útlendinga er kveðið á um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Í 1. málsl. 8. mgr. 70. gr. segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi til að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Í athugasemdum við 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendingar segir m.a.:

„Ákvæðinu er ætlað að heimila synjun á veitingu leyfis ef hægt er að sýna fram á að til hjúskapar hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, t.d. til að afla dvalarleyfis. Þegar metið er hvort grunur sé á málamyndahjúskap er m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvort annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar. Við mat á aðstæðum sem þessum þarf þó að taka tillit til þess að mismunur getur verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna hvort á öðru við upphaf hjúskapar. Það að aðilar hafi ekki hist áður eða búið saman fyrir stofnun hjúskapar getur ekki verið eini grundvöllur þess til að synja um veitingu leyfis á þessum grundvelli heldur verður fleira að koma til sem bendir til þess að um málamyndagerning sé að ræða. Auk þessara þátta getur skipt máli hvort viðkomandi útlendingur hafi áður sótt um dvöl hér á landinu á öðrum grundvelli, m.a. með umsókn um alþjóðlega vernd og að viðkomandi útlendingur hafi gengið í hjúskap stuttu eftir að þeirri umsókn hafi verið hafnað.“

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli vistráðningar með gildistíma frá 13. júní 2016 til 24. maí 2017. Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara þann 11. maí 2017. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá Íslands gengu kærandi og maki kæranda í hjúskap hinn 8. maí 2017, eða þremur dögum áður en umrædd umsókn um dvalarleyfi var lögð fram. Samkvæmt lögregluskýrslu, dags. 16. desember 2017, fór lögregla að lögheimili kæranda þar sem rætt var við kæranda og nágranna hennar. Kvaðst nágranni kæranda ekki vita til þess að kærandi væri gift þar sem hún væri alltaf ein í herberginu sínu. Í samtali við lögreglu vissi kærandi ekki hvar eiginmaður hennar gisti í [...], ekki hvar hann starfaði og þá gat hún hvorki borið nafn hans rétt fram né skrifað það. Í skýrslunni kemur jafnframt fram það mat lögreglu að aðstæður í herbergi kæranda bentu ekki til þess að einhver annar byggi þar með henni.

Við meðferð málsins skoðaði kærunefnd opnar síður kæranda, maka hennar og einstaklinga sem standa þeim nærri á samfélagsmiðlum. Á síðu maka kæranda á samfélagsmiðlinum Facebook kemur fram að hann sé í sambandi með konu sem er ekki kærandi. Þá liggja fyrir myndir af maka kæranda og konunni á Instagram síðu hans og hennar. Um er að ræða a.m.k. sjö myndir sem hafa verið birtar á samfélagsmiðlum á þriggja mánaða tímabili en nýjasta myndin var birt [...]. Að mati kærunefndar eru skýringar kæranda í bréfi, dags. 18. október 2018, og skýringar kæranda og maka kæranda í greinargerð, dags. 23. október 2018, þ.m.t. um að konan á myndunum sé vinkona hans og birting myndanna hafi verið í hefndarskyni, mjög ótrúverðugar. Engar myndir er að finna á samfélagsmiðlum af kæranda eða af kæranda og maka hennar saman.

Samkvæmt framansögðu benda gögn málsins til þess að kærandi og eiginmaður hennar hafi gengið í hjúskap mjög skömmu áður en umsókn um dvalarleyfi var lögð fram. Þá benda gögnin hvorki til þess að kærandi búi með eiginmanni sínum né að hún þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hans. Þá telur kærunefnd að gögn af samfélagsmiðlum bendi til þess að maki kæranda sé í sambandi með annarri konu. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að fyrir hendi í málinu sé rökstuddur grunur um að til hjúskaparins hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Eins og að framan greinir hefur kærandi lagt fram skýringar við meðferð málsins sem kærunefnd telur mjög ótrúverðugar en ekki lagt fram önnur gögn í málinu. Að mati nefndarinnar hefur ekki verið sýnt fram á svo óyggjandi sé að til hjúskaparins hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en að afla dvalarleyfis. Samkvæmt framansögðu veitir hjúskapur kæranda og maka hennar því ekki rétt til dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar.

Kærandi byggir m.a. á því að það sé ekki á valdi Útlendingastofnunar að ákvarða um það hvort kærandi hafi brotið gegn g-lið 2. mgr. 116. gr. laga um útlendinga heldur sé það hlutverk dómstóla að skera úr um slíkt. Þá sé rannsókn vegna gruns um málamyndahjúskap í höndum lögreglu. Vegna þessara málsástæðna tekur kærunefnd fram að í ákvörðun Útlendingastofnunar er ekki vísað til g-liðar 2. mgr. 116. gr. laga um útlendinga. Þá leiðir af ákvæðum laga um útlendinga að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála taka ákvarðanir um veitingu dvalarleyfa og eru bær til að synja umsóknum um dvalarleyfi, sbr. t.d. 1. mgr. 52. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um útlendinga. Af 10. gr. stjórnsýslulaga leiðir að það stjórnvald sem tekur ákvörðun í máli ber ábyrgð á því að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Að mati kærunefndar er ekki tilefni til að gera athugasemd við rannsókn málsins hjá Útlendingastofnun, þ.m.t. aðkomu lögreglu að henni, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um útlendinga. Verður því ekki fallist á aðalkröfu kæranda um að málinu verði vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber henni að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa henni, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                   Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum