Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun RSK á endurgreiðslu virðisaukaskatts

Húsfélagið […]
105 Reykjavík

Reykjavík 10. apríl 2013
Tilv.: FJR12030006/16.2.5


Efni: Kæra húsfélgsins […] vegna lækkunar ríkisskattstjóra á endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað.

Málavextir eru þeir að þann 18. október 2011 barst ríkisskattstjóra beiðni frá kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna aðkeyptrar vinnu verktaka við endurbætur og viðhald á íbúðarhúsnæði að […]. Sótt var um endurgreiðslu að fjárhæð kr. 908.856 en með bréfi, dags. 7. desember 2011, lækkaði ríkisskattstjóri fjárhæðina til endurgreiðslu um kr. 292.424 eða í kr. 616.432. Ríkisskattstjóri hafnaði að fullu þeim hluta endurgreiðslubeiðninnar er snéri að hlut [VH] og vísaði í því skyni til ákvæða 1. og 8. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, sbr. einnig ákvæða 3. gr. og 1.-5. tölul. 4. gr. sömu reglugerðar.

Með bréfi, dags. 1. mars 2012, var ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 7. desember 2011, kærð til ráðuneytisins. Meðfylgjandi kærunni voru reikningar [VH] er kváðu á um 170 klst. vinnu á árinu 2011. Um var að ræða tvo reikninga og samkvæmt þeim fyrri var unnið að gerð aðaluppdrátta, verkfræðiteikninga vegna lagfæringa á þaki, gerð útboðsgagna vegna þakviðgerða og öflun tilboða og gerð verksamninga. Samkvæmt síðari reikningnum var unnið að undirbúningi utanhússviðgerða og að samningi við byggingarverktaka. Í bréfi [VH] til kæranda, dags. 20. febrúar 2012, kom fram vinna verkfræðistofunnar í 135 klst., sem tiltekin var á fyrri reikningnum, væri vegna hönnunar og vinnu í 7 klst. vegna efirlits á þeim síðari. Samtals væru þetta 142 klst. í vinnu sem kærandi greiddi fyrir kr. 923.000, auk kr. 235.365 í virðisaukaskatt. Þá vísaði kærandi til þess að í ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 7. desember 2011, hafi komið fram að virðisaukaskattur væri endurgreiddur af vinnu vegna hönnunar og eftirlits á byggingarstað. Af þeim sökum gerði kærandi kröfu um að ákvörðun ríkisskattstjóra yrði endurskoðuð og honum endurgreiddur virðisaukaskattur að fjárhæð kr. 235.365.

Með bréfi, dags. 7. desember 2012, óskaði ráðuneytið eftir umsögn ríkisskattstjóra um málið og barst umsögn ríkisskattstjóra til ráðuneytisins með bréfi, dags. 7. janúar 2013. Í umsögninni kom fram að kæruefnið varðaði 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XV við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. lög nr. 10/2009, um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt ákvæðinu, líkt og það hljóðaði eftir breytingar samkvæmt lögum nr. 19/2008 og lögum nr. 64/2009, kemur fram að m.a. skuli endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhalds þess háttar húsnæðis. Sambærilegt ákvæði væri að finna í d-lið 1. gr. reglugerðar nr. 440/2009, um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæðis auk annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga, en reglugerðin er sett á grundvelli framangreinds bráðabirgðaákvæðis.

Þá vísar ríkisskattstjóri til þess að í tilvitnuðum ákvæðum er heimilað að endurgreiða virðisaukaskatt vegna hönnunar og eftirlits vegna endurbóta eða viðhalds á íbúðarhúsnæði. Þá tók ríkisskattstjóri fram að með kærunni til ráðuneytisins, dags. 1. mars 2012, var lagt fram bréf verkfræðistofunnar til kæranda með nánari útlistun á vinnu stofunnar fyrir kæranda. Hafi því verið lagðar fram nýjar upplýsingar sem ríkisskattstjóri hafði ekki þegar tekin var ákvörðun í máli kæranda, dags. 7. desember 2011. Með vísan til framangreinds gat ríkisskattstjóri ekki betur séð en að sú þjónusta sem [VH] veitti kæranda félli undir gildissvið ákvæðis til bráðabirgða XV við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. einnig 1. gr. reglugerðar nr. 440/2009 og var það því mat ríkisskattstjóra að fallast bæri á kröfu kæranda í málinu.

Forsendur og niðurstaða

Í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XV við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. lög nr. 10/2009, um breytingu á lögum nr. 50/1988, segir að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 skuli á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. janúar 2014 endurgreiða byggjendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu þess háttar húsnæðis. Jafnframt skal á sama tíma endurgreiða eigendum íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess háttar húsnæðis. Þá kemur einnig skýrt fram í c-lið 1. gr. reglugerðar nr. 440/2009, um tímabundna aukna endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði og frístundahúsnæði auk annars húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga, að endurgreiða skuli virðisaukaskatt sem byggjendur íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis hafa greitt af þjónustu hönnuða og eftirlitsaðila sem löggildingu hafa samkvæmt skipulags- og byggingarlögum vegna hönnunar eða eftirlits við endurbætur eða viðhald þess.

Með vísan til alls framangreinds verður að fallast á það með kæranda að það beri að endurgreiða honum virðisaukaskatt að fjárhæð kr. 235.365.

Úrskurðarorð

Ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 7. desember 2011, um að lækka endurgreiðslu virðisaukaskatt að fjárhæð kr. 292.424, er felld úr gildi. Endurgreiða skal kæranda virðisaukaskatt vegna vinnu við hönnun og eftirlit vegna endurbóta eða viðhalds á íbúðarhúsnæði í samræmi við 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XV við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að fjárhæð kr. 235.365


 

Fyrir hönd ráðherra



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum