Hoppa yfir valmynd
6. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Atvinnutækifæri í Manitoba

Undirritun samkomulags
Undirritun samkomulags

Ásta R. Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, og Nancy Allan, ráðherra atvinnu- og inflytjendamála í Manitoba í Kanada, hafa undirritað samkomulag sem skapar tímabundna atvinnumöguleika fyrir Íslendinga. Viðstaddir undirritunina auk ráðherranna voru Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, ráðuneytisstjóri félags- og tryggingamálaráðuneytinsins, og Ben Rempel ráðuneytisstjóri.

Samkomulagið er gert að frumkvæði stjórnvalda í Manitoba í Kanada og skapar grundvöll fyrir samvinnu um að bjóða faglærðum Íslendingum atvinnu tímabundið. Um er að ræða tímabundin atvinnuleyfi sem munu ráðast af þörf atvinnulífsins í Manitoba.

Íslensk stjórnvöld ætla að hafa milligöngu um samskipti milli kanadískra atvinnurekenda og atvinnuleitenda hérlendis. Í þessu felst annars vegar að kanadískir atvinnurekendur upplýsa stjórnvöld ytra um að þeir óski eftir fólki til starfa og hins vegar að atvinnuleitendur hér á landi upplýsi innlend stjórnvöld um að þeir séu reiðubúnir til að ráða sig til starfa í Manitoba. Munu innlend stjórnvöld jafnframt upplýsa kanadísk stjórnvöld um hvaða hæfniskröfur, þar á meðal kröfur um menntun, eru gerðar hér á landi innan einstakra starfsgreina. Stjórnvöld sjá síðan um að koma á sambandi milli atvinnurekenda og atvinnuleitenda.

Íslensk stjórnvöld hafa verið upplýst um þau réttindi sem fylgja tímabundnum atvinnuleyfum sem Íslendingar fá kjósi þeir að nýta sér þau tækifæri sem verkefnið hefur upp á að bjóða. Kom meðal annars fram að þeir og fjölskyldur þeirra eru sjúkratryggð frá fyrsta degi, að börnum standi til boða að sækja skóla og mökum tryggð atvinnuleyfi.

Með undirritun samkomulagsins er innsiglaður vilji ráðherranna til að standa að verkefninu. Enn á þó eftir að vinna að nánari útfærslu verkefnisins en ráðgert er að það verði gert á næstu dögum. Í þeim tilgangi munu jafnframt embættismenn frá Kanada funda með embættismönnum hérlendis dagana 11. og 12. mars næstkomandi.

Stjórnvöldum í Manitoba var kynnt ástand mála í kjölfar efnahagsþrenginganna í október síðastliðnum. Þá þegar kom fram mikill velvilji í garð Íslendinga enda standa samskiptin á gömlum merg. Í nóvember hafði ráðherra atvinnu- og innflytjendamála, Nancy Allan, samband við íslensk stjórnvöld í þeim tilgangi að kanna grundvöll fyrir samvinnu um að bjóða faglærðum Íslendingum atvinnu í Manitoba í Kanada. Er um að ræða sambærilega samvinnu og fylkið hefur undirgengist með nokkrum öðrum ríkum, til að mynda Þýskalandi. Eftir að ný ríkisstjórn tók við hér á landi í febrúar síðastliðnum var málið sett í gang á ný og undirbúningur hafinn að fundi ráðherranna sem fór fram 4. mars.

Ráðgert er að framkvæmd verkefnisins verði í höndum Vinnumálastofnunar fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Fyrir hönd kanadískra stjórnvalda verður það ráðuneyti Allan sem sér um útfærsluna.

Þann 13. mars verður haldinn kynningarfundur um atvinnutækifæri í Kanada, einkum Manitoba í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands á vegum Vinnumálastofnunar og kanadíska sendiráðsins hér. Nánari upplýsingar verða þá veittar almenningi um tilhögun verkefnisins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum