Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2022 Utanríkisráðuneytið

MAR Advisors kanna tækifæri fyrir víetnamískt sjávarfang í Evrópu með aðstoð Heimsmarkmiðasjóðs

Ráðgjafafyrirtækið MAR Advisors hefur hlotið styrk úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu til að kanna tækifæri til að bæta aðgengi sjávarfangs frá Víetnam að mörkuðum í Evrópu. Stór hluti sjávarfangs frá þróunarlöndum fer flókna leið á markaði og fyrirtæki í virðiskeðjunni hafa ekki hvata til þess að kynna uppruna framleiðslunnar. Framleiðsla á sjávarfangi í Víetnam nemur 7-8 milljónum tonna og er landið í fjórða sæti yfir þau lönd sem framleiða mest í heiminum. Rúmlega helmingur af framleiðslunni kemur frá fiskeldi, t.d rækja og pangasius. Stór hluti framleiðslu í Víetnam fer fram hjá tiltölulega smáum fyrritækjum með takmarkaðan aðgang að evrópskum mörkuðum.

Forkönnunarverkefnið gefur tækifæri til að kanna forsendur, í samvinnu við framleiðendur á pangasius og rækju, fyrir því að koma á einfaldari og hagkvæmari virðiskeðju í Víetnam. Markmiðið er að auka arðsemi framleiðanda og tryggja betri gæði fyrir neytendur og vinna þannig að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um góða atvinnu og hagvöxt (númer 8), um ábyrga neyslu og framleiðslu (númer 12) og um líf í vatni (númer 14). Náið samstarf framleiðanda við söluaðila og tæknilegar lausnir sem mæta kröfum neytenda um gagnsæi eru til þess fallnar að auka skilvirkni og skila hærra afurðaverði til framleiðanda. Verði niðurstöður jákvæðar verður ráðist í framhaldsverkefni sem nær til fleiri fyrirtækja í Víetnam og mögulega í nágrannaríkjum. Stefnt er því að ljúka undirbúningsverkefninu í janúar 2023. 

MAR Advisors er sérhæft ráðgjafafyrirtæki í alþjóðlegum sjávarútvegi og innviðafjárfestingum. Samstarfsaðili í Víetnam er Maranda ltd og smærri fyrirtæki með starfsemi við Mekong-fljótið.

Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs um þróunarsamvinnu styður við fyrirtæki sem vilja vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með því að ráðast í samstarfsverkefni í þróunarlöndum. Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna á www.utn.is/atvinnulifogthroun.

  • Martin Eyjólfsson, Magnús Bjarnason og Gústav Magnússon við undirritun samningsins. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 8 Góð atvinna og hagvöxtur
Heimsmarkmið Sþ: 14 Líf í vatni
Heimsmarkmið Sþ: 12 Ábyrg neysla

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum