Samráð um að virkjunarkostir haldist í biðflokki
Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur sett af stað samráðsferli um tillögu þess efnis að Kjalölduveita og virkjunarkostir í Héraðsvötnum í Skagafirði verði áfram í biðflokki rammaáætlunar. Þannig verði áfram óheimilt að veita leyfi vegna orkuvinnslu á svæðunum, en stjórnvöldum ekki skylt að friðlýsa þau. Virkjunarkostunum var raðað í biðflokk rammaáætlunar með ákvörðun Alþingis árið 2022.
Fram undan er vinna við að afmarka og friðlýsa með lögmætum hætti alla þá kosti sem Alþingi hefur þegar samþykkt í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar, en með dómi Hæstaréttar 27. mars 2024 í máli nr. 36/2023 varð ljóst að engin svæði hafa verið friðlýst gegn orkuvinnslu með lögformlega réttum og bindandi hætti síðan lög um verndar- og orkunýtingaráætlun voru sett árið 2011. Hefur dómurinn orðið tilefni skoðunar í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu á friðlýsingarflokki 53. gr. náttúruverndarlaga og samspili laga um verndar- og orkunýtingaráætlun og laga um náttúruvernd.
Á 157. löggjafarþingi mun umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra leggja fram frumvarp með ýmsum breytingum á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun í þágu aukinnar skilvirkni og bættrar málsmeðferðar. Þá er unnið að stefnu um raforkuöflun með tölulegum markmiðum um raforkuframleiðslu til næstu 10 ára. Samkvæmt tillögu ráðherra í samráðsgátt munu Kjalölduveita og virkjunarkostir í Héraðsvötnum haldast í biðflokki meðan unnið er að framangreindri stefnumótun og lagabreytingum. Í því samhengi er rétt að taka fram að biðflokkur er hlutlaus flokkur í þeim skilningi að réttaráhrifin af slíkri flokkun eru í reynd þau sömu og ef aldrei hefðu komið fram hugmyndir um virkjun á viðkomandi svæði.
Í þingsályktunartillögunni sem lögð verður fram á 157. löggjafarþingi verður að finna kort með afmörkunum verndarsvæða virkjunarkosta sem Alþingi hefur þegar samþykkt að flokkist í verndarflokk áætlunarinnar. Um er að ræða verndarsvæði vegna virkjunarkosta í Skjálfandafljóti, Markarfljóti og verndarsvæði Búlandsvirkjunar sem ráðherra hyggst friðlýsa gegn orkuvinnslu, nái tillagan fram að ganga. Þá vinnur verkefnisstjórn rammaáætlunar einnig að mati á þeim virkjunarkostum og landsvæðum sem flokkaðir höfðu verið í verndarflokk rammaáætlunar og friðlýstir á grundvelli þess, en áðurnefndur dómur Hæstaréttar gerði að verkum að þær friðlýsingar voru afturkallaðar. „Ráðherra leggur áherslu á að þau svæði sem löggjafinn hefur samþykkt að njóti verndar verði friðlýst sem fyrst og mun hraða þeirri vinnu sem kostur er,“ segir í tillögu ráðherra í samráðsgátt.