Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Stjórnskipan Tryggingastofnunar breytist

Fréttatilkynning nr. 29/2004

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, hefur skipað nýja fimm manna stjórn og varamenn yfir Tryggingastofnun ríkisins og sett forstjóra hennar nýtt erindisbréf. Ráðherra skipar jafnframt formann og varaformann stjórnar. Þetta er gert í kjölfar laga nr. 91/2004 en með þeim var tryggingaráð lagt niður og þess í stað samþykkt ákvæði um skipan stjórnar TR.

Samkvæmt nýju lögunum verður megin hlutverk stjórnar TR að staðfesta skipulag stofnunarinnar, að samþykkja árlega starfs- og fjárhagsáætlun og að marka stofnuninni stefnu til lengri tíma.

Stjórninni er gert að hafa eftirlit með starfsemi TR og sjá til þess að rekstur hennar sé jafnan innan ramma fjárlaga. Þá kemur það í hlut stjórnar TR að tilnefna fulltrúa Tryggingastofnunar ríkisins í samninganefnd samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og fulltrúa í siglinganefnd.

 Samkvæmt lögunum hvílir sú skylda á formanni stjórnar TR að gera ráðherra reglulega grein fyrir starfsemi stofnunarinnar og gera ráðherra viðvart ef starfsemi og þjónusta er ekki í samræmi við ákvæði laga og ef rekstur stofnunarinnar er ekki í samræmi við fjárlög. Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Forstjóri situr stjórnarfundi og hefur þar málfrelsi og tillögurétti.  Ráðherra setur stjórninni starfsreglur. 

 Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað eftirtalda í stjórn Tryggingastofnunar ríkisins frá og með 1. nóvember 2004 til næstu alþingiskosninga:

 Aðalmenn:
Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, formaður,
Margrét S. Einarsdóttir, forstöðumaður, varaformaður,
Karl V. Matthíasson, fyrrverandi alþingismaður,
Sigríður Jóhannesdóttir, fyrrverandi alþingismaður,
Gísli Gunnarsson, sóknarprestur.

 Varamenn:
Svala Árnadóttir, skrifstofumaður,
Signý Jóhannesdóttir, form. Verkalýðsfélagsins Vöku,
Elsa Ingjaldsdóttir, framkvæmdastjóri,
Bryndís Friðgeirsdóttir, kennari,
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, framkvæmdastjóri.

 

 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
4.11.2004

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum