Hoppa yfir valmynd
15. mars 2022 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra tók þátt í fundi leiðtoga JEF-ríkjanna

Mynd Andrew Parsons/No 10 Downing Street - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í dag þátt í fundi leiðtoga þátttökuríkja í Sameiginlegu viðbragðssveitinni (e. Joint Expeditonary Force, JEF) í London. Umræðuefni fundarins var ástandið í Úkraínu og staða öryggis- og varnarmála í Evrópu í kjölfar innrásar Rússlands.

Á fundinum ræddu leiðtogarnir hvernig ríkin gætu stutt frekar við Úkraínu, bæði hernaðarlega og í formi mannúðaraðstoðar. Volodomyr Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði fundinn í gegnum fjarfundabúnað.

Þá var sérstaklega rætt um þá stöðu sem upp er komin í öryggis- og varnarmálum á norðurslóðum og í Eystrasalti í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu og hver áhrifin verða til framtíðar.

JEF er samstarfsvettvangur líkt þenkjandi Evrópuríkja í öryggis- og varnarmálum þar sem öll Norðurlöndin eiga aðild, Eystrasaltsríkin, Holland og Bretland, sem leiðir samstarfið. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, bauð til fundarins en leiðtogarnir hittust einnig í kvöldverðarboði í gær. Forsætisráðherra átti einnig stutta tvíhliða fundi með Magdalenu Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.

Þá átti forsætisráðherra fund í gær með Keir Starmer, leiðtoga Verkamannaflokksins, og Ed Miliband, skuggaráðherra loftslagsmála um stöðuna í Úkraínu og efnahagsleg og samfélagsleg áhrif vegna innrásarstríðs Rússa. Þá ræddu þau græna tækni og lausnir í loftslagsmálum.

Mynd Tim Hammond/No 10 Downing Street

Mynd Tim Hammond/No 10 Downing Street

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum