Hoppa yfir valmynd
19. október 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Áform um endurskoðun laga um málefni aldraðra til umsagnar

Málefni aldraðra - mynd

Birt hafa verið í samráðsgátt áform heilbrigðisráðherra um endurskoðun laga um málefni aldraðra. Markmið fyrirhugaðra breytinga er að samræma mat á þörf aldraðra fyrir hjúkrunarrými, koma á einum samræmdum biðlista á landsvísu og tryggja betur forgang þeirra að hjúkrunarrýmum sem eru í mestri þörf fyrir slíkt úrræði.

Áformuð lagabreyting byggist á niðurstöðum úttektar ráðgjafafyrirtækisins KPMG; Embætti landlæknis, mat á InterRAI-mælitækjum og færni- og heilsumati, sem leiddi í ljós að þörf er á úrbótum varðandi notkun á InterRAI mælitækjum og framkvæmd færni- og heilsumats sem er forsenda fyrir flutningi fólks inn á hjúkrunarheimili. Stefnt er að því að innleiða notkun InterRAI-mælitækisins við heilsu- og færnimat, líkt og gert er í Kanada, þannig að mat á þörf einstaklinga fyrir búsetu á hjúkrunarheimili ráðist af niðurstöðum þess, í stað þess að umsókn hvers og eins sé tekin til umfjöllunar í færni- og heilsumatsnefnd. Með þessu er stefnt að auknu samræmi við framkvæmd heilsu- og færnimats, einfaldara matsferli og skjótari niðurstöðum.

Samkvæmt gildandi lögum um málefni aldraðra starfar þriggja manna færni- og heilsumatsnefnd í öllum heilbrigðisumdæmum sem leggur mat á allar umsóknir einstaklinga um færni- og heilsumat í viðkomandi umdæmi. Með breyttu fyrirkomulagi er gert ráð fyrir að þorri umsókna verði metinn með InterRAI-mælitækinu og að einungis álitamál sem upp kunni að koma verði lögð fyrir færni- og heilsumatsnefnd. Því er gert ráð fyrir að einungis muni starfa ein færni- og heilsumatsnefnd sem sinni landinu öllu og verði skipuð fulltrúum víða að af landinu.

Umsagnarfrestur er til 29. október næstkomandi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum