Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2012 Dómsmálaráðuneytið

Kirkjan verður enn um sinn eign þjóðarinnar

Kirkjuþing hófst í Reykjavík í morgun og stendur næstu dagana. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti ávarp við setningu þingsins ásamt Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands, Magnúsi E. Kristjánssyni, forseta kirkjuþings og Jónínu Sif Eyþórsdóttir, forseti kirkjuþings unga fólksins.

Innanríkisráðherra flutti ávarp við setningu kirkjuþings í morgun.
Innanríkisráðherra flutti ávarp við setningu kirkjuþings í morgun.

Kristni er trú en kirkjan er siður, sagði innanríkisráðherra meðal annars í ávarpi sínu og minntist deilu á Alþingi árið þúsund hvort hafa ætti heiðinn sið á Íslandi eða kristinn sið. ,,Þorgeir taldi kristnina á sigurbraut og andóf væri vonlítið. Því skyldi kristni í lög tekin. Síðan var mönnum frjálst hvort þeir vildu trúa á hinn hvíta Krist eða hinn almáttuga Ás, allt eftir sannfæringu sinni. Þessi regla hefur gilt síðan. Og þjóðin var spurð um þetta aftur nú þúsund árum seinna. Það er góð regla að taka málið upp á þúsund ára fresti,” sagði ráðherra og sagði enn misjafnt hvernig okkur færist kristnihaldið og væri þar átt við siðinn sjálfan. ,,Deilt er um mannanna verk og mun svo verða áfram. En þjóðin var spurð um sið og svarið var afgerandi. Þess vegna verður kirkjan enn um sinn eign þjóðarinnar. Og þjónar kirkjunnar því þjónar okkar allra og þjóðin og kirkjan munu fylgjast að í blíðu og stríðu og verða ekki aðskilin. Kirkjan verður að umbera þjóðina og þjóðin verður að umbera kirkjuna, ekki síður en Veðurstofan verður að umbera innanríkisráðherrann og allir verða að fyrirgefa öllum að lokum.”

Undir lok ræðunnar sagðist ráðherra finna að landið væri að rísa. Erfiðleikarnir væru vissulega ekki að baki, það muni enn taka langan tíma að vinna okkur úr þeim vanda sem við hefðum átt við að stríða vegna efnahagsvandans og lýðræðiskreppunnar sem hruninu hafi fylgt. Lokaorð ráðherra voru þessi:

,,En okkur mun takast það; okkur mun takast að sigrast á erfiðleikunum. Þjóðin veit að leiðin út úr vandanum er ekki að höggva á rótina til að ganga inn í nýja veröld sögulaus og allslaus.

Hún veit að við eigum að horfast í augu við okkur sjálf; greina það góða í okkur og okkar arfleifð og menningu og næra þá góðu rót sem hún er sprottin af.

Þetta þarf kirkjan að gera og það veit ég að hún mun gera. Óttalaus, staðföst og sterk. Það er sú kirkja sem þjóðin greiddi atkvæði um.

Það er sú kirkja sem þjóðin ákvað að ætti að vera með okkur um ókominn tíma. Niðurstaða þjóðarinnar er áskorun á hendur kirkjunni. Ég veit að hún mun svara kalli þjóðarinnar; rísa undir þeirri ábyrgð sem ætlast er til að hún axli sem þjóðkirkja.

Ég er hingað kominn til að óska þjóðkirkjunni á Íslandi góðs um ókominn tíma.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum