Hoppa yfir valmynd
16. júní 2023 Matvælaráðuneytið

Tíu þingmál matvælaráðherra samþykkt á Alþingi

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra. - myndDL

Í vetur voru samþykkt á Alþingi átta frumvörp Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra. Enn fremur samþykkti þingið tillögur matvælaráðherra til þingsályktunar um matvælastefnu og landbúnaðarstefnu.

Græn mál í bláa hagkerfinu

Að lögum varð frumvarp um rafvæðingu smábáta, sem heimilar smábátum eða fiskiskipum sem knúin eru rafmagni sem aðalaflgjafa að sækja um löndun 750 kg í þorskígildum talið af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð, á strandveiðum á fiskveiðiárinu 2022/2023, í stað 650 kg. Þannig hafa eigendur smábáta eða minni fiskiskipa hvata til að fjárfesta í nýjum bátum og skipum eða breytingum til að siglt sé fyrir afli rafmagns í stað jarðefnaeldsneytis.

Einnig var samþykkt frumvarp um heimildir smærri togskipa til veiða innan 12 mílna beltis fiskveiðilandhelginnar. Frumvarpið snýr m.a. að hámarkslengd og vélarafli. Vélarafl er mælt í svonefndum aflvísi sem er margfeldi af hestöflum aðalvélar og þvermáli skrúfu viðkomandi skips. Í frumvarpinu var lagt til að gerðar verði breytingar á þessum reglum til að greiða fyrir orkuskiptum og þá sérstaklega notkun tvíorkuskipa í fiskveiðum.

Jafnframt varð að lögum frumvarp um aflvísa þar sem útgerðum er heimilað að nýta m.a. hæggengari vélar til að draga úr olíunotkun. Markmið stjórnvalda er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.

Breytingar á veiðigjöldum, komið í veg fyrir ofveiði á gullkarfa og grálúðu

Frumvarp um breytingar á veiðigjöldum varð að lögum en frumvarpið flytur til greiðslur í tíma þannig að veiðigjöld þessa árs sem renna til þjóðarbúsins eru hærri en annars hefði verið, eða nær tíu milljörðum.

Að auki var samþykkt frumvarp sem ætlað er að tryggja að veiðar á gullkarfa og grálúðu séu í samræmi við útgefið aflamark og vísindaráðgjöf og þannig stuðlað að sjálfbærri nýtingu þessara fiskistofna. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um heimild ráðherra til að færa aflamark hryggleysingja og deilistofna uppsjávartegunda milli ára til sveiflujöfnunar, einnig vegna umframveiði, líkt og gildir um aðrar tegundir nytjastofna.

Veiðar leyfðar á hnúðlaxi

Samþykkt var frumvarp þar sem lögfest var tímabundið ákvæði til að bregðast við göngu hnúðlaxa í íslenskar ár og vötn en útbreiðsla hnúðlaxins í íslenskum ám og vötnum þykir áhyggjuefni. Samkvæmt ákvæðinu mega veiðifélög veiða hnúðlax með ádráttarnetum frá árinu 2023 til ársins 2025.

Gjaldskrá Matvælastofnunar samræmd

Lög voru samþykkt um gjaldskrá Matvælastofnunar (MAST) samkvæmt frumvarpi. Tilgangur laganna er aukið gagnsæi og skýrleiki gjaldtökunnar. Einnig er gert ráð fyrir að hægt verði að fylgjast betur með breytingum á raunkostnaði í takt við síbreytilegt rekstrarumhverfi MAST, umfang og árangur þjónustuverkefna, áherslur í eftirliti og tækniframfarir.

Land og skógur verður til

Lög voru samþykkt um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar, til verður ný stofnun sem sinnir verkefnum á sviði landgræðslu og skógræktar undir heitinu Land og skógur. Lög um landgræðslu og lög um skóga og skógrækt gilda áfram, með breytingum í tengslum við nýja stofnun. Báðar stofnanirnar hafa sinnt stóru og vaxandi hlutverki á sviði umhverfis- og loftslagsmála og hafa verið í samstarfi á fjölmörgum sviðum. Sameining þeirra mun efla þjónustu og ráðgjöf til bænda og annarra viðskiptavina. Að auki myndast tækifæri til að hagnýta gögn og rekstur landupplýsinga sem stuðlar að öflugra rannsóknarstarfi.

Matvælastefna til 2040

Þingið samþykkti matvælastefnu matvælaráðherra sem gildir til ársins 2040. Stefnunni er ætlað að vera leiðarstef í ákvarðanatöku til aukinnar verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu á Íslandi, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru. Markmið er að gæði framleiddra íslenskra matvæla verði í fremstu röð, að sjálfbærir framleiðsluhættir verði byggðir á vistkerfisnálgun og varúð, að virðiskeðja matvælaframleiðslu verði tryggð með því að fullnýta afurðir og að matvælaframleiðsla verði kolefnishlutlaus með náttúrumiðuðum lausnum í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Fyrsta landbúnaðarstefnan

Landbúnaðarstefna var einnig samþykkt af Alþingi. Þar er að finna fyrstu heildarstefnuna fyrir landbúnað á Íslandi. Stefnunni er ætlað að renna sterkum stoðum undir innlenda landbúnaðarframleiðslu til framtíðar, til hagsbóta fyrir samfélagið í heild og til að tryggja fæðuöryggi. Stefnan byggist á þremur lykilbreytum sem talið er að munu hafa mikil áhrif á þróun landbúnaðar á komandi árum; landnýtingu, loftslagsmál og umhverfisvernd og tækni og nýsköpun. Sett er fram metnaðarfull framtíðarsýn fyrir landbúnað sem tekur til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni þess starfsvettvangs sem framleiðsla landbúnaðarafurða er.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum