Hoppa yfir valmynd
2. október 2007 Félagsmálaráðuneytið

Aðgerðir Vinnumálastofnunar vegna eftirlits með fyrirtækjum vegna erlendra starfsmanna

Blaðamannafundur vegna átaks ASÍ og VMST.
Blaðamannafundur vegna átaks Alþýðusambands Íslands og Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun hleypir í dag af stokkunum sérstöku eftirlitsátaki með fyrirtækjum vegna erlendra starfsmanna undir heitinu allt í ljós, í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og Alþýðusamband Íslands. Átakið mun standa yfir um allt land en með sérstaka áherslu á fyrirtæki í byggingariðnaði á höfuðborgarsvæðinu. Vinnumálastofnun sendi í gær, 1. október, bréf til um 1.600 fyrirtækja og lögaðila á landinu öllu þar sem vakin er athygli á eftirlitsátakinu og vísað til skráningarskyldu þeirra samkv. neðangreindum lögum.


Markmið átaksins eru eftirfarandi:

 1. Gengið verði úr skugga um að starfsemi erlendra fyrirtækja sem hér starfa sé í samræmi við íslensk lög og kjarasamninga sem og að innlendir atvinnurekendur tilkynni ráðningar starfsmanna sem eru ríkisborgarar í átta af hinum tíu nýju EES-ríkjum.
 2. Tryggja að vinnuveitendur virði réttindi erlends launafólks.
 3. Gefa þau skilaboð að framkvæmd og eftirlit laga sé skilvirk og að ekki sé annað liðið en að fyrirtæki, innlend sem erlend virði íslensk lög.

Eftirlit Vinnumálastofnunar vegna skráninga tekur til eftirfarandi:

 1. Eftirlit með tilkynningum vinnuveitenda til Vinnumálastofnun um ráðningar starfsmanna sem eru ríkisborgarar í Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Póllandi, Slóvakínu, Slóveníu, Tékklandi og Ungverjalandi, sbr. bráðabrigðaákvæði laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.
 2. Eftirlit með að þær starfsmannaleigur er starfa hér á landi hafi tilkynnnt um starfsemi sína til Vinnumálastofnunar, sbr. lög um starfsmannaleigur, nr. 139/2005.
 3. Eftirlit með að erlend fyrirtæki sem hafa staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðsins og senda starfsmenn tímabundið hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu, hafi veitt Vinnumálastofnun upplýsingar um starfsemi sína, sbr. lög um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, nr. 45/2007.

Tími: Átakið mun standa yfir frá 2. október til 2. desember 2007.

Verklag:

Verklag næstu vikna verður sem hér segir:

 1. Starfsfólk þjónustuskrifstofa Vinnumálastofnunar mun heimsækja fyrirtæki og óska eftir nafnalistum yfir útlendinga sem þar starfa. Komi eitthvað athugavert í ljós eða skráningu er ábótavant, er fyrirtækjunum með staðfestum hætti veittur tíu daga frestur til að lagfæra skráningu og afhenda ráðningarsamninga og eftir atvikum þjónustusamninga aðila. 
 2. Vinnumálastofnun skal afhenda hlutaðeigandi stéttarfélagi ráðningarsamninga starfsmanna fyrirtækis óski stéttarfélagið eftir þeim og grunur liggur fyrir um brot á gildandi kjarasamningi. Trúnaðarmenn stéttarfélaga á vinnustöðum eða stéttarfélög eftir atvikum hafa heimildir á grundvelli samnings Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífisins um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði að krefja fyrirtæki sem hafa erlenda starfsmenn í sinni þjónustu um að sjá afrit af launaseðlum eða öðrum gögnum er staðfesti launagreiðslur og önnur starfskjör hlutaðeigandi starfsmanna, sbr. einnig 2. gr. laga nr. 55/1980.
 3. Verði fyrirtækið ekki við kröfu trúnaðarmanns eða stéttarfélags getur Vinnumálastofnun óskað eftir upplýsingum sem stofnunin telur nauðsynleg til að fylgjast með framkvæmd laga nr. 45/2007, þ.m.t. ráðningarsamninga og önnur gögn varðandi ráðningarkjör.
 4. Fái Vinnumálastofnun upplýsingar sem gefa til kynna að brotið sé gegn íslenskum lögum og reglum mun stofnunin afhenda hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvaldi, einkum lögreglu, skattyfirvöldum, Útlendingastofnun og Vinnueftirliti ríkisins eftir atvikum upplýsingarnar sbr. framangreind lög.
 5. Verði fyrirtæki ekki við beiðni Vinnumálastofnunar um skráningu á erlendum starfsmönnum, afhendingu gagna eða miðlun upplýsinga svo starfemi þess verði í samræmi við hlutaðeigandi lög, mun stofnunin beita þvingunaraðgerðum þeirra laga sem eftirlitið byggist, þ.e. dagsektum eða tímabundinni stöðvun á starfsemi.

Starfskaftur Vinnumálastofnunar:

Sex starfsmenn Vinnumálastofnunar munu í fullu starfi sinna verkefninu, fjórir á höfuðborgarsvæðinu, einn á Selfossi og annar á Egilsstöðum. Auk þess munu tveir starfsmenn til viðbótar hafa það að hlutastarfi að aðstoða við eftirlitsþáttinn á höfðuborgarsvæðinu. Jafnframt mun starfsfólk Vinnumálastofnunar á átta þjónustuskrifstofum víðs vegar um landið sinna þessu verkefni eftir því sem þurfa þykir.

   

Útgáfa:

Nýjum upplýsingabæklingi Vinnumálastofnunar á ensku Living and working in Iceland verður dreift á öllum vinnustöðum sem starfsmenn stofnunarinnar heimsækja. Bæklingurinn er jafnframt aðgengilegur í vefútgáfu á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

  

Almenningur til liðs. Kynning, netfang, upplýsingasími og heimasíða:

Vinnumálastofnun mun auglýsa átakið í dagblöðum og öðrum fjölmiðlum til þess að vekja athygli hlutaðeigandi á málinu en einnig til að fá almenning til liðs við að miðla upplýsingum til stofnunarinnar sem gagnlegar geta verið. Unnt verður að senda ábendingar um óskráð erlend fyrirtæki sem hér starfa tímabundið og um óskráða erlenda starfsmenn á sérstakt netfang [email protected] sem stofnunin mun síðan kanna.
Sérstakur upplýsingasími 515 4885 verður auglýstur og sett verður upp sérstök heimasíða www.alltiljos.is þar sem nálgast má upplýsingar og skrá erlenda starfsmenn.

  

Samstarfsaðilar og tengiliðir:

Eftirlitsátakið er skipulagt í góðri samvinnu við Alþýðusamband Íslands og aðildarsambönd þess. Jafnframt mun það verða kynnt fyrir öðrum samtökum á vinnumarkaði og opinberum stofnunum. Þá mun Vinnumálastofnun einnig eiga samstarf við Vinnueftirlit ríkisins um hvort samræma megi átakið einhverjum tilvikum vinnustaðaeftirlit þess. Sérstaklega á þetta við um eftirlitsferðir á landsbyggðinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira