Hoppa yfir valmynd
2. júní 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sumarfundur samstarfsráðherra Norðurlanda stendur yfir í Reykholti

Guðmundur Ingi Guðbrandsson ásamt öðrum samstarfsráðherrum Norðurlanda og fundargestum. - myndSigurjón Ragnar

Sumarfundur samstarfsráðherra Norðurlanda fer nú fram í Reykholti í Borgarfirði. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags og vinnumarkaðsráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, stýrir fundi enda Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári. Fundurinn hófst í gærmorgun og lýkur um hádegisbil í dag.

Ráðherrarnir ræddu í gær meðal annars um stöðuskýrslu framtíðarsýnar Norrænu ráðherranefndarinnar um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030, pólitískar áherslur við undirbúning nýrrar samstarfsáætlunar sinnar sem taka á gildi árið 2025, og hvernig Norðurlönd geta haldið norrænum gildum sem best á lofti á alþjóðlegum vettvangi í samræmi við framtíðarsýnina. Gestir fundarins voru Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, og Micke Larsson, framkvæmdastjóri þróunar- og sjálfbærniráðsins á Álandseyjum.

Þá var rætt um stjórnsýsluhindranir milli Norðurlandanna og mikilvægi þess að afnema þær til að það markmið náist að Norðurlöndin verði samþættasta svæði heims árið 2030.

Á dagskránni í dag er meðal annars fundur ráðherranna með norræna stjórnsýsluhindranaráðinu. Auk Guðmundar Inga sitja fjórir aðrir samstarfsráðherrar Norðurlanda fundinn í Reykholti. Það eru þær Anne Beathe Tvinnereim, þróunarsamvinnuráðherra Noregs, Annette Holmberg-Jansson, félags- og heilbrigðisráðherra Álandseyja, Jessika Roswall, Evrópumálaráðherra Svíþjóðar og Louise Schack Elholm, kirkju- og sveitarstjórnaráðherra Danmerkur. Fulltrúar Finnlands, Færeyja og Grænlands sitja sömuleiðis fundinn. Þá eru þar Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, og fleiri embættismenn.

Guðmundur Ingi Guðbrandson, samstarfsráðherra Norðurlanda:

„Ísland fer nú með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og ég taldi brýnt að setja á dagskrá umræður um Norðurlönd og alþjóðlegt samstarf. Það er mikilvægt að ræða hvernig við getum haldið norrænum gildum á lofti í alþjóðlegu samstarfi, en sum þeirra gilda eiga undir högg að sækja eins og réttindi kvenna og hinsegin fólks, og hvernig styrkja megi norrænt samstarf á þeim vettvangi.“

Samstarfsráðherrar Norðurlanda á fundinum, auk framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. 

Um norrænu ráðherranefndina og formennsku Íslands

Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Þar er unnið að sameiginlegum lausnum á þeim viðfangsefnum þar sem Norðurlöndin geta náð mestum árangri með því að vinna saman. Ísland fer með formennsku í nefndinni árið 2023 og mun leiða samstarfið undir yfirskriftinni „Norðurlönd – afl til friðar“.

Starf Norrænu ráðherranefndarinnar fer fram í 12 nefndum þar sem ráðherrar fagráðuneyta á Norðurlöndunum eiga með sér samstarf eftir málefnasviðum. Vinnan á sér einnig stað í nefndum embættismanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum