Hoppa yfir valmynd
7. maí 2010 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mælti fyrir frumvarpi til nýrra umferðarlaga

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur á Alþingi mælt fyrir frumvarpi til nýrra umferðarlaga. Lagafrumvarpið er alls 120 greinar og ítarleg greinargerð fylgir frumvarpinu þar sem fjalla er um helstu breytingar og rök fyrir þeim.

Frumvarp til nýrra umferðarlaga er nú til umfjöllunar á Alþingi.
Frumvarp til nýrra umferðarlaga er nú til umfjöllunar á Alþingi.

Meðal helstu nýmæla í frumvarpinu er að nú er gert ráð fyrir markmiðsgrein þar sem segir að markmið laganna sé að vernda líf og heilsu vegfarenda með auknu umferðaröryggi, gildissvið laganna er gert skýrara, ítarlegur listi er um skilgreiningar orða og hugtaka, nýmæli eru um akstur í hringtorgum, hámarkshraði er samræmdur í 90 km á klukkustund við ákveðnar aðstæður utan þéttbýlis til að draga úr hættu samfara framúrakstri og ökuleyfisaldur verður hækkaður í 18 ár úr 17 eins og núgildandi lög kveða á um.

Þá er breytt í lagafrumvarpinu ákvæðum um heimildir ráðherra til að útfæra nánar einstakar efnisreglur í umferðarlögum með setningu almennra stjórnvaldsfyrirmæla, einkum reglugerða og er leitast við að fækka reglugerðarheimildum en þær sem eftir standa gerðar skýrari.

Nefnd sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði haustið 2007 vann að endurskoðun laganna undir stjórn Róberts Spanó, prófessors við lagadeild Háskóla Íslands. Nefndin skilaði frumvarpsdrögum sínum í júní 2009 sem voru birt á vef ráðuneytisins og óskað eftir umsögnum. Bárust fjölmargar umsagnir sem unnið var úr og ný drög birt í nóvember síðastliðnum. Við lokaútgáfu frumvarpsins var tekið mið af niðurstöðum nefndarinnar og mörgum athugasemdum sem bárust ráðuneytinu.

Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað ýtarlega um ýmis atriði sem snerta lagasetninguna. Þannig er kafli um aukið umferðaröryggi og fjallað er um ný viðhorf í umferðaröryggismálum og umferðarmenningu. Þá er fjallað um alþjóðlega samvinnu á sviði umferðar og fjallað er um sögulega þróun umferðarlöggjafar á Íslandi. Einnig er kafli um breytingar á ákvæðum um leyfilegt hámarksmagn vínanda í blóði ökumanna og fjallað er um rök fyrir þeirri hækkun á lágmarksaldri til að öðlast ökuréttindi sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Eftir framsöguræðu ráðherra var frumvarpinu vísað til annarrar umræðu og umfjöllunar í samgöngunefnd.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira