Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð velferðarvaktarinnar 5. apríl 2016

Fundargerð 12. fundar Velferðarvaktarinnar
haldinn 5. apríl 2016 í velferðarráðuneytinu kl. 8.30-11.30.

Mætt: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Haukur Ingibergsson frá Landssambandi eldri borgara, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Vildís Bergþórsdóttir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Kristín Þóra Harðardóttir frá Samtökum atvinnulífsins, Þorbera Fjölnisdóttir frá Öryrkjabandalagi Íslands, Héðinn Jónsson frá VIRK, Anna Rós Jóhannesdóttir frá Félagi fagfólks um fjölskylduráðgjöf, Sædís Arnardóttir og Aníta Kristjánsdóttir frá Hjálparstofnun kirkjunnar, Nína Helgadóttir frá Rauða krossinum á Íslandi, Ásta Helgadóttir frá Umboðsmanni skuldara, Sigurrós Kristinsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Sólveig Hjaltadóttir frá Tryggingastofnun ríkisins, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheill, Gyða Hjartardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Garðar Hilmarsson frá BSRB, Védís Drafnardóttir frá Geðhjálp, Jenný Ingudóttir frá Heimili og skóla, Elín Rósa Finnbogadóttir frá Innanríkisráðuneyti, Hugrún Hjaltadóttir frá Jafnréttisstofu, Árni Múli Jónasson frá Þroskahjálp, Halldór Gunnarsson frá velferðarráðuneyti, Guðni Olgeirsson frá menntamálaráðuneyti og Lovísa Lilliendahl frá velferðarráðuneyti.

Gestir: Anton Örn Karlsson, Kolbeinn Stefánsson, Þorsteinn Sæmundsson og Ólafur Þór Gunnarsson.

Dagskrá fundar:

1. Niðurstöður rannsóknar Hagstofunnar á hópnum sem býr við sárafátækt.
- Anton Örn Karlsson frá Hagstofunni.

2. Stutt kynning á nýútkomnum félagsvísum
- Kolbeinn Stefánsson frá Hagstofunni.

3. Niðurstaða nefndar um breytingar á almannatryggingalöggjöfinni.
- Þorsteinn Sæmundsson, alþingismaður og formaður nefndarinnar og Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi.

4. Farið yfir texta að bréfi vegna áfengis- og vímuvarnarstefnu til ársins 2020 í samræmi við niðurstöðu síðasta fundar.

5. Önnur mál

_____

1. Niðurstöður rannsóknar Hagstofunnar á hópnum sem býr við sárafátækt.

Anton kynnti nokkrar niðurstöður úr væntanlegri skýrslu frá Hagstofunni um greiningu á sárafátækt. Notast er við svokallað aðhvarfsgreiningartré (regression tree) sem er leitandi greining sem er að verða algeng víða og gefur mjög áreiðanlegar niðurstöður. Athygli vakti að almenn heilsa var einn stærsti áhrifavaldurinn á sárafátækt og í framhaldinu var rætt um að Velferðarvaktin ætti að leggja sterkari áherslu á lýðheilsumál. Skýrslan í heild sinni verður tilbúin á næstu dögum.

2. Kynning á félagsvísum
Kolbeinn kynnti niðurstöður nýrra félagsvísa en þeir gefa vísbendingar um jákvæða þróun í tengslum við lífskjör þjóðarinnar. Fram kemur m.a. að færri eru að glíma við íþyngjandi húsnæðiskostnað, færri mælast undir lágtekjumörkum og jöfnuður eykst.

Kolbeinn benti á að verið væri að skoða ýmislegt varðandi útgáfu félagsvísana t.d. yrði betra að þeir kæmu út í lok árs þegar allar tölur ársins þar á undan liggja fyrir. Einnig væri gagnlegt að fá tölur frá öðrum gagnaveitendum en Hagstofunni og hafa félagsvísana aðgengilega á vef með stöðugri uppfærslu. Slóð á félagsvísa: https://www.velferdarraduneyti.is/media/velferdarraduneyti-media/media/skyrslur2016/Felagsvisar-2015.pdf

Kolbeinn sagði frá könnuninni European Social Survey (ESS) sem er framkvæmd í Evrópu annaðhvert ár og gefur góða mynd af lífskjörum íbúa. Ísland er þó ekki þarna á meðal en ekki hefur fengist fjármagn til þess að framkvæma könnunina hér á landi.

3. Drög að bréfi vegna áfengis- og vímuvarnarstefnu til ársins 2020

Samþykkt var að senda öllum alþingismönnum umrætt bréf þar sem vaktin lýsir yfir stuðningi við stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020. Lagt var til að bæta við texta þar sem vísað er í félagsvísa og var það samþykkt.

4. Niðurstaða nefndar um breytingar á almannatryggingalöggjöfinni
Þorsteinn Sæmundsson, formaður nefndarinnar, og Ólafur Þór Gunnarsson fóru yfir helstu niðurstöður nefndarinnar en hlutverk hennar var að ráðast í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð. Það sem nefndin lagði fyrst og fremst til var að einfalda bótakerfi almannatrygginga, innleiða starfsgetumat og sveigjanleg starfslok með heimild til að fresta lífeyristöku til allt að 80 ára aldurs. Einnig kom fram að nefndin hafi ekki náð saman um barnalífeyri almannatrygginga og gerði því ekki tillögu um það efni. Skýrsla nefndarinnar:
https://www.velferdarraduneyti.is/media/velferdarraduneyti-media/media/skyrslur2016/Skyrsla_nefndar_um_endurskodun_laga_um_almannatryggingar_01032016.pdf

Næsti fundur verður haldinn í velferðarráðuneytinu þriðjudaginn 17. maí kl. 9-12.

LL


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum