Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 71/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 21. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 71/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19010012

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. desember 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera frá [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. desember 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 1. og 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 auk 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 42. gr. sömu laga. Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 13. september 2018. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Lúxemborg. Þann 27. september 2018 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Lúxemborg, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá yfirvöldum í Lúxemborg, dags. 19. október 2018, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 4. desember 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 4. desember 2018 og kærði kærandi ákvörðunina við birtingu. Tilkynning um kæru barst til kærunefndar útlendingamála þann 4. janúar 2019. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 15. janúar 2019 ásamt fylgigögnum. Viðbótargögn bárust kærunefnd þann 24. janúar 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að stjórnvöld í Lúxemborg bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Lúxemborgar ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Lúxemborgar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi greint frá því við meðferð málsins að hann hafi yfirgefið heimaríki af [...]. Að sögn kæranda hafi hann dvalið í Lúxemborg á árunum 2010 til 2014. Hann hafi búið í móttökubúðum fyrstu mánuðina en misst plássið og alla þjónustu á vegum yfirvalda eftir að hann hafi vanvirt útivistartíma eitt kvöldið. Í kjölfarið hafi hann búið á götunni og þurft að stela sér til matar. [...]. Að sögn kæranda óttist hann að lenda aftur í þeim aðstæðum verði honum gert að fara aftur til Lúxemborgar.

Í greinargerð er þá gerð athugasemd við mat Útlendingastofnunar á viðkvæmri stöðu kæranda, en kærandi telur sig vera einstakling í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, m.a. vegna þess ofbeldis sem hann hafi upplifað í heimaríki og á flótta. Að sögn kæranda hafi hann glímt við andleg vandamál alla ævi sökum atburða sem hafi hent hann. Kærandi hafi yfirgefið heimaríki sitt á unglingsaldri og ferðast um Evrópu síðan. Um tíma hafi hann dvalið á Spáni og þar hafi hann verið lagður inn á spítala vegna andlegra vandamála. Kærandi hafi [...]. Í greinargerð er vakin athygli á því að athugasemdir í komunótum frá Göngudeild sóttvarna styðji frásögn kæranda af andlegri vanlíðan og [...]. Af hálfu kæranda er því haldið fram að allt bendi til þess að hann teljist til einstaklings í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. og 25. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð kæranda er fjallað um reglugerð nr. 276/2018 en með henni hafi verið gerðar breytingar á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 er varði framkvæmd 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísað er til athugasemda sem talsmenn Rauða kross Íslands hafi áður gert varðandi skort á lagastoð reglugerðarinnar vegna skilyrða sem þar séu sett fram, þ.e. að þau gangi lengra en ákvæði laga um útlendinga og í raun gegn vilja löggjafans. Athygli er vakin á orðalagi 32. gr. a í umræddri reglugerð en þar komi fram að þau viðmið sem sett séu fram í greininni séu nefnd í dæmaskyni og því sé ekki um að ræða tæmandi talningu á þeim þáttum sem taka beri tillit til við mat á því hvort sérstakar ástæður eigi við. Atriði sem talin séu upp í dæmaskyni geti með engum hætti komið í stað heildarmats á einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjanda. Telur kærandi að í hinni kærðu ákvörðun sé skortur á heildarmati á aðstæðum hans, en stofnunin virðist einblína einungis á þau atriði sem nefnd séu í reglugerðinni í dæmaskyni.

Af hálfu kæranda er vísað til umfjöllunar í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar hvað varðar aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Lúxemborg. Þar kemur m.a. fram að borið hafi á því að meðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Lúxemborg hafi tafist og skimun á sérstaklega viðkvæmum einstaklingum verið áfátt. Annmarkar innan móttökukerfisins stafi að miklu leyti af skorti á starfsfólki.

Í greinargerð kemur fram að 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveði aðeins á um heimild til handa stjórnvöldum til að synja umsækjendum um alþjóðlega vernd um efnismeðferð umsókna sinna en ekki skyldu. Kærandi byggir á því að taka skuli mál hans til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga en greinin leggi þá skyldu á íslensk stjórnvöld að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef sérstakar ástæður mæli með því. Vísað er til þess að kærunefnd hafi í úrskurðum sínum komist að þeirri niðurstöðu að ummæli í lögskýringargögnum sem fylgt hafi breytingarlögum nr. 81/2017, til breytinga á lögum um útlendinga, gefi með nægilega skýrum hætti til kynna að viðkvæm staða umsækjenda skuli hafa aukið vægi andspænis sjónarmiðum sem tengist m.a. skilvirkni við meðferð umsóknar og mikilvægis samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins. Af úrskurðunum leiði að stjórnvöld þurfi, við mat á því hvort sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi við, að kanna hvort kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki, annað hvort vegna einstaklingsbundinna aðstæðna eða vegna almennra aðstæðna í viðtökuríki. Í þeim tilvikum sem annað eða bæði þessara atriða eigi við beri að líta svo á að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í málinu og það skuli því almennt tekið til efnismeðferðar. Margt bendi til þess að kærandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu og stjórnvöldum beri að framkvæma heildstætt mat á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda og fyrirliggjandi gögnum um aðstæður einstaklinga sem sæki um alþjóðlega vernd í Lúxemborg. Heimildir sem vísað hafi verið til í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar hafi gefið til kynna að ýmislegt megi betur fara í móttökukerfi útlendingayfirvalda í Lúxemborg. Hafi m.a. verið vakin athygli á því að ekki fari fram kerfisbundin skimun á því hvort umsækjendur hafi gengið í gegnum alvarleg áföll. Með vísan til erfiðrar stöðu kæranda og erfiðrar reynslu hans telji kærandi ljóst að hann komi til með að eiga erfitt uppdráttar í Lúxemborg. Sérstakar ástæður séu uppi í málinu og íslenskum stjórnvöldum beri að taka beiðni kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir kröfu sínar einnig á 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Fyrir liggi að kærandi hafi fengið lokasynjun á umsókn sinni í Lúxemborg. Kærandi hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann telji sig ekki geta lifað í heimaríki og óttist því hvað bíði hans verði hann endursendur til heimaríkis. Kærandi [...] og hafi það gert líf hans í heimaríki erfitt. Með vísan til þess sem rakið sé í greinargerð sé ótækt að beita c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í tilviki kæranda í ljósi reglunnar um non-refoulement og íslenskum stjórnvöldum beri að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Lúxemborgar á umsókn kæranda er byggð á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja stjórnvöld í Lúxemborg um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Kærandi er að sögn rúmlega [...], einstæður karlmaður. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi m.a. frá því að hann hafi glímt við andlega erfiðleika síðan á barnsaldri sem megi að einhverju leyti rekja til áfalla sem hann hafi orðið fyrir í æsku. Þá greindi kærandi frá því í þjónustuviðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi áður verið með [...]. Fær það stuðning í framlögðum gögnum frá Göngudeild sóttvarna en þar kemur fram að kærandi sé með [...]. Fram kemur í gögnum frá Göngudeild að kærandi hafi verið greindur með exem og fengið aðstoð við því sem hafi borið árangur. Þá verður ráðið af framlögðum gögnum að kærandi hafi fengið aðstoð við þeim andlegu kvillum sem hann glímir við en hann hefur m.a. hitt sálfræðing á Göngudeild sóttvarna í tvígang og fengið uppáskrifuð lyf til að hjálpa honum að sofa.

Þrátt fyrir að gögn málsins og framburður kæranda beri með sér að kærandi glími við tiltekin andleg veikindi, þá er það mat kærunefndar að kærandi sé ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur greint frá því að hann telji þær aðstæður sem bíði hans í Lúxemborg ekki vera viðunandi þar sem hann hafi m.a. verið án húsnæðis.

Aðstæður í Lúxemborg

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Lúxemborg, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Freedom in the World 2018 – Luxembourg (Freedom House, 5. október 2018),
  • Country Report Immigration Detention in Luxembourg: Systematic Deprivation of Liberty (Global Detention Project, apríl 2018),
  • Luxembourg Immigration Detention Profile (Global Detention Project, apríl 2018),
  • 2017 Human Rights Report – Luxembourg (United States Department of State, 20. apríl 2018),
  • Legal Report on Access to Healthcare in 17 Countries (European Network to Reduce Vulnerabilities in Health, 15. nóvember 2016),
  • Ad-Hoq Query on subsequent asylum applications and re-opened cases (European Commission og European Migration Network, 16. júlí 2015) og
  • upplýsingar af vefsíðum sem yfirvöld í Lúxemborg halda úti (www.luxembourg.public.lu, www.olai.public.lu og www.guichet.lu).

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Lúxemborg má ráða að einstaklingar geta sótt um alþjóðlega vernd hjá tilteknum opinberum stofnunum, þ.e. Útlendingastofnun (f. Direction de l'Immigration, Service des réfugiés), eftirlitsstofnun á flugvellinum (f. Service de contrôle), hjá lögreglunni eða á þeim stað þar sem viðkomandi hefur verið vistaður í varðhaldi. Umsækjandi þarf í kjölfarið að fara til Útlendingastofnunar í því skyni að fá umsóknina skráða hjá stofnuninni, fá upplýsingar um hæliskerfið og bóka tíma með starfsmanni stofnunarinnar til að leggja fram formlega umsókn og fylgigögn. Í hinum bókaða tíma hittir umsækjandi starfsmann lögreglunnar sem spyr m.a. út í auðkenni og ferðaleið auk þess sem tekin er mynd af umsækjanda og afrit af fingraförum hans. Í sumum tilvikum er jafnframt bókaður tími fyrir kæranda í hælisviðtal hjá Útlendingastofnun en allajafna fær kærandi boðun í viðtal með pósti. Af skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna frá árinu 2018 má ráða að tafir séu til staðar í hæliskerfinu á afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd. Fái umsækjandi um alþjóðlega vernd synjun á umsókn sinni þá á hann þess kost að bera synjunina undir stjórnsýsludómstól. Kæra frestar réttaráhrifum ákvörðunar auk þess sem réttaráhrifum er frestað þar til kærufrestur rennur út. Fái umsækjendur endanlega synjun á umsókn sinni eiga þeir möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn svo sem ef ný gögn liggja fyrir í málinu. Jafnframt eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða að um meðferð sé að ræða sem brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Þá eiga umsækjendur rétt á lögfræðiaðstoð á öllum stigum málsins, þ. á m. við að leggja fram viðbótarumsókn.

Í framangreindum gögnum kemur fram að eftir að umsækjandi hefur lagt fram umsókn hittir hann félagsráðgjafa sem veitir upplýsingar um réttindi og skyldur umsækjenda um alþjóðlega vernd í Lúxemborg. Ráða má að umsækjendur um alþjóðlega vernd sem geta ekki aflað sér húsnæðis sjálfir eiga rétt á húsnæði á vegum yfirvalda á meðan mál þeirra er til meðferðar. Auk þess eru til staðar húsnæðisúrræði á vegum Caritas og Rauða krossins. Þá eiga umsækjendur rétt á mánaðarlegri fjárhagsaðstoð frá ríkinu auk fæðis. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að í hæliskerfinu í Lúxemborg sé ekki skimað kerfisbundið eftir því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd teljist vera viðkvæmir einstaklingar. Hins vegar fara umsækjendur í heilbrigðisskoðun innan sex vikna frá komu til landsins auk þess sem umsækjendur fá fund með félagsráðgjafa, líkt og áður kom fram. Þá eiga umsækjendur rétt á grunnheilbrigðisþjónustu og þolendum áfalla er veitt nauðsynleg sálfræði- og geðheilbrigðisþjónusta.

Fram kemur í áðurnefndri skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Lúxemborg sæta í sumum tilvikum varðhaldi en þarlend stjórnvöld reka varðhaldsmiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem fengið hafa synjun á umsókn sinni og bíða brottvísunar. Af skýrslu Global Detention Project frá árinu 2018 má ráða að aðstæður í varðhaldi séu ásættanlegar og að hámarkslengd varðhalds sé með því lægsta sem gerist í Evrópu. Hins vegar má jafnframt finna gagnrýni á beitingu varðhalds í þeim tilvikum þegar hætta þykir vera á því að umsækjandi hlaupist á brott. Túlkun á því hvenær slík hætta sé til staðar hafi leitt til þess að varðhaldi sé beitt gegn þessum hópi með nokkuð kerfisbundnum hætti. Umsækjendur geta kært ákvörðun um varðhald og eiga rétt á aðstoð lögfræðings sér að kostnaðarlausu.

Í Lúxemborg er til staðar ráðgjafarnefnd um mannréttindi (f. Commission consultative des Droits de l’Homme) en stofnunin gætir þess að mannréttindi séu virt, m.a. með því að veita ríkisstjórninni ráðgjöf. Þá er starfandi í Lúxemborg jafnréttismiðstöð (f. Centre pour l’égalité de traitement) á vegum hins opinbera sem sinnir eftirliti er varðar m.a. mismunun á grundvelli kynþáttar, þjóðernis og trúarbragða auk þess sem hægt er að leita til miðstöðvarinnar telji einstaklingur að sér hafi verið mismunað. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að íbúar landsins geta leitað aðstoðar yfirvalda óttist þeir tiltekna einstaklinga eða telja brotið á réttindum sínum. Þá hefur lögreglan í landinu fullnægjandi úrræði til að rannsaka þau mál sem leitað er til hennar með.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstólinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstólinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Lúxemborg er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins jafnframt með sér að í Lúxemborg sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða endursent til ríkja þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þeirra og frelsi er ógnað. Er þá sérstaklega litið til þess að þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda eindregið til þess að málsmeðferð yfirvalda í Lúxemborg sé fullnægjandi og veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd viðunandi úrræði til að tryggja að réttur þeirra sé ekki brotinn og að einstaklingsbundið mat verði lagt á aðstæður þeirra. Að mati kærunefndar bendir ekkert til þess að umsækjendum sé synjað sjálfkrafa um alþjóðlega vernd í Lúxemborg eða þeir endursendir til heimaríkis án þess að leyst sé úr málum þeirra á einstaklingsgrundvelli. Þá benda gögn málsins til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Lúxemborg, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt framansögðu kemur 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki í veg fyrir að umsókn kæranda verði synjað um efnismeðferð.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst og telur kærunefnd að þær séu ekki þess eðlis að viðmið sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga eigi við í málinu. Í því sambandi hefur nefndin m.a. litið til þess að heilsufar kæranda sé ekki með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi eða að aðstæður hans að því leyti séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið. Af framangreindum gögnum um aðstæður í Lúxemborg telur kærunefnd ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar að kærandi geti fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu þar í landi.

Þá telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Nefndin áréttar þá að framangreindar landaupplýsingar um aðstæður í Lúxemborg benda til þess að kærandi geti lagt fram viðbótarumsókn, svo sem ef nýjar upplýsingar liggja fyrir í máli hans. Líkt og áður kom fram eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á endurgjaldslausri lögfræðiaðstoð við framlagningu viðbótarumsóknar. Þá er áréttað að samkvæmt framangreindum gögnum eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á húsnæði á vegum yfirvalda, þ. á m. ef fallist er á að taka viðbótarumsókn til meðferðar.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 6. nóvember 2018 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 13. september 2018.

Athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. mat Útlendingastofnunar á viðkvæmri stöðu kæranda og beitingu 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda.

Frávísun

Kærandi kveður að hann hafi komið hingað til lands þann 8. september 2018 og samkvæmt gögnum máls sótti kærandi um alþjóðlega vernd þann 13. september 2018. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Lúxemborgar eigi síðar en 6 mánuðum eftir birtingu þessa úrskurðar, sbr. til hliðsjónar 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa stjórnvöld í Lúxemborg fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Lúxemborgar með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Tryggvadóttir                                                                      Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum