Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kæra vegna synjunar tollstjóra á beiðni til niðurfellingar tekjuskatts

Deloitte ehf.
Smáratorgi 3
201 Kópavogur

Reykjavík 3. apríl 2013
Tilv.: FJR12110098/16.2.2

Efni: Kæra [X] vegna synjunar tollstjóra, dags. 6. nóvember 2012, á beiðni til niðurfellingar tekjuskatts samkvæmt lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.

Málavextir og málsástæður

Forsaga málsins er sú að kærandi óskaði eftir því við ríkisskattstjóra, dags. 8. nóvember 2010, að álagning gjaldáranna 2006, 2007, 2008, 2009 og 2010 yrði tekin til endurskoðunar á grundvelli 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Beiðni kæranda var synjað með úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 13. febrúar 2012. Þá þótti ríkisskattstjóra ekki tilefni til að fallast á að breyta áður álögðum opinberum gjöldum kæranda gjaldárin 2006 til 2010 á grundvelli þeirra forsendna einna að stjórnendur kæranda, að löngu liðnum kærufresti, hafi kosið að endurmeta fyrri framtalsgerð. Ný gögn eða upplýsingar liggi ekki til grundvallar beiðni kæranda um endurskoðun á fyrri framtalsskilum hans. Við þá ákvörðun sé horft til meginreglna IX. og X. kafla laga nr. 90/2003, tilgang 2. mgr. 101. gr. laganna, fyrri framkvæmdar og að ársreikningar skattaðila fyrir rekstrarárin 2005 til 2009 hafi verið staðfestir af stjórn kæranda og endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Að því athuguðu og með vísan til þess að tilgreining kæranda á skattskyldum tekjum og skattlegri meðferð þeirra var í samræmi við lög þá féllst ríkisskattstjóri ekki á kröfu kæranda um að hann skyldi hlutast til um að breyta skattalegri meðferð að þessu leyti.

Kærandi lagði fram beiðni til tollstjóra, dags. 19. október 2012, þar sem þess var óskað að farið yrði með skattskuldir kæranda samkvæmt lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, þar sem kærandi hélt því fram að hann hafi fengið rangar upplýsingar um úrræðið samkvæmt lögum nr. 24/2010.

Í ákvörðun tollstjóra, dags. 6. nóvember 2012, vísar embættið til þess að um úrræðið hafi verið birtar ítarlegar upplýsingar á vef embættisins ásamt því að nokkrar auglýsingar til kynningar á úrræðinu hafi verið birtar í fjölmiðlum í maí 2010, janúar 2011 og í maí 2011. Þá hafi hagsmunasamtökum í atvinnulífínu verið sendar upplýsingar um úrræðið og þeim bent á að kynna sér þau. Tollstjóri vísaði til ákvæðis 1. gr. laga nr. 24/2010 þar sem segir að lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem séu í vanskilum með virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld sem hafa gjaldfallið fyrir 1. janúar 2010 geti sótt um frest til greiðsluuppgjörs á þeim vanskilum til 1. júlí 2011. Í ákvæðinu séu þinggjöld tilgreind sem skatttegund sem falli undir úrræðið en undir þinggjöld falli meðal annars tekjuskattur lögaðila. Þá hafi lögum nr. 24/2010 verið breytt með lögum nr. 165/2010 sem hafi heimilað tollstjóra að fella niður tekjuskatt að hluta hjá lögaðilum að tilteknum skilyrðum fullnægðum, sbr. ákvæði 39. gr. laga nr. 165/2010.

Tollstjóri vísaði til þess að lög nr. 24/2010 hafi fallið úr gildi þann 31. desember 2011 og að embættinu hafi aldrei borist formleg umsókn frá forsvarsmanni kæranda um greiðsluuppgjör kæranda á þeim tíma sem opið var fyrir móttöku umsókna, þ.e. frá marslokum 2010 til 30. júní 2011. Þar af leiðandi hafnaði tollstjóri beiðni kæranda um greiðsluuppgjör með vísan til þess að umsókn hans hafi ekki borist innan tilskilins frests.

Með kæru, dags. 15. nóvember 2012, var kærð ákvörðun tollstjóra, dags. 6. nóvember 2012, vegna synjunar hans á beiðni kæranda um skuldbreytingu skattskulda hans á grundvelli laga nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Aðallega var gerð sú krafa að kæranda yrði heimilt að sækja um niðurfellingu á tekjuskatti að hluta til tollstjóra í samræmi við ákvæði 6. gr. laga nr. 24/2010, sbr. breytingarlaga nr. 165/2010. Jafnframt var gerð krafa um að kærandi fengi að semja við tollstjóra um eftirstöðvar tekjuskattsskulda. Til vara var gerð sú krafa að áfallnir dráttarvextir á höfuðstól skattskuldar kæranda yrðu felldir niður á tímabilinu 1. janúar 2010 til og með 30. júní 2011 í samræmi við ákvæði 3. gr. laga nr. 24/2010. Til þrautavara var gerð sú krafa að hluti tekjuskattsskuldar og dráttarvaxta við ríkissjóð yrðu felldir niður með samkomulagi við embætti tollstjóra.

Í kærunni kemur fram að forsvarsmaður kæranda hafi haft samband við embætti tollstjóra og talað þar við starfsmann sem á að hafa starfað við að semja við einstaklinga og lögaðila um greiðsluáætlun opinberra gjalda. Forsvarsmaður kæranda staðhæfir að hann hafi verið í sambandi við umræddan starfsmann tollstjóra, fyrst um haustið 2009 og síðar um vorið 2010, þar sem hann hafi spurt hvort ekki væru til úrræði af hálfu stjórnvalda til lögaðila í vanda en hafi einungis fengið þau svör að lög nr. 24/2010 tæku aðeins til vörsluskatta. Þá hafi forsvarsmaður kæranda ekki fengið leiðbeiningar af hálfu embættis tollstjóra um úrræðið samkvæmt lögum nr. 24/2010.

Þá vísar kærandi til þess að þrátt fyrir að fram komi í ákvörðun tollstjóra að uplýsingar um úrræðið varðandi greiðsluuppgjör hafi verið vel kynntar af hálfu embættisins þá hafi forsvarsmaður kæranda engu síður fengið rangar upplýsingar hjá embætti tollstjóra þannig að hann taldi að lög nr. 24/2010 tæku ekki til kæranda. Forsvarsmaður kæranda hafi ekki áttað sig á því að undir þing- og sveitarsjóðsgjöld félli tekjuskattur lögaðila enda hafi það verið sami skilningur og tilgreindur starfsmaður tollstjóra hafi haft. Forsvarsmanni kæranda var fyrst ljóst að kærandi hefði getað fallið undir úrræði laga nr. 24/2010 þegar hann hafi verið í samskiptum við embætti tollstjóra í október 2012. Þá hafi hins vegar frestur til umsóknar um greiðsluuppgjör samkvæmt lögunum verið liðinn.

Sé horft til skuldastöðu kæranda og á hvaða tíma skuld kæranda stofnaðist við ríkissjóð þá liggi ljóst fyrir að hann hefði getað nýtt sér ákvæði framangreindra laga. Þá hafi forsvarsmaður kæranda margsinnis, bæði seinni hluta árs 2009 og á árinu 2010, verið í samskiptum við embætti tollstjóra vegna skuldamála kæranda án þess að fá upplýsingar um umrædd úrræði en telja verður að slík skylda hafi hvílt á embættinu að kynna forsvarsmanni kæranda þau úrræði sem tollstjóra var veitt með lögum nr. 24/2010.

Með bréfi, dags. 26. nóvember 2012, óskaði ráðuneytið eftir umsögn tollstjóra um málið ásamt því að þau gögn sem málið kynnu að varða og hafi ekki þegar verið lögð fram yrðu send ráðuneytinu. Umsögn tollstjóra barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 21. desember 2012.

Í umsögn tollstjóra rekur hann meðal annars málavexti og tekur fram að engin gögn styðji fullyrðingu kæranda um að honum hafi verið veittar rangar upplýsingar sem hafi leitt til þess að hann hafi ekki sótt um úrræði samkvæmt lögum nr. 24/2010 áður en umsóknarfrestur rann út. Þá þótti tollstjóra ljóst ekki væri lagastoð fyrir vara- og þrautavarakröfum kæranda án þess að rökstyðja það frekar.

Tollstjóri rekur að samkvæmt tölvupósti, dags. 19. október 2012, hafi kærandi sótt um greiðsluuppgjör samkvæmt 1. gr. laga nr. 24/2010 en í kæru sé farið fram á niðurfellingu tekjuskatts samkvæmt 6. gr. laganna. Þá hafi lög nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, fallið úr gildi 31. desember 2011 en samkvæmt 1. gr. laganna, sbr. 37. gr. laga nr. 165/2010, gátu einstaklingar í atvinnurekstri og lögaðilar sótt um frest til greiðsluuppgjörs á vanskilum virðisaukaskatts, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjalds og þing- og sveitarsjóðsgjalda til 1. júlí 2011.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2010, sbr. 39. gr. laga nr. 165/2010, var tollstjóra heimilt að fallast á beiðni um niðurfellingu tekjuskatts að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í 3. mgr. sömu greinar segir að fallist tollstjóri á niðurfellingu tekjuskatts samkvæmt 1. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 24/2010 komi slík niðurfelling til framkvæmdar þegar umsækjandi hafi uppfyllt önnur skilyrði laganna. Þá segir tollstjóri það vera óumdeilt að kærandi hafi ekki sótt um greiðsluuppgjör fyrir 1. júlí 2011 þegar fresturinn til að skila inn umsóknum rann út og sé engar undantekningar frá þeim fresti að finna í lögunum. Ekki sé unnt að byggja á því að kærandi hafi fengið rangar eða ónógar upplýsingar frá starfsmönnum embættisins enda liggi einungis orð kæranda fyrir þeim staðhæfingum. Þá liggi fyrir að úrræði samkvæmt lögum nr. 24/2010 voru auglýst í fjölmiðlum og ítarlegar upplýsingar hafi verið að finna um þau á heimasíðu embættis tollstjóra. Þá benti tollstjóri á að óumdeilt væri að kærandi hafi haft vitneskju um úrræði samkvæmt 1. gr. laga nr. 24/2010 fyrir þann tíma er frestur til að sækja um það rann út og hafi þar af leiðandi haft alla þá möguleika á að kynna sér skilyrði fyrir því. Þá hafi lög nr. 165/2010 tekið gildi 18. desember 2010 og úrræði samkvæmt þeim lagabreytingum auglýst í fjölmiðlum í febrúar 2011.

Tollstjóra þótti ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði þágildandi laga nr. 24/2010 og gætu fullyrðingar um rangar leiðbeiningar frá starfsmönnum embættisins engu breytt þar um. Þá taldi tollstjóri að hann hefði sinnt leiðbeiningarskyldu sinni á fullnægjandi hátt með auglýsingum úræðanna í fjölmiðlum og á heimasíðu embættisins sem og með tilkynningum til hagsmunasamtaka í atvinnulífinu. Var það því mat tollstjóra að staðfesta bæri synjun á umsókn kæranda.

Forsendur og niðurstaða


Með frumvarpi því er varð að lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, var lagt til að þeir lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri, sem væru í vanskilum með tiltekin opinber gjöld sem hafi gjaldfallið fyrir 1. janúar 2010, gætu sótt um frest á greiðslu vanskila til 1. júlí 2011, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Í frumvarpinu kom fram að innheimtumönnum ríkissjóðs var veitt heimild til að beita ívilnandi innheimtuúrræðum gagnvart rekstraraðilum sem ekki höfðu staðið skil á sköttum sem þeim bar að greiða, hvort heldur sem var að ræða vörsluskatta eða skatta vegna viðkomandi atvinnureksturs. Þá kom einnig fram að fyrst og fremst væri um að ræða rekstraraðila sem ættu í tímabundnum greiðsluvandræðum og væri gefinn kostur á að óska eftir greiðsluuppgjöri á sköttum án frekari viðurlaga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Stæðist viðkomandi aðili umrædd skilyrði þá ættu vanskilin að vera sett á skuldabréf til fimm ára með verðbótum en án vaxta. Tilgangurinn væri þannig að hjálpa lífvænlegum fyrirtækjum yfir versta hjallann eftir efnahagshrunið haustið 2008 og þar með reynt að tryggja þeim ákveðið rekstraröryggi næstu mánuði. Í frumvarpinu var þannig lagt til að rekstraraðilum sem fyrst og fremst væru í tímabundnum greiðsluvandræðum yrði gefinn kostur að óska eftir greiðsluuppgjöri á sköttum sem voru í vanskilum þann 1. janúar 2010 fram til 1. júlí 2011 án frekari viðurlaga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Þá var með VI. kafla laga nr. 165/2010, um breytingu á lögum nr. 24/2010, nýju ákvæði bætt inn í lög nr. 24/2010, sbr. ákvæði 39. gr. laga nr. 165/2010. Með 39. gr. breytingarlaga nr. 165/2010 varð nýtt ákvæði lögfest í 6. gr. laga nr. 24/2010 þar sem kveðið var á um sérstaka niðurfellingu á tekjuskatti lögðila sem gjaldfallið hafi fyrir 1. janúar 2010. Þá segir í ákvæðinu að tollstjóra sé heimilt að fallast á beiðni um niðurfellingu tekjuskatts að hluta enda telji tollstjóri hagsmunum ríkissjóðs betur borgið með slíkri niðurfellingu.
Í 1. gr. laga nr. 24/2010 er kveðið á um að þeir lögaðilar og einstaklingar sem eru í vanskilum með virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld sem gjaldfallið hafi fyrir 1. janúar 2010 geti sótt um frest til greiðsluuppgjörs á þeim vanskilum til 1. júlí 2011. Með þing- og sveitarsjóðsgjöldum er átt við ýmsa skatta og gjöld sem lögð eru á með vísan til laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þ.e. tekjuskatt, útsvar, gjald í framkvæmdasjóð aldraðra, útvarpsgjald, fjármagnstekjuskatt, slysatrygging við heimilisstörf, búnaðargjald og iðnaðarmálagjald. Tollstjóra var því samkvæmt ákvæðinu falið að veita frest til greiðsluupggjörs en fjármálaráðuneytið fól tollstjóra sérstakt eftirlits- og leiðbeiningarhlutverk á sviði innheimtu skatta og gjalda, sbr. erindisbréf frá 16. janúar 1998. Þá segir ennfremur í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 24/2010 að vanskilainnheimta hjá þeim aðilum sem ekki sækja um frest til greiðsluuppgjörs samkvæmt heimild 1. gr. eða uppfylli ekki skilyrði til að fá slíkan frest skal fara með í samræmi við lög og verklagsreglur tollstjóra.
Af málavöxtum er ljóst að kærandi sótti ekki um úrræði á grundvelli laga nr. 24/2010 innan tilskilins frests. Þegar af þeirri ástæðu ber ráðuneytinu að hafna beiðni kæranda um að fella úr gildi ákvörðun tollstjóra, dags. 6. nóvember 2012, um að hafna beiðni kæranda til niðurfellingar tekjuskatts samkvæmt lögum nr. 24/2010. Verður því ekki tekin efnislega afstaða til þess hvort að kærandi hafi með réttu fallið undir skilyrði laganna eða ekki.

Kærandi heldur því fram að honum hafi af starfsmanni embættis tollstjóra beinlínis verið gefnar rangar upplýsingar varðandi möguleg úrræði fyrir hann samkvæmt lögum nr. 24/2010. Samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber stjórnvöldum að veita þeim sem til þeirra leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þeirra. Þegar stjórnvöldum berast erindi frá borgurunum ber þeim almennt að haga málsmeðferð sinni í samræmi við þau atvik sem fyrir liggja í málinu og fjalla um erindi á grundvelli þeirra réttarreglna sem þar um gilda. Þá eru að jafnaði ekki gerðar strangar kröfur til forms eða framsetningar þeirra erinda sem borgararnir beina til stjórnvalda en hins vegar verður að gera þær kröfur á borgarann að hann geti sannað með einhverjum hætti að hann hafi leitað til viðkomandi stjórnvalds þannig að unnt sé að benda á sinnuleysi stjórnvalds varðandi leiðbeiningarskyldu þess.
Kærandi hefur ekki sýnt fram á það með neinum gögnum að hann hafi verið í sambandi við starfsmenn embættis tollstjóra á fyrri stigum málsins né sýnt fram á að stjórnvald hafi virt að vettugi leiðbeiningarskyldu sína samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga. Fallist er á það með tollstjóra að leiðbeiningarskylda hafi ekki verið brotin sem og að kæranda hafi mátt vera fullljóst hvaða úrræði væru í boði samkvæmt lögum nr. 24/2010.

Með vísan til framangreinds verður að synja beiðni kæranda um greiðsluuppgjör samkvæmt lögum nr. 24/2010 þar sem frestur til að sækja um úrræði samkvæmt lögunum var liðinn.
Úrskurðarorð

Synjun tollstjóra, dags. 6. nóvember 2012, á beiðni kæranda til niðurfellingar tekjuskatts samkvæmt lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, er staðfest.

Fyrir hönd ráðherra




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum