Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

UN Women á Íslandi: Hæsta framlag til verkefna annað árið í röð óháð höfðatölu

Ný stjórn UN Women. Á myndina vantar Magnús Orra Schram og Þóreyju Vilhjálmsdóttur. Ljósmynd: UN Women - mynd

Umsvif íslenskrar landsnefndar UN Women hafa aukist mikið undanfarin ár og framlög landsnefndarinnar til verkefna UN Women hækkuðu um 40% á milli áranna 2016 og 2017. Árið 2017 sendi íslensk landsnefnd UN Women annað árið í röð hæsta framlag til verkefna UN Women, allra fimmtán landsnefnda og þá óháð höfðatölu.

Framlag landsnefndarinnar til alþjóðlegra verkefna árið 2017 var 94 milljónir króna. Bæði söfnunartekjur og tekjur af söluvarningi jukust verulega en 83% aukning var á tekjum af söluvarningi frá fyrra ári. Í frétt á vef UN Women þakkar Landsnefnd UN Women á Íslandi þeim „rúmlega sex þúsund mánaðarlegum styrktaraðilum samtakanna sem styðja við bága stöðu kvenna og stúlkna víða um heim með mánaðarlegu framlagi sem og öðrum styrktaraðilum og velunnurum,“ eins og þar segir.

Ný stjórn var kjörin á aðalfundi UN Women á Íslandi sem haldinn var í Miðstöð Sameinuðu þjóðanna á Íslandi í gær. Tveir nýir stjórnarmeðlimir voru kosnir á fundinum, þeir Bergur Ebbi Benediktsson, rithöfundur, ljóðskáld og ritgerðarsmiður og Ólafur Stefánsson hjartisti og frumkvöðull. Elín Hrefna Ólafsdóttir, lögfræðingur og Karen Áslaug Vignisdóttir, hagfræðingur gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Auk Bergs Ebba og Ólafs, sitja sem fyrr í stjórninni Fanney Karlsdóttir, forstöðukona, Kristín Ögmundsdóttir, framkvæmdastjóri, Magnús Orri Schram, ráðgjafi, Soffía Sigurgeirsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur, Örn Úlfar Sævarsson, texta-og hugmyndasmiður og Þórey Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi. Formaður landsnefndarinnar er Arna Grímsdóttir, lögfræðingur og framkvæmdastjóri. Íslenska landsnefndin er fyrsta landsnefnd stofnunarinnar sem skipuð er til jafns konum og körlum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum