Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2015 Innviðaráðuneytið

Ræddi meðal annars eflingu sveitarfélaga og samgöngumál á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga

Staldrað við og staðan metin var yfirskrift landsþings Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var í dag í Kópavogi. Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ræðu á þinginu þar sem hún ræddi meðal annars um stöðu sveitarstjórnarstigsins, eflingu sveitarfélaga, samgöngumál og kosningaþátttöku í sveitarstjórnarkosningum.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ræðu á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ræðu á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag.

Á dagskrá landsþingsins voru aðal umræðuefnin svæðasamvinna sveitarfélaga, efling sveitarstjórnarstigsins og kosningalöggjöfin og voru flutt erindi um þessi efni og efnt til umræðna.

Innanríkisráðherra sagði meðal annars í ræðu sinni að sveitarstjórnarstigið Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ræðu á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag.hefði styrkst undanfarin ár og sagði jákvætt að sveitarfélög hefðu sameinast án þess að gripið hefði verið til þvingaðra aðgerða. Þannig væru þau betur í stakk búin til að taka við nýjum verkefnum. Enn væru mörg sveitarfélög fámenn og sagði ráðherra æskilegt að frekari sameiningar yrðu á næstu árum og vildi að það gerðist þannig að íbúar einstakra sveitarfélaga myndu ákveða það sjálfir. Ráðherra varpaði fram þeirri hugmynd að innanríkisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga myndi hóp valinkunnra einstaklinga sem fengju umboð til að greina leiðir og tækifæri til að efla sveitarstjórnarstigið enn frekar. ,,Verkefni hópsins yrði enn fremur að þróa aðferðir til að láta stjórnsýslustigin tvö (ríki og sveitarfélög) og eins sveitarfélögin sjálf vinna betur saman að hagsmunamálum sem varða marga aðila, en með markmið um valddreifingu og gæði þjónustu við borgara þessa lands að leiðarljósi. Í því sambandi yrði einnig horft til tækifæra sem nýtt lagaumhverfi um opinber fjármál skapar í þeim efnum, til tækifæra sem ný og ört vaxtandi upplýsingatækni býr til fyrir stjórnsýslu hins opinbera og fleiri atriða sem skipta máli fyrir þróun opinberrar umsýslu hér á landi.“ Lagði ráðherra það til að hópurinn ynni ötullega næstu 12 mánuðina eða svo og síðan yrðu hugmyndir hópsins um stefnur og framtíðarsýn ræddar og hugsanlega mótuð sameiginleg aðgerðaráætlun.

Meira samráð við einstaka landshluta?

Innanríkisráðherra kvaðst hugsi yfir því fyrirkomulagi sem ríkti um samgöngumálin – útdeilingu fjármuna og ákvarðanir um einstök verkefni. Það  hefur verið mjög miðstýrt ferli sem endaði með beinni aðkomu alþingismanna þar sem framkvæmdir eru tíundaðar í smáatriðum í samgönguáætlun. Við afgreiðslu samgönguáætlunar þyrftu þingmenn að taka afstöðu til einstakra framkvæmda frá einni milljón króna uppí nokkra milljarða því allt væri  þetta fastákveðið í tillögu um samgönguáætlun. ,,Það er ekki endilega alltaf samræmi á milli áherslna heimamanna og þess sem kemur úr þessu miðstýrða ferli – þó auðvitað séu sjónarmið heimamanna höfð til hliðsjónar. Þá geta verið andstæðir hagsmunir innan landshluta sem tekist er á um sem Alþingi þarf á endanum að taka afstöðu til. Hvernig væri að tengja stefnumörkun varðandi samgönguáætlun og forgangsröðun einstakra verkefna betur við samráðsvettvang í hverjum landshluta? Ég set þetta fram sem ómótaða hugmynd sem ég hef ekki sjálf tekið beina afstöðu til,“ sagði ráðherra einnig.

Undir lok ræðunnar minntist ráðherra á að í ár væru 100 ár liðin frá því konur á Íslandi fengu kosningarétt. Hvatti ráðherra sveitarstjórnarmenn til að gaumgæfa á hvern hátt hægt væri að minnast þessara tímamóta, t.d. hægt með því að draga fram sögu kvenna enda hefðu víða búið og byggju enn miklar merkiskonur, sem hefðu barist fyrir bættu samfélagi, félagsmálum og réttindamálum.

Fjölmargir fulltrúar sveitarfélaga sátu landsþingið í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum