Hoppa yfir valmynd
27. október 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður 356/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 27. október 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður 356/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16080001

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 11. ágúst 2016, kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. júlí 2016, að synja honum um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f útlendingalaga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. útlendingalaga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom hingað til lands og sótti um hæli þann 21. júlí 2016 hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi mætti í fyrsta viðtal hjá Útlendingastofnun þann 22. júlí s.á. og annað viðtal þann 26. júlí s.á., ásamt löglærðum talsmanni sínum. Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. júlí 2016, um að synja kæranda um hæli og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið, var birt honum þann 28. júlí 2016 og óskaði kærandi samdægurs eftir frestun réttaráhrifa. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 2. ágúst 2016, með þeim fyrirvara að kæra bærist kærunefnd útlendingamála innan 15 daga frá birtingu hinnar kærðu ákvörðunar. Kærandi kærði ákvörðunina þann 11. ágúst s.á. Greinargerð vegna kæru barst kærunefnd útlendingamála þann 26. ágúst s.á. ásamt fylgigagni, nánar tiltekið tölvupósti um heilsufar kæranda.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um hæli á Íslandi skv. ákvæðum 44. gr. útlendingalaga. Þá verði kæranda ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. j útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 12. gr. f laga um útlendinga. Að þessari niðurstöðu hafi verið komist að virtum ákvæðum 45. gr. laga um útlendinga.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga, sbr. 2. mgr. 56. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. c-lið 1. mgr. 32. gr. útlendingalaga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi sótt um hæli hér á landi vegna veikinda sem hann njóti ekki nauðsynlegrar læknisaðstoðar við í heimalandi sínu, [...]. [...]Í greinargerð sinni bendir kærandi á að veita megi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f útlendingalaga, geti útlendingur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, s.s. vegna heilbrigðisástæðna. Í því sambandi vísar kærandi til skýringa í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi til laga nr. 115/2010, um breyting á útlendingalögum.

Þá segir í greinargerð kæranda að heilbrigðiskerfið í [...] standi enn afar höllum fæti, þvert á það sem fram komi í ákvörðun Útlendingastofnunar. Spilling stjórnvalda sé meðal alvarlegustu mannréttindabrota í landinu, einkum innan heilbrigðis- og réttarkerfisins. Heilbrigðiskerfið í [...] sé ófullnægjandi og [...] ríkið verji litlum hluta landsframleiðslu sinnar í heilbrigðismál. Af því leiði að lyfjakostnaður sé mjög hár og almennir borgarar þurfi að greiða stóran hluta heilbrigðisþjónustunnar úr eigin vasa. [...] Enn fremur séu gæði heilbrigðisþjónustunnar afar bág.

Í greinargerð kæranda er einnig fundið að rannsókn Útlendingastofnunar, með tilliti til 10. gr. rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi geri athugasemd við þá fullyrðingu stofnunarinnar að í [...] hafi átt sér stað ýmsar framfarir undanfarin ár er varði aðstoð við [...]. Því til stuðnings sé vísað til skýrslu frá 2014 sem byggð sé á gögnum frá 2013. Gera verði athugasemd við að stofnunin styðjist við tæplega þriggja ára gamlar upplýsingar og hvergi sé vikið að aðstoð og aðgengi [...]í dag. Þá sé í ákvörðun stofnunarinnar vísað til skýrslu frá árinu 2015 um endurbætur í heilbrigðiskerfi [...]. Ekki sé vísað til nýjustu skýrslnanna, [...] þar sem m.a. sé farið yfir það hvernig verkefninu vindi fram. Þá hafi Útlendingastofnun óskað eftir upplýsingum um læknisheimsókn kæranda á Borgarspítalann og í ákvörðun sinni vísað til svars í tölvupósti þar um frá starfsmanni þjónustu- og móttökuteymis Útlendingastofnunar. Gera verði athugasemd við að stofnunin hafi ekki borið sig eftir frekari gögnum frá Landspítalanum og heilsugæslunni um heilsufar kæranda með vísan til ástæðna hælisumsóknar hans. Kærandi byggi á því að við ákvarðanatöku í máli hans hafi svo gróflega verið brotið gegn rannsóknarreglunni að ekki komi annað til greina en að ógilda ákvörðunina.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þegar kærandi sótti um hæli á Íslandi hafi hann framvísað [...] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé [...] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...]Samkvæmt ofangreindum gögnum er [...] lýðræðisríki með rúmlega [...]íbúa. [...]Í ljósi þess má ætla að grundvallarmannréttindi séu almennt talin virt af yfirvöldum í landinu. [...]Af fyrrgreindum gögnum má þó ráða að spilling sé mikið vandamál í [...], þ.á.m. í heilbrigðiskerfinu. Grunnheilbrigðisþjónusta er fyrst og fremst í höndum ríkisins en lyfsalar eru að mestu einkaaðilar. Ríkið niðurgreiðir lyf og ná sjúkratryggingar einnig yfir lyfjakaup. Öllum er skylt að hafa sjúkratryggingu en reyndin er þó sú að innan við [...]% fátækustu íbúa þjóðarinnar hafa slíka tryggingu. Grunnheilbrigðisþjónusta er ókeypis og sjúkrabætur til tekjulausra sjúklinga nema um [...]% af fyrri tekjum. Þá sé niðurgreiðsla lyfja breytileg eftir því hvaða lyf um ræðir, eða frá [...]%.

Ákvæði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Krafa kæranda byggir á því að hann njóti ekki fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í heimalandi sínu, [...], vegna veikinda sinna.

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Almennt ber að telja ótta kæranda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu kæranda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

Í 44. gr. a útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að gildar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008)).

Sem fyrr segir byggir krafa kæranda á því að hann njóti ekki fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í heimalandi sínu, [...]. Kærandi hefur þannig ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu [...] yfirvalda eða annarra aðila í [...] sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 44. gr. a laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga fyrir veitingu réttarstöðu flóttamanns.

Ákvæði 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga

Í 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum teljist einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalandsins.

Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hans séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. og 1. mgr. 45 gr. laganna.

Ákvæði 12. gr. f útlendingalaga

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum þess sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Kærunefnd telur með vísan til orðalags ákvæðisins um „rík mannúðarsjónarmið“ og „ríka þörf á vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi hefur greint frá því að hann þjáist af [...]en njóti ekki fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í heimalandi sínu. Í gögnum málsins kemur fram að kæranda hafi verið séð fyrir [...]en að hann hafi þurft að greiða sjálfur fyrir nauðsynleg hjálpartæki [...]. Þá hafi hann ekki leitað sér læknisaðstoðar vegna annars heilsufarsvanda þar sem kostnaður hafi verið of mikill. Þau gögn sem kærunefndin hefur yfirfarið við meðferð máls kæranda benda til þess að [...] stjórnvöld séu meðvituð um vankanta sem séu til staðar í heilbrigðiskerfi landsins og hafi unnið að því síðustu misseri að bæta úr og tryggja aðgengi að grunnheilbrigðisþjónustu. Sérstaklega hafi verið unnið að því að setja upp sjúkratryggingakerfi sem eigi að ná til allra landsmanna en einnig hafi verið unnið að því að uppræta spillingu innan heilbrigðiskerfisins. Þá sé til staðar félagslegt tryggingakerfi í landinu [...].

Í skýringum með lögum nr. 115/2010, sem breyttu 12. gr. f laga um útlendinga, kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé, í samræmi við framkvæmd í öðrum löndum, miðað við atriði á borð við það hvort um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða sem meðferð sé til við hér á landi en ekki í heimalandi viðkomandi. Þá kemur fram að ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða séu ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi þegar sjúkdómur sé á lokastigi. Jafnframt sé rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki sé læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða er varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Samkvæmt framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu, í málum þar sem til álita kemur að flytja veikan einstakling úr landi, er einungis um brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans að ræða við sérstakar aðstæður þar sem fyrir hendi eru rík mannúðarsjónarmið, sbr. m.a. dóm í máli Tatar gegn Sviss frá 14. apríl 2015. Veikur einstaklingur á ekki kröfu til þess að vera áfram í aðildarríki til þess eins að njóta áfram heilbrigðis- eða félagslegrar þjónustu sem endursendingarríki veitir. Jafnvel þó að lífslíkur einstaklingsins minnki við brottvísun frá aðildarríki mannréttindasáttmálans þá er það eitt og sér ekki nóg til þess að um brot á 3. gr. sáttmálans sé að ræða.

[...]Þótt ráða megi af gögnum málsins að kærandi eigi við heilsufarsvanda að stríða er ekki hægt að leggja annað til grundvallar en að sá vandi sé ekki þess eðlis að hann ógni lífi kæranda. Ekki fæst annað séð af gögnum málsins en að kærandi hafi notið lágmarksheilbrigðisþjónustu vegna þessa heilbrigðisvanda. Þótt heilbrigðisþjónusta sem kæranda hefur boðist í heimaríki sé lakari að gæðum en þjónusta sem honum kann að standa til boða hér á landi telur kærunefnd að það, eitt og sér, geti ekki verið grundvöllur veitingar dvalarleyfis í 12. gr. f laga um útlendinga í málinu.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga og teljist því ekki flóttamaður. Þegar upplýsingar um heimaland kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 12. gr. f útlendingalaga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í [...] séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f útlendingalaga.

Jafnframt telur kærunefndin kæranda ekki uppfylla skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl við landið. Líkt og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið á Íslandi í tengslum við hælisumsókn sína og þá aðeins í skamman tíma.

Rannsóknarregla stjórnsýslulaga

Líkt og fram hefur komið telur kærandi að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli nauðsynlegra gagna svo mál sé nægjanlega upplýst þannig hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Hún gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna.

Í greinargerð er gerð athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki borið sig eftir frekari gögnum um heilsufar kæranda frá Landspítalanum eða heilsugæslu með vísan til ástæðna hælisumsóknar hans. Ráða má af ákvörðun Útlendingastofnunar að inn í málið hafi verið dregnar upplýsingar sem lágu fyrir starfsmönnum sem sinntu þjónustu við kæranda þess efnis að hann hafi leitað læknis í tvígang hér á landi en að ekkert framhald hafi orðið á læknismeðferð hans í kjölfar þessara heimsókna. Kærunefnd telur að upplýsingarnar hafi ekki gefið tilefni til frekari viðbragð af hálfu Útlendingastofnunar.

Kærandi geri jafnframt athugasemd við að rannsókn á almennum aðstæðum í heimalandi kæranda hafi ekki verið byggð á nýjustu gögnum þar um. Fallast verður á það með kæranda að Útlendingastofnun hafi borið að fjalla um heimaland kæranda með hliðsjón af nýjustu gögnum þar um og tekur í því sambandi undir með kæranda að betur hefði farið á að vísa til nýjustu tiltæku skýrslna varðandi endurbætur á heilbrigðiskerfi [...]. Aftur á móti er það afstaða kærunefndar að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar um stöðu heilbrigðiskerfisins í [...] lægju fyrir Útlendingastofnun, en í því sambandi er tekið fram að niðurstaða kærunefndar varðandi þann þátt málsins er í meginatriðum sú sama og niðurstaða Útlendingastofnunar. Verður því ekki fallist á með kæranda að skort hafi á rannsókn málsins að þessu leyti.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The Directorate of Immigration‘s decision is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Anna Tryggvadóttir Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum