Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 40/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 4. febrúar 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 40/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU15110014

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 17. nóvember 2015, kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. nóvember 2015 um að synja henni um hæli ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002, um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og henni breytt á þann hátt að kæranda verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann hátt að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom hingað til lands 24. ágúst 2015 og sótti um hæli sama dag hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi mætti í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 6. október 2015 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. nóvember 2015, um að synja kæranda um hæli og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið, var birt henni þann 17. nóvember 2015. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu. Greinargerð vegna kæru barst kærunefnd útlendingamála þann 2. desember 2015. Þann 18. janúar sl. kom kærandi fyrir kærunefndina og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggði umsókn sína um hæli á því að hún og eiginmaður hennar væru í hættu vegna hótana um líflát af hálfu tengdaföður kæranda. Kærandi kvað tengdaföðurinn hafa brugðist illa við þegar sonur hans hafi neitað beiðni hans um að slíta trúlofun sinni við kæranda. Kærandi kvað foreldra sína í kjölfarið hafa orðið mótfallna ráðahagnum í ljósi þess að gifting þeirra myndi færa skömm yfir fjölskyldu kæranda þar sem foreldrar eiginmanns kæranda væru nú mótfallnir giftingunni. Kærandi kvaðst óttast að fjölskylda hennar eða fjölskylda eiginmanns síns muni beita þau ofbeldi og fjölskyldu eiginmanns hennar hafi hótað honum lífláti. Kærandi kvaðst ekki hafa leitað til lögreglunnar þar sem þau teldu það ekki leysa vanda þeirra og að staða eiginmanns hennar gæti versnað ef þau leituðu til lögreglu. Hún kvað líf þeirra beggja vera í hættu, þau séu gift án vitneskju fjölskyldna þeirra beggja. Hún kvað eina möguleika þeirra á friðsælu lífi vera í eins mikilli fjarlægð og unnt væri frá fjölskyldu eiginmanns hennar. Hún gæti ekki búið annars staðar í heimalandinu þar sem tengdafaðir hennar gæti haft upp á sér og eiginmanni hennar hvar sem væri í landinu.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að talsmanni kæranda hafi verið boðið að koma með athugasemdir. Talsmaður taldi óraunhæft að lögreglan í [...] myndi veita aðstoð í máli sem þessu þar sem hún væri ekki þekkt fyrir að aðstoða [...] ríkisborgara. Talsmaður sagði [...] og [...] vera algeng í [...] og því ekki skipta máli hvort tengdafaðir kæranda væri þekktur ofbeldismaður eða ekki. Talsmaður sagði að þrátt fyrir að nálgunarbann kynni að vera tækt úrræði í máli þessu væri slíkt úrræði einfaldlega ekki notað í [...].

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að íbúar [...] njóti allra helstu mannréttinda og að í landinu séu til staðar kerfi sem þeir geti leitað til telji þeir á sér brotið. Heimilisofbeldi væri þekkt vandamál í landinu og að ofbeldið beindist nær undantekningarlaust gegn konum. Yfirvöld hefðu í baráttu sinni gegn heimilisofbeldi endurskoðað löggjöf sína verulega til verndar mögulegum fórnarlömbum þess sem og til hagsbóta fyrir þolendur. Þá væri einnig unnið að þjálfun opinberra starfmanna og dómara varðandi nálgun í slíkum málum. Hnökrar væru þó á framkvæmd verndarinnar og tilkynntu þolendur sjaldnast heimilisofbeldi til lögreglu. Af þeim heimildum sem lægju fyrir væri ekki unnt að sjá annað en að yfirvöld nýttu í reynd úrræði á borð við nálgunarbann. Í október árið 2013 hafi dómstólar í [...] úrskurðað um 1.306 nálgunarbönn frá ársbyrjun 2013, samanborið við 1.146 á sama tíma árið 2012. Allt að einu taldi Útlendingastofnun að beiting eða skortur á beitingu eins tiltekins úrræðis ekki ráða niðurstöðu þess hvort yfirvöld væru fær um að veita kæranda þá aðstoð og vernd sem honum kynni að vera nauðsynleg í heimalandi sínu.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að heiðursmorð beindust nær undantekningalaust að þeim tilfellum er fjölskylda konu drepur hana fyrir að sverta heiður fjölskyldunnar t.d. með því að hafa átt barn utan hjónabands eða vera í sambandi við aðila sem fjölskyldan samþykkir ekki. Þegar aðstæður í [...] væru skoðaðar í þessu tilliti hafi ekki verið að finna heimildir þess efnis að heiðursmorð tíðkuðust í [...] nema að verulega takmörkuðu leyti. Að auki væru slíkir glæpir með öllu ólöglegir og refsiverðir. Þrátt fyrir þetta væri ekki unnt að útiloka að kæranda hafi borist hótanir af hendi tengdaföður síns vegna ráðahags hennar og eiginmanns síns.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við skýrslugjöf hjá lögreglu hafi eiginmaður kæranda sagt frá því að faðir hans væri ósáttur við konuefni hans sökum þess að hún kæmi ekki af efnaðri fjölskyldu. Í kjölfarið hafi eiginmaður kæranda flutt að heiman en fljótlega orðið atvinnulaus. Kærandi hafi síðar hætt námi vegna fjárskorts og þau komið hingað til lands til að reyna að afla sér menntunar og sjá fyrir sér en það væri ómögulegt í heimalandi þeirra. Af samanburði á framburði kæranda og eiginmanns hennar væri ljóst að misræmis gætti. Þetta misræmi var þó ekki talið slíkt að framburður hennar yrði metinn ótrúverðugur.

Þá kemur fram að kærandi taldi sig tilheyra minnihlutahópi í heimalandi sínu þar sem konur væru almennt réttlægri en karlmenn. Í ákvörðun stofnunarinnar kemur fram að mismunun á grundvelli kyns er ólögleg í [...] og landslög tryggðu jafnræði kynjanna. Þá væru konur hvergi útilokaðar frá neinu starfi, hvorki í lögum né í framkvæmd, en væru þó í minnihluta þegar litið væri til stjórnarstarfa á sínum starfsvettvangi. Þrátt fyrir að lög krefðust sömu launa fyrir sömu vinnu óháð kyni launþega mætti sjá misbresti þar á. Taldi stofnunin að kærandi hefði aðeins fjallað um mismunun almenns eðlis og ekki lýst persónulegum aðstæðum hvað þetta varðaði. Þá yrði ekki séð af viðtali við kæranda að hún hafi orðið fyrir mismunun á grundvelli kyns síns.

Það var mat Útlendingastofnunar að frásögn kæranda væri trúverðug og kæmi að mestu heim og saman við fyrirliggjandi upplýsingar um heimaland hennar. Til þess yrði þó að líta að fyrirliggjandi heimildir gæfu til kynna að eftirfylgni við hverslags brot gegn refsilögjöf væri góð og að í [...] væri til staðar kerfi sem þeir gætu leitað til sem teldu á sér brotið. Yrði því að hafna fullyrðingum kæranda um að lögregla og yfirvöld í [...] gætu ekki veitt henni viðeigandi aðstoð en kærandi hafi ekki leitað til þeirra vegna málsins. Þá væri ekki byggt á fullyrðingum talsmanns um að nálgunarbanni væri ekki beitt í [...]. Við úrlausn málsins var byggt á því að kærandi hafi sótt um hæli hér á landi vegna þess að eiginmaður hennar hafi orðið fyrir hótunum um líflát af hálfu föður síns og efnahagslegum ástæðum líkt og kærandi greindi frá hjá lögreglu lægju til grundvallar umsókninni. Ekki var talið að kærandi væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem gæti haft áhrif á niðurstöðu málsins.

Kærandi hafði ekki borið fyrir sig ofsóknir eða áreiti af hálfu yfirvalda heldur byggði hún umsókn sína á efnahagslegum ástæðum ásamt því að henni stafaði ógn af tengdaföður sínum. Kærandi hefði ekki leitað til yfirvalda vegna umræddra hótana. Samkvæmt því sem fram hafi komið yrði að ætla að kærandi ætti raunhæfa möguleika á að leita aðstoðar yfirvalda í [...], og eftir atvikum lögreglu eða dómstóla. Enn fremur yrðu þau atvik sem kærandi lýsti hvergi nærri talin svo alvarleg að jafna mætti þeim til ofsókna í skilningi 1. mgr. 44. gr., sbr. 44. gr. a útlendingalaga og ekki unnt að rekja aðstæður kæranda til kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að sérstökum þjóðfélagshópi eða stjórnmálaskoðana sbr. 1. mgr. 44. gr. laganna. Af flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga mætti ráða að efnahagslegar aðstæður skapi ekki grundvöll fyrir alþjóðlegri vernd útlendinga þannig að þeim verði veitt hæli eða dvalarleyfi af þeim sökum. Að þessu virtu var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi ætti ekki á hættu ofsóknir eða meðferð sem yrði jafnað til ofsókna í heimalandi sínu. Bæri því að synja henni um hæli skv. 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga.

Auk þess var talið að kærandi ætti ekki á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu yrði hún send aftur til heimalands síns. Þá var talið að kærandi gæti leitað ásjár yfirvalda í heimalandi sínu vegna erfiðleika sinna. Að þessu virtu var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi ætti ekki á hættu illa meðferð skv. 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga.

Útlendingastofnun skoðaði í samræmi við 8. mgr. 46. gr. útlendingalaga hvort aðstæður kæranda féllu undir ákvæði 12. gr. f. Var það mat stofnunarinnar að kærandi ætti ekki rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna heilbrigðisástæðna eða erfiðra félagslegra aðstæðna. Þá yrði, með vísan til framburðar kæranda og upplýsinga um heimaland hennar, ekki séð að kærandi ætti rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna annarra atvika sem ekki mætti með réttu gera henni að bera ábyrgð á. Kærandi hafði ekki borið fyrir sig að hún hefði sérstök tengsl við Ísland og ekkert í málinu benti til þess og var henni því synjað um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við Ísland, skv. 12. gr. f.

Þá var ekki talið að endursending kæranda til [...] bryti gegn 45. gr. útlendingalaga. Með tilliti til atvika málsins var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kæranda skyldi vísað frá landi í samræmi við 3. mgr. 90. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga. Þótti ekki ástæða til að kæra skyldi fresta réttaráhrifum með vísan til c-liðs 1. mgr. 32. gr. útlendingalaga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi borið fyrir sig að hún sé í hættu í heimaríki sínu þar sem tengdafaðir hennar hafi hótað eiginmanni hennar lífláti. Kærandi hafði lokið háskólagráðu í sálfræði og hafi lokið fyrsta ári í meistaranámi áður en hún og eiginmaður hennar þurftu að leggja á flótta undan tengdaföður kæranda. Í skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um atvinnuástand í [...] segi að menntað ungt fólk eigi betra aðgengi að vinnumarkaðnum þar í landi en ómenntaðir. Kærandi væri vel á veg kominn með að mennta sig og ekkert sem benti til annars en að hún hefði lokið því námi hefði hún ekki þurft að leggja á flótta. Af þessu mætti ráða að ekki séu efnahagslegir hvatar að baki flótta hennar og eiginmanns hennar frá heimalandi þeirra eins og Útlendingastofnun byggði ákvörðun sína á, heldur raunverulegur og ástæðuríkur ótti vegna líflátshótana tengdaföður kæranda.

Talsmaður kæranda bendir á að [...] sé fátækt land þar sem mikil spilling ríki, m.a. í réttarkerfinu. Refsileysi og skortur á gagnsæi sé jafnframt mikið áhyggjuefni og þrátt fyrir að lög hafi verið samþykkt sem mæli fyrir um harðari refsingar við opinberri spillingu þá hafi lögin ekki verið innleidd á árangursríkan hátt og spilltir embættismenn komist því áfram undan refsingu. Spilling innan raða lögreglumanna sé jafnframt gríðarlegt vandamál. Mest aðkallandi mannréttindabrot í landinu tengist spillingu í dómskerfinu og heilbrigðiskerfinu ásamt heimilisofbeldi og mismunun gegn konum. Heimilisofbeldi sé viðvarandi vandamáli í [...] og standi konur, þrátt fyrir jafnan rétt að lögum, höllum fæti í landinu hvað snertir laun og stöðu á vinnumarkaði almennt. Í greinargerðinni kemur fram að kærandi hafi ekki leitað til lögreglunnar vegna hótana tengdaföður síns þar sem hún telji lögregluna ekki vilja aðstoða hana og eiginmann hennar þar sem lögregla í [...] blandi sér ekki í fjölskyldudeilur. Kærandi væri af þeim sökum ófær um að færa sér í nyt vernd heimalands síns. Í greinargerðinni kemur fram að ljóst sé að þjálfun lögreglu í landinu til að takast á við heimilisofbeldi og ofbeldi inni á heimilum sé ábótavant, en kærandi og eiginmaður hennar séu í raun að flýja hótanir tengdaföður kæranda um heimilisofbeldi. Að mati talsmanns kæranda væri til lítils að ætlast til þess að kærandi leitaði ásjár [...] yfirvalda og hlyti þar vernd. Ekki væri hægt að ganga út frá því að yfirvöld væru fær um að veita þegnum sínum fullnægjandi vernd með vísan til þess að stjórnvöld ynnu markvisst að því að uppræta spillingu innan stjórnsýslunnar og dómskerfisins þegar fyrir liggi að slíkar tilraunir stjórnvalda hafi ekki skilað tilætluðum árangri. Öll gögn bendi til þess að spilling, mútuþægni, skortur á gagnsæi og skipulögð glæpastarfsemi séu landlægt vandamál sem veikt réttar- og löggæslukerfi [...] sé í engan hátt í stakk búið til að takast á við eða veita þegnum sínum viðeigandi vernd gegn.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er gerð sú krafa til vara að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f útlendingalaga. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið telji talsmaður kæranda skilyrði 12. gr. f uppfyllt þar sem stjórnvöld í [...], fyrst og fremst lögreglan, annað hvort vilji ekki eða geti ekki veitt þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum af því tagi sem um ræðir. Af þessum sökum beri að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 12. gr. f útlendingalaga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þegar kærandi sótti um hæli á Íslandi hafi [...] framvísað [...] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé [...] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

[...] er lýðræðisríki með um [...] milljónir íbúa og eru mannréttindi almennt virt af stjórnvöldum þar í landi. [...]

Kærunefnd útlendingamála hefur skoðað skýrslur og gögn um [...], m.a. eftirfarandi: [...].

Í ofangreindum gögnum kemur fram að [...] stjórnvöld hafa tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna. Á undanförnum árum hefur talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu í löggæslunni og dómsvaldinu.

Ákvæði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga

Kærandi hafði krafist þess hjá Útlendingastofnun að henni yrði veitt hæli sem flóttamanni á grundvelli 1. og 2. mgr. 44.gr., sbr. 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir að aðallega sé gerð krafa um hæli skv. 2. mgr. 44. gr. laga um útlendingamála í greinargerð kæranda telur kærunefnd útlendingamála að nefndinni beri einnig að endurskoða kröfu kæranda um hæli skv. 1. mgr. 44. gr. sömu laga.

Kærandi óskaði eftir því að henni yrði veitt réttarstaða flóttamanns þann 24. ágúst 2015, hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hennar séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Kærandi byggir kröfu sína á að því að hún og eiginmaður hennar séu í hættu vegna hótana um líflát af hálfu tengdaföður kæranda.

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

Í 44. gr. a útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að einhverjar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að gildar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna. (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008).

Kærandi hefur staðhæft að hann óttist um líf sitt þar sem hún hafi fengið hótanir frá tengdaföður sínum. Fyrir kærunefnd kvað kærandi óttast um líf sitt og eiginmanns síns ef þau færu aftur til [...]. Kærandi hefur staðhæft að enga aðstoð sé að fá frá lögreglu og yfirvöldum í [...] þar sem að mikil spilling ríki í öllu réttarkerfinu. Fyrrnefndar skýrslur sem kærunefndin hefur farið yfir styðja við þessa staðhæfingu kæranda en þar kemur fram að stjórnvöld hafi leitað ýmissa leiða til þess að uppræta þessa spillingu og hafi þó nokkuð áunnist í þeim málum. Meðal annars hafi laun lögreglumanna verið hækkuð og mikil endurnýjun hefur átt sér stað í lögregluliði landsins.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig ofsóknir af hálfu stjórnvalda eða aðilum tengdum þeim. Kærandi hefur þar að auki ekki borið fyrir sig ofsóknir af ástæðum sem taldar eru upp í 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, þ.e. á grundvelli kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga fyrir veitingu réttarstöðu flóttamanns.

Er það mat kærunefndar að þó svo að kærandi ætti raunverulega á hættu illa meðferð í heimalandi sínu, af hálfu tengdaföður síns, þá hafi hún raunhæfan möguleika á að leita ásjár stjórnvalda þar og að flytja sig til innanlands telji hún þess þörf. Styðja heimildir ekki þá staðhæfingu kæranda að stjórnvöld skorti vilja eða getu til að veita kæranda fullnægjandi vernd óski hún eftir henni við þau.

Ákvæði 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga

Kærandi krefst þess í greinargerð að hinni kærðu ákvörðun verði breytt á þann veg að kæranda verði veitt viðbótarvernd hér á landi skv. 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga.

Í 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum teljist einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands.

Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hennar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. og 1. mgr. 45 gr. laganna.

Ákvæði 12. gr. f útlendingalaga

Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Í greinargerð með lögum nr. 115/2010 sem breyttu útlendingalögunum kemur fram að með mjög íþyngjandi félagslegum aðstæðum viðkomandi er vísað til þess að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimalandi og má þar sem dæmi nefna aðstæður kvenna sem annað hvort hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimalandi, eða aðstæður kvenna sem ekki aðhyllast kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli.

Kærandi lýsti því fyrir kærunefnd að hún og eiginmaður hennar hafi verið í námi í [...] en hafi orðið að hætta því þar sem að fjölskylda eiginmanns hennar hafi beitt þau þrýstingi og hótunum. Þar sem að þau hafi ekki haft stuðning fjölskyldunnar hafi þau ekki getað haldið áfram að mennta sig og neyðst til að flytja til tengdaforeldra hennar. Bar kærandi að hótanir og áreiti það sem hún hafi orðið fyrir hafi einkum verið vegna þess að faðir kæranda taldi hana óæskilegan kvenkost m.a. vegna þess að hún hafi ekki aðhyllst hefðbundið kynhlutverk að hans mati og þótt óæskilegur kvenkostur og ætti hún á hættu útskúfun eða ofbeldi við heimkomu. Hún væri því föst í aðstæðum sem hún bæri enga ábyrgð á og þarfnaðist verndar. Í skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (Commission Staff Working Document, [...]) kemur m.a. fram að mjög halli á stöðu kvenna í og að kynbundið ofbeldi sé viðtekið í landinu. Í skýrslu Evrópuráðsins um hælisumsóknir vegna kyns (Gender-related claims for Asylum (Council of Europe, 26. Júlí 2010)) kemur fram að konur geti verið verið ofsóttar vegna kyns þegar þær neita að fylgja félagslegum, menningarlegum, trúarlegum og annars konar hefðbundnum kynjahlutverkum. Þó svo að kærunefnd efist ekki um að kærandi og eiginmaður hennar verði fyrir áreiti og hótunum af hendi tengdaföður sínum þá styðja gögn sem kærunefnd hefur yfirfarið ekki við þá frásögn kæranda að þau geti ekki leitað til lögreglu og fengið fullnægjandi vernd. Í málinu liggur fyrir að kærandi og eiginmaður hennar hafi ekki leitað raunhæfra leiða til að koma sér úr þeim aðstæðum sem þau eru í í heimaríkinu þar sem að þau hafi hvorki leitað til yfirvalda vegna hins meinta ofbeldis né heldur stigið það skref að flytja af heimili fjölskyldu tengdaföður kæranda. Kærunefnd telur því að aðstæður kæranda við endurkomu til heimalands séu ekki slíkar að 12. gr. f laga um útlendinga eigi við.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The Directorate of Immigration's decision is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Pétur Dam Leifsson Vigdís Þóra Sigfúsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum