Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 3/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 20. janúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 3/2022

í stjórnsýslumálum nr. KNU21110043 og KNU21110044

 

Beiðni um frestun réttaráhrifa og endurupptöku í máli

[...] og barns hennar

 

 

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í stjórnsýslumáli nr. KNU21080006, dags. 4. nóvember 2021, staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 19. júlí 2021, um að taka umsóknir einstaklings er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefnd kærandi), og barns hennar [...], fd. [...], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir A), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt fyrir kæranda þann 8. nóvember 2021 og þann 15. nóvember 2021 barst beiðni kæranda um endurupptöku og frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Þann 24. nóvember 2021 barst kærunefnd greinargerð kæranda og fylgigögn.

    Kærandi krefst þess að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála verði frestað á meðan hún fari með mál sitt fyrir dómstóla, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá byggir endurupptökubeiðni kæranda á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

     

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að rannsókn á aðstæðum hennar og barns hennar hafi verið verulega ábótavant. Mat Útlendingastofnunar á heilsufari kæranda og aðgengi hennar að heilbrigðisþjónustu á Ítalíu hafi verið ófullnægjandi og kærunefnd hafi ekki bætt úr þeim annmörkum á kærustigi. Kærandi rekur í greinargerð sinni fyrirliggjandi heilsufarsgögn og leggur áherslu á að hún glími við ýmis andleg og líkamleg veikindi, þ. á m. vegna kynfæralimlestinga, og þá glími A við andlega erfiðleika, s.s. athyglisbrest. Kærandi sé þolandi mansals og hafi orðið fyrir heimilisofbeldi af hálfu fyrrum eiginmanns síns. Kærandi telur að vegna fyrri reynslu hennar sé raunveruleg hætta á að líf, heilsa og öryggi hennar og dóttur hennar verði stefnt í hættu við endursendingu til Ítalíu. Að mati kæranda hafi ekki verið lagt heildstætt mat á alla þá þætti sem geri aðstæður hennar og barns hennar erfiðar á Ítalíu. Þá verði ekki ráðið af niðurstöðu stjórnvalda að kyn- og kyngervi kæranda, það að hún sé þolandi mansals og heimilisofbeldis hafi á nokkurn hátt komið til skoðunar við málsmeðferð stjórnvalda. Að mati kæranda sé umfjöllun um aðstæður barna á Ítalíu verulega takmörkuð auk þess sem ekki hafi verið lagt fullnægjandi mat aðstæður A á Ítalíu. Kærandi telur að rannsókn og rökstuðningur stjórnvalda hafi ekki uppfyllt kröfur 10. gr. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Af þeim ástæðum hafi stjórnvöld byggt niðurstöðu sína á röngum og ófullnægjandi upplýsingum í skilningi 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til ýmissa heimilda, s.s. yfirlýsinga mannréttindasamtaka, athugasemda mannréttindanefndar og alþjóðlegra sáttmála.

    Þá byggir kærandi á því að við meðferð á umsókn hennar hefðu stjórnvöld átt að taka tillit til ákvæða samnings um afnám allrar mismununar gagnvart konum, sbr. lög nr. 5/1985, og ákvæða samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Þar sem það hafi ekki verið gert sé mat stjórnvalda ófullnægjandi. Þá sé ekki að finna neina umfjöllun um þau úrræði sem séu í boði fyrir konur í sambærilegri stöðu og kærandi og hvort hún muni hafa raunverulegt aðgengi að viðeigandi úrræðum sé þeim til að dreifa. Að auki bendir kærandi á að hún verði endursend til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar en ekki hafi verið aflað tryggingar frá ítölskum stjórnvöldum um að henni verði tryggt aðgengi að hælismeðferð og móttökuskilyrðum. Kærandi byggir á því að við meðferð umsóknar hennar hafi viðhlítandi tryggingu ekki verið aflað að teknu tilliti til þess að hún sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem einstætt foreldri, þolandi mansals, kynfæralimlestinga og andlegs og líkamlegs ofbeldis. Með vísan til framangreinds telur kærandi jafnframt að með endursendingu hennar og dóttur hennar yrði brotið gegn 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944 og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. 42. gr. laga um útlendinga.

    Kærandi fjallar í greinargerð sinni um reglugerð nr. 276/2018 en hún telur að tiltekin ákvæði hennar eigi sér ekki lagastoð. Kærandi vísar m.a. til þess að 32. gr. a reglugerðarinnar geri mun strangari kröfur en leiði af ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá skorti þau almennu viðmið sem að finna megi í 4. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar lagastoð og fari gegn stjórnarskrárbundnum rétti einstaklings til tjáningarfrelsis, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Með vísan til framangreinds hafi kærunefnd ekki verið heimilt að leggja ákvæði 32. gr. reglugerðarinnar til grundvallar við ákvarðanatöku í máli hennar.

    Verði ekki fallist á beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar og barns hennar gerir hún þá kröfu til vara að frestað verði réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar, sbr. 6. tölul. 104. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir beiðni sína um frestun réttaráhrifa m.a. á því að ákvæði reglugerðar um útlendinga skorti lagastoð auk þess sem hún telji að sú hætta sem stafi af endursendingu hennar til Ítalíu muni leiða til brots gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi byggir að auki á því að mat stjórnvalda á hvað sé barninu fyrir bestu sé verulega ábótavant og að það sé mikilvægt að dómstóll fái að taka afstöðu til þess hvort kærunefnd hafi tekið nægilegt tillit til kynjasjónarmiða. Þá vísar kærandi til þess að hún muni eiga í erfiðleikum með að eiga í samskiptum við lögmann sinn sem sé nauðsynlegt við rekstur máls hennar fyrir dómi hér á landi og vísar í því samhengi til tiltekinna úrskurða kærunefndar og 11. gr. stjórnsýslulaga.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

  1. Krafa um endurupptöku

    Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

    Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda og barns hennar þann 4. nóvember 2021. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð kæranda og barns hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ekki talið að kærandi og barn hennar hefðu slík tengsl við landið eða að aðstæður þeirra væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

    Kærandi reisir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að rannsókn á aðstæðum hennar bæði hvað varðar heilsufar hennar og barns hennar og aðstæður þeirra á Ítalíu hafi verið verulega ábótavant. Þá telur kærandi að mat á almennum og einstaklingsbundnum aðstæðum þeirra hafi verið byggt á ófullnægjandi upplýsingum sem hafi leitt til rangrar niðurstöðu og óskar hún eftir endurupptöku á máli þeirra vegna þessa. Kærandi telur auk þess að hvorki hafi verið tekið tillit til kyns- né kyngervis hennar við málsmeðferð stjórnvalda.

    Kærandi reisir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að rannsókn á aðstæðum hennar er varðar heilsufar hafi verið verulega ábótavant. Til stuðnings beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram ný heilbrigðisgögn frá Göngudeild sóttvarna, dags. 27. september og 22. nóvember 2021, þar sem fram kemur að kærandi hafi hitt sálfræðing og m.a. lýst því að hún hafi verið verið umskorin. Þá hafi hún lýst ofbeldi og ofsóknum sem hún hafi orðið fyrir af hálfu fyrrum eiginmanns síns og þeim áhrifum sem það hafi haft á heilsufar hennar. Þá kemur fram að kærandi sé með áfallastreituröskun og að hana skorti sjálfstraust. Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 4. nóvember 2021, ásamt framangreindum heilsufarsgögnum. Þegar kærunefnd úrskurðaði í máli kæranda lágu fyrir upplýsingar um andlegt heilsufar kæranda en í úrskurði nefndarinnar kemur m.a. fram að kærandi hafi hitt sálfræðing í tvígang þar sem hún hafi greint frá sögu sinni og að hún upplifi áfallastreitu og sé með slaka sjálfsmynd. Þá hafði kærandi í viðtali hjá Útlendingastofnun greint frá því að hafa verið umskorin og að hún hafi orðið fyrir heimilisofbeldi á Ítalíu. Það er mat kærunefndar að þær upplýsingar sem koma fram í framangreindum gögnum séu í samræmi við þær upplýsingar sem kærunefnd byggði á þegar nefndin úrskurðaði í máli kæranda hinn 4. nóvember 2021 en þá lá fyrir að tilteknir atburðir í heimaríki og á Ítalíu hafi haft áhrif á andlega heilsu kæranda og var það lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Var það mat kærunefndar að gögn málsins bæru ekki með sér að heilsufar kæranda væri með þeim hætti að hún teldist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Vísar kærunefnd til umfjöllunar um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd á Ítalíu í framangreindum úrskurði kærunefndar í máli kæranda. Þar var m.a. tekið fram að gögn málsins bæru með sér að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu eigi sama rétt og ítalskir ríkisborgarar til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu og gjaldfrjálsrar meðferðar. Kærandi lagði auk þess fram læknabréf, dags. 16. september 2021, með beiðni um endurupptöku málsins en kærunefnd áréttar að umrætt gagn hafi verið meðal gagna málsins þegar kærunefnd kvað upp úrskurð sinn þann 4. nóvember 2021 og að tekin hafi verið afstaða til þess af hálfu nefndarinnar. Þá áréttar kærunefnd að líkt og fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi hún fengið útgefið dvalarleyfi á Ítalíu árið 2003 og að hún hafi dvalið þar í landi til ársins 2013 en þá hafi kærandi farið til Hollands.

    Í ákvörðun Útlendingastofnunar var lagt ítarlegt mat á allar málsástæður kæranda sem kærunefnd vísaði til og staðfesti með úrskurði sínum. Þá kemur fram í úrskurði kærunefndar, dags. 4. nóvember 2021, að kærandi hafi greint frá því að hafa orðið fyrir kynfæralimlestingum auk þess sem að hún sé þolandi mansals. Rétt er að árétta, að þær aðstæður hafi verið til staðar árið 2003. Þá hafi hún orðið fyrir heimilisofbeldi á meðan dvöl hennar á Ítalíu stóð. Var það mat kærunefndar að kærandi geti leitað til lögregluyfirvalda eða annarra þar til bærra stjórnvalda óttist hún um öryggi sitt á Ítalíu. Þá bæru gögn með sér að þrátt fyrir að ekki sé skimað kerfisbundið eftir því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd teljist vera viðkvæmir einstaklingar þá geti greining á þolendum pyndinga eða alvarlegs ofbeldis átt sér stað á öllum stigum umsóknarferlisins um alþjóðlega vernd. Þá eigi umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ítalíu rétt á heilbrigðisþjónustu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu.

    Vegna athugasemda kæranda í greinargerð varðandi lagastoð reglugerðar nr. 540/2017 um útlendinga með síðari breytingum og beitingu 32. gr. a reglugerðar um útlendinga tekur kærunefnd sérstaklega fram að hún telji ljóst að það leiði bæði af orðalaginu „viðmið“ og tilvísun í reglugerðinni um að þau séu í „dæmaskyni“ að ekki sé um að ræða tæmandi upptalningu á þeim sjónarmiðum sem komið geta til greina við mat á því hvort sérstakar ástæður eru fyrir hendi í máli. Af því leiðir að aðrar aðstæður, sambærilegar í eðli sínu og af svipuðu eða hærra alvarleikastigi, geta haft vægi við ákvörðun um hvort sérstakar ástæður séu til að taka mál umsækjanda til efnismeðferðar hér á landi, svo framarlega sem slíkar aðstæður eru ekki sérstaklega undanskildar, sbr. 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar. Kærunefnd áréttar í þessu samhengi að við meðferð mála hjá kærunefnd er ávallt horft til einstaklingsbundinna aðstæðna einstaklingsins við mat á því hvort sérstakar ástæður mæli með því að mál verði tekið til efnismeðferðar, í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, þ.m.t. heilsufars hans og annarra þátta sem benda til viðkvæmrar stöðu einstaklingsins. Kærunefnd leggur því áherslu á að heildarmat sé lagt á atvik í hverju máli fyrir sig á grundvelli einstaklingsbundinna aðstæðna einstaklingsins og aðstæðna í viðtökuríki. Í úrskurði kærunefndar, dags. 4. nóvember 2021, lagði kærunefnd einstaklingsbundið mat á umsóknir kæranda og barns hennar og komst að þeirri niðurstöðu að synja þeim um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Var niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Þá hefur túlkun nefndarinnar verið staðfest af héraðsdómi, sbr. dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-8252/2020 frá 14. júlí 2021. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda að þessu leyti.

    Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að aðstæður kæranda og barns hennar hafi breyst svo verulega að tilefni sé til að endurupptaka fyrri úrskurð nefndarinnar. Þá er það mat kærunefndar að í greinargerð kæranda sé að öðru leyti byggt á sömu málsatvikum og málsástæðum og hún byggði á og bar fyrir sig í kærumáli sínu til kærunefndar, en kærunefnd hefur þegar tekið afstöðu til þeirra málsástæðna. Með úrskurði kærunefndar þann 4. nóvember 2021 staðfesti nefndin að öðru leyti ákvörðun Útlendingastofnunar með vísan til gagna málsins.

    Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 4. nóvember 2021, hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

    Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

  2. Krafa um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar útlendingamála samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga

Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að málskot til dómstóla frestar ekki réttaráhrifum endanlegra ákvarðana stjórnvalda, sjá til hliðsjónar 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Reglan er áréttuð í 1. málsl. 6. mgr. 104. laga um útlendinga en þar segir að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Frestun á réttaráhrifum skal bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að málið hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Niðurstaða um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar ræðst af heildstæðu mati á hagsmunum aðila af því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað og sjónarmiðum sem mæla gegn slíkri frestun. Meðal þeirra sjónarmiða sem líta ber til við þetta mat er hvort framkvæmd úrskurðarins valdi aðila óafturkræfum skaða, hvort framkvæmdin feli í sér verulegar hindranir á aðgengi aðila að dómstólum, hvort aðstæður sem þýðingu geta haft fyrir málið hafi breyst verulega eða hvort þörf sé á sérstakri varúð, m.a. með tilliti til hagsmuna barna. Þá lítur kærunefnd til þess hlutverks stjórnvalda að tryggja skilvirka framkvæmd laga um útlendinga. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar er undantekning frá meginreglu sem aðeins sé ætlað að ná til tilvika þar sem ástæða er til þess að fresta framkvæmd. Réttaráhrifum úrskurðar verði því ekki frestað af þeirri ástæðu einni að úrskurðurinn verði borinn undir dómstóla heldur þurfi að liggja fyrir tilteknar ástæður í fyrirliggjandi máli svo kærunefnd fallist á slíka beiðni.

Af beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa má ráða þá afstöðu hennar að framkvæmd úrskurðar kærunefndar útlendingamála um að hún og barn hennar skuli yfirgefa landið takmarki möguleika þeirra til að fá endurskoðun úrskurðarins hjá dómstólum og njóta þar réttlátrar málsmeðferðar, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Ljóst er að vera kæranda á landinu er ekki forsenda fyrir því að mál sem hún höfðar til ógildingar á úrskurði kærunefndar sé tækt til meðferðar hjá dómstólum. Þá hefur kærandi möguleika á að gefa skýrslu fyrir dómi þótt hún sé ekki hér á landi, sbr. 2. mgr. 49. gr. og 3. og 4. mgr. 51. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í því ljósi og með vísan til aðstæðna kæranda að öðru leyti er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé ástæða til að fresta réttaráhrifum úrskurðar í máli kæranda á þeim grundvelli að framkvæmd úrskurðarins valdi tjóni á málatilbúnaði þeirra fyrir dómstólum eða skerði réttindi sem þeim eru tryggð samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. E-2434/2017 og E-6830/2020.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála hefur verið tekin afstaða til málsástæðna kæranda varðandi umsóknir hennar og barns hennar um alþjóðlega vernd hér á landi og komist að niðurstöðu um að synja umsóknum þeirra um efnismeðferð. Fyrir liggur að stjórnvöld í viðtökuríkinu hafa viðurkennt skyldu sína til þess að taka við kæranda og umsóknum hennar og barns hennar um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærunefnd ítrekar það sem kemur fram í úrskurði í máli kæranda og barns hennar að athugun nefndarinnar hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að ætla að aðstæður í viðtökuríki séu þess eðlis að endursending kæranda og barns hennar þangað sé í andstöðu við 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða að þeim sé ekki tryggð raunhæf leið til að ná fram rétti sínum þar í landi, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar bera stjórnvöld viðtökuríkis ábyrgð á umsókn kæranda og barns hennar um alþjóðlega vernd og er skylt að tryggja að þær verði ekki endursendur í slíkar aðstæður annars staðar. Kærunefnd telur að gögn sem kærandi lagði fram með beiðni um frestun réttaráhrifa séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að ætla að þau breyti niðurstöðu nefndarinnar varðandi þetta mat. Í samræmi við framangreint er það mat kærunefndar að kærandi og barn hennar eigi ekki á hættu að verða fyrir óafturkræfum skaða snúi þær aftur til viðtökuríkis.

Tiltölulega skammur tími er liðinn síðan nefndin úrskurðaði í málum kæranda og barns hennar. Ekkert í gögnum málsins, þ.m.t. þeim gögnum sem fylgdu beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa, bendir til þess að aðstæður þeirra eða aðstæður í ríkinu, sem vísa á þeim til, hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málum þeirra á þann hátt að nefndin telji að það gæti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Í því sambandi er tekið fram að nefndin hefur kynnt sér þau gögn sem fylgdu beiðni um frestun réttaráhrifa. Eftir skoðun á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa telur kærunefnd að athugasemdir sem þar koma fram varðandi málsmeðferð og efnislegt mat kærunefndar í málinu séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að ætla að niðurstaða kærunefndar í málinu sé haldin annmörkum sem leitt gæti til ógildingar úrskurðarins.

Í úrskurði kærunefndar í máli kæranda og barns hennar var gerð grein fyrir mati nefndarinnar á hagsmunum barns kæranda. Í úrskurðinum er m.a. vísað til 32. gr. a reglugerðar um útlendinga þar sem fram koma sérviðmið er varða börn og ungmenni. Var það niðurstaða kærunefndar að flutningur fjölskyldunnar til viðtökuríkis samrýmdist hagsmunum barnsins þegar litið væri m.a. til öryggis þess , velferðar og félagslegs þroska, sbr. 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Þá var það einnig mat kærunefndar að gögn málsins bentu ekki til þess að hætta væri á að fjölskyldan yrði aðskilin við meðferð máls þeirra í viðtökuríki.

Vegna tilvísunar kæranda til úrskurða kærunefndar í málum nr. KNU18100036 og KNU18100037 frá 8. nóvember 2018, tekur kærunefnd fram að í framangreindum úrskurðum taldi kærunefnd í ljósi heilstæðs mats á aðstæðum aðila í viðtökuríki, þ.m.t. þeirri umönnun sem annar aðili málsins þurfti á að halda, að aðilar kynnu að eiga í erfiðleikum með að eiga í samskiptum við lögmann sinn sem væri þeim nauðsynlegt við rekstur máls þeirra fyrir dómi hér á landi. Að mati kærunefndar er ekki hægt að jafna stöðu kæranda í þessu máli við stöðu aðila í framangreindum úrskurðum.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að ekki sé ástæða til að fallast á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar í máli hennar.

Kærunefnd leggur áherslu á að mál þetta snýst um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar í því skyni að bera mál undir dómstóla, en ekki hvort skilyrði frestunar framkvæmdar með vísan til lokamálsliðar 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga séu fyrir hendi, m.a. í ljósi Covid-19 faraldursins. Kæranda er leiðbeint um að berist henni boð um flutning til viðtökuríkis er henni heimilt að vekja athygli kærunefndar á því en kærunefnd getur þá ákveðið að fresta framkvæmd úrskurðar, sbr. framangreint ákvæði, séu skilyrði til þess uppfyllt.

Athygli kæranda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra ástæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Samantekt

Samkvæmt framansögðu eru hvorki forsendur til að endurupptaka mál kæranda á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga né fresta réttaráhrifum samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.

Kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa er hafnað.

 

The appellants request to re-examine the case is denied.

The appellants request for suspension of legal effects is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                 Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum