Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 476/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 30. september 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 476/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21050005

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. maí 2021 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Egyptalands (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. apríl 2021, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Önnur varakrafa er að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þriðja varakrafa er að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Fjórða varakrafa er að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 31. maí 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. dagana 15. október 2020 og 12. janúar 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 19. apríl 2021, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 4. maí 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum hinn 18. maí 2021. Gögn bárust kærunefnd hinn 7. ágúst 2021 og þá bárust frekari upplýsingar frá kæranda hinn 13. ágúst 2021. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 2. september 2021 ásamt talsmanni sínum.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til greinargerðar sem lögð hafi verið fram til Útlendingastofnunar, dags. 23. nóvember 2020, hvað varðar umfjöllun um aðstæður í Egyptalandi og stöðu mannréttindamála, þ. á m. stöðu tví- og samkynhneigðra.

Aðalkrafa kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er byggð á því að hann sé í hættu á ofsóknum í heimaríki vegna aðildar að sérstökum þjóðfélagshópum, bæði vegna kynhneigðar og þar sem honum stafi ógn af Wilyat Sinai samtökunum vegna stöðu hans sem fyrrum hermaður í egypska hernum og jafnframt vegna þess að hann muni búa við ólögmæta mismunun í heimaríki á grundvelli samansafns ástæðna sem jafngildi ofsóknum, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þeir sem kærandi óttist falli undir ákvæði c-liðar 4.mgr. 38. gr. laganna og hann eigi því ekki raunhæfa möguleika á vernd þar sem yfirvöld hafi ekki vilja til að veita honum þá vernd sem hann þarfnist.

Varakrafa kæranda er byggð á því að hann sé flóttamaður á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eigi því rétt á viðbótarvernd þar sem raunhæf ástæða sé til þess að ætla að hann eigi á hættu að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimaríkis síns. Kærandi telur að flutningur innanlands í Egyptalandi sé hvorki raunhæfur né sanngjarn kostur.

Þá telur kærandi að með endursendingu hans til Egyptalands yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Verði framangreindar kröfur ekki samþykktar er að lokum gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka mál kæranda til meðferðar á ný. Byggist krafa um ógildingu ákvörðunar Útlendingastofnunar á tilgreindum annmörkum á meðferð máls kæranda á lægra stjórnsýslustigi.

Kærandi gerir í fyrsta lagi athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar hvað varðar frásögn kæranda um búsetu hans í borginni Arish og ofsóknir Wilayat Sinai. Kærandi gerir athugasemd við að Útlendingastofnun hafi dregið þá ályktun að hann hafi ekki búið í Arish þar sem að hann hafi lagt fram skilríki þar sem skráð sé heimilisfang í Al Santa. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi átt að boða hann í viðtal og gefa honum færi á að útskýra þessa staðreynd. Kærandi hafi tjáð talsmanni sínum að hann hafi tekið þá ákvörðun að uppfæra ekki heimilisfang sitt á skilríkjum sínum þegar hann hafi flutt til Arish þar sem að hann hafi ekki viljað að fylgismenn vígahópa gætu aflað upplýsinga um hans raunverulega heimilisfang. Til stuðnings framangreindu leggur kærandi fram annars vegar afrit af rafmagnsreikningi fyrir íbúð hans í Arish, dags. 18. janúar 2018, og hins vegar afrit af leigusamningi fyrir íbúð hans í borginni fyrir tímabilið janúar 2000 til desember 2010. Þá gerir kærandi athugasemdir við það mat Útlendingastofnunar að þar sem hann hafi ekki leitt líkur að búsetu sinni í borginni Arish þá dragi það úr trúverðugleika frásagnar hans um ótta við ofsóknir af hálfu Wilayat Sinai. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi borið að meta ástæðuríkan ótta hans við ofsóknir af hálfu samtakanna sjálfstætt, þar sem hann hafi verið fyrrum hermaður. Í öðru lagi gerir kærandi athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar hvað varðar frásögn kæranda um kynhneigð. Kærandi gerir athugasemd við þá niðurstöðu að sá dráttur hans að greina frá kynhneigð sinni dragi úr trúverðugleika frásagnar hans þar um. Kærandi vekur athygli á því að þjónustuviðtal sem tekið sé við umsækjanda skömmu eftir framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd sé tekið til þess að meta þjónustuþörf umsækjanda en ekki leggja dóm á þörf hans fyrir alþjóðlega vernd. Þá hafi kærandi ekki verið spurður út í kynhneigð sína í Dyflinnarviðtali sem tekið var 8. júlí 2019. Að mati kæranda sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að hann hafi viljað ræða kynhneigð sína að fyrra bragði. Þá mótmælir kærandi þeirri afstöðu Útlendingastofnunar að kærandi hafi stofnað til hjúskapar til málamynda við annan mann hér á landi með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd. Kærandi vilji geta þess að hann hafi verið stoð og stytta eiginmanns síns frá upphafi sambands þeirra. Kærandi leggur fram bréf frá hjúkrunarfræðingi á göngudeild hjartabilunar á Landspítalanum sem hann telur varpa ljósi á veikindi eiginmanns hans og sambandi hans og kæranda. Þrátt fyrir að kærandi hafi upprunalega flúið heimaríki sitt vegna hótana Wilayat Sinai sé raunin sú að skömmu eftir komu til Íslands hafi hann haft frelsi til að vera sá sem hann vill vera og hefja samband við karlmann. Í þriðja lagi gerir kærandi athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar hvað varðar lífstíðardóm sem hann hafi hlotið í heimaríki og því mati stofnunarinnar að kærandi hafi ekki leitt líkur að því að dómurinn stafi frá Wilayat Sinai og sé hótun gagnvart honum. Kærandi telur það ekki vera sanngjarnt af Útlendingastofnun að slá það út af borðinu að ósannir dómar geti verið hluti af þvingunum og hótunum samtakanna þegar heimildir staðfesti á annað borð þá hættu sem hermenn og aðrir opinberir starfsmenn í Egyptalandi séu í. Kærandi telur að frásögn hans eigi sér stoð í heimildum og varpi skýru ljósi á að ótti hans við ofsóknir af hálfu Wilayat Sinaai sé ástæðuríkur. Að lokum gerir kærandi athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi ekki talið skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga uppfyllt þar sem hann hafi verið skráður horfinn þann 18. mars 2019 og ekki komið í leitirnar fyrr en 18. maí s.á. Kærandi vísar til þess að kærunefnd hafi í úrskurði sínum nr. 274/2020 kveðnum upp þann 23. júlí 2020 komist að þeirri niðurstöðu að verulegur vafi hafi leikið á því hvort vanræksla hans á því að mæta í flug til Hollands hafi verið meginástæða þess að ekki hafi tekist að flytja hann innan þess tímamarks sem 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar mæli fyrir um. Gerir kærandi athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi ekki kynnt sér framangreindan úrskurð kærunefndar.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað egypsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé egypskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Egyptalandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/18 - Egypt (Amnesty International, 7. apríl 2021);
  • Country Report on Human rights 2020 – Egypt (United States Department of State, 30. mars 2021);
  • Country Report on Terrorism 2019 – Egypt (United States Department of State, 24. júní 2020);
  • Country Policy and Information Note – Egypt: Background Information (United Kingdom: Home Office, desember 2020);
  • Country Policy and Information Note – Egypt: Military service (United Kingdom: Home Office, nóvember 2019);
  • DFAT Country Information Report Egypt (Australian Government, Department of Foreign Affairs and Trade, 17. júní 2019);
  • Egypt Country Report – 2020 (Bertelmann Stiftung, 2020);
  • Egypt: Security Forces Abuse, Torture LGBT People (Human Rights Watch, 1. október 2020);
  • Freedom in the World 2020 – Egypt (Freedom House, 3. mars 2021;
  • “If You Are Afraid for Your Lives, Leave Sinai!” Egyptian Security Forces and ISIS-Affiliate Abuses in North Sinai (Human Rights Watch, maí 2019);
  • The World Factbook – Egypt (Central Intelligence Agency, vefsíða uppfærð 19. ágúst 2020);
  • World Report 2020 - Egypt (Human Rights Watch, 14. janúar 2020);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 8. september 2020);
  • Upplýsingar af vef National Council for Human Rights í Egyptalandi http://www.nchregypt.org/index.php/en/ (sótt 5. nóvember 2019) og
  • Upplýsingar af vef Arabic Network for Human Rights Information https://www.anhri.info/?lang=en (sótt 5. nóvember 2019).

Egyptaland er fjölflokka, stjórnarskrárbundið lýðveldi í Norður-Afríku með rúmlega 104 milljónir íbúa. Egyptaland gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna árið 1981, samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1986 og alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 1982. Ný stjórnarskrá ríkisins, sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu snemma árs 2014, kveður á um vernd grundvallarmannréttinda, þar á meðal trúfrelsi, sannfæringar- og tjáningarfrelsi og jafnræði borgaranna.

Ljóst er af ofangreindum gögnum, s.s. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 að ástandið í landinu hafi einkennst af pólitískri ólgu undanfarinn áratug og að umbreyting til lýðræðis hafi reynst landinu áskorun þar sem stjórnvöld og almennir borgarar hafi m.a. þurft að kljást við spillingu, niðurnítt stjórnkerfi, pyndingar og hryðjuverk. Í skýrslu ástralska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2019 kemur fram að uppreisn hafi verið gerð í landinu árið 2011 og þáverandi forseta landsins, Hosni Mubarak, steypt af stóli. Í júní 2012 hafi Mohamed Morsi verið kosinn forseti landsins. Mikil mótmæli og óeirðir hafi átt sér stað í kjölfar þess forsetakjörs og hafi komið til nokkurra átaka milli lögreglu og mótmælenda. Mohamed Morsi hafi verið steypt af stóli árið 2013 þegar herinn hafi tekið völd í landinu. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020 sigraði núverandi forseti Egyptalands Abdel Fattah Al-Sisi forsetakosningarnar árið 2014 og var hann endurkjörinn árið 2018 í kosningum sem samkvæmt framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins hafi verið að miklu leyti ófrjálsar og ósanngjarnar. Þá má af framangreindum gögnum, s.s. ofangreindri skýrslu samtakanna Freedom House frá árinu 2021, ráða að stjórnunarstíll Al-Sisi hafi í æ meira mæli einkennst af einræði, valdníðslu og óeðlilegum afskiptum af dómstólum og fjölmiðlum.

Samkvæmt framangreindri skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna hafa egypsk yfirvöld gengið hart fram gegn mótmælendum og fjölmiðlafólki í ríkinu, m.a. handtekið fólk, hneppt í varðhald og pyndað. Þá kemur fram að helstu vandamál í Egyptalandi séu óhófleg valdbeiting öryggissveita ríkisins, þar á meðal handahófskenndar handtökur, varðhöld og pyndingar og takmörkun stjórnvalda á tjáningar- og fundafrelsi.

Af ofangreindum gögnum má ráða að aðstæður í Egyptalandi og málsmeðferð þarlendra stjórnvalda sé engu að síður almennt til þess fallin að tryggja mannréttindi einstaklinga, að undanskildum tilteknum málum sem snúi að andstæðingum ríkisstjórnarinnar, svo sem mótmælendum og fjölmiðlafólki. Dómstólar í Egyptalandi séu almennt sjálfstæðir, fyrir utan ákveðin afskipti ríkisstjórnar landsins af málum stjórnarandstæðinga sem hafi verið til meðferðar hjá dómstólum. Egypsk stjórnvöld virði almennt niðurstöður dómstóla í ópólitískum málum. Innanríkisráðuneytið hafi yfirumsjón með löggæslu og innra öryggi í landinu, þ. á m. lögreglunni (e. the Public Police), öryggissveitinni (e. the Central Security Force) og þjóðaröryggissveitinni (e. the National Security Sector). Þjóðaröryggissveitin beri ábyrgð á ógnum innanlands og baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi. Samkvæmt skýrslu breska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2017 beri egypska lögreglan ábyrgð á því að lögum sé framfylgt í landinu. Fagmennska sé misjöfn innan lögreglunnar og vantraust á lögreglunni nokkurt. Egypsk stjórnvöld viðhaldi almennt góðri stjórn á öryggissveitum landsins en refsileysi viðgangist þó innan egypsku lögreglunnar. Þá kemur fram að egypska ríkið sé almennt reiðubúið og fært um að vernda þá einstaklinga sem óttist aðila sem eru ekki tengdir stjórnvöldum þótt að sú vernd geti að einverju leyti verið takmörkuð vegna veikleika í egypska réttarkerfinu. 

Samkvæmt ofangreindum skýrslum bandarísku og áströlsku utanríkisþjónustunnar fyrir árið 2019 er starfsemi hryðjuverkahópa vandamál í Egyptalandi, þ. á m. í Sínaí héraði. Byltingin árið 2011 hafi haft í för með sér aukningu á glæpum, ofbeldi, borgaralegum óróa og hryðjuverkaárásum en með aukinni áherslu á innra öryggi landsins hafi egypsk stjórnvöld náð að bæta öryggismál landsins. Frá árinu 2014 hafi ríkt neyðarástand í Norður-Sínaí en átök hafa geisað milli öryggissveita, stjórnvalda, hryðjuverkahópa og annarra vopnaðra hópa á svæðinu. Þrátt fyrir að flestar árásir hryðjuverkahópa hafi beinst gegn stjórnvöldum og hernum þá séu dæmi um að árásir geti beinst að almennum borgurum sem grunaðir séu um að starfa með stjórnvöldum. Þá kemur fram að egypsk stjórnvöld hafi gripið til hertra aðgerða í Norður-Sínaí til þess að sporna gegn hryðjuverkastarfsemi á svæðinu. Í febrúar 2018 hafi stjórnvöld hrint af stað aðgerðinni Operation Sinai 2018 sem hafi m.a. haft í för með sér að komið hafi verið upp ákveðnum öryggissvæðum (e. buffer zones) í Norður-Sínaí til þess að koma í veg fyrir smygl á vopnum og innrásir frá Gasa-svæðinu í Palestínu. Samkvæmt upplýsingum frá egypskum stjórnvöldum hafi þau m.a. eyðilagt ýmis húsnæði, s.s. íbúðar- og atvinnuhúsnæði, í tengslum við aðgerðina en stjórnvöld hafi lýst því yfir að þau myndu greiða viðeigandi bætur til þeirra sem yrðu fyrir eignarmissi. Alþjóðleg hjálparsamtök hafi þó greint frá því að stjórnvöld hafi ekki greitt íbúum sem orðið hafi fyrir eignarmissi fullnægjandi bætur. 

Samkvæmt mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020 eru ekki í gildi í Egyptalandi lög er geri samkynhneigð refsiverða. Hins vegar sé lagaákvæðum er kveði á um ólifnað, vændi og brot gegn kennisetningum trúar beitt í þeim tilgangi að handtaka LGBTI einstaklinga. Eigi einstaklingar hættu á allt að tíu ára fangelsisrefsingu séu þeir sakfelldir fyrir framangreind brot. Þá komi lagaleg mismunun og fordómar samfélagsins í veg fyrir að LGBTI einstaklingar skipuleggi og berjist opinberlega fyrir réttindum sínum. Þá hafi stjórnvöld ekki sýnt neinn vilja til að taka á þeirri mismunun sem LGBTI einstaklingar verði fyrir. Árið 2020 hafi engar heimildir verið um áreiti gegn LGBTI einstaklingum eða þeir hafi verið handteknir. Samkvæmt upplýsingum af vefnum eru nokkur frjáls félagasamtök í landinu sem berjast fyrir réttindum LGBTI einstaklinga, svo sem samtökin Rainbow Egypt; Solidarity with Egypt og No hate Eygypt.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærunefnd hefur jafnframt litið til leiðbeininga Flóttamannastofnunarinnar er varðar kröfur um alþjóðlega vernd á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar (Guidelines on International Protection No. 9: Claims to Refugee Status based on Sexual Orientation and/or Gender Identity within the context of Article 1A (2) of the 1951 Convention and/or its 1967 Protocol relating to the Status of Refugee, UN High Commissioner for Refugees, október 2012).

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann eigi á hættu á ofsóknir í heimaríki annars vegar vegna aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi sem samkynhneigður maður og hins vegar að hann sé fyrrum hermaður og stafi ógn af Wilayat Sinai samtökunum.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, viðtali hjá kærunefnd þann 2. september 2021, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Í ákvörðun sinni komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi ekki leitt líkur að því að hann hafi verið búsettur í borginni Arish í Norður-Sinai og væri það ekki til þess fallið að renna stoðum undir trúverðugleika frásagnar hans um að hann hafi orðið fyrir áreiti og hótunum af hálfu Wilayat Sinai þar í borg. Þá var það mat Útlendingastofnunar að sá dráttur á að greina íslenskum yfirvöldum frá meintri kynhneigð sinni væri ekki til þess fallinn að renna stoðum undir trúverðugleika frásagnar hans þar um. Þá vísaði Útlendingastofnun til þess að eiginmaður kæranda sem sjálfur hafi verið umsækjandi um alþjóðlega vernd hér á landi hafi aldrei minnst á það að hann væri tví- eða samkynhneigður við málsmeðferð umsóknar hans hjá íslenskum stjórnvöldum. Taldi Útlendingastofnun það ekki vera til þess fallið að renna stoðum undir trúverðugleika tví- eða samkynhneigðar eiginmanns kæranda og vekti því upp grunsemdir um að hjúskapur þeirra væri til málamynda. Þá taldi Útlendingastofnun að tímasetning hjúskapar þeirra hinn 3. apríl 2020 og undir hvaða kringumstæðum til hans hafi verið stofnað væri ekki til þess fallin að renna stoðum undir trúverðugleika kæranda um tvíkynhneigð hans. Stofnunin vísar m.a. til þess að þegar til hjúskaparins hafi verið stofnað hafi kæranda verið ljóst að hann ætti yfir höfði sér að verða endursendur til Hollands. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki leitt líkur að því eða gert það sennilegt að hann væri tví- eða samkynhneigður. Taldi stofnunin að kærandi hefði stofnað til hjúskaparins til málamynda með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi.

Í þjónustuviðtali sem tekið var við kæranda hjá Útlendingastofnun hinn 6. júní 2019 kvaðst kærandi eiga eiginkonu og þrjú börn í heimaríki. Aðspurður um ástæður flótta frá heimaríki greindi kærandi frá því að hópur fólks sem væri ekki tengt hernum hefði beðið hann um að útbúa sprengju, hann hafi neitað og eftir að hann hafi tilkynnt það einum úr hópnum hafi hótanir gegn honum byrjað. Kærandi hafi farið úr landi af því hann hafi verið hræddur um líf sitt og fjölskyldu sína. Aðspurður um hvort hann teldi sig tilheyra minnihlutahópi í heimaríki svo sem vegna kynhneigðar svaraði kærandi að hann væri með sérþekkingu og því væri hann í minnihluta. Aðspurður í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 8. júní 2021 um andlega heilsu kvaðst kærandi vera stressaður vegna ástandsins því hann ætti konu og börn í heimaríki, hann væri hræddur um hvað gæti komið fyrir þau. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 15. október 2020 sem tekið var við kæranda þar sem mál hans hafði verið tekið til efnismeðferðar hjá stofnuninni kvaðst kærandi aðspurður um tengsl við Ísland vera giftur einstaklingi sem byggi hér á landi og lagði fram hjónavígsluvottorð. Kvaðst kærandi hafa átt eiginkonu í heimaríki en þau hafi skilið 2. maí 2019. Aðspurður í viðtalinu um það hvernig hann skilgreindi kynhneigð sína kvaðst hann aðeins vera með náttúrulegar hvatir og hefði langanir bæði til karla og kvenna en meira til karla. Aðspurður kvaðst kærandi hafa uppgötvað langanir sínar til karla þegar hann hafi verið 21 til 24 ára gamall og hefði átt í kynnum við menn í hernum. Kærandi var þá spurður að því hvort hann hefði verið í sambandi með öðrum manni en manninum sem hann væri giftur og svaraði kærandi því að hann hefði átt í sambandi við mann í Hollandi þegar hann hafi verið þar. Kærandi kvaðst ekki enn hafa greint opinberlega frá kynhneigð sinni en hann væri að bíða eftir rétta tímanum til þess. Kærandi kvaðst hafa kynnst eiginmanni sínum í júlí 2019, sambandið hafi ekki verið sterkt í fyrstu en þeir hafi kynnst betur og svo gifst 2020. Kærandi kvaðst vera hræddur við að snúa til heimaríkis þar sem meirihluti þjóðarinnar væru múslímar og að vera tvíkynhneigður væri litið hornauga af samfélaginu. Kærandi kvaðst ekki hafa greint frá kynhneigð sinni í fyrri viðtölum þar sem hann hefði ekki verið í alvarlegu sambandi þá og því hafi hann ekki talið það nauðsynlegt. Kærandi kvaðst óttast að verða myrtur í heimaríki annars vegar af Wilayat Sinai samtökunum og hins vegar vegna kynhneigðar sinnar sem hann gæti ekki lengur leynt, sérstaklega eftir reynslu sína hér á landi en kynferðislegar langanir hans hafi aukist.

Hinn 2. september 2021 kom kærandi í viðtal hjá kærunefnd. Þegar kærandi var spurður að því hvernig hann myndi lýsa kynhneigð sinni átti hann í miklum erfiðleikum með að svara en svaraði loks að hann væri tvíkynhneigður. Kærandi kvaðst fyrst hafa áttað sig á kenndum sínum til karlmanna þegar hann hafi byrjað í hernum. Aðspurður um hvort hann þekkti lög er lytu að réttindum LGBT einstaklinga í Egyptalandi svaraði hann því að LGBT einstaklingum væri hafnað af samfélaginu. Aðspurður um hvort hann fylgdist með LGBT málefnum í Egyptalandi svaraði kærandi því að það væri ekki rætt um það opinberlega í landinu, svona hlutir væru ræddir í einrúmi. Aðspurður hvort hann vissi um einhver samstök sem berðust fyrir réttindum LGBT einstaklinga svaraði hann því að þar sem að um væri að ræða almúslímskt samfélag þá væru slík samtök ekki starfandi í landinu.

Hinn 9. ágúst 2021 sendi kærunefnd fyrirspurn til talsmanns kæranda þar sem nefndin óskaði eftir því að kærandi gæfi frekari upplýsingar um þann mann sem hann kvaðst hafa átt í sambandi við í Hollandi, svo sem nafn hans, hvernig þeir hafi kynnst og hvort hann gæti lagt fram skjáskot af samskiptum sem þeir hafi átt á samskiptamiðlum eða með öðrum hætti. Jafnframt óskaði kærunefnd eftir því að kærandi legði fram gögn til staðfestu um að hann hafi búið í Arish á tímabilinu 2005 til 2018. Hinn 13. ágúst 2021 bárust kærunefnd svör kæranda. Fram kom að kærandi ætlaði að kanna hvort hann gæti aflað frekari gagna til stuðnings því að hann hafi verið búsettur í Arish á tilgreindu tímabili. Þá kom fram að kærandi ætti í miklum erfiðleikum með að tala um samskipti sín við annan karlmann vegna fráfalls eiginmanns síns. Kærandi hafi tjáð talsmanni sínum að maðurinn sem hann hafi hitt í Hollandi héti Hassan og þeir hefðu hist á kaffihúsi í Leeuwarden í Hollandi. Kynni þeirra hefðu varað stutt og þeir hafi ekki átt í samskiptum á samfélagsmiðlum eða í gegnum síma. Að mati kærunefndar var þekking kæranda á málefnum LGBT einstaklinga yfirborðskennd, einkum þekking hans á þeim málefnum í sínu heimaríki. Kjarni í frásögn hans um kenndir til karla lýtur einkum að því að kærandi hafi uppgötvað þær þegar hann hafi byrjað í hernum eftir tvítugt og hafi þau samskipti verið af kynferðislegum toga. Þá hefur hann ekki getað lagt fram frekari upplýsingar um mann í Hollandi sem hann kveðst hafa átt í einhvers konar sambandi við. Jafnframt liggur fyrir í máli kæranda að mál hans var búið að sæta málsmeðferð hér á landi í meira en ár þegar hann bar fyrst fyrir sig að vera tvíkynhneigður. Kærandi hafði þá farið í tvö viðtöl hjá Útlendingastofnun, lagt fram greinargerðir til Útlendingastofnunar og kærunefndar og beiðni um frestun réttaráhrifa til kærunefndar án þess að minnast á framangreint atriði. Þá stefndi kærandi íslenska ríkinu í maí 2020, með stefnu dags. 28. maí, þar sem hann krafðist þess að ógiltur yrði úrskurður kærunefndar í svokölluðu Dyflinnarmáli kæranda. Var krafan byggð á því að rannsóknir kærunefndar og Útlendingastofnunar hafi verið ófullnægjandi en kærandi hafi sýnt þess merki að hann væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu vegna andlegrar heilsu sinnar. Jafnframt byggði kærandi á því að Útlendingastofnun hefði ekki tekið afstöðu til þeirrar málsástæðu hans að hann óttaðist fordóma í Hollandi gagnvart múslimum. Hins vegar er hvergi í stefnu minnst á það að kærandi sé tvíkynhneigður og þar af leiðandi í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. ákvæði 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Er það mat kærunefndar með vísan til alls framangreinds og gagna málsins að kærandi hafi ekki rennt stoðum undir þann málatilbúnað sinn um að vera tvíkynhneigður og eigi af þeim sökum hættu á ofsóknir í heimaríki sínu. Að mati kærunefndar er frásögn hans hvað tvíkynhneigð varðar ótrúverðug og verður ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins.

Kærandi lagði fram ljósmyndir af skjali sem að ber með sér að vera afrit af dómi frá Egyptalandi sem hann kvað vera byggðan á fölskum forsendum. Aðspurður hjá Útlendingastofnun um efni dómsins og frekari upplýsingar vissi hann lítið um og virtist ekki hafa kynnt sér skjalið áður en hann lagði það fram, að öðru leyti en því að hann taldi að dómsmálið hafi verið að undirlagi Wilayat Sinai samtakana sem partur af ofsóknum þeirra gegn honum. Um er að ræða afrit þannig að ekki er hægt að sannreyna lögmæti skjalsins og því hafa upplýsingar í því takmarkað sönnunargildi í málinu. Þá hefur kærandi ekki lagt fram haldbær gögn sem renna stoðum undir þá frásögn kæranda að Wilayat Sinai samtökin hafi ofsótt kæranda í heimaríki hans. Þá er það mat kærunefndar að þau gögn sem kærandi lagði fram og telur styðja frásögn sína um búsetu í borginni Arish, þ.e. ljósmyndir af rafmagnsreikningi, dags. 9. janúar 2018, og leigusamningi, dags. 10. janúar 2001, séu ekki til þess fallin renna ekki stoðum undir búsetu hans þar í borg á tímabilinu 2005 til 2018 þar sem um ljósmyndir er að ræða og því ekki hægt að sannreyna gildi þeirra. Önnur gögn sem kærandi lagði fram, svo sem ljósmynd af skilnaðarvottorði og sakarvottorð, bera með sér að hann hafi verið búsettur í borginni Al Santah í Egyptalandi og jafnframt lagði kærandi fram afrit af fæðingarvottorði sínu sem útgefið er af Ghariba Model Centre í Al-Santah borg hinn 25. mars 2017. Kærandi hefur þrátt fyrir áskorun þar um ekki lagt fram frekari gögn um búsetu í borginni Arish. Með hliðsjón af framangreindu verður því hvorki lagt til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi hafi verið búsettur í Arish borg á tímabilinu 2005 til 2018 né að kærandi hafi verið ofsóttur þar í borg af Wilayat Sinai samtökunum. Þá benda gögn um heimaríki kæranda til þess að yfirvöld í heimaríki hans hafi barist ötullega gegn uppgangi og starfsemi slíkra öfgasamtaka í landinu og því ljóst að kærandi geti leitað aðstoðar yfirvalda verði hann fyrir hótunum eða öðru áreiti af hálfu slíkra samtaka í heimaríki sínu.

Þá telur kærunefnd ljóst að ekkert annað í gögnum málsins bendi til þess að kærandi eigi hættu á ofsóknir í heimaríki af öðrum ástæðum en hann hefur greint frá.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Kærunefnd hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði lögð til grundvallar frásögn kæranda um að hann sé í hættu í heimaríki vegna kynhneigðar sinnar. Verður því ekki talið að ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki af þeim sökum. Þrátt fyrir ólgu í Egyptalandi síðasta áratug er það mat kærunefndar að aðstæður í ríkinu séu ekki slíkar að kærandi eigi á hættu meðferð sem fari í bága við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.

Kærandi kvaðst hafa unnið í hernum í Egyptalandi í 26 ár og væri nú hættur störfum. Samkvæmt upplýsingum um heimaríki kæranda eiga fyrrverandi hermenn rétt á eftirlaunum frá ríkinu og hafa þau verið hækkuð á síðustu árum í takt við aðrar launahækkanir í landinu. Þá á kærandi ættingja í heimaríki m.a. þrjú börn þar af tvær uppkomnar dætur. Með vísan til fyrri umfjöllunar um aðstæður kæranda og mats á trúverðugleika hans er það niðurstaða kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að félagslegar aðstæður sem bíða kæranda í heimaríki nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um.

Af frásögn kæranda og gögnum málsins verður ekki annað séð en að kærandi sé við ágæta líkamlega og andlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. 

Dvalarleyfi á grundvelli skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Í 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 2. mgr. gildi ekki um útlending sem eitt eða fleira af eftirfarandi á við um:

  1. útlendingur hefur framvísað fölsuðum skjölum með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd,
  2. útlendingur hefur dvalist á ókunnum stað í meira en tvær vikur eða hefur yfirgefið landið án leyfis,
  3. útlendingur hefur veitt rangar upplýsingar um fyrri dvöl í ríki sem tekur þátt í Dyflinnarsamstarfinu eða í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns án þess að umsókn hans um alþjóðlega vernd hefði fengið fullnægjandi skoðun,
  4. útlendingur á sjálfur þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér landi þann 31. maí 2019. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi og þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 30. september 2021, eru liðnir 28 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í gögnum endurupptökumáls kæranda, sbr. stjórnsýslumál kærunefndar nr. KNU20060015, kemur fram að flutningur kæranda frá landinu til Hollands hafi verið settur í framkvæmd hjá stoðdeild ríkislögreglustjóra hinn 13. febrúar 2020 og var flutningur hans ráðgerður hinn 17. mars s.á. og hafði kæranda verið tilkynnt um það hinn 10. mars 2021. Þegar stoðdeild hafi haft samband við kæranda hinn 16. mars 2020 hafi hann hvorki svarað símhringingum né skilaboðum eða látið ná í sig og því hafi ekki verið hægt að framkvæma flutninginn. Hinn 18. mars 2020 var kærandi skráður horfinn í kerfum Útlendingastofnunar og ekki skráður aftur með mætingu í nafnakall hjá stofnuninni fyrr en hinn 18. maí 2020. Í úrskurði kærunefndar nr. 247/2020 frá 23. júlí 2020 var kærandi látinn njóta góðs af þeirri óvissu sem hafi skapast þegar aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins höfðu lokað tímabundið fyrir viðtöku einstaklinga á grundvelli samningsins. Var það mat kærunefndar að þar sem óljóst væri hvort næðist að flytja kæranda til Hollands innan þeirra tímamarka sem 2. mgr. 29. gr. reglugerðar um Dyflinnarsamstarfið kveður á um flyttist ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yfir til íslenskra stjórnvalda. Það var hins vegar mat kærunefndar í framangreindum úrskurði að kæranda hafi verið fulljóst að hann hefði átt að mæta í flug þann 17. mars 2020 og að hann hafi ekki mætt í það flug og ekki svarað símtölum og skilaboðum í síma frá lögreglu hinn 16. mars 2020. Að mati kærunefndar átti sú framganga kæranda að láta ekki ná í sig hinn 16. mars 2020 þrátt fyrir að hafa fulla vitneskju um það að búið væri að ákveða flutning hinn 17. mars 2020 þátt í því að umsókn hans um alþjóðlega vernd fór í annan farveg hjá íslenskum stjórnvöldum. Þá hefði kærandi átt að vera meðvitaður um það að áætlanir stjórnvalda um að flytja hann til Hollands væru óbreyttar. Hann sýndi ekki samstarfsvilja við stjórnvöld en eins og áður sagði gaf hann sig ekki fram við Útlendingastofnun fyrr en 18. maí 2020, 13 dögum áður en málsmeðferðartími hefði náð 12 mánuðum, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar hefur kærandi með framangreindri háttsemi sjálfur átt þátt í því að niðurstaða í máli hans fékkst ekki innan tímamarka, sbr. d-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er ljóst að ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga á ekki við um kæranda, sbr. 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er að finna heimild til að víkja frá ákvæðum 3. mgr. 74. gr. þegar sérstaklega stendur á. Er það mat kærunefndar að aðstæður í máli kæranda séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að víkja frá ákvæðum 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði d-liðar 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verður honum ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laganna. 

 

 

Krafa kæranda um ógildingu á ákvörðun Útlendingastofnunar

Að lokum er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka mál kæranda til meðferðar á ný. Byggir kærandi framangreinda kröfu á því að ýmsir annmarkar hafi verið á meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun, einkum trúverðugleikamati stofnunarinnar. Kærandi gerir athugasemdir við trúverðugleikamat stofnunarinnar á frásögn hans um að hafa búið í Arish borg, frásögn hans um kynhneigð og það mat stofnunarinnar að hann hafi ekki leitt líkur að því að lífstíðardómur sem hann hafi ranglega hlotið í heimaríki sé ekki að undirlagi Wilayat Sinai samtakanna. Þá gerir kærandi athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi ekki talið skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga.

Kærunefnd hefur farið yfir málsmeðferð Útlendingastofnunar og gögn málsins og komist að sömu niðurstöðu og stofnunin. Þá telur kærunefnd líkt og að framan greinir að kærandi uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Að framangreindu virtu er mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 25. maí 2019 og sótti um alþjóðlega vernd 31. maí 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kærenda vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

 

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum